Þjóðviljinn - 25.01.1987, Blaðsíða 12

Þjóðviljinn - 25.01.1987, Blaðsíða 12
Þannig sér yfirmaður bandaríska hersins á Keflavíkurflugvelli land okk- ar. Boðskapur myndmáls Erlendur vinur minn sem bú- settur er hér á landi, sýndi mér um daginn jólakort sem hann hafði fengið frá yfirmanni banda- ríska hersins á íslandi. Kortið fannst honum ekki bara ósmekk- legt, heldur beinlínis óvirðing við ísland og íslensku þjóðina. Þó var textinn ekkert annað en jól- akveðja og ósk um farsæld á nýju ári. Það var með öðrum orðum ekki boðskapur textans sem fór í taugarnr á vini mínum, heldur boðskapur myndarinnar á kort- inu. Og það leiðir hugann að mik- ilsverðu atriði í lífi okkar nú á dögum myndarinnar. Myndin geymir líka eins konar texta. Sá texti er ekki skráður með bók- stöfum og aldrei mæltur fram, en talar samt til okkar á orðlausu máli, oft án þess að við gerum okkur raunverulega grein fyrir því, af því að við höfum ekki hugsað um það. Það er forn að- ferð að fela vitneskju og boðskap í táknrænum myndum. Þessi að- ferð lifir enn, og er til dæmis einkar skýr í sumum auglýsing- um. Þennan myndboðskap verð- um við að læra að líta jafn gagnrýnum augum og venjulegt lesmál, og átta okkur um leið á því að hann getur afhjúpað duld- ar hneigðir sendandans, oft þvert á vilja hans sjálfs. Boðskapur jólakorts Á jólakorti hermannsins er ör- smá mynd af íslandi líkt og horft sé á það úr mikilli hæð. Þetta er stundum kallað sjónhæð arnarins sem lítur allt smáum augum sem hann flýgur yfir. Ekki svo fráleitt þegar haft er í huga skjaldar- merki verndara vors í haukfránum augum hans er land vort að sönnu harla lítið og trú- lega að sama skapa ómerkilegt. Mig minnir að því hafi einhvern tíma verið líkt við flugvéla- móðurskip, að vísu ósökkvandi. Yfir þessu litla landi gnæfa tveir krosslagðir þjóðfánar. Ég er von- andi ekki einn um að hafa haldið að hér væri í gildi einn þjóðfáni, okkar eiginn. En í huga þess er kortið hefur látið hanna fyrir sig, eru þeir greinilega tveir. Það hlýtur að segja sína sögu um af- stöðu sendandans til hins litla lands. Ekki er svo að sjá að þetta litla land sé eign einnar þjóðar, heldur tveggja. Er það kannski svo í raun? Er sendandi jólak- ortsins kannski bara að birta okk- ur staðreynd sem við áttum öll að vita, þótt við höfum þverskallast við að viðurkenna hana fyrir sjálfum okkur, sum hver? Yfir ís- landi, rétt ofan við skurðarpunkt fánastanganna tveggja, blasir svo við kringlótt merki, næstum eins stórt og landið sjálft, skínandi fagurt og í sömu miklu hæð og horfandinn fráni sem lítur niður á landið. Það er merki Nato sem skín yfir landi voru líkt og sjálf lífgefandi sólin. Það er tákn sem sendandinn lítur sannarlega ekki smáum augum. Og yfir sólinni miklu og björtu eru svo tveir let- urborðar, sem birta jólakveðjuna á tveimur tungumálum auðvitað, enda í samræmi við annað. ís- lenskan að vísu ofar, en það er jafnað með því að enski textinn er með hástöfum og skráður stærra letri. Svona les ég boðskap þessa jólakorts, og hefur mér sjaldan fundist ég sjá fulltrúa verndara vorra birta hug sinn til lands og þjóðar með svo ótvíræðum hætti, þótt myndmál sé notað í stað orða. Ég læt lesendum eftir að dæma um þau ummæli hins er- lenda vinar míns að með þessu Tækniveröld áokkar valdi. Óhugnan- leg framtíðarsýn. korti sé verið að sýna okkur lítils- virðingu. Eða er kannski einfald- lega verið að sýna okkur í spegil staðreyndanna? Tœkniveröld á okkar valdi í Morgunblaðinu 9. maí 1985 birtist heilsíðuauglýsing frá öflugu fyrirtæki á sviði skrifstofu- og tölvutækni. Tilefnið var opn- un nýrrar verslunar. Ég klippti auglýsinguna úr blaðinu, af því að hún vakti sérstaka athygli mína. Mér fannst hún óvenju- skýrt dæmi um dulinn boðskap myndmáls sem væri í rauninni í beinni andstöðu við textann sem fylgdi myndinni, og þar af leiðandi ekki í samræmi við þá hugmynd sem ég tel að fyrirtækið hafi ætlað að vekja hjá lesendum blaðsins. Hið hróplega ósam- ræmi milli myndar og texta held ég að verði að skrifa á reikning auglýsingastofunnar. Fyrir þessu fyrirtæki vakti án 12 SÍÐA - ÞJÓÐVILJINN efa að skapa traust á tækninýj- ungum á sviði tölvutækninnar. í samræmi við það var aðalboð- skapur textans: „Tækniveröld á okkar valdi“, og í lokin segjast aðstandendur fyrirtækisins byggja á áratugareynslu „og fylgjum þér farsællega inn í fram- tíðina.