Þjóðviljinn - 22.10.1988, Blaðsíða 9

Þjóðviljinn - 22.10.1988, Blaðsíða 9
MINNING Játvarður Jökull Júlíusson N Fœdduró. nóv. 1914. Dáinnl5. okt. 1988 Allt líf á sitt endadægur, líka þaö sem kraftaverk náttúrunnar hefur gætt skærustum loga. Laugardaginn 15. október and- aöist á Dvalarheimilinu Barma- hlíð á Reykhólum Játvarður Jökull Júlíusson, rithöfundur, áður bóndi á Miðjanesi í Reykhólasveit, tæplega sjötíu og fjögra ára að aldri. Útför hans verður gerð í dag frá Reykhóla- kirkju. í um það bil 30 ár hafði Ját- varður verið öryrki vegna löm- unar og visnunar útlima, fyrst handleggja en síðan einnig gang- Iima. Sem lamamaður vann hann það afrek sem einstakt má kalla að sinna margvíslegum ritstörf- um með slíkum hætti að sérhver fullhraustur maður gæti verið stoltur af. Auk mikils fjölda greina í blöðum og tímaritum liggja eftir Játvarð þrjár ágætar bækur, sem allar hafa komið út á síðustu tíu árum. Þær eru: Um- leikinn ölduföldum, ágrip ættar- sagna Hergilseyinga; Sagan af Sigríði stórráðu og loks Saga Torfa Bjarnasonar og Ólafsdals- skóla og nemendatal Ólafsdals- skóla 1880 til 1907. Einnig hefur Játvarður ritstýrt Markaskrá Austur-Barðastrandarsýslu og setið í ritnefnd Árbókar Barða- strandarsýslu. Við öll þessi ritstörf gat Ját- varður ekki neytt handa sinna og varð því að finna önnur úrræði. Hann brá á það ráð að stinga hag- lega gerðu priki í munn sér og nota síðan höfuðið til að skrifa með tréstaut þessum á ritvél og nú síðustu árin á tölvu. Fáir munu leika þetta eftir enda þarf til slíkra afreka meiri hugarorku og andans auð en okkur flestum eru gefin. Á ritvellinum var Játvarð- ur Jökull enginn meðalskussi. Þessi lamaði bóndamaður hafði hárnæma tilfinningu fyrir máli og stfl, dómgreind hans var nær óbrigðul og sjónin skörp á þau viðfangsefni, sem hugur hans beindist að. í margbreytilegum trúar- brögðum heimsins koma helgir menn allvíða við sögu. Ýmsir, sem kynni höfðu af Játvarði, hóg- værum og skeggprúðum lama- manni í hjólastól við tölvu sína, töldu einsýnt að skipa honum á bekk með slíkum dýrlingum, þeim sem niðurlæging holdsins fær ekkert mein gert. Játvarður Jökull var fæddur á Miðjanesi í Reykhólasveit þann 6. nóvember 1914. Foreldrar hans voru Júlíus J. Ólafsson, bú- fræðingur, bóndi og kennari þar, og kona hans Helga Jónsdóttir. Að Játvarði stóðu grónar bænda- ættir við Breiðafjörð. Júlíus faðir hans var í hópi fyrstu nemenda við Ólafsdalsskólann. Afi Ját- varðar, Ólafur Jónsson jarð- yrkjumaður, hélt uppi búnaðar- kennslu úti í Flatey á árunum 1857 til 1859 og kenndi þar m.a. Torfa Bjarnasyni, er síðar stofn- aði skólann í Ólafsdal. Sé litið örlítið Iengra aftur í tímann rifjast upp að hinn mikli búnaðarfrö- muður, séra Guðmundur Einars- son úr Skáleyjum, prestur á Kvennabrekku og Breiðabólstað á Skógarströnd, var langömmu- bróðir Játvarðar. Engan þurfti að undra þótt Játvarður bæri um- hyggju fyrir gróðurmold Breiðafjarðarbyggða og öllu því lífi, sem hún nærir. En hann var líka af sjóhetjum kominn, sjötti maður frá Eggerti Ólafssyni, sem fyrstur byggði í Hergilsey á síðari öldum vorið 1783, og kunnastur