Lesbók Morgunblaðsins - 28.08.1982, Blaðsíða 11

Lesbók Morgunblaðsins - 28.08.1982, Blaðsíða 11
getur Reykvíkingur hugsað sér, að hann standi í Vatnsmýrinni og horfi upp á Skólavörðuholt. Áttir eru hinar sömu. Reykvíkingurinn gengur upp Njarðargötuna til að komast á holtið og þarf á miðri götunni að erfiða við nokkuð bratta brekku. Brattabrekka (Steep Hill) í Lincoln er aftur á móti rétt fyrir neðan kirkjumúr- inn, sem umlykur umráðasvæði dómkirkjunnar og hún er öllu brattari en sú, sem við höfum á Njarðargötunni. Brattabrekka er nánast ófær dráttarkerrum. Til þess að komast þangað frá Hábrú er gengið gegnum Steinbogann (The Stonebow), en þar í grennd- inni héldu Danir þing sín, meðan þeir réðu þar ríkjum. Frá Stein- boganum liggur leiðin yfir High Street, sem til forna hét Mikla- gata (Mikelgate). Framhald henn- ar á miðöldum Strætið (Strait) og endaði Strætið á Bröttubrekku. Til austurs frá Bröttubrekku ligg- ur Danagata, og þangað liggur vegurinn í boga niður að svoköll- uðum Græna dreka, sem minnir á kvæði nokkuð, sem heitir á ís- lensku Merlínusspá, og er sér- staklega tengt sögu Lincoln- borgar. Fyrir ofan Bröttubrekku og undir veggjum prófasts-bústað- arins, sem er hin forna biskups- höll liggur kirkja sem heitir „Kirkja Mikkjáls á fjallinu". Þarna var kirkja á fyrri hluta 12. aldar, og lenti hún um 1130 í eigu Alexanders biskups í Lincoln, en hann var mikill veraldlegur höfð- ingi. Kirkja þessi var lítil en virð- ist hafa átt miklar eignir um hér- aðið, og var það af þeim sökum sem Alexander girntist að eiga hana. Þegar ég skoðaði þessa kirkju, rifjaði ég upp fyrir mér hlutverk Mikkjáls í Njáls sögu og þátt hans í sögu Þangbrands. Þegar gengið er um Strætið, Bröttubrekku og Danagötu sér maður hús frá ýmsum tímaskeið- um í sögu borgarinnar, en mest áberandi eru hús, sem sannanlega eru byggð á 12. öld. Þar er Gyð- inga-húsið (The Jews House) mest áberandi. Þetta hús var lengi kennt við Gyðinginn Aron frá Lincoln, sem var einn auðugastur manna á Englandi á 12. öld, en hann var dáinn áður en það var byggt. Þessi Aron gæti verið fyrir- myndin að Gyðingnum ísak í Jór- vík í sögu Walters Scotts um ívar Hlújárn. Lincoln miðstöð kirkjuréttar Þorlákur biskup helgi átti lengi í útistöðum við íslenska höfðingja vegna eignarhalds á kirkjum og siðferðilegs breyskleika þeirra. Til þess að standa í þessu stríði þurfti hann að byggja á öruggri þekk- ingu á kirkjurétti. í Lincoln hefði hann átt þess kost að afla sér slíkrar þekkingar. Dómskólinn í Lincoln var á þeim árum í áliti sem einn af bestu skólum álfunnar í þessu efni. Hann var í raun einn af þeim fjóru bestu í heiminum. Biskupinn, Robert de Chesney (1148—1166), var annálaður áhugamaður um þessi fræði. Við hlið sér virðist hann hafa haft tvo menn, sem voru fróðir á þessu sviði. Hugh frá Leicester, sem var erkidjákni að embætti, og meist- ara Robert Blund. Hugh gaf bóka- safni dómkirkjunnar * Lagasafn Gratians, sem var meginritið í þessu efni. Robert Blund var á hinn bóginn frægur málafylgju- maður, sem ferðaðist víða um lönd til að reyna þekkingu sína í mála- vafstri. Aðrir kennarar við dóm- skólann voru Hamo kanslari, mik- ilhæfur maður, Radulfus læknir, Pétur frá Melida og meistari Reg- inald. Ekki hafa þessir allir kennt kirkjurétt, en það var sérstætt við dómkirkjuna í Lincoln, að meðlim- ir dómklerkasamkundunnar voru háðir öðrum lögum en almenning- ur í bænum. Dómkirkjusvæðið var sérstakt réttarsamfélag, sem af- greiddi sín mál á