Þjóðviljinn - 07.02.1988, Blaðsíða 15

Þjóðviljinn - 07.02.1988, Blaðsíða 15
ÁSTARÆVINTÝRI Heinrich Heine og GeorgeSand George Sand fæddist árið 1804 og hét Aurora Dupin að skírnarnafni. Hún rakti ætt sína til Ágústs sterka, kjörfursta af Saxlandi, hins sögu- fræga kvennamanns og barnakarls, er kom víða við um ævina, og hafa víst flestir gefizt upp við að koma tölu á hina fjölskrúðugu hjörð af- kvæma hans. Aurora Dupin var ung gefin frönskum gósseiganda, Dude- vant að nafni, en hjónabandið varð ekki farsælt og skildu þau að loknu skilnaðarmáli, sem tók í hæstu hnjúka stórborgarslúðursins í París og þótt eitt lostætasta hneykslismál samtíðarinnar. í hjónabandinu átti hún tvö börn. Hún hafði þá þegar tekið sér elskhuga, Sandeau að nafni. Þegar hún hljóp frá þessum ástmanni sínum hnuplaði hún fyrra atkvæðinu af nafni hans og kallaði sig jafnan George Sand. Með því nafni situr hún á skáldabekk Frakk- lands. George Sand var mjög ásthneigð og ástrík kona, en óhamingja hennar var sú, að hún var femina frigida, ævi hennar linnulaus leit að hinum rétta manni, er fullnægði eðli hennar og ástarkröfum. Hún fann aldrei mann- inn. En auðvitað urðu margir á vegi hennar. Flestir frægustu listamenn Parísar, innlendir og erlendir, urðu ástmenn hennar, lengur eða skemur, Alfred de Musset, Franz Liszt, Fré- déric Chopin, auk fjölda annarra smærri spámanna, sem löngu væru huslaðir gleymsku ef ekki væri fyrir það, að þeir dældu sæng með hinni fjöllyndu skáldkonu. Fundum þeirra Heines og George Sand bar fyrst saman árið 1833, tveimur árum eftir að Heine er setztur að í París, og mun skáldkon- an hafa átt frumkvæðið að því að kynnast honum. Varð brátt með þeim mikil og innileg vinátta, þótt ekki tækjust þá með þeim holdlegar ástir. George Sand var um þetta leyti ástmær Alfred de Musset og fór með honum í Feneyjaförina, er olli báð- um harmi og vonbrigðum. Þegar hún kom aftur heim til Parísar úr þeirri för, í ágúst 1834, var hún svo rugiuð á sjálfri sér, að hún leitaði frétta um það hjá Heine, hvað ástin væri. Hún skrifar í einkadagbók sína, Journal intime, 28. nóv. 1834: „Heine sagði mér, að maður elski aðeins með höfði og skynfærunum, en í ástinni skipti hjartað litlu máli.“ Um þetta leyti mun Heine hafa skrifað lýsingu þá af George Sand, sem að framan var vitnað í, lýsingu, sem jafnt ber vitni hinu skyggna skáldi og blindum augum hins ástfangna manns. Af bréfi sem Heine skrifar George Sand 8. janúar 1835 má nokkuð ráða hina tak- markalausu hrifningu hans af hinni „guðdómlegu" konu, en í sama mund trúir hann henni fyrir því, að hann sé staddur í mikilli persónulegri ófæru. (Heinrich Heine: Briefe, Zweiter Band, bls. 68.) Heine á hér við ástamál sín og hinnar ungu, fögru búðarstúlku, Crescence Mirat, er hann sjálfur kallaði Mathilde og síð- ar varð eiginkona hans. Mathilde var með öllu ómenntuð, hvorki læs né skrifandi, óstjórnleg óhemja þegar því var að skipta, en Heine var um stund bergnuminn af líkamlegum þokka hennar. Hvað eftir annað reyndi hann að losa sig við hana, en þótt hann flýði París og dveldist langdvölum fjarri Mathilde, hvarf hann jafnan til hennar aftur. Ástir hans og Mathilde urðu Heine yrkis- efni, er hann orti Tannháuserljóðið (1836), um hinn göfuga riddara, er dvaldist sjö ár í Venusarfjallinu. Heine átti vingott við fjölda kvenna meðan á þessum ástamálum hans og Mathilde stóð, hann virðist hafa reynt að gleyma hinni freku, en fögru búðarstúlku í faðmi annarra kvenna, en allt kom fyrir ekki. Mat- hilde varð hlutskörpust, og loks dróst