er fyrir björgun fjölda mannslífa í Móðuharðindum er hann með snilld nærði hópa vergangsfólks úti í Oddbjarnarskeri. Svo var Eyjólfur eyjajarl reyndar lang- afabróðir Játvarðar. Hlutur kvenna, sem að Játvarði stóðu, var síst minni en karlanna. Auk móður hans skal minnt hér á Sig- ríði stórráðu Maguúsdóttur úr Skáleyjum, ömmusystur Játvarð- ar, og þær mæðgur Guðrúnu Eggertsdóttur elstu úr Hergilsey og Ástríði dóttur hennar í Ská- leyjum, sem var langalangamma Játvarðar. í bókum sínum hefur Játvarður ritað meira eða minna um flest það fólk, er hér hefur verið nefnt á nafn, og víða annars staðar er nokkuð frá því sagt. Játvarður stundaði nám við bændaskólann á Hvanneyri og lauk þaðan prófi árið 1938. Vorið 1939 hóf hann búskap á fæðingar- stað sínum, Miðjanesi í Reykhól- asveit, og hefur jafnan átt þar heima. Hin síðari ár dvaldist hann þó oft á heilsuhælinu að Reykjalundi í Mosfellssveit og naut þar góðrar umönnunar, sem hann kunni vel að meta. Hann þráði þó ætíð að komast vestur í sína kæru Reykhólasveit og þeg- ar Dvalarheimili aldraðra tók til starfa á Reykhólum fyrr á þessu ári varð Játvarður fyrsti vistmað- urinn þar. í Barmahlíð var Ját- varður virtur sem heiðursfélagi þessa síðustu mánuði ævinnar. Játvarður Jökull settist ekki einn að búi á Miðjanesi vorið 1939. Við hlið hans stóð þá og ætíð síðan kona hans, Rósa Hjörleifsdóttir, komin um langan veg austan úr Öræfum til að upp- fylla jörðina á nýjum stað. Hún lifir nú mann sinn. Þeim Játvarði og Rósu varð sjö barna auðið en eitt þeirra misstu þau á barns- aldri. Eftir lifa dæturnar Helga, Halldóra, Þórunn og María og synirnir tveir Ámundi Jökull og Jón Atli. - Halldóra Játvarðs- dóttir býr nú á Miðjanesi ásamt manni sínum Vilhjálmi Sigurðs- syni. í tæpa tvo áratugi auðnaðist Játvarði að ganga heill og hraust- ur til verka á búi sínu en árið 1957 fór lömunin að gera vart við sig og ári síðar var hann orðinn ör- yrki. Ungur hóf Játvarður þátttöku í félagsmálum og var snemma kall- aður til trúnaðarstarfa á þeim vettvangi. Hann var kjörinn í hreppsnefnd Reykhólahrepps árið 1946 og átti þar sæti til 1962, oddviti hreppsnefndar frá 1954. Formaður Búnaðarfélags Reyk- hólahrepps var Játvarður í sex ár, 1961 til 1967, og gegndi auk þess mörgum fleiri trúnaðarstörfum fyrir búnaðarsamtök og heima- hérað. Tvisvar var hann í fram- boði við alþingiskosningar, 1946 og 1949, í bæði skiptin í Dalasýslu fyrir Sameiningarflokk alþýðu - Sósíalistaflokkinn, sem hér starf- aði á árunum 1938 til 1968. Lið- smannasveit þess flokks var reyndar harla fámenn í Dölum á þessum árum og fékk Játvarður 25 atkvæði í fyrri kosningunum en 14 íþeim síðari. Ekki munu nú atkvæðin ellefu hafa tapast haust- ið 1949 vegna þess að Dalamönn- um litist illa á Játvarð heldur var skýringin sú að mjög var talið mjótt á munum milli Þorsteins Þorsteinssonar sýslumanns, sem verið hafði þingmaður Dala- manna fyrir Sjálfstæðisflokkinn um skeið, og nýs frambjóðanda Framsóknarflokksins, Ásgeirs bónda Bjarnasonar í Ásgarði. í þessum kosningum felldi Ásgeir Þorstein sýslumann og var mun- urinn á atkvæðatölum þeirra