Lesbók Morgunblaðsins - 10.01.1998, Blaðsíða 5

Lesbók Morgunblaðsins - 10.01.1998, Blaðsíða 5
MAKLEG málagjöld: flokkum þeir fóru/til Fégjarnsborgar/og höfðu byrðar af blýi. Úr sömu myndröð. HINIR hólpnu: lásu englar bækur/og ymna skrift/helgar yfir höfði þeim. Úr sömu myndröð. mælið maður er moldu samur var notað í tvenns konar skyni. í fyrsta lagi að minna fólk á jarðlegan uppruna líkamans, rétt eins og Guðmundur góði og aðrir dýrlingar höfðu í huga á efstu stundum ævi sinnar. Og á hinn bóginn til að hvetja menn til að stunda á lítil- læti. 4. Beiðni í tuttugasta og áttunda erindi Sólarljóða eru þrjár spakar setningar, og lúta þær allar að beiðni, eða listinni að biðja, en að henni er vikið bæði í Hávamálum „Veistu hvers biðja skal?“ og Hómilíubókinni: „Skulum vér og vita hvers biðja skal“. Hugmyndin kann að eiga sér rætur bæði í heiðni og kristni: Æsta [= óska, æskja] þykir einkum vandlega þesserþykirvantvera. Alls á mis verður sá er einskis biður. Fár hyggur þegjanda þörf. Fyrsta setningin bergmálar 46. erindi Hugsvirmsmála: „Einskis biðja / skalt þú ann- an / þess er þú eigi þarft. Osnotur maður / bið- ur þess iðulega / er hann þarf hvergi að hafa.“ Þó þykir mér sennilegt að skáld Sólarljóða hafí stuðst við latneska fyrirmynd, sem mætti snara á þessa lund: „Þú skalt æskja þess sem er sanngjarnt eða virðist vel sama, enda er heimska að biðja um hitt sem hægt er að synja með fullum rétti.“ Áþekka visku er að finna í Konungs skuggsjá: „Það er og mannvit ef maður vill beiðast einna hverra hluta að kunna skil á því hverra hluta hann beiðist, þeirra er viðurkvæmilegir séu.“ í fornsögum eru ýmis dæmi þess að menn kunna ekki listina að biðja og beiðast einhvers sem verður þeim til meins. Frægasta dæmið er í Eyrbyggju. Vermundur mjóvi dvelst vetr- arlangt með Hákoni Hlaðajarli, og fer býsna vel á með þeim tveim, enda voru báðir stórættaðir og munu hafa dýrkað Óðin. Áður en Vermundur hverfur heim í Bjarnarhöfn biður jarl hann að hugsa um „ef nokkurir eru þeir hlutir í mínu valdi aðrir meir en aðrir er þú vilt þiggja þér til framkvæmdar en báðum okkar til sæmdar og virðingar." Þótt Ver- mundur væri höfðingi í skapi, þá kunni hann ekki listina að æskja sér réttra hluta svo að bæði honum og gefanda yrði til sóma, heldur biður Snæfellingur um tvo sænska berserki. Jarli finnst fátt til um beiðnina, lætur þó ber- serki í té, en svo fór að berserkjaþætti lauk með litlum sóma handa Vermundi. Önnur setningin 28. erindi Alls á mis verð- ur/sá er einskis biður er mjög svipuð spak- mæli í þrændlum: Ekki hefur sá er einskis bið- ur. Menn sem hvorki þora né nenna að láta í ljós hvað þá vantar helst verða að sætta sig við skort. Einsætt er að Arngrímur ábóti hefur slíkt spakmæli í huga þegar hann segir í Guð- mundar sögu biskups „en það er frábært að hjálpin grípi þann er einskis biður um sína þörf‘ (Bisk. II 24). Þótt orðalag sé með allt öðru móti, þá felur gamli málshátturinn Fáir vita ómála mein (K) í sér náskylda hugsun. Þriðja setningin Fár hyggur þegjanda þörf minnir á ummæli Hávamála um ógestrisni í söl- um Suttungs jötuns: „Fátt gat eg þegjandi þar.“ Á hinn bóginn gegnir allt öðru máli um þann sem hefur rænu á að biðja um hlutina: Sá hefír krás er krefur (í Sólarljóðum, 29), sem minnir á Sá fær er fríar (í Hávamálum, 92). 5. Huggan í 26. erindi ræður skáldið: „Grættan gæla/skaltu með góðum hlutum.“ Sögnin að gæla merkti „að gleðja" og er því andræð sögninni að græta, sem merkti að „angra, koma einhverjum til að gráta.“ Orðtakið að „gæla e-n með gjöfum" kemur fyrir í norsku þýðingunni á franska gamanleiknum Pamfílus. Sagnirnar að græta og að gæla eru engan veg- inn algengar, en nú vill svo skemmtilega til að þeim er einnig skipað saman í Barlaams sögu og Jósaphats (47): „I dag gælir hann, í morgin grætir hann.“ Náskylt spakmæli er í Máls- háttakvæði, þótt orðalag sé annað: ‘Hugga skal þann er harm hefir beðit. Bergmáli frá slíkum orðskvið bregður fyrir í Martínus sögu biskups: ‘En til hvers græti eg þig, bróðir, í þessu riti, þar er eg vildi at þú værir huggað- ur, þótt eg megi ekki hugga sjálfan mig af harmi mínum. 