dómþingi í sínu eigin þinghúsi, sem var algerlega óháð bæjarréttinum. Þorlákur hefur þannig haft næg tækifæri til að kynnast völundarhúsi kirkjuréttarins á tíma sínum í Lincoln. Robert de Chicklade Biskupsdæmið Lincoln var á 12. öld geysistórt, og náði yfir mest- allt landsvæðið frá Thames til Humber. Smátt og smátt byggðust háskólabæir kringum menntaset- ur í þessum héruðum. Frægastir þessara bæja eru auðvitað Oxford og Cambridge. Það var í þessu biskupsdæmi, sem kanúka-reglan (Ágústínusarreglan) skaut fyrst rótum í Englandi, og þar varð hún áhrifamest. Fyrsta klaustrið var stofnsett í Grimsby, en um miðja öldina var frægt klaustur af kanúka-reglu í Oxford, sem hét eftir írska dýrlingnum Fride- swide. Um 1140 varð príor þar í klaustrinu maður að nafni Robert de Chicklade. Hann lifði til ársins 1180, og hafði fyrir dauða sinn skrifað sögu Tómasar Beckets, erkibiskups í Kantaraborg. Þessi saga komst til íslands, og varð hluti af hinni íslensku Tómasar sögu erkibiskups. Það er vitað, að hann fór til Róm 1158, og kom hann þá við í París, þar sem hann átti í deilum við Pétur Lombardus út af eðli Krists. Sálmaskýringar Péturs Lombardusar eru nú meðal gimsteinanna í bókasafni dóm- kirkjunnar í Lincoln. Því nefni ég þennan mann, að hann er- eini Englendingurinn, sem við getum hugsað okkur að hafi hitt Þorlák biskup að máli 1158 í Viktors- klaustrinu. Það er líka markvert, að Robert de Chicklade skrifar í bréfi nokkru um bókaútdrætti, sem hinn fægi ábóti William frá Malmesbury, skrifaði úr ritum Gregors páfa mikla. Þetta er merkilegt fyrir þær sakir, að frá 13. öld og til ársins 1704 var til í Skálholti bók- arútdráttur úr Jobsbókarskýring- um Gregors (Móralíur yfir 32.-42. kafla). Þessi útdráttur fjallar um ræður ungs manns, að nafni Elíhú, og ræðu Guðs úr stormviðrinu. Er þar m.a. að finna skýringar Gregors á Miðgarðs- orminum (Levíaþan). Rit þetta var í Skálholti kallað Djáknastumpur. Árni Magnússon efnistók þetta rit, er það kom í eigu hans, og ætti samkvæmt því að vera hægt að finna, hvaðan ritið er komið. Kannski er það eftir William frá Malmesbury? Kanúkareglan er á 12. öld tísku- fyrirbæri, og um hana bárust nýj- ar hugmyndir í evrópskt menning- arlíf. Kanúkarnir voru menntaðir menn, sem biskupar gátu sent til ákveðinna verkefna, þar sem þurfti að efla starf. Hliðstæða þessara manna innan íslensku kirkjunnar síðasta áratuginn eru sjálfboðaliðarnir, sem kaila sig „Ungt fólk með hlutverk". Vandamál kirkju- bygginga Robert de Chesney biskup í Lincoln hefur ekki alltaf verið metinn að verðleikum. Þegar ég las fyrst um hann, fyrir.25 árum, í vísindalegu riti um ensku kirkj- una, las ég það, að hann hefði ver- ið heimskur og talhlýðinn, og hefði sóað eignum stólsins. Síðar hefi ég uppgötvað að ástæðan til þessara ummæla voru vandræði hans við byggingu dómkirkjunnar og stuðningur hans við reglu Gil- bertína, sem átti uppruna sinn í biskupsdæmi hans. Biskupsstóllinn í Lincoln hafði verið stófnaður af frönskum munki, er hét Remigius. Hann hafði hlotið upphefð sína sem laun fyrir stuðning sinn við Vilhjálm bastarð, er hann réðist inn í Eng- land 1066. Remigius byggði mynd- arlega dómkirkju í sama stíl og kirkja Vilhjálms bastarðar í Caen, og er hluti þeirrar kirkju enn varðveittur í vesturgafli dóm- kirkjunnar. Árið 1141 féll kirkj- uskipið í jarðskjálfta, og þurftu biskuparnir sem voru eftir það, að endurreisa kirkjuna. Fyrst Alex- ander, og síðan Róbert de Ches- ney. Alexander var forríkur