nák- væmlega ellefu atkvæði eða sama tala og Játvarður tapaði. Ýmsir Dalamenn vildu þá meina að Já- tvarður hefði lánað Ásgeiri þessa ellefu kjósendur. Ekki má taka slíkt bókstaflega en svo mikið er þó víst að æ síðan var jafnan góð- ur kunningsskapur með þeim Já- tvarði og Ásgeiri. Frá æskuárum til ellidaga hafði Játvarður brennandi áhuga á þjóðmálum og skipaði sér ungur í raðir þeirra sem með skjótvirk- um hætti huguðust byggja upp þjóðfélag jafnaðar og réttlætis. Þungur kross líkamlegrar fötl- unar náði aldrei að slæva þá heitu kviku, sem gerði þátttöku í þjóðmálabaráttu sjálfsagða í hans augum. í þeim efnum hafði reynslan þó verið honum harður skóli eins og mörgum öðrum. Á síðari árum var byggðaeyðingin og yfirvofandi fall þjóðríkis á ís- landi þyngsta áhyggjuefni Ját- varðar. Öll hans skrif báru þess merki. Alveg sérstaklega bar hann fyrir brjósti heill byggðanna við Breiðafjörð og sofnaði aldrei á þeim verði. Hann vissi mætavel að flestir straumar þjóðlífsins nú um stundir voru andstæðir hans eigin lífsviðhorfi en það hvarflaði þó aldrei að honum að leggja árar í bát eða láta svarta skugga byrgja sitt vonarljós. Hófleg bjartsýni var honum í blóð borin. Játvarð- ur Jökull var enginn eintrjáning- ur, fjarri fór því. Þvert á móti var viðhorf hans jafnan íhugandi og hugurinn opinn fyrir endurmati og nýjum rökum. Þó að tilfinn- ingarnar væru heitar átti hann þá dómgreind, sem kennir mönnum að oft má leita lags og finna færar leiðir þar sem flest sund sýnast lokuð í fyrstu. Væri tilfinningu hans fyrir þjóðlegri sæmd og mannlegu réttlæti hins vegar mis- boðið hikaði hann ekki við að ganga fram á vígvöllinn, aleinn ef ekki voru aðrir til fylgdar. Sá sem hér klórar orð á blað náði ekki að kynnast Játvarði meðan hann var enn heill heilsu. Ég hef hins vegar notið þeirra forréttinda að eiga við hann dá- lítinn kunningskap nú hátt í 30 ár. Upp á síðkastið hafa samskipti okkar einkum snúist um eitt sam- eiginlegt verkefni, vinnu að rit- verki, sem í smíðum er og sumir kalla Byggðasögu Vestfjarða. Já- tvarður hafði að mestu lokið við þátt um Reykhólasveit, sem ætl- aður er til birtingar í riti þessu. Fyrir rösklega tveimur mánuðum tókst hann á hendur fyrir mín orð að gera Gufudalssveit svipuð skil. Ef til vill hefur sú kvöð,sem þar var á hann lögð, stytt ævidag- ana því hann vildi jafnan kosta sér öllum til við þau verkefni, er hann hafði tekist á hendur að annast. Um slíkt tjáir ekki að sak- ast því síðvakin iðrun færir okkur ekki aftur það líf, sem horfið er. Játvarður Jökull var mikill iðju- maður. Honum var kært að sýsla við fróðleik um land og líf Breiðafjarðarbyggða og spurnir hef ég af því að síðustu stundum lífs síns hafi hann varið til að gera öðrum aðgengilegt það efni um Reykhóla- og/eða Gufudalssveit, sem hálfunnið var í tölvunni. Þá vissi þessi aldni snillingur að dauðinn fór að. Nú er ekki annað að gera en kveðja og þakka fyrir sig. Von mín er sú að sagan af Játvarði muni lengi lifa, dæmið um mann- inn, sem engar píslir líkamans náðu að smækka, en reis upp í kröm sinni heill til þjóðnýtra verka. Slíkt fordæmi er góður