Helgarpósturinn - 19.01.1995, Blaðsíða 8

Helgarpósturinn - 19.01.1995, Blaðsíða 8
8 MORGUNPÓSTURINN SKOÐUN FIMMTUDAGUR 19. JANÚAR 1995 Útgefandi Ritstjórar Fréttastjórar Framkvæmdastjóri Auglýsingastjóri Setning og umbrot Filmuvinnsla og prentun Miöill hf. Páll Magnússon, ábm Gunnar Smári Egilsson Sigurður Már Jónsson Styrmir Guðlaugsson Kristinn Albertsson Örn ísleifsson Morgunpósturinn Prentsmiðjan Oddi hf. Verð í lausasölu kr. 195 á mánudögum og kr. 280 á fimmtudögum. Áskriftarverð er kr. 1.300 á mánuði fyrir tvö blöð í viku. Þeir sem greiða með greiðslukorti fá 100 króna afslátt. Samúð, þökk og virðing Það er tregt tungu að hræra þegar fjórtán manns, þar af átta börn, liggja í valnum eftir hræðilegar náttúruhamfarir í litlu sjávarplássi vestur á fjörðum. Ekkert fær megnað að sefa sorg þeirra, sem misstu ættingja sína og ástvini, og Súðavík verður tæpast söm aftur. Með undarlegum hætti blandast þó sorg- inni gleði yfir því, að þrátt fyrir allt tókst að hrifsa tólf mannslíf úr helgreipum dauðans. Hetjudáð þeirra, sem þar lögðu hönd á plóg, fyrnist ekki - fremur en sorgin. Frammi- staða björgunarmanna við erfiðustu aðstæður var raunar með þeim ólíkindum, að menn setur hljóða í þökk og virð- ingu. Þegar frá líður á samfélagið allt að draga ákveðinn lærdóm af hörmungaratburðum sem þessum. I umfangsmikilli úttekt hér í blaðinu kemur meðal annars fram, að 142 íslendingar hafa farist í snjóflóðum það sem af er þessari öld, og ekki eru nema tuttugu ár liðin frá því að tólf menn fórust í snjóflóð- um á Neskaupstað. í því ljósi má undarlegt heita, að þessari vá skuli ekki meiri gaumur gefinn í öiyggis- og almannavarnakerfi þjóðarinnar en raun ber vitni. f fljótu bragði virðist mannskæðari hætta stafa af snjóflóðum en annarri óáran í náttúrunni, á borð við jarðskjálfta og eldgos. Áherslan sem lögð er á rannsóknir, eftirlit og fyrirbyggj- andi aðgerðir gegn snjóflóðum hlýtur að teljast í litlu sam- ræmi við ógnina, sem af þeim stafar. Á grundvelli laga um snjóflóðavarnir frá árinu 1985 hafa verið gerðar áætlanir þar sem meðal annars er gert ráð fyrir, að tæpar 600 milljónir króna þurfi til mannvirkjagerðar, sem myndi fullnægja um 30 prósent af varnarþörfinni. Það myndi þannig kosta um 1,6 milljarða króna að reisa öll nauðsynleg mannvirki á grundvelli þeirra áætlana, sem fyrir liggja. Frá 1985 hefur þó einungis verið varið ríflega 20 millj- ónum króna í þessu skyni. Síðustu daga hafa hins vegar ýmsir til þess bærir aðilar lýst þeirri skoðun sinni, að allar fyrri áætlanir og matsgerðir í tengslum við snjóflóðahættu þarfnist gagngerrar endurskoð- unar. í því sambandi hefur meðal annars verið bent á, að í stað þess að reisa varnarmannvirki kunni að vera vænlegra að lið- sinna fólki við að flytjast búferlum af mestu hættusvæðun- um. Þessi ábending er allrar athygli verð, en menn verða þó að hafa í huga að hér er verið að tala um fólk en ekki fénað. Það er því miður oft þannig, að það þarf átakanlega atburði til að menn sjái í hnotskurn hvað þurfti til að verjast þeim. Við getum aldrei keypt okkur frá hættunum, sem fylgja því að búa á íslandi, og svo lengi sem við byggjum