hann á að leiða hana upp að altarinu árið 1841, og hafði þá Mat- hilde litla fengið þann sigur, sem var eina lífshugsjón hinnar smáborgara- legu sálar: að verða heiðarleg eigin- kona í kirkjulegu hjónabandi. Þegar hér var komið sögu var það meira af skyldurækni en löngun, að Heine kvæntist Mathilde, hann var fyrir löngu orðinn þreyttur á henni og í bréfum til vina sinna kaliaði hann hana „húskross sinn“ og „sína svörtu sorg“. Af þeim konum, sem Heine leitaði huggunar hjá og flýði til undan áieitni Mathilde, var George Sand sú eina, er hefði getað afstýrt hjóna- bandi hans. Pótt bréf hans til George Sand séu mörkuð nokkurri hlé- drægni leynir hann ekki örvilnun sinni fyrir henni og kallar sig „van- sælastan allra guða, er uppi hafa ver- ið“. (Heinrich Heine: Briefe, Zweiter Band, bls. 119.) En hin marglynda skáldkona, sem sagði það um sjálfa sig, að hún elskaði fyrst og fremst „þá hugmynd, er hún gerði sér um ástina", leitaði þrotlaust en árangurslaust að þeim manni, er væri holdtekja þessarar hugmyndar. Um það leyti er ástir tókust með Heine og henni átti George Sand fjóra elsk- huga aðra: Michel de Bourges, þing- mann, Franz Liszt, tónskáld, Boc- age, leikara og Charles Didier, rit- höfund frá Genf. Eftir „drauminn" í dyngju George Sand á sveitasetri hennar í Nohant vaknaði Heine til þess veruleika, að George Sand hafði nú fundið nýjan mann, er skyldi verða áþreifanleg ástarhug- sjón hennar - píanósnillinginn Chopin. Fiðluleikarinn og flautuspil- arinn í laufskáldadraumi Heines eru þeir Franz Liszt og Chopin. Því fór fjarri, að Heine gæfist strax upp í baráttunni um hið víðfeðma hjarta George Sand. Árið 1837 hitt- ust þau á degi hverjum. Hann reyndi að koma henni í skilning um töfra skáldskapar síns, þótt ekki kynni hún þýzku og yrði að lesa ljóð hans í misheppnuðum þýðingum, og hann gaf henni frumhandritið að ljóða- flokki sínum „Nordseebilder“, sem sumir telja perluna í ljóðagerð hans. Það verður að teljast æði leiðinlegur blettur á hinni „guðdómlegu" skáld- konu Frakklands, að á síðustu ó- skrifuðu blaðsíðunni í handriti Heines hefur hún fært heimilisút- gjöld sín: „Vínber 35 frankar, póstur 11 frankar, trésmiður 12, málari 9.“ Sumarið 1838 ætlaði George Sand að draga Chopin út úr Parísarsollin- um og afstýra því, að hinir fisknu kvenlegu keppinautar höfuðborgar- innar fengju náð hinum pólska tónsnillingi í net sín. Hún vildi eiga hann ein. Ætlun hennar var að hverfa með Chopin og börnum sín- um báðum til eyjarinnar Majorka. Heine var staddur á baðstaðnum Granville, er hann frétti af þessari ráðagerð. Hann skrifaði henni þá bréf, einlægasta og fegursta ástar- bréfið, sem til er í bréfasafni hans. Það var síðasta tilraunin af hans hálfu til að vinna ástir hennar, og fer það hér á eftir í íslenzkri þýðingu: Mín fegursta og bezta frænka!1* Ég gæti ekki sagt frá því með orð- um, hve hryggur ég var, er ég sá yður ekki í París. Kvöldið fyrir brottför mína færði Chopin mér hið ástúðlega bréfkorn yðar og ég þakka yður fyrir vináttuna sem þér sýnið mér. Þúsund þakkir! Ég hef óskað þess að sjá yður. Geislar augna yðar hefðu gert mér gott. Hljómurinn í rödd yðar hefði komið mér vei. Ég er mjög hryggur. Þér þekkið ekki vansælu mína alla. Þessa stundina er ég sleginn líkamlegri blindu, sem er eins ill og hin siðferðilega blindni, sem ég hef búið við síðustu fjögur árin og þér þekkið. Þér hræðið mig með þeirri fullyrð- ingu, að þér munið bráðlega fara úr landi. Ég vona að ég muni sjá yður enn í París í október. Ef þér getið gefið mér þessa von, skrifið mér þá fvær línur, til Henri Heine, í Gran- ville, Departement de la Manche. Ég elska yður heitt, af öllu hjarta, með öllum taugum hjarta míns. Ef þér eruð frjáls þá njótið þessa frelsis. Ég er enn bundinn hræðilegum járnhlekkjum, og af því að ég er hlekkjaður á kvöldin með sérstakri vandvirkni, tókst mér ekki að sjá yður í París. En þegar ég hef komizt yfir þessa tíð, mun ég koma og sækja yður, þótt það verði á enda verald- ar... að því tilskildu, að menn hafi ekki tekið yður að nýju til fanga og sett yður aftur í fangelsi, minn fagri bandingi, sem frelsaður var úr fang- elsi ástarinnar. Adieu. Njótið þér frelsis yðar. Grátið aldrei, tárin skemma sjónina. Hvað þér hafið fögur augu! Hafið ekki áhyggjur af framtíðinni, það veldur gráum hárum. Og hár yðar er það fegursta, sem ég hef séð. Henri Heine. Hafi Heine gert sér vonir um að vinna ástir skáldkonunnar og sigra Chopin keppinaut sinn, þá brugðust þær nú með öllu. George Sand héldu engin bönd. En Majorkaförin með Chopin fór á sömu lund og Feneyja- förin forðum með Alfred de Musset: vonbrigði beggja og kólnandi ást. Hið eirðarlausa hjarta þessarar konu, sem lifði og hrærðist í ástinni, en fékk aldrei notið hennar, fann ekki frið hjá Chopin. Margt bendir til þess, að George Sand hafi reynt á næstu árum að taka upp lykkjufallið f ástarsamskiptum sínum og Heine. En nú var það orðið of seint. Lítið ljóð í Neue Gedichtegæti vel tímans og annarra aðstæðna vegna verið ort til hinnar ástsjúku, en ástköldu skáldkonu: Es kommt zu spát, was du mir láchelst, VPas du mir seufzest, kommt zu spát! Lángst sind gestorgen die Gefuhle, Die du so grausam einst verschmaht. Zu spát kommt deine Gegenliebe, Es fallen auf mein Herz herab All deine heissen Liebesblicke, Wie Sonnenstrahlen auf ein Grab. Árið 1847 hittust þau Heine og George Sand í síðasta sinn og rædd- ust við á landsetri hennar í Nohant. Sviðið var hið sama og í draumnum forðum. Skáldkonan reyndi á nýjan leik að vekja fomar ástríður í hinu þýzka skáldi, sem nú var orðinn hel- sjúkur maður og gekk af fundi henn- ar til „grafarhvílu" þeirrar, er hann fékk ekki stigið upp úr fyrr en dauðinn bjó honum aðra gröf. Minn- inguna um þennan fund hefur Heine varðveitt í kvæðinu Wiedersehen, sem síðar birtist í kvæðabókinni Romanzero. Þetta kvæði voru hin köldu kveðjuorð Heines til þeirrar konu, sem hann hafði unnað heitar en flestum konum öðrum: ri„Frændi'‘ og „frænka" voru ávarpsorð Heines og George Sand í bréfum sfnum. Die Geissblattlaube - Ein Sommerabend - Wir sassen wieder wie ehmals am Fenster - Der Mond ging auf, belebend und labend - Wir aber waren wie zwei Gespenster. Zwölf Jahre schwanden, seitdem wir beisammen Zum letzten Male hier gesessen; Die zártlichen Gluten, die grossen Flammen, Sie waren erloschen unferdessen. Einsilbig sass ich. Die Pludertasche, Das Weib hingegen schurte bestándig Herum in der alten Liebesasche. Jedoch kein Funkchen ward wieder lebendig. Und sie erzáhlte: wie sie die bösen Gedanken bekámpft, eine lange Geschichte, Wie wackelig schon ihre Tugend gewesen - Ich machte dazu ein dummes Gesichte. Als ich nach Hause ritt, da liefen Die Báume vorbei in der Mondenhelle, Wie Geister. Wehmútige Stimmen riefen - Doch ich und die Toten, wir ritten schnelle. Afnueliskveðja til Ragnars Jónssonar, 1954. Sunnudagur 7. febrúar 1988 ÞJÓÐVILJINN - SlÐA 15

x

Þjóðviljinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Þjóðviljinn
https://timarit.is/publication/257

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.