Lesbók Morgunblaðsins - 20.03.1966, Side 3
ÞAÐ ERU VIÐAR HUNDAR
ENFYRIR AUSTAN “
MHMMMMMMMVMHMHIMKiiÍinMMIMMMMi
Hann teygði úr sér á dýnunni, sem
var naumast þykkari en ryklagið á
gólfinu. Vormorgninum hafði af seiglu
tekizt að brjóta sér leið inn um skít-
ugar rúðurnar. Þetta var í gríðarlega
stóru þurrkherbergi og birtan kastað-
ist af einum hvítkölkuðum veggnum á
annan. Langnættið hafði hulið ýmis-
legt myrkri, sem vorbirtan leiddi nú í
ljós. Úti í einu horninu var sandbingur
og þar hjá steypuhrærivél, fötur og
skóflur. A miðju gólfi var kastarhola á
prímus, en allt í kring haugar af kart-
öflugrasi, sem báru vott um nokkurt
dálæti á þessari fæðutegund. Blásvört
maðkafluga sveimaði í kringum tóma
xnj ólkurhy rnu.
Á veggnum fyrir ofan bælið voru
nokkur póstkort, sem hann hafið fest
upp með gagnsæju límbandi. Myndim-
ar á póstkortunum voru ævintýralaga
friðsælar. Skringilegt fólk í gamaldags
fötum liðaðist um á grænum flos-
mjúkum árbala og gerði að gamni sínu.
Laufguð björk svignaði undan grósku-
þunga sínum. Þarna var líka mynd af
dönskum sveitabæ með storki og pútum
og svínum, og svo vetrarmynd með blá-
hvítum snjó yfir öllu. Stundum sat hann
tímunum saman og horfði á þessi póst-
kort og lét sig dreyma um löndin hin-
um megin við sjóinn, þar sem fólkið var
kannski hamingjusamt. Frá því hann
var lítill drengur fyrir austan hafði
hann haft tilhneigingu til þess að lifa
sig í burtu frá deginum, sem var að
líða.
H ann svipti ofan af sér gulbrúnu
hermannateppi og skreiddist á fætur.
Hann var sérkennilega kringlóttur,
meira eins og stærðar sirkusbolti, og
nærföt hans voru í stíl við rykið á gólf-
inu. Höfuðið var nauðrakað og andlitið
slétt eins og á hvítvoðungi, naumast
hrukka eða mishæð, hvað þá örlítil bóla
til þess að auka á tilbreytinguna. Hann
beygði sig fram, þannig að fingurgóm-
arnir námu við gólfið. Þetta gerði hann
enn boltalegri og raunar hreinasta mildi,
að hann skyldi ekki rúlla fram að dyr-
um. Eftir þessa morgunleikfimi fór hann
að klæða sig. Fyrst smeygði hann sér
í köflótta vinnuskyrtu, sem náði niður
að hnjám. Svo fór hann í gallabuxur
með bæði axlaböndum og belti. Frammi
við dyr fór hann í hnéhá vaðstígvél og
skósíðan nokkuð snjáðan svartan dipló-
matafrakka. Þannig ásýndum var hann
hreint forkostulegur. Hann flýtti sér
út í veðurblíðuna. Við hlið hans gnæfði
fokhelt háhýsi og það fór um hann
ánægjutitringur yfir því að búa í svona
voldugri byggingu.
Á leiðinni niður á blaðaafgreiðslu
hlakkaði í honum. Það var gott að vera
nú loksins kominn til Reykjavíkur. Hér
var hundahald sem betur fór bannað.
Hann hugsaði um kaupmannshjónin fyr-
ir austan og stóra útlenda hundinn
þeirra með úrkynjuðu rófuna og ill-
gjarna augnaráðið. Þessi hundskratti
hafði hænzt að honum eins og hverju
öðru vagnhjóli eða símastaur, og aðrir
hundar staðarins farið að dæmi hans.