leiðarvísir öllum þeim mörgu, sem eiga erfitt með að halda í vonina um mannkynið í allri þess ráðvillu, niðurlægingu og eymd. Ekkju Játvarðar, börnum þeirra og öðrum nánustu vanda- mönnum, votta ég einlæga samúð nú við fráfall hans. Kjartan Ólafsson íslenskur samtíðarmaður fall- inn. f samnefndu riti segir eftirfar- andi um Játvarð Jökul Júlíusson. Hann er fæddur 6. nóv. 1914 á Miðjanesi, Reykhólahreppi. Foreldrar hans voru Júlíus Jó- hann Ólafsson búfræðingur og bóndi þar og kona hans Helga Jónsdóttir. Búfræðingur frá Hvanneyri 1938. Bóndi á Miðja- nesi frá 1939. f hreppsnefnd Reykhólahrepps 1946-1962, oddviti 1954-1962. í stjórn Rækt- unarsanrbands Geiradals- og Reykhólahrepps eitt kjörtímabil um 1950. f stjórn Búnaðarfélags Reykhólahrepps frá 1961. For- maður undirbúningsstjórnar Mjólkursamlags A-Barð. frá upphafi 1960. í fasteignamats- nefnd Barð. frá 1961. Skráði Markaskrá A-Barð. 1962. Kona 4. jan. 1953 Rósa Halldóra, f. 9. okt. 1920, Hjörleifsdóttir verka- manns í Rvk. Jónssonar. í lok ofanskráðrar frásagnar stendur eftirfarandi örlagadóm- ur: „Hefur þjáðst af lömun í höndum og handleggjum síðan 1957“. Þegar minnst er Játvarðar Jökuls, verður tvennt efst í huga, annars vegar sú hetjulega barátta hans við þann sjúkdóm, er hann kenndi fyrst fyrir um 30 árum, og hins vegar hin miklu fræðistörf. Um þessar mundir hljótum við samferðamenn hans fyrst að hugsa til þess hvernig hann varð- ist til þeirrar stundar er hann stóð í síðasta víginu, eins og hann sjálfur orðaði af sinni alkunnu snilld. Afrek síðustu áratuga, þessa sveitunga okkar, eru slík hetjusaga að nú á tímum alþjóða- keppni íþrótta og andlegs atger- vis, þá vildi ég sjá jafnoka Já- tvarðar, eða mann sem stæði nær gullinu en hann. Þetta er í stuttu máli mat mitt á þessum fallna sveitunga. Því miður fyrnist oft fljótt yfir slóð þeirra sem gengnir eru og afrek þeirra. Þessu verður ekki svo farið með Játvarð. Hann reisti sér annan minnisvarða sem við eigum eftir að veita athygli, er fram líða stundir. Fræðimaðurinn Játvarður Jök- ull er ekki fallinn frá okkur. Þeg- ar líkamsþrekið dvínaði þá óx hið andlega þrek og afköst. Með ótrúlegri tækni náði hann fyllstu tökum á að rita hugsanir sínar og mikinn fróðleik á ritvél, en síðar á tölvu. Með takmarkalausri elju náði hann ótrúlegum afköstum. Hann var óþreytandi að afla sér upplýsinga um nýhorfinn fróð- leik og eldri. Þessi þáttur í lífs- hlaupi Játvarðar verður sá er heldur minningu hans uppi lengur en nokkuð annað. Það er skarð fyrir skildi þegar fræðimað- urinn er hættur að spyrja menn og skrá fróðleik og fréttir af lið- inni tíð. Fréttir sem hin næma til- finning fræðimannsins er ein fær um að varðveita, meta og skrá niður. Upplýsingasvið Játvarðar spannar nokkuð á aðra öld. Hann náði að skrásetja upplýsingar frá fólki er mundi atburði frá miðri síðustu öld. í hreinskilni sagt vildi ég helst segja: Til hamingju, að vera laus frá þessu líkamlega helsi, en ekki síður til hamingju með sigur- gönguna í hinu erfiða lífshlaupi. Aðstandendum votta ég fyllstu samúð. Samferða- og samtíðar- menn láta í ljós söknuð yfir