Lesbók Morgunblaðsins - 12.05.1968, Blaðsíða 3

Lesbók Morgunblaðsins - 12.05.1968, Blaðsíða 3
Smásaga eftir Jan Fridegárd KATTA LOVÍSA Meðan hreppsnefndaroddvitinn gekk skógarstíginn, velti hann fyrir sér, hvernig handhægast væri að aflífa eina tylft af köttum. Það yrði bæði dýrt og umfangsmikið að skjóta þá einn af öðrum með hagla- byssu. Hugur hans hvarflaði að þeim möguleika að lokka þá inn í kofann, þegar búið væri að flytja matmóður þeirra á brott og svæla þá síðan í hel eins og veggjalýs. Þetta er hrein fásinna, að kerlingin skuli hafa fengið að hírast svona lengi ein með kattarskröttunum sínum, hugsaði hann. En við höfum bara ekki haft neinn stað handa henni fyrr en nú. Og aldrei hefir hún kvartað. Á hverju skyldi hún hafa lifaö — og kettirnir? Jú, kettirnir hafa sjálfsagt að mestu leyti séð um sig sjálfir í skóginum hérna í kring. Kattarhlandslyktin af sólbökuðum timburþiljunum við dyrnar sagði strax til sín, og kaldar og gular glyrnur fylgdu honum frá skúmaskotum og skógarrunnum. Hlaðvarpinn var samfelldur óræktargrasflóki, þar sem villt kartöflugrös, fiflar, hávaxnir þistlar og dökknandi sólrósir skutu upp kollinum hér og þar. Á stígnum út að vatnsbóhnu lágu rauð epli fallin í hrönnum. Allt um kring ríkti friðsæld haustsins með sterkum litum, en yfii hvelfdist blár himinn og djúpur. Enginn svaraði þegar hann kvaddi dyra, og gekk hann því inn. Kerlingin sat við torðið með skýluklút á höfði, og tannlausir kjálkar hennar gengu jafnt og þétt og taktfast. Svo velti hún tuggu út úr sér í lófann og lagði hana frá sér við tærnar á ketti, er sat á borðinu. í legubekknum lágu tveir kettir og nokkrum brá fyrir í hálfdimmum hornum stofukytrunar. Alls staðar stóðu skálar með mjólkurslettum og matarleifum. Meðan kötturinn var að éta tugguna, sneri kerling ásjónu sinni að komumanni. „Gaztu lesið bréfið, Lovísa?" spurði oddvitinn, þegar hann hafði ýtt ketti niður af einum stólnum og tekið sér sæti. „Jú, ég skildi að minnstakosti aðalefnið". „Jæja verður ekki indælt að komast á elliheimilið og fá notið dálítillar um- önnunar? Að fá til dæmis matinn framreiddan á borðið? Ha, ha, ha!“ „O, það er nú aldrei vangert við mig. Bara að það verði gott við kisurnar mínar þarna niðri frá“. „Við kettina1 Þeir fá ekki að fylgja þér“, sagði hreppsnefndaroddvitinn gap- andi af undrun. „Jæja, fá þeir það ekki. — Jæja, þá verð ég kyrr líka“. „Hvernig getur þér dottið í hug, Lovísa, gamalli og skynsamri manneskju. .. Rétt áðan, á leiðinni hingað, var ég að hugleiða, hvernig bezt væri að aflífa kvikindin". „Nú-já, einmitt, — heiðursmaðurinn. — Aflífa kvikindin. Það eru líka til tví- fætt kvikindi, ef að er gáð“. „Svona, svona. Ég meinti ekkert illt. En það segir sig sjálft, að kettina verður að aflífa. Enginn hefur viljað meina þér að hafa þá hjá þér hérna í skóginum. En á elliheimilmu gilda aðrar reglur". „Jú, j ú, ég skil. En ég er orðin gömul og hefi heyrt svo margar reglur um dagana. Guð hefur bæði skapað okkur og dýrin og blómin, til þess að við mætt- um lifa sómasamlega. Þið getið drepið ketti, en getið þið blásið lífi í þá á ný? Nei, hérna ætla ég að vera kyrr hjá mínum kvikindum, — það er útrætt mál.