En nú var þetta liðin tíð. Aldrei fram-
ar þyrfti hann að sætta sig við háðu-
lega framkomu þessarar viðbjóðslegu
dýrategundar. Vormorgunninn smaug
inn í göngulagið og hann var alsæll. Nú
var hann frjáls maður, að vísu flæmdur
frá sinum æskustöðvum, en engu að
síður frjáls. Svolítið þótti honum leið-
inlegt hvað fjöllin voru langt í burtu
hérna fyrir sunnan. Hann hafði það
stundum á tilfinningunni, að hann væri
nakinn og þyrfti að hlaupa í hvarf.
Plássið heima var undir hárri fjalls-
hlíð og þar var alltaf skjól nema kannski
í austanátt. En sjálfsagt myndi hann
venjast þessu nýja umhverfi. Fyrir
mestu var að höfuðborgin var hund-
laus.
H ann opnaði hurðina á blaðaaf-
greiðslunni og hnausþykk prentsvertu-
lykt kom á móti honum. Úrillur sláni
með fitugt hár og sígarettugulu upp
um alla hendi taldi blöðin í börnin.
„Komdu þér hingað að borðinu Dan-
íel og taktu blöðin þín. Þér veitir ekki
af að hafa hraðan á, úr því þú ætlar
að bæta nýja hverfinu við þig“, sagði
sláninn. Daníel þokaði kringlótta lík-
amanum í gegnum krakkamergðina og
afgreiðslumaðurinn rétti honum álitleg-
an blaðabunka. „Og nú ekkert slór.
Kúnnarnir vilja fá blöðin sín á réttum
tíma á sunnudögum", kallaði afgreiðslu-
maðurinn í því Daníel lét aftur hurð-
ina.
Hann var kominn vestur í Kamp
Knox og gekk úr einum bragga í ann-
an. Hann flýtti sér að láta blöðin á
hurðarhúnana, en aldrei henti hann
þeim inn í gang. Ólyktin, sem lagði úr
sumum af þessum bröggum, fór illa í
hann og fólkið vildi hann hafa sem
minnst samskipti við. Það var áhyggju-
fullt og litlu börnin voru með nærbux-
urnar niður á hæla, og úr nefinu á þeim
lak hor og þau voru glær undir augun-
um. Honum stóð beygur af eymdinni,
sem hann vissi að var á bak við allar
þessar dyr. Hann gekk áfram. Drusla
fyrir glugga, sparkað inn úr hurð, ryðg-
að bárujárn, Púrtvínsflaska hjá ösku-
tunnu. Barnsandlit gægðist fram hjá
niðursuðudós, sem geymdi rýran stilk
af blómi. Daníel leit undan. Hann fór að
hugsa um póstkortin sín heima í þurrk-
herberginu og fína hverfið, sem hann
átti að bera út í á eftir. Það voru Mel-
arnir, Þar voru húsin falleg og stóðu í
röð og ekkert þeirra skagaði lengra fram
í götuna en annað. Hann hlakkaði til að
fara höndum um gylltu hurðarhúnana
Framhald á bls. 14.
ÆT . .
J N Efiir Einar Benediktsson
MEISTARI
Höfðingi almúgans óx við hans kjör,
ástfólginn lýðnum frá grunni.
Öreigi réðst hann í róðrarvör,
með rómversku stefin á munni.
Látlaus í háttum, en hár í mennt,
högum þess smáa hann unni.
Af andagift ríkar hér aldrei var kennt,
né auðugri hjartans brunni.
En víðsýnn og glöggur hann vitnaði margt
um vítin í hóp þeirra stóru.
Hans skeyti ei gleymast. Hann henti hart
og hárbeitt til marks þau fóru.
Hann krafði þá reiknings um eiða efnd,
sem embættum skyldaðir vóru —,
en boðaði svikum og hálfvelgju hefnd,
svo hnykkti við ýmsum, er sóru.