6. Matsínka í fyrstu dæmisögu Sólarijóða er ræningi og stigamaður helsta persónan. Eitthvert minnis- stæðasta auðkennið á honum er matníska: Einn hann át oft harðla, aldrei bauð hann manni tíl matar, áður en móður og meginlítill gestur gangandi af götu kom. Hér er vitaskuld ekki um spakmæli að ræða en hugmyndin um matsínka kauða er athyglis- verð; hún birtist með tvennu móti. Annars vegar snæddi hann einn sér, eða „át einæt- um“, eins og komist er að orði í Giúmu, og á hinn bóginn var hann óbeinn við gesti, tímdi ekki að gefa þeim mat. I Ketils sögu hængs er gefið í skyn að tiltekinn stigamaður hafi sama galla: „Ertu matníðingur, Sóti?“ spyr Hængur á sínum stað. Þeir húsbændur sem svelta hjú sín og eru of nískir til að gefa snauðum gesti ætan bita hafa löngum þótt flestum öðrum argari. Slíkir gaurar voru jafnan kallaðir mat- níðingar; frægur var Hálfdan hinn mildi og hinn matarilli, sem gaf í mála mönnum sínum jafnmai’ga gullpeninga sem aðrir konungar silfurpeninga, en hann svelti menn að mat; svipað segir um þá feðga Hákon og Harald í Ólafs sögu Tryggvasonar hinni mestu að þeir „voru illir af mat þó að þeir væri mildir af gulli.“ Um Geirröð í inngangi Grímnismáls segir Frigg að hann sé „matníðingur sá að hann kvelur gesti sína, ef honum þykja of margir komnii- [...]“ En þó reyndist svo að „það var hinn mesti hégómi að Geirröður kon- ungur væri eigi matgóður.“ Á matnísku örlar í Fóstbræðra sögu og Bjarnar sögu Hítdælakappa. En aldrei taddi matarverri bóndi tún í Húnavatnsþingi en Styrmir á Ásgeirsá. í Bandamanna sögu kemst Egill á Borg svo að orði við karl: „En þú ert matsínkur, og er það til marks að þú átt bolla þann, er Matsæll heitir, og kemur enginn sá til garðs að viti hvað í er nema þú einn.“ Þótt Styrmir éti ekki einn, þá tekst honum samt að halda mataræði sínu leyndu, og þótti slíkt fá- dæma gaursháttur. Vel má vera að skáld Sólar- ljóða hafi haft eitthvert útlent rit í huga, svo sem ritgerðina Um festarfé sálarinnar, sem Gunnar Harðarson gaf út fyrir nokkrum árum, en þar hljóðar einn spurdagi á þessa lund: „Hver er sá húsbóndi er einn etur brauð sitt, einn vélir um drykk sinn [... ]?“ 7. Munúð Vísuhelmingur í Hugsvinnsmálum flytur svofellda siðspeki: Líkams losti tælir lýða hvem, er í sællífí situr. Þótt slíkt geti naumast talist mikill skáld- skapur, þá verður ekki annað sagt en að skýrt og þokkalega sé að orði komist. Til saman- burðar verður 50. erindi Sólarljóða: Hörundar hungur tælir hölda oft, hann hefir margur til mikinn. Bæði skáldin nota sögnina að tæla, en þó er sá munur á að gerandi hennar í Hugsvinnsmál- um er svo ótvíræður, að hvort orðið um sig „lík- amur“ og „losti“ eru nákvæmlega sömu merk- ingar og í daglegu máli, en í Sólarljóðum er skáldlegra orðalagi beitt; með því að skipa sam- an hörundi og hungri, eins og hér er gert, þá öðlast hvort orðið um sig að heita má nýtt hlut- verk. Algengasta merking orðsins hörand (hvk.) er „húð“, en hér er það karlkyns og merkir „kynfæri karlmanns“. Hungur eða sultur leynd- arlims virðist langtum máttkari girnd og örð- ugri viðfangs en réttur og sléttur losti. Með því að snúa setningunni „Líkams losti tælir lýða hvem“ á fágaðra mál svo: „Hörundar hungur tælir hölda oft“ þá hefur annað einnig á unnist I fyrra dæminu em allir (hver lýða) seldir undir eina sök, en í hinu síðara er hiklaust gert ráð fyrir undantekningum, svo sem atviksorðið oft felur glögglega í sér. 8. Að liðinni munúð Sú hugmynd má teljaset býsna algeng að munúð og gleði séu skammæjar í eðli sínu og síðan taki langæ leiðindi við, svo sem gefið er í skyn í þessum vísuhelmingi í Sólarljóðum: Sætar syndir verða að sárum bótum; æ koma mein eftir munúð. Orðtakið ‘sætar syndir mun stundum heyr- ast úr munni kristinna höfunda sem era sífellt að vanda um hegðun fólks, einkum ef það hef- ur léttúð til að gamna sér við hitt og þetta. Orðið mein var langtum algengara forðum en nú, enda mætti nota það miklu meir en gert er. Hér virðist mein merkja ‘angur, böl, hvers konar nauðir sem dynja yfir menn, fyrr á öld- um var það stundