Lesbók Morgunblaðsins - 03.09.1983, Blaðsíða 12

Lesbók Morgunblaðsins - 03.09.1983, Blaðsíða 12
Var þá nón 15. hluti Ásgeir Jakobsson tók saman „Þórður og hans menn sóttu róðurinn sem ákafast og stefndu inn undir Reykjanes, því að þeir ætluðu, að þangað væri skemmst undir land. Þar var lagt að og gengið á land og tekið vatn á skipin, því að margir voru ákaflega þyrstir. Var þá nón dags.“ Þessi tímasetning er mikilsverð í sögunni af Flóabardaga. Sá, sem upphaflega hefur sagt söguna, hef- ur gert sér ljóst, að Flóabardagi var mikill atburður og afdrifaríkur í sögu þjóðarinnar og því viljað hafa alla frásögnina sem hald- bezta. Hann hefur gert sér grein fyrir, að sú tímaákvörðun, sem þeir Þórður komu sér ásamt um úti á flóanum, að „þá myndi sól nær miðju landsuðri", þegar þeir byrjuðu að róa til lands, var ekki nákvæm heldur aðeins nærri lagi. Hins vegar er sögumaður með nákvæma tímaákvörðun, þegar komið var í land. Hver einasta sveit á sér nónstað í fjalli og það var ekki um neina ágizkun að ræða eða samkomulag heldur: var þá nón dags, en það er kl. 3 að deginum, eða því sem næst. Auðvitað voru gömlu eykta mörkin ekki nein mínútumæl- ing. Þetta er gleggsta tímaákvörð- unin í atburðarásinni, en hún kemur uppum fljótfærnislega ályktun fræðimannanna, sem hafa ákveðið, og því síðan verið fylgt allsstaðar, þar sem fjallað er um Flóabardaga, að orðalagið að „þá myndi sól nær miðju landsuðri" bæri að skilja svo, að þá hafi klukkan verið níu að morgni. í Sturlungu, útgáfu Jóns Jóhannessonar, Magnúsar Finnbogasonar og Kristjáns Eldjárns, er svo sagt í texta- skýringum: ... „sól er í landsuð- ri kl. 9“ og tímalengd bardagans síðan miðuð við þá tímasetn- ingu. „Þórður og menn hans réru sem ákafast“ Fræðimennirnir virðast ekki hafa athugað, að tímaákvörðun- in, sem gerð var við landtökuna og telja verður öruggari, kom ekki heim og saman við þá, sem gerð var úti á flóanum, þegar skipin byrjuöu að róa til lands, ef sú tímaákvörðun merkti, að klukkan hafi þá verið níu. Skýr- ing fræðimannanna á orðafar- inu: „að þá myndi sól nær land- suðri" hlýtur að vera skökk. Það fer ekki á milli mála, að flotarnir hafi mætzt 10—12 sjó- mílur norðaustur af Reykjanesi og á því svæði hafi orustan verið háð, með einhverju reki fram og til baka. Skip Þórðar geta ekki hafa verið sex tíma að róa til lands á Reykjanesi. Róðrahraðinn hefði þá ekki verið nema IV2 til 2 sjó- mílur á klukkustund. Ef svo erf- iðlega hefði gengið róðurinn hefði þess verið getið í sögunni, en þvert á móti er sagt: „Þórður og hans menn reru sem ákaf- ast.“ Þeir reru sem sagt lífróður af því að þeir vissu Kolbein elta sig, ef rynni á hafgola þegar liði á daginn, og þeir gátu ekki siglt undan, af því að þeir voru orðnir reiðalausir, eftir því sem fram kemur í máli Þórðar síðar. Þórð- armenn áttu þannig líf sitt und- ir því að ná landi sem skjótast og komast til fjalla. Af hverju þeir voru orðnir reiðalausir kemur ekki fram. Þeir börðust með beitiásunum og gætu hafa misst þá þannig. Ætli þeir hafi ekki barizt með möstrunum líka? Það er efalaust, að menn hafa verið þreyttir og margir særðir „af þeim sem með Þórði voru, en alþýða manna var lítt sár“ segir síðar, og nógur var mannfjöld- inn, tugir manna á hverju skipi, nema Hrafn hafði tæpast menn aflögu, en lánar þó þeim á Ógnarbrandinum fimm menn. Menn hafa getað verið tveir um ár og þess er hvergi getið í ferð Þórðar að neitt af skipum hans hafi verið þungt í róðri. Sem sagt, það er engra erfiðleika get- ið við landróðurinn. Vel mannaðir teinæringar gátu náð 6—7 sjómílna hraða í logni og skorpuróðri og vanir ræðarar, sem nóg var af á skip- um Þórðar, gátu róið 10—12 sjó- mílur í skorpu. Það er útilokað, að þeim Þórði hafi gengið hægar landróðurinn en sem svaraði 4 sjómílum á klukkustund. Þeir hafa því lagt af stað til lands um 12-leytið en ekki kl. 9. Landsuður er ekki allsstaðar sama áttin Landsuður er afstætt átta- hugtak á voru eylandi með nesj- um sínum og skögum og fjörð- um, sem skerast í ýmsar áttir inní meginlandið. Á Austfjörðum er landsuður í suðvesturátt, á Norðurlandi í hásuður, við Faxaflóa (og einnig á suðurströndinni vestan Dyr- hólaeyjar) er landsuður í suð- austur átt og einnig við Breiða- fjörðinn. Á Vestfjörðum er landsuður nokkuð reikullar merkingar. Vesturfirðirnir skerast allir suðaustur í kjálkann og þar er landsuður og landsunnan þegar vindur stendur úr dalbotnum fjarðanna. Hins vegar ganga þverfirðir margir beint suður úr ísafjarðardjúpi og á þeim fjörð- um verður landsunnan einnig úr dalbotnunum en þá er vindur hásunnan. Ekki veit ég hvað þeir kalla landsunnan á Strönd- um en trúlega er það hásunnan, ef ekki suðvestan. Við Húnaflóa er hásunnanátt kölluð land- sunnan og það á sjálfsagt við um allt Norðurland. En þótt landsuður væri þann- ig afstætt áttamark, þá fylgdu því tvær algildar reglur, og önn- ur sú, sem í orðinu felst, að vindur væri suðlægur og hin, að vindur stæði af meginlandinu. Allt hið sama er að segja um sólarafstöðuna. Sól í landsuðri var sól í suðri og yfir megin- landinu, ekki yfir nes eða skaga, þótt þar væri suður. Vestfirðingarnir þarna úti á Flóanum hafa ekki kallað sól í landsuðri yfir Skagann. Þeirra landsuður var Vatnsnesið og fjöll- in fyrir botni Húnaflóa, sem einn- ig er hið rétta landsuður við Húnaflóa. Þeir eru klárir á því, hvað sé nokkurn veginn rétt suður, þeir vita að Húnaflóinn liggur í norður og suður og þeir eru á honum miðjum. Hásuður eða sólarsuður er því alveg á hreinu fyrir þeim og það vill svo til, að það er einmitt einnig landsuður á þessum slóðum. Það er hugsun manna, sem halda að landsuður sé ævinlega í suðaustur, hvar sem þeir eru staddir, sem álykta eins og fræðimennirnir fyrrnefndu hafa gert. „Kom það ásamt með þeim, að þá myndi sól vera nær miðju landsuðri“, merkir að sól var nær því komin í hádegisstað og þá gengur róðradæmið upp. Þeir voru þrjá tíma að róa í land, leggja af stað um hádegisleytið og lenda um nón og róa þá til dags jafnaðar um 4 sjómílur á klukkustund. Þóf með snörpum hryðjum Þessar leiðréttu tímasetn- ingar hér lengja tímann frá því þeir „fundust" og þar til þeir Þórður fóru að róa til lands um eina 3—4 klukktíma. „En þá var lágur veggur undir sólina, er þeir fundust." Þegar þeir „fundust" á líklega við, þegar þeir höfðu séð hvorir til annarra og felldu seglin og bjuggust til orustu, fremur en þegar sjálf höggorustan hófst, eða skipin voru komin í tengsli. Það var svo um sjóorustu, þegar flotar áttust við, að sú viðureign gat staðið lengi án þess menn þreyttust