Lesbók Morgunblaðsins - 03.09.1983, Blaðsíða 7

Lesbók Morgunblaðsins - 03.09.1983, Blaðsíða 7
Mynd: Valgarður Gunnarsson En viðvörun hans féll í ófrjó hjörtu. Fréttin um engilfangann kvisaðist svo fljótt að fáeinum klukkustundum síðar var komin markaðsærusta í húsagarðinn. Það varð að kalla út hersveitina með byssustingi að dreifa múgn- um sem hafði næstum rutt húsinu um koll. En þá kom Elísendu sem var orðin bogin í baki af því að sópa svona miklu hátíðarrusli það snjallræði í hug að múrgirða húsagarðinn og krefjast fimm senta aðgangseyris fyrir að sjá engilinn. Það kom forvitið fólk alla leið- ina frá Martiníku. Það kom far- andsirkus með fljúgandi fimleika- mann sem renndi sér hvínandi margar salíbunur fyrir ofan mannfjöldann en enginn veitti honum athygli þar sem vængir hans voru ekki af engli heldur geimleðurblöku. Ógæfusömustu sjúklingarnir við Karibískahafið komu að leita sér lækninga: Konu- garmur nokkur sem hafði talið sín eigin hjartaslög frá því hún var telpa og átti ekki lengur til nógu stóra tölu, jamækumaður sem gat ekki sofið fyrir hávaðanum í stjörnunum, svefngengill sem fór á fætur á nóttinni að taka sofandi sundur það sem hann hafði sett saman í vöku og fjölmargir fleiri ögn skárri til heilsunnar. Pelayo og Elísenda voru úr- vinda af hamingjuþreytu mitt í allri þessari skipsstrandsóreiðu sem skók jörðina því að þau troð- fylltu svefnherbergin peningum á tæpri viku og röð pílagrímanna sem biðu inngöngu náði í ofanálag útað sjóndeildarhring. Engillinn var sá eini sem ekki tók þátt í sinni eigin uppákomu. Hann eyddi tímanum í að hag- ræða sér í þessu lánshreiðri, vank- aður af helvítishita olíulampanna og fórnarkertanna sem færð voru uppað hænsnanetinu. Þau reyndu í fyrstu að fá hann til að borða kamfórugler sem grannkonan spaka uppástóð að væru sérlegt englafóður. En hann fúlsaði við þeim líktog hann fúls- aði ósmakkað við pápisku mat- arskömmtunum sem hinn iðrandi lýður færði honum og það varð aldrei ljóst hvort það var fyrir engilseðli eða ellisakir að hann að endingu át ekkert nema egg- plöntumauk. Hans einasta yfirnáttúrlega dyggð virtist þolinmæðin — eink- um í fyrstu þegar hænurnar gogg- uðu í hann að leita sér stjörnuætt- aðra sníkjudýra sem vængir hans voru morandi í. Bæklaðar mann- eskjur reyttu af honum fjaðrir til að strjúka með lýti sín og jafnvel guðhræddasta fólkið kastaði í hann steinum svo að hann stæði á fætur og það fengi að sjá hann uppréttan. Eina skiptið sem þeim tókst að raska ró hans var þegar þeir brenndu hann á síðunni með kálfabrennimarki af því að hann var búinn að vera svo lengi kjur að þeir héldu hann dauðan. Hann hrökk uppaf svefni bölvandi og ragnandi á óræðnu tungumáli og með augun böðuð tárum. Hann blakaði vængjunum nokkrum- sinnum svo að hænsnaskítur og mánaryk þyrluðust upp og hræðslugustur sem ekki virtist af þessum heimi þaut undan. Endaþótt margir álitu að hann hefði ekki brugðist þannig við af reiði heldur sársauka þá forðuðust menn uppfrá þessu að ónáða hann þar sem flestir töldu aðgerðaleysi hans ekki vera í ætt við hæglæti hetjunnar sem sest er í helgan stein heldur Fenrisúlfs í festinni. Séra Gonzaga tókst á við léttúð fjöldans með heimabrugguðum andagiftaruppskriftum meðan hann beið lokaúrskurðarins um náttúru fangans. En bréfritarar Rómastóls