landið mun fólk farast í átökum við óblíða náttúru þess. Við erum hins vegar betur í stakk búin en gengnar kynslóðir, efnalega og tæknilega, til að takast á við náttúruöflin og minnka þann mannskaða, sem þau ávallt og óhjákvæmilega munu valda. Stjórnvöld hafa lýst því yfir, að þau muni bregðast hratt og ákveðið við þeirri lexíu, sem læra má af atburðunum á Súða- vík. Því verður að trúa, að hugur og umfram allt aðgerðir fylgi máli. Þannig getur þjóðin best minnst þeirra sem fórust, vottað aðstandendum samúð og björgunarmönnum virðingu. Páll Magnússon Pósturmn Vesturgötu 2, 101 Reykjavík, sími 552-2211 fax 552-2311 Bein númer: Ritstjórn: 552-4666, símbréf: 552-2243 Tæknideild: 552-4888 Auglýsingadeild: 552-4888, símbréf: 552-2241 Dreifing: 552-4999 Fréttaskotið: 552-1900 Smáauglýsingar: 552-5577 Skrifstofa Morgunpóstsins er opin mánudaga til föstudaga frá 9:00 til 17:00 Dreifingar- og áskriftardeild er opin mánudaga og fimmtudaga frá 8:00 til 19:00, aðra virka daga frá 9:00 til 17:00 Auglýsingadeild er opin mánudaga og fimmtudaga frá 9:00 til 18:00, aðra virka daga frá 9:00 til 17:00 Smáauglýsingadeildin er opin frá 9:00 til 17:00 virka daga, til 21:00 á þriðju- og miðvikudögum og milli 13:00 og 21:00 á sunnudögum. Ummæli vikunnar Semsagt; hann gat hætt eða verið rekinn? „Það þvingar enginn Jóa til eins né neins.“ Árni Grétar Finnsson sáttasemjari. Var hann þá í sparibuxun- um? „Ég er ekkert á þeim buxunum að draga mig í — hlé en égfékk ^ ekkertfyrir rninn snúð.“ Jóhann bergþórs son, pólitískur veðurviti. Var Davíð böðuliinn? „Frá mínum bœjardyrum séð er þetta gálga- frestur." Ingvar Viktors- son „hjóna- djöfull". Getur hann ekki mælt götumar? „Við erum ekki að leita að starfi handa honum.“ Magnús Gunnarsson, pólitískur samherji. Jón Baldvin og boxarinn „Miðað við venjubundin samskipti vinaþjóða er líka eðlilegt að œtla að þeir hefðu fyrirfram gert íslendingum greinfyrir hvað til stóð. Það gerðu Kanadamenn ekki. Það sem verra var, kanadíski sjávarútvegsráðherrann undir- ritaði samninginn svo að segja íþann mund sem han lagði upp til íslands. “ Svíinn Ingemar Johanson, sem rotaði Floyd Patterson og varð þannig heimsmeistari í þungavigt, sagði einu sinni að fengi maður óvænt högg í hringnum þá væri eina leiðin að leggja allan þunga í snarpt högg á móti til að koma í veg fyrir að andstæðingurinn gengi á lagið og gerði út um viðureignina. Jón Baldvin Hannibalsson hefur að sönnu eðli Vestfirðingsins en hefur þó aldrei stundað hnefaleika. En þessari bardagalist sænska heimsmeistarans fylgdi utanríkis- ráðherrann þó út í ystu æsar, þegar Norðmenn náðu í síðustu viku að greiða Islendingum óvænt högg í deilunni um Svalbarðaveiðarnar, með því að véla kanadískan sjávar- útvegsráðherra til að veita þeim skilyrðislausan stuðning í deilunni. Kanadamaðurinn var á leið til ís- Iands sem fulltrúi vinaþjóðar og 'ællaði að ræða við íslendinga á ráð- stefnu um hentugustu leiðina til að stjórna fiskveiðum, en sem kunn- ugt er hafa Kanadamenn lent í meiri hremmingum með eigin þorkstofn en nokkur önnur þjóð, að íslendingum meðtöldum. Á leiðinni drap hann niður fæti í Noregi og lét