Hve margur reis ófús frá könnum og krá,
og kirkjunnar starf tók sem nauðverk.
En helvítið málsvörn máttuga á
hjá meinhægum, jarmandi brauðklerk,
sem lét úti grjót fyrir lífsins auð,
með langdregna orðaprjálið —,
því ritning er hljómlaus, hol og dauð,
ef hjarta les ekki í málið.
En voldugast tjón hinni trúandi þjóð
var tildur þess prestvígða hroka,
. sem hræsnandi, flár við guðs fótskör stóð
— að fylla út hempunnar poka.
Með klerkdómsins hefð og hin köldu ráð,
hann kunni leikmann að oka. —
En sóknin um himneska huggun og náð
var hungruð til æviloka.
Meistari fólksins, jafnt fyrrum sem nú,
förumanns herra og bróðir —,
hann signir hér ennþá byggðir og bú;
þar brenna þær fornhelgu glóðir.
Við bæina dvelja bændur og hjú —
þótt bekkir verði nú hljóðir.
Á hillunni er bók. Hún boðar trú,
sem blessar og reisir þjóðir.
Hann þegir, ef fjandlega forvitnin spyr;
þeim fræðum lét Vídalín hafnað.
Hann klappaði aldrei á djöfuls dyr,
né draugærði kristinna safnað.
Hann lýsti sín háborð í helgi og kyrrð,
þótt heimstöfrum væri hann búinn —
en sveið ekki vængi hjá vítis hirð.
Hans vegur til sannleiks var trúin.
Hans köllun skal lifa í kirkjunnar stétt.
Hann klerka vors lands stendur hæstur.
Hann virti ei strangleik véanna létt.
Hann vissi einn prest, sem er æðstur.
Sá kom ei í heiminn að rjúfa rétt,
sem ruddi musterið forðum.
Sé hneykslið á staðinn heilaga sett,
guð hjálpi þeim lýðum og storðum.
Og aldrei féll þarfar hans þróttarmál
en þruman um dómstólsins bófa.
Þar hreykist í metnaði meineiða sál,
en mauragirnd klæjar í lófa.
Hann ranglætið hýsir í hjarta innst,
en harðdæmir aumingjann snauða.
Hvað sjálfur hann framdi — þess síðar skal
minnzt.
Guðs son þekkir lifandi og dauða.
Um samsekt í þögn yfir þjóðarvömm
þar þungur lestur hans reiði.
Hvar frekja sig ræmdi og raupaði af skömm,
þar reiddi hann öx að meiði.
Hver illgresi banvænu biður hlíf,
hann bælir og traðkar í eyði.
Sé drepinu hlúð, visnar heilbrigt líf,
en hefndin grær á þess leiði.
Enn finnst sem hann vermdi hinn vígða reit
— svo vakir oss nær hans andi;
þótt vísindi og efi villist í leit
um veraldarhaf, eftir landi.
Þótt brjóst reynist köld í kristinni sveit,
og krosstréin seinustu brotni,
í breyskleik og kærleik hans bæn var svo heit,
hún ber enn vort mál fyrir drottni.
Svo hneig hann í faðm á fósturjörð,
með f jallsvipinn sterka og hreina.
Um dýrðling fólksins hans dreifða hjörð
dánarsögn bjó sér eina.
Þá flugu yfir biskups ferðatjald
tveir fuglar, dökkur og bjartur.
Þar áttu hið góða og illa vald
einvíg — og tapaði svartur.
— Hann talaði vonlausum traust og kjark
á tungu, sem hjartað skildi.
Þar reist hann sér andans aðalsmark,
sem aldrei máist af skildi.
Hann gnæfði sem hæðin með hjarnsins fald,
svo harðger — en brosti af mildi.
Hans meistaraorð á þann eld og það vald,
sem eilíft varir í gildi.
20. marz 1966
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS 3