frá- falli Játvarðar og votta honum virðingu og þökk fyrir ómetan- legt ævistarf. Hjörtur Þórarinsson Hann pabbi minn er dáinn! Smám saman er sú staðreynd að verða að veruleika í huga mér að ég á engan pabba lengur, ófædda barnið mitt fær aldrei að kynnast þessum afa. Þegar ég var barn og unglingur hugsaði ég oft um pabba og dauðann. Þegar hann varð sextugur sagði hann í blaðaviðtali eitthvað á þá leið að hann væri tilbúinn til að verða sjötugur. Ég man að þá þótti mér hann ótrúlega bjartsýnn. Lörnun- in var orðin það mikil að honum hrakaði ár frá ári. Hann fyllti næstum 74 ár og hafði þá barist á móti sjúkdómnum í rúm 30 ár. Hreysti er fjarska afstætt hugt- ak. Hann pabbi var mjög hraustur maður þótt hann væri haldinn þessum undarlega sjúk- dómi sem gerði vöðvana smám saman að engu. Honum varð sjaldan misdægurt en lömunin var þarna og við það varð ekki ráðið. Það hlýtur að hafa verið erfitt fyrir foreldra okkar að taka á móti þeim fregnum fyrst að ekk- ert væri hægt að gera við lömun- inni, við systkinin 6 talsins og að- eins tvær elstu systurnar fermdar. Aldrei urðum við vör við neina uppgjöf en við vissurn heldur ekki hvað þau hugsuðu. Æðruleysi lýsir vel því lífsvið- horfi sem pabbi hafði. Hann kunni manna best þá lífslist að sætta sig við það sem hann fékk ekki breytt. Hins vegar var hann einnig óþreytandi við að reyna að hafa áhrif á það sem hægt var að breyta. Ófá mál lét hann til sín taka og skrifaði um í blöð. Sér- staklega var honum umhugað um þau mál sem snertu lífið á lands- byggðinni. Þegar hann hætti að geta stundað störfin sem lutu að búskapnum, sneri hann sér að bóksölu og fræðistörfum auk ým- issa trúnaðarstarfa í héraði sem hann hélt áfram með. í gegnum þessi störf átti hann marga vini og samstarfsaðila sem hann mat mikils. Ekkert af þessum störfum hefði hann getað stundað án að- stöðar mömmu, það má ekki gleymast. Mottó hans var að hopa aldrei lengra en þyrfti hverju sinni. Þannig fann hann stöðugt nýjar vinnuaðferðir sem hann réð við miðað við getu. Hann naut einnig mikillar aðstoðar frá Reykja- lundi, þar dvaldi hann um 2ja mánaða skeið árlega frá 1971 og síðast í IVi ár er hann gat ekki lengur verið heima. Er Dvalar- heimilið Barmahlíð á Reykhól- um tók til starfa í mars sl. fór hann þangað. Þar sá hann einn drauma sinna rætast. Hann vildi vera í sveitinni. Hann vildi ekki að gömlu sveitungarnir þyrftu að fara í burtu og dveljast á fjar- lægum stofnunum eða sjúkrahús- um. Nú þegar hann er horfinn er mér efst í huga þakklæti, næst sorginni sjálfri. Þakklæti fyrir að hafa átt föður sem alltaf hafði tíma til að tala við mig og leiðbeina. Þessa nutu barnabörn- in einnig og þau lærðu margt þeg- ar þau voru að hjálpa afa. Áð lokum vil ég senda þakk- lætiskveðjur mínar til starfsfólks á Reykjalundi og í Barmahlíð. Þar fékk hann aðstoð og umönnun senr hann sjálfur mat mikils. María Játvarðardóttir Laugardagur 22. október 1988 ÞJÓÐVILJINN - SÍÐA 9

x

Þjóðviljinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Þjóðviljinn
https://timarit.is/publication/257

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.