jarð- eigandi, og átti hægt með að nota eigið fé í viðgerðina. Af því hlaut hann viðurnefnið „hinn ríkiláti" (magnificus). Róbert hafði á hinn bóginn lítið annað en eignir kirkj- unnar til að fjármagna fyrirtækið með. Niðri í brekkunni bjó þá Gyðingurinn Aron, forríkur mað- ur, sem rak bankastarfsemi. Ró- bert biskup hafði ekki önnur ráð en að veðsetja eignir kirkjunnar fyrir byggingarkostnaðinum. Fyrir það hlaut hann hið mesta ámæli af öðrum kirkjunnar mönnum, því að samkvæmt kirkj- unnar lögum hét þetta okurstarfs- emi, og að veðsetja eignir kirkj- unnar hjá villutrúarmanni taldist til verri synda. Róbert biskup fékk vitaskuld hið mesta óorð af þessu athæfi. Biskupinn dó 1166, en á meðan Aron var á lífi voru aðeins settir á stólinn bráðabirgða- biskupar, sem gerðu ekki neitt fyrir stólinn annað en að hirða tí- undir stólsins. Eftir dauða Arons (1186) fékkst Hugh af Avalon til að taka við stólnum, því að þá losnuðu veðin úr böndum, vegna þess að gyðingar bjuggu í Eng- landi fyrir konungs náð, og allar eignir Arons runnu við lát hans sjálfkrafa í fjárhirslu konungs. Þetta er svipuð réttarstaða og Gyðingar höfðu í Þýskalandi til 1918, og ber að líta á Gyðingaof- sóknirnar þar með hliðsjón af þessari réttarstöðu þeirra. Hugh frá Avalon hófst nú handa við kirkjubygginguna, og hefur alla tíð síðan fengið jafn mikinn orð- stír af sínu verki og Róbert de Chesney fékk lítinn af sínu, enda varð Hugh heilagur maður af af- rekum sínum. Niðurlag í næsta blaði. Útgofandi: Hf. Árvakur, Reykjavík Framkvjntj.: Haraldur Svcinsson RiLstjórar: Matthías Johannessen Styrmir Cunnarsson Ritstj.fltr.: Gísli Sigurðsson Auglýsingar: Baldvin Jónsson Ritstjórn: Aðalstræti 6. Sími 10100 5—-------------------------------- ÞRJÚ NORSKLJÓÐ Knut Hamsun TORA SYNGUR Það var svo auðvelt hans gjafir að geyma því góss hans var ekkert í þessum heim. Og létt var mér næsta hans göllum að gleyma, en gleyma hans orðum, nei, aldrei þeim. I Hann lék sér í dansi svo léttur og óður, lög voru orð hans og einbeitt hans mál. Hann bauð eins og konungur, mikill hans móður, í mildi ég bræddi hans hörku og stál. Af innileik hann mig í örmum sér vafði, og augun hans fögru svo draumablá. Og töfrandi vísur á vörum hann hafði, unz válegur dauði hann kallaði á. Nú finnst mér hver dagurinn lengi að líða, mér leiðist, — finnst hinzta stundin sein. Hugsanir mínar þær hvarfla svo víða, en hugsunin er þó bara ein. Jakob Sande LITLI VINUR Þú litli vin, sem hlærð, með brosið blíða, þú bætir lífið, vekur fögnuð minn. Þú treystir mér og trítlar gólfið víða, þitt táp er lítið, veikur fótur þinn. Ég finn þig sælan, öruggan á armi, og óska þess að vera æ með þér og gæta þín í gleði bæði og harmi á göngu þinni um lífsins vegu hér. Blessuð þau ár sem ertu, vinur, hjá mér, þú óðum stækkar, hverfur burtu frá mér, og ég verð einn og ellin þokast inn. En vera má, er langur dagur lækkar og Ijósið augna dofnar, orkan smækkar, þú verðir leiðarljós og stafur minn. J.M. Bruheim BYRÐIN Skapaðir til að bera, og byrðir létta hver öðrum. Til einskis lifir enginn. En okkar eigin byrðir aleinir skulum við bera. Djúp og dýrmæt er sorgin sem ei verður deilt með öðrum. Lítt veitir sú gleði, er vesöl og snauð, sem þú vilt einsamall eiga. Hjálparvana er hver sá sem hefur engan að líkna og vera góður við. Eins og tréð án safans upp hann þornar. Sá maður ber byrðina þyngstu sem byrðina hefur ei neina. Sigurjón Guðjónsson þýddi

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.