Lesbók Morgunblaðsins - 31.05.1997, Síða 12

Lesbók Morgunblaðsins - 31.05.1997, Síða 12
EITT ANDARTAK I i I i i I 2 ! 4 I í f i i p fl SMÁSAGA EFTIR LAILA STIEN Þóra Elfa Björnsson þýddi. Eg sat við gluggann og leiðrétti stærðfræði- verkefni þegar ég sá hana koma. Hún fór hratt yfir ísilagða ána. Nýsnævið rauk og hár hennar blakti. Uti voru tuttugu gráður frost eða þar um bil. Ekki svo kalt að hún hefði sett á sig húfu. Undir melnum hallaði hún á skakk og ók snjósleðanum ská- hallt upp brattan sneiðinginn. Svo þaut hún áfram yfir túnið og snar- stoppaði við húströppurnar. Hún beygði sig fram og burstaði snjó- inn úr hárinu áður en hún gekk inn. Ég kinkaði kolli til hennar gegnum gluggann en hún sinnti því ekki. Brátt stóð hún í dyrun- um. Andstutt. Eitthvað í augunum sem ég hafði ekki séð fyrr. Eitt- hvað stirðnað. Samt flögrandi. Hún virtist ringluð. — Komdu inn, sagði ég. Hún stóð kyrr. — Komdu inn og sestu. Ég stóð upp frá skrifborðinu, fór að sóffanum og settist. Hún fylgdi á eftir mér. Settist i hægindastólinn, fremst eins og hún ætlaði að stökkva fljótt á fætur aftur. Það var ekki ætlunin að trufla, sagði hún. Hún baðst afsökunar. Ég sagði hvaða, hvaða, fínt að fá smá hlé, viltu kaffi? — Nei, neitakk, Hún rótaði í vösunum á úlpunni en fann ekki það sem hún leitaði aði. — Reykja? spurði ég. Hún brosti. Ég rétti henni sígarettupakkann. Hendur hennar titruðu þegar hún tók við honum. Bjánalegt að koma svona og trufla, muldraði hún, sat með pakkann í höndunum eins og hún vissi ekki hvort hún ætti að rétta mér hann aftur eða leggja hann á borðið. Ég rétti fram höndina en um leið lagði hún hann á borðið. Ég stóð upp og sótti eldspýtustokk af arinhillunni. Sagði að hún truflaði alls ekki, aldeilis ljómandi að líta aðeins upp úr stritinu. Hvort hún væri viss um að hún vildi ekki kaffi. — M-m, alveg viss. Hún leit í kringum sig. — Ágætis hús, sagði hún, ofn og... — Það er ekki sem verst, sagði ég. Svo kom sagan. Þeir höfðu komið með liðssöfnuð. Þrír saman. Einn var uppskafningur að sunn- an, hann sagði eiginlega ekki neitt. Eða réttara sagt, hann sagði það sama allan tímann: — Óþekktarormar, sagði hann, óþekktarormar. Börn eru börn, ekki er hægt að múlbinda þau þó opinberir emb- ættismenn séu í heimsókn. Krakkarnir höfðu leikið sér eins og þau voru vön, voru hvorki betri né verri en gengur og gerist á þessum aldri. En þessi var víst ekki van- ur börnum. Svo var það Geddan. Hann var líka frem- ur fáorður. Sat bara og lét fara vel um sig. Þetta á við hann, að traðka á sínu fólki. Ekki svo að skilja að hann sé einn um það, hann sýnir það bara svo greinilega. Glottir breitt. Þess vegna fékk hann uppnefnið. Það var Bláljósið sem hafði orð fyrir þeim. 0g talaði mikið. Talaði þau alveg í kútinn. — Var lykillinn í? — Nei, svaraði Jóhann. — Hvar var hann þá? — í jakkavasanum. — í þínum jakkavasa? — Nei. - Hafðirðu fengið hann lánaðan? — Ne-ei. Bláljósið hrukkaði ennið, beið eftir frek- ari útskýringu. — Nei, stamaði Jóhann, við erum vanir að taka ... — Það er greinilegt, sagði fyrirliðinn, — það var víst ekki faðir þinn sem var gripinn í síðustu viku með tuttugu skrokka? — Nei. — Nei, ekki, ókey. Sorrí. En þú sóttir sem sagt lykilinn í vasa Per Henriks og keyrðir af stað? — Já. — Hvað varstu búinn að drekka mikið? — Einn bjór. — Það var ekki mjög sniðugt. — Nei,.. .