af vopna- burði. Þegar lesin er frásögnin af gangi orustunnar, þá er það ljóst að það er ekki um uppi- haldslausa höggorustu að ræða hjá öllum þessum sex hundruð og áttatíu mönnum, sem voru samanlagt í báðum herjunum. Þeir voru nokkurn tíma að grýta hvorir aðra, bæði áður en skipin lögðust í tengsl og eins á eftir. Það er svo einnig ljóst, að bar- daginn var þóf með snörpum hryðjum, þegar greiddar voru uppgöngur og sá atgangur mæddi á tiltölulega fáum köpp- um eða svo segir í sögunni, að nálega var hver maður sár er með Þórði hafði verið, en alþýða manna lítt sár. Sum skipanna koma ekkert við sögu í sjálfum bardaganum og er um það dálítið meinleg at- hugasemd í sögunni. Þegar Þórðar skip greiddu at- róðurinn er aðeins sagt frá hvernig fjögur skipanna lögðu fram. Ognarbrandur var næstur Horni á móti skipi Árbjarnar Illugasonar, þá næst Þórður á sinni skútu, þá Helgi Halldórs- son og Ingjaldur og Sanda- Bárður í annan arminn móti skipi Sökku-Guðmundar. „En þar í milli lögðu menn fram skipum sínum sem drengskap höfðu til“, eða með öðrum orð- um: eftir því, sem þeir höfðu kjark til. Þórður hefur gengið úr öllum ham Milli þess, sem greiddar voru uppgöngur, börðust menn um stafna og það gátu auðvitað ekki margir komizt að þar í éinu og þá hafa menn getað hvílst. Eftir að skip Þórðar losnuðu úr tengslum, þá hafa þeir Þórður getað verið lengi að dunda sér við það á sínum léttu og liðlegu skipum, að grýta og skjóta á Kolbeinsmenn, sem ekki fengu að gert, gátu ekki á sínum stirðu skipum króað Þórðar skip af. Það má reyndar segja, að þarna á Húnaflóa 25. júní 1244 hafi sjóorusta Grikkja og Persa við Salamis 480 f. Kr. verið að endurtaka sig, þótt allt væri smærra í sniðum á Húnaflóa nema bardagahugurinn og grimmdin, og varla hafa Grikkir átt marga aðgangsharðari en Þórð kakala, ef rétt er sem Ingj- aldur segir hér á eftir, að hann hafi hroðið þrjú skip. Þótt það sé auðvitað of í lagt hjá skáldinu að eigna það Þórði einum, þá er glöggt, að hann hefur gengið úr öllum ham í bardaganum og sú sveit sem með honum var barizt hraust- lega og borið hita og þunga bardagans, þegar greiddar voru uppgöngur. Svo yrkir Ingjaldur: Hrauð, þars hermenn kníðu, hlutvandr, dunur randa, menn vissu það, þrenna Þórður hlaupmari borða. Lýðk frák líf við dauða liðveljanda selja, en þess, er grið greindust, galt Leirhafnar-Hjalti. Þetta útleggst: Þórður, hinn hlutvandi mað- ur, hrauð þrjú skip, þar sem her- mennirnir börðust. Menn vissu það. Mér var kunnugt um, að liðsmennirnir fengu líf sitt í hendur fyrirliðanum í stað þess að deyja (svo), en Leirhafnar- Hjalti galt þess, að friðurinn rofnaði. Og Ingjaldur yrkir um liðs- muninn í næsta erindi Atlögu- flokks og kemur þar með aðalástæðuna fyrir því að menn Þórðar forðuðu sér, þótt það væri fyrr en Þórður ætlaði. íms hafði lið ljóma leikherðandi verðar, ruðusk mél í styr stála stinn, tveim hlutum minna. Því frák Þundarskýja þingeggjandi leggja Gunnars seins frá glaumi græðis skíð og síðir. Efni þessa þrælrekna erindis er: Bardagamaðurinn hafði tveim hlutum minna lið. Hin stinnu vopn voru roðin í orustunni. Ég frétti að þess vegna hefði hann lagt skipum sínum burt frá orustunni að lokum. Frh. síðar. 12

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.