kunnu ekki lengur að flýta sér. Þeir sóuðu timanum í að athuga hvort bandinginn hefði nafla, hvort mállýska hans ætti eitthvað skylt við aramísku, hvort hann kæmist fimmfaldur fyrir á títuprjónsoddi eða hvort hann væri ekki einfaldlega norðmaður með vængi. Þetta bréfavafstur hefði haídið áfram um aldir alda ef forsjónin hefði ekki bundið endi á armæðu sóknarprests. Það bar til um þessar mundir að meðal þeirra fjölmörgu far- andtorgsýninga Karibískahafsins sem komu til þorpsins var harm- leikur konunnar sem hafði breyst í kónguló af óhlýðni við foreldra sína. Það var ekki einungis ódýr- ara að sjá hana en engilinn heldur mátti spyrja hana útúr um fárán- legt stand hennar og skoða hana í krók og kring þannig að enginn gæti efast um hryllinginn. Þetta var ógeðsleg risakónguló á stærð við lamb en með höfuð af mæðu- legri jómfrú. Það átakanlegasta var samt ekki útlitið heldur hinn einlægi raunatónn hennar er hún skýrði í smáatriðum frá ógæfu sinni: Hún hafði vart slitið barn- skónum er hún strauk úr föður- húsum á dansleik. Þar dansaði hún alla nóttina í leyfisleysi en á heimleið í skóginum klauf ægileg skrugga himininn í tvennt og úr rifunni hljóp brennisteinselding sem breytti henni í kónguló. Hún át ekkert nema litlar kjötfarsboll- ur sem gustukasamar sálir aumk- uðust til að henda uppí hana. Slíkt sjónarspil — magnað ann- arri eins mannlífsreynslu og ógnarlegri hirtingu — hlaut ósjálfrátt að taka teygjuna úr sýningu á skeytingarlausum engli sem tæpast virti dauðlegt fólk við- lits. Þaraðauki báru þau fáu kraftaverk sem englinum voru eignuð vott um vissa geðveilu, einsog undrið á blindingjanum sem í stað þess að fá sjónina tók þrjár nýjar tennur, eða á lamaða manninum sem stóð ekki upp og gekk en hafði næstum unnið í happdrætti, eða á þeim holds- veika, en sólblóm spruttu í kaun- um hans. Þessar raunabótarjarteiknir sem liktust mest gráu tómstunda- gamni höfðu þegar rýrt orðstír engilsins er kóngulóarkonan gerði endanlega útafvið hann. Og þannig læknaðist séra Gonz- aga af svefnleysinu fyrir fullt og allt og húsagarðurinn hans Pela- yos varð aftur jafn einmanalegur og á þeirri tíð þegar það hafði rignt þrjá daga í röð og krabbarn- ir spígsporað um svefnherbergin. En húseigendur höfðu ekki yfir neinu að kvarta. Fyrir aðgangs- eyrinn byggðu þau sér tveggja- hæða stórhýsi með svölum og görðum og háum grunnmúr svo að krabbarnir kæmust ekki inn á vet- urna og rimlum fyrir gluggum til að halda öllum englum úti. Pelayo setti þaraðauki á fót kanínurækt skammt frá þorpinu og sagði end- anlega upp lélegu lögregluþjóns- starfi sínu. Elísenda keypti sér háhælaða slikjusilkiskó og marga gljásilkikjóla einsog þá sem eftir- sóttustu konufrúr þeirra tíma spókuðu sig í á sunnudögum. Hænsnakofinn var það eina sem ekki var hirt um. Hafði það komið fyrir að þau þvægju hann uppúr krjálíni eða brenndu mirru- korn inni honum þá var það ekki gert til heiðurs englinum heldur til að kveða niður haugdauninn sem sveif einsog vofa um allt og var að gera nýja húsið gamalt. Þegar drengurinn fór að ganga gættu þau þess í fyrstu að hann færi ekki of nærri hænsnakofan- um. En þau gleymdu smáttog- smátt ótta sínum og vöndust ólyktinni og áðuren drengurinn tók fullorðinstennurnar var hann farinn að leika sér inní hænsna- kofanum bakvið sundurryðgað