það var asnalegt. — Það var heimskulegt, fjandinn hafi það, heimskulegt. — Og af hveiju fórstu ekki á þínum bíl? — Hann var inni í skúr. Bláljósið gapti svo skein í allar tannfyll- ingar. — Hver djöfullinn, heyrðuð þið þetta? Heyrðuð þið þetta? gargaði hann og sló sér á lær. Hinir tveir brostu og hristu höfuðið. — Þú notar sem sagt bíl Per Henriks þegar þú keyrir fullur, er það ekki? hélt hann áfram. — Ég var ekki fullur. — Þú hafði neytt áfengis, það var lykt af þér, það er heila málið. Hvar er Per Henrik annars? — Fór til flalla. — Og þá er óhætt að taka bílinn hans, ha? — Við erum erum nú mágar. Þeir skiptust á augngotum. Sá að sunnan dró upp pakka með löngum, þunnum sígar- ettum úr yfírhöfninni. Kveikti sér í. Bláljós- ið rétti fram höndina, fékk líka eina. — Jæja, jæja. Synd með þennan fína bíl, sagði hann og blés reyknum til lofts. — Hvemig hefur hann bróðir þinn annars ráð á að eiga svona rosalegan kagga, hélt hann áfram. Þessu var beint til hennar. Hún sat á kolli á miðju gólfi og reyndi að hasta á börnin. — Hann vinnur, sagði hún stuttaralega. — Góð hugmynd, sagði Bláljósið og leit á Jóhann. — Mjög góð hugmynd. Krakkarnir stukku fram og aftur og hringinn í kringum borðið. Gerðu allt sem þau gátu til að vekja á sér athygli. Það var víst bara sá að sunnan sem tók eftir þeim. Hann reykti og stundi, stundi og reykti. Þegar krakkarnir urðu háværir, ranghvolfdi hann í sér augunum og leit til himins. Hún hastaði á krakkana en þau létu sem þau heyrðu það ekki. — Verið til friðs, öskraði hún allt í einu. Þau staðnæmdust og litu á hana. Svo fóru þau að leika sér í dótakassanum sem stóð rétt innan við dyrnar. Sunnlendingurinn brosti. Hún fann að hún roðnaði. Bláljósið gekk hreint til verks: — Hvern- ig stendur á því að þú tapaðir veginum fyrst þú hafðir bara drukkið einn bjór? — Ég tapaði honum ekki. Það kom hund- ur á móti mér. — Og þá misstirðu stjórn á bílnum? — Nei. — Nei? — Ég beygði frá. — Einmitt. Einmitt það, já. Þú stýrðir sem sagt með fullri meðvitund beint inn í yfirgefinn snjósleða og stórskemmdir bæði hann og bílinn? Jóhann svaraði ekki. Geddan sat og stangaði úr tönnunum með eldspýtu. Sunn- lendingurinn drap í sígarettunni í ösku- bakkanum. Hann var fullur. Ætti að tæma hann, hugsaði hún en kom sér ekki að því að standa á fætur. Bláljósið talaði og tal- aði. — Hvað hefðirðu gert ef það hefði set- ið maður á sleðanum? Geddan hætti að stanga úr tönnunum. Bláljósið sem hafði allan tímann setið með krosslagðar hendur lét nú hendurnar renna hægt frameftir lærunum og hallaði sér fram. Jafnvel krakkarnir hættu að rísla sér og stóðu hreyfingarlaus um stund. Eins og þau biðu Iíka. — Skildirðu spurninguna. Á ég að endur- taka hana? Ekkert svar, bara örlítil axlalyfting. — Veistu það ekki? Geturðu ekki svarað? Bláljósið stundi og sneri sér að félögun- um. — Andskotinn sjálfur, gaurinn er ekki bara þjófur heldur lífshættulegur líka. Hún sá að Jóhann skipti litum. Sá að hann andaði þunglega, bringan reis og hné. Hún reyndi að fanga augu hans en tókst ekki. Hann leit ekki upp. Á sömu mínútu fóru krakkarnir að ríf- ast. Þau toguðust á um bíl. Einn af þeim upptrekktu. Þau áttu marga slíka. Alveg glás. Þeir trekkjast upp við það að maður strýkur þeim aftur á bak við gólfið nokkrum sinnum. Svo sleppir maður þeim og þeir þjóta fram á við. Þessi var sérstak- ur, rauður, sem þau vildu bæði fá. Annað hélt bílnum í hendi sér hátt á lofti meðan hitt teygði sig og skrækti: Minn, minn, þetta er minn bíll. Geddan breikkaði brosið. Sunn- lendingurinn ranghvolfdi í sér augunum svo um stund sást að- eins í hvítuna. Bláljósið sat og kinkaði kolli. Kinkaði og kinkaði. Svo kom það. — Það eru víst fleiri í þessu húsi sem eiga bágt með að greina mun á mínu og þínu. Já, snemma beygist krókurinn ... Það gerðist svo skyndilega. Hún áttaði sig ekki almennilega á því hvernig það gerðist. Allt í einu lá hann bara. Það blæddi undan öðru eyranu. Geddan og sá að sunnan stóðu sinn við hvora hlið Jóhanns og héldu um handleggi hans. Beygðu þá aftur og héldu með báðum höndum. Jóhann stóð grafkyrr. Hreyfði ekki einn fingur. Enginn sagði orð. Allt var steinhljótt. Eina hljóðið sem barst í gegnum þögn- ina kom frá gólflnu undir glugga- num. Hrímið á rúðunum þiðnaði. Nú draup vatnið á gólfið. Litlir dropar. Löng stuna barst frá Blá- ljósinu. Og önnur til. Svo reisti hann sig upp. Hann hreyfði ekki mótmælum þegar þeir tóku hann með sér. Sunnanmaðurinn hafði farið út í bíl og sótt handjám. Það var eng- in þörf fyrir þau en þeir um það. Hann yrði víst lengi. Svonalagað er eitt það versta sem þeir geta haft á mann. Hún hafði drepið í sígarettunni. Ég benti á pakkann. Hún kinkaði kolli í þakklætis- skyni og kveikti sér í annarri. Ég spurði hvort hún hefði talað við hann. — Nei. — Hefurðu ekki hringt til hans? — Ju-ú. Svo létti hún á sér: Hún hafði fjórum sinnum hringt til hans. Fyrsta skiptið hafði hún lent á þægilegum manni en hún varð svo ringluð þegar hann spurði hvert erindið væri og hvort það væri áríðandi og hvort hann gæti ekki bara fært honum skilaboð að hún hafði hreinlega misst málið og lagt á. Hin þrjú skiptin hafði hún lent á ruglud- alli. Hann spurði líka hvað hún vildi, hvert erindið væri. Hún sagðist bara ætla að spjalla. — Og hvað ætlið þið að spjalla um, spurði hann, — um veðrið? — Meðal annars, hafði hún svarað og var nokkuð ánægð með svarið. En hann gekk lengra. Stríddi henni. Sneri út úr öllu fyrir henni. Að lokum gafst hún upp. Lagði á. Næsta skiptið spurði hann hvort hún væri farin að þrá manninn svona óskaplega, hvort hún gæti ekki lifað án þess að heyra rödd hans í fáeinar vikur. Hvort hún væri virkilega svona skotin ennþá. Þriðja skiptið lagði hún á um leið og hún heyrði röddina. Hún varð að tala við hann, sagði hún. Það var áríðandi. Það hafði komið bréf. Hann hafði fengið staðfestingu á plássi á logsuðunámskeiðið í Overtorneá. Þeir vildu fá svar strax. — Getur þú hringt? -Ég? -Já. Hún leit ekki upp, sat og sveiflaði hend- inni inn í reykinn. Hún titraði. — Auðvitað, sagði ég. Við stóðum upp og gengum fram í for- stofu. Ég sló inn símanúmerið sem hún hafði skrifað með kúlupenna í lófa sér. Þeir svöruðu með það sama. Þetta er vegna fanga, sagði ég. Konan hans þarf að koma til hans áríðandi skilaboðum, væri hægt að fá samband við hann. — Andartak, var svarað, bíðið eitt andar- tak. 12 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ~ MENNING/LISTIR 31. MAÍ 1997

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.