þar ginnast til að und- irrita samning þar sem lýst var fullu fylgi Kanada við að Norðmenn hefðu fiskveiðisögu við Svalbarða og sömuleiðis að samningurinn sem gerður var um Svalbarða næst- um 75 árum fyrr gilti ekki á svoköll- uðum fiskverndarsvæðum Norð- manna þar um kring. í rauninni jafngilti þetta því að vinaþjóðin Kanada lýsti samþykki sínu við að Norðmenn höguðu stjórnun veiða við eyjarnar eins og þá lysti, og héldu uppteknum hætti að taka ís- lensk skip og draga fyrir norska dómara. Vitanlega er þetta í algerri andstöðu við sjónarmið og hags- muni íslendinga og málstaður Norðmanna þar að auki meir en vafasamur. Undir öilum kringumstæðum hefðu Islendingar lagst gegn þessari íhlutun Kanada í deilu, sem er erf- iðasta milliríkjamál þjóðarinnar um hartnær tuttugu ára skeið. Hefðum við haft pata af ráðabruggi Norðmanna hefði allt verið lagt í sölurnar til að telja Kanadamönn- Þungavigtin um hughvarf. Miðað við venju- bundin samskipti vinaþjóða er líka eðlilegt að ætla að þeir hefðu fyrir- fram gert íslendingum grein fýrir hvað til stóð. Það gerðu Kanadamenn ekki. Það sem verra var, kanadíski sjávar- útvegsráðherrann undirritaði samninginn svo að segja í þann mund sem han lagði upp til Is- lands. Síðan lét hann kontórista hringja í embættismann f íslenska stjórnkerfinu og tilkynna verknað- inn. I aðdraganda kurteisisheim- sóknar er þetta einfaldlega brot á mannasiðum og að öðru jöfnu brot á öllurn hefðbundnum samskipt- um þjóða, hvað þá vinaþjóða. VeÍ má vera, að þetta hafi verið mistök, og gert í hugsunarleysi af hálfu Tobins hins kanadíska og sjálfsagt að láta hann njóta vafans í því efni. En gegn þessu óvænta höggi, sem Norðmenn greiddu okkur með kanadískum boxara urðu Islendingar að bregðast skjótt og fast við. Jón Baldvin gerði því hárrétt í því að aflýsa fundum sínum með To- bin, og undir það viðhorf tóku þeir ráðherrar sem tjáðu sig um málið, fýrir utan sjávarútvegsráðherrann. Kjarni málsins var einfaldlega sá að isíensku þjóðinni var sýnd lítils- virðing, og að hagsmunum hennar vegið. Það var pólitísk og embættis- leg skylda utanríkisráðherrans að fara að dæmi Ingemars Johanson og senda boxaranum að westan snoppung engu minni á móti. Hvað hafðist upp úr því? I ljós er komið að vera má að eftir allt sam- an hafi Tobin hinn kanadíski sam- þykkt hin umdeildu ákvæði um Svalbarða af misgáningi og ekki ólíklegt að hin hörðu viðbrögð Jóns Baldvins leiði til þess að kanadíska þingið, sem á eftir að staðfesta samninginn, felli þau út — ef To- bin leggur það þá ekki til sjálfur. Hefði það gerst, ef Jón Baldvin hefði boðið honum heim í stofuna á Vesturgötu og látið eins og ekkert hefði í skorist? Þungavigtarmenn eru meðal annars: Árni Sigfússon, Geir H. Haarde, Halldór Ásgrímsson, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Jóhanna Sigurðardóttir, Jón Erlendsson Jón Steinar Gunnlaugsson, Óskar Magnússon, Páll Kr. Pálsson, Svavar Gestsson, Ögmundur Jónasson, Össur Skarphéðinsson.

x

Helgarpósturinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Helgarpósturinn
https://timarit.is/publication/286

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.