vírnetið. Engillinn var engu vin- gjarnlegri við hann en aðra dauð- lega þótt hann umbæri alla hugvitssömustu hrekki hans af sama jafnaðargeðinu og hundur án framtíðarvona. Þeir fengu hlaupabóluna sam- tímis. Læknirinn sem kom að vitja drengsins stóðst ekki freist- inguna að hlusta engilinn og fann hjá honum svo mörg hjartaloku- sog og mikið nýrnaskrölt að hon- um þótti það óhugsandi að hann tórði ennþá. En það sem hann undraðist samt mest var hversu vængirnir voru rökréttir. Þeir voru svo eðlilegir á þessum al- mannlega líkama að hann gat ekki skilið hversvegna aðrir menn væru ekki líka með vængi. f þann mund sem drengurinn byrjaði í skóla höfðu sól og regn fyrir löngu eyðilagt hænsnakof- ann. Engillinn þrúgaðist áfram hér og þar einsog dauðvona maður sem enginn vill eiga. Þótt þau rækju hann með sópshöggum útúr einu svefnherberginu þá fundu þau hann andartaki síðar í eld- húsinu. Hann virtist vera svo víða í einu að þau voru farin að halda að hann skipti sér í sundur, að hann fjölfaldaði sjálfan sig um allt húsið. Og Elísenda æpti viti sínu fjær af gremjureiði um þá ógæfu sem það nú væri að lifa í þessu helvíti uppfullu af englum. Engillinn gat engan mat bergt lengur. Fornsalaaugu hans höfðu korgast svo mjög að hann var sí- fellt að reka sig utaní stoðir húss- ins og síðustu fjaðrirnar voru orð- nar berir stafirnir einir. Pelayo fleygði yfir hann teppi og gustuk- aðist til að lofa honum að sofa í garðskúrnum. Þá fyrst tóku þau eftir að hann var með hitaóráði á nóttinni, tuldrandi norska tungu- brjóta fyrir gömlum vörum. Þetta var eitt af þeim fáu skiptum sem þau urðu hrædd því að þau héldu að hann væri að deyja og grann- konan spaka hafði ekki einusinni getað sagt þeim hvað ætti að gera við látna engla. En hann lifði ekki einungis af þennan versta vetur sinn heldur virtist hann allur braggast með fyrstu sólskinsdægrum. Hann undi dögum saman graf- kjur í fjarlægasta horni húsa- garðsins þar sem enginn gat séð hann og í desemberbyrjun tóku honum að vaxa stórar og stinnar fjaðrir á vængjunum, fjaðrir af gömlu illfygli sem helst sýndust enn einn ellikvillinn. En hann hlýtur að hafa vitað hvernig á þessum breytingum stóð því að hann gætti þess vel að enginn yrði þeirra var né heyrði sjómanna- söngvana sem hann raulaði stund- um undir stjörnunum. Morgun einn þegar Elísenda var að sneiða niður lauk í hádeg- ismatinn smaug vindhviða sem virtist komin utanaf rúmsjó inni eldhúsið. Elísendu varð þá litið útum gluggann og kom englinum að óvörum þar sem hann var að myndast við að fljúga í fyrsta skipti. Hann var svo klaufskur að hann skar plógfar í kálgarðinn með nöglum sínum og var að því kominn að eyðileggja garðskúrinn með þessum óbjörgulegu vængja- tökum sem runnu til í ljósinu og fundu ekki festu í loftinu. En hon- um tókst nú samt að lyfta sér. Elísenda varpaði öndinni léttar, bæði sín vegna og hans, er hún sá hann fljúga yfir síðustu húsin og halda sér einhvernveginn á lofti með skrykkjóttu vængjablaki ör- vasa hrægamms. Hún sá hann enn er hún hafði lokið við að sneiða niður laukinn og hún sá hann enn jafnvel eftir að það var ómögulegt að hún gæti séð hann því að þá var hann ekki lengur til trafala í lífi hennar heldur aðeins ímyndaður depill við hafsbrún.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.