“ Og Lovísa fór að tilreiða aðra tuggu handa kettinum, en hreppsnefndaroddvit- inn tók hatt sinr. og gekk til dyra, tautandi eitthvað um vitlausar kerlingar. „Við getum heldur ekki gengið of hart að kerlingunni“, sagði einhver í hrepps- nefndinm „Hú.n kemur sér vel, heldur öllu hreinu og þokkalegu umhverfis sig, og enginn hefur ónæði af köttunum”. „Nei. En hvenær sem er getur hún legið dauð í miðjum kattafansinum, og fréttin kæmi í öllum blöðum. Ég þykist geta séð fyrirsagnirnar í huganum.. • Einstæðings gamalmenni dáið mitt á meðal 13 katta. . . átakanlegt hirðuleysi í afskekktu héraði. Nei, við verðum að koma henni á heimilið." Hreppsnefnd.n gat ekki orðið sammála. Sumir vildu ekki standa í neinu stappi, meðan öðrum fannst málið ekki svo aðkallandi. Það væri betra að hún fengi að vera kyrr, ef hægt væri að veita henni einhverja aðstoð úr sveitarsjóði. Að lokum sigruðu þó sjónarmið oddvitans, að kerlingu yrði að flytja niður á elli- heimilið. Ekki reyndist auðvelt að fá mann, er vildi taka að sér það hlutverk að flytja Lovísu. Loks náði oddvitinn í mann nokkurn nýlega aðfluttan. Sá var sagður slóttugur og ekki allt of tilfinninganæmur. „Þú mátt viðhafa hverja þá aðferð, sem þér þóknast, bara þú komir henni kattarlausri hir.gað niður eftir“, sagði oddvitinn. „Hún er vís til að skammast en hún hlýtur að sefast, þegar hún er komin á heimilið og áttar sig á því, að hún er úrræðalaus". „Bara vera slunginn“, sagði maðurinn og hló- „En það verður að vera skugg- sýnt, þegar ég sæki hana. Helzt svarta myrkur. Annars gætu ráðagerðir mínar farið út um þútur“. „Já, þú skalt hafa þín ráð eins og þér sýnist, bara að hún komist á heimilið og því fylgi sem minnstur gauragangur. Og sjáðu svo um, að kettirnir lokist ekki inni, þegar þið farið. Refurinn mun smám saman hiiða þá. En komi einhverjir þeirra hingað niður í byggðina, verður hægt að hlunka á þá“. Síðdegis komu þau boð til Lovísu, að hún skyldi búast til brottfarar. Hún mundi sótt í hestvagni, og kettirnir fengju að fylgja henni, ef hún setti þá alla í stóran kassa. Ekki varð hún glöð við þessari fregn, en hún hugsaði, að gömul og fátæk manneskja yrði að beygja sig. Henni var ljóst, að stríð yrði um kettina á elli- heimilinu, en hún þóttist enn nógu sterk til að berjast í þeirri styrjöld. Hún hugsaði líka gott til glóðarinnar, að stóru útihúsin á prestssetrinu skyldu vera þarna á næstú grösum. Þar mundu kettirnir fá nóg af rottum og kannske mjólkur- sleikju. Allan daginn var hún að lokka kettina inn og raða eigum sínum niður í gömlu kommóðuna. Hún tautaði eitthvað um þá andstyggð að þurfa að fara að kvöldlagi. En það væru víst svo miklar annir vegna uppskerunnar meðan dagsbirtu nytL Sennilega hvorki hestur né karl á lausu, fyrr en dagur væri af lofti. Þegar kerrukarlinn kom inn, blasti við honum stór kassi á gólfinu og mátti þaðan heyra mjálm og hvæs. Nokkrar fjalir voru negldar yfir kassann, og gegn- um rifurnar milli þeirra sá hann glytta í glyrnur og veiðihár titra. Þennan um- búnað virti hann ánægður fyrir sér og hló í huganum. Áform hans mundi áreiðan- lega heppnast. Lovísa hjálpaði til að bera út kommóðuna og kattakassann. En hún sá ekki kúbeinið, sem karlinn hafði í vagninum, og þegar hún gekk inn til að sækja eitthvert smádót, losaði hann í flýti um annan endann á einni fjölinni, en ekki svo mikið, að kettirnir slyppu út. Framhald á bls. 12 Jón Oskar Farnar slóðir Á löngu förnum slóðum reikar hugur þinn og biður um sama grasið aftur um sömu stúlknabrosin um sömu himinskýin um sama dýrðarhljóminn um sama þarabragðið um sama ástardrauminn. Og allt sýnist þér koma og allt sýnist þér vera með sömu dýrðarljósum í sömu bernskuaugum Það er í svip, þú greinir við sjónhrtng hugans annað en bernskuaugun sáu og bernskuaugun skildu. Það kemur inn í hugann og reikar þar og leitar og finnur sér þar staði og spillir öllum ljósum og spillir öllu bragði og deyfir dýrðarhljóminn á löngu förnum slóðum. 12. maí 1968 LESBÓK MORGU.NBLAÐSINS 3

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.