Lesbók Morgunblaðsins - 24.12.1983, Blaðsíða 13

Lesbók Morgunblaðsins - 24.12.1983, Blaðsíða 13
Leifur Breiðfjörð er með vinnustofu sína í húsi Breiðfjörðs blikksmiðju við Sigtún, sem Agnar faðir hans byggði á sinum tíma, — og Jóhannes Kjarval var síðasta spölinn með vinnustofu á efri hæðinni. Þannig heldur listin áfram að verða til í þessu húsi og þegar mig bar þar að garði síðla nóvembermánaðar, var allt á fullu í vinnustofu listamannsins. Vinnu- teikning af hluta gluggans mikla í Bú- staðakirkju reis þar í fullri stærð og gnæfði yfir höfundinn, þar sem hann skar marglitt gler í búta líkt og þegar klæð- skeri sníður flík. Þessu púsluspili er raðað saman á vinnuborði og kona Leifs, Sigríður Jó- hannsdóttir, veflistakona, beitti sérstök- um hníf á blýskeytingarnar. Hún annast blýlagninguna nú orðið og er fleyg og fær í þeirri grein, svo þau standa saman að þessu hjónin. Þau standa einnig saman að veflistinni, sem er þó ekki iðkuð hér inn- an um glerið, heldur á heimili þeirra, þar' sem Sigríður hefur vefstólinn og annað sem til þarf. Það formræna vinna þau saman, en Sigríður sér um vefnaðinn. Inntak glermyndanna er úr hugmynda- banka Leifs og ekki alls fyrir löngu stóð í anddyri Hallgrímskirkju sýning á vinnu- teikningum Leifs, sem ugglaust hefur far- ið framhjá mörgum. Þar mátti sjá lítil frumdrög með ákveðnum kjarna eða grundvallarhugmynd, sem síðan er út- færð nánar og loks í fullri stærð. Þar voru vinnuteikningar að glermynd, sem sett hefur verið upp að Reykjalundi; önnur úr Hússtjórnarskólanum á Akureyri og þrír kirkjugluggar, sem eiga að fara í kirkjuna á Flateyri. Þessir gluggar eru að sjá dagsins ljós í endanlegri gerð í vinnustofunni við Sig- tún. Þeir eru úr steindu gleri, sem svo hefur verið nefnt; dregið af sögninni að steina, sem merkir að mála á gler. Því er þó sjaldnast til að dreifa, — glerið er ekki málað í meðförunum, heldur er notað mismunandi litt gler og stundum glært, en fyrir kemur að málað sé á glerið með svörtum lit, sem síðan er brenndur inn í glerið við háan hita. Gott orð vantar yfir þá list, sem byggir á þessari gömlu hefð og fengið hefur verulega endurnýjun uppá síðkastið. Glerlist og glerlistamaður hitta ekki beint í mark, en verða notuð unz betri tillaga berst. Þegar glerlist ber á góma — einkum og sér í lagi ef minnzt er á steinda glugga — verður fólki umfram allt hugsað til kirkjuglugga. Þvi er ekki að neita, að hefðbundin notkun á steindu gleri var mjög bundin kirkjugluggum. En hitt blasir við nú orðið, að einskonar endur- fæðing hefur átt sér stað í glerlist og nægir að benda á fjölmörg verk eftir Leif Breiðfjörð, sem prýða bæði einkaheimili og opinberar byggingar, svo sem banka, veitingahús og skóla fyrir utan þær 10 kirkjur hér á landi, sem Leifur hefur lagt til glugga. Svo aðeins eitthvað af þessu sé nefnt nánar, má benda á verk í Þjóðleik- húskjallaranum, Hótel Sögu, Skálafelli á Hótel Esju, Esjubergi í Hótel Esju, í Landsbanka íslands á Neskaupstað og Húsavík, vinnuheimilinu að Reykjalundi, Veitingahöllinni í Reykjavík og Hús- stjórnarskólanum á Akureyri. Listasafn íslands.á að sjálfsögðu verk eftir hann og fyrir utan kirkjur og kapellur hérlendis er glugginn sá hinn mikli í St. Giles- kirkjunni í Edinborg, sem nánar verður vikið að síðar. Glerlist Leifs Breiðfjörð má í aðalat- riðum skipta í fernt: Frjáls glerlistaverk, pöntuð verk á einkaheimili, í þriðja lagi verk unnin fyriropinberar stofnanir ým- iskonar, — og í fjórða lagi kirkjulist. Á sýningum hefur Leifur annað veifið sýnt frjáls myndverk, sem hann hefur unnið án þess að nokkur pantaði þau. Þesskonar verk lenda oftast í eigu einstaklinga og prýða heimili þeirra og gegna þar sama hlutverki og málverk eða önnur myndlist. Þessar frjálsu myndir Leifs eru margs- konar að gerð; stundum ef til vill með ívið sterkari litum en stóru verkin, en ekki alltaf. Stundum með einhverju þekkjan- legu inntaki, en oft óhlutlæg. Oftast er verkum af þessu tagi komið fyrir í gluggum og dagsbirtan gefur þeim líf, raunar síbreytilegt líf, sem fer eftir birtunni hverju sinni. Verr reynist að koma glermyndum fyrir á vegg með raf- ljósi á bak við, sem alltaf er eins og nær ekki að upptendra myndina á sama hátt og dagsljósið. Stærsti hlutinn af verkum Leifs Breiðfjörð hefur farið á opinbera staði og yfirleitt eru þau verk unnin eftir pöntun. Það hefur lengi legið í landi að arkitektar geri alls ekki ráð fyrir listaverkum sem hluta af heildinni, en á þessu hefur orðið breyting, segir Leifur. Sumir arkitektar gera ráð fyrir listaverkum þegar á frum- stigi í stað þess að athuga málið kannski, þegar búið er að ganga frá byggingunni. Sú endurvakning í glerlist, sem áður er minnzt á, felst meðal annars í þvi, að glerlistamenn eins og Leifur nota ný efni með áður ókunna möguleika. Þar á meðal er til dæmis ópalgler og ópakgler, sem hefur í för með sér að gluggi nýtur sín einnig utan frá; verður þá eins og mósaík. Eins og margir munu hafa tekið eftir í verkum Leifs í opinberum byggingum, notar hann oft gagnsætt gler með því lit- aða, en grafískum áhrifum er náð með blýlinum eða innbrenndum lit á glerið. Steindir gluggar voru áður fyrr alveg dauðir utan frá séð; litirnir nutu sín ekk- ert, en aðeins mátti greina blýlagn- ingarnar. Nú á dögum er allt gler efnivið- ur. Leifur notar jafnvel gler með vírneti innaní, mynstrað gler, sándblásið gler og spegla. 13

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.