“ En hvað segir myndin sem fyllir um tvo þriðju auglýsingasíðunnar? Ofan á Esjunni eru risin geysi- leg húsabákn sem helst minna á miðhluta erlendra stórborga á borð við New York, Chicago eða Toronto. Nema hlutföllin eru slík að stærsta húsið er næstum helm- ingi hærra en fjallið sjálft. Ekkert lífsmark er sjáanlegt í þessari óhugnanlegu steinborg. Hún hvílir á Esjunni (og þar með ís- lenskri náttúru) eins og farg, og mér koma ósjálfrátt í hug ljóðlín- ur úr Áföngum Jóns Helgasonar: „Býsn eru meðan brothætt jörð / brestur ekki undan fargi...“ Skörp skil koma fram milli nátt- úrunnar og hinnar manngerðu borgar framtíðarinnar. Það minnir á að maðurinn er lifandi hluti af lifandi náttúru. Ef hann tekur sig út úr lífkeðjunni og byggir í kringum sig dauða nátt- úru, sem beinlínis fergir hina lif- andi, þá getur það ekki leitt til annars en tortímingar og dauða. Framan við borgina, á fjallsbrún er þokuslæðingur sem byrgir sýn að undirstöðum þessa framtíðar- bákns, og fremst á brúninni er umferðarskilti, viðvörun, stöðv- unarskylda, stopp. Það má skilja á tvo vegu. Ánnars vegar að óhindraður aðgangur sé ekki leyfður, hins vegar að hætta sé á ferðum, inn í þessa borg skuli enginn fara nema með fyllstu gát. Frá þessari framtíðarborg koma 15 menn á eins konar odda- flugi yfir sundin blá og stefna beint á þann er myndina skoðar, beint á samtíð lesandans. Þeir eru væntanlega tæknimennirnir sem eiga að brúa bilið milli samtíðar og framtíðar, sem ekki er óráðin, heldur fyrirfram vituð. Hvernig eru þessir menn? Þeir eru allir eins. Allir nákvæmlega eins, troða hermannlegan takt á fluginu, allir nákvæmlega sam- stiga og sveifla í hægri hendi sinni svörtu stresstösku, sem geymir hvað? Þeir eru klæddir fábrotn- um einkennisbúningi án nokk- urra persónueinkenna og alger- lega svipbrigðalausir, sviptir sér- hverjum votti af mannlegri til- finningu. Þeir mynda réttan þrí- hyrning sem snýr oddi sínum beint að lesandanum, ógnandi, oddhvöss sending tilfinninga- lausra vélmenna ómennskrar framtíðar sem leiðir hugsun mína til hinnar óhugnanlegu framtíð- arsýnar í skáldsögunni miklu „Brave New World“ eftir Aldous Huxley. Og það held ég að hafi hreint ekki verið ætlun fyrirtækis- ins sem auglýsinguna birti. Þessi mynd sýnir nefnilega ekki „tækniveröld á okkar valdi“. Þvert á móti sýnir hún tækniver- öld sem hefur tekið öll völd af mannlegu lífi. Þar með hef ég rakið tvö dæmi um boðskap myndmáls. Ég vil hvetja lesendur þessa pistils til þess að hafa augun opin fyrir þessu fyrirbæri sem blasir stöðugt við okkur á dögum myndarinnar. Það skiptir miklu að virða það fyrir sér opnum huga. Njörður P. Njarðvík Fóstrur óskast Starfsfólk leikskólans Brákarborgar við Brákar- sund óskar eftir áhugasömum fóstrum eða fólki með aðra sambærilega uppeldismenntun til starfa strax eða eftir samkomulagi, við að endur- skipuleggja og byggja upp innra starf leikskólans í nýuppgerðum húsakynnum. Upplýsingar gefur Fanny Jónsdóttir umsjónar- fóstra í síma 27277. Áhugavert starf Svæðisstjórn Reykjanessvæðis málefnafatlaðra vill ráða fólk til að aðstoða fötluð börn og unglinga og fjölskyldur þeirra 1-5 sólarhringa á mánuði eða eftir samkomulagi. Starfið er krefjandi en áhugavert og gefandi. Mikilvægt er að umsækjendur hafi áhuga og ein- hverja þekkingu á málefnum fatlaðra. Nánari upplýsingar eru gefnar á skrifstofu Svæð- isstjórnar Reykjanessvæðis í síma 651692 og 651056. Umsóknarfrestur er til 10. febrúar 1987. SVÆÐISSTJÓRN MÁLEFNA FATLAÐRA REYKJANESSVÆÐI

x

Þjóðviljinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Þjóðviljinn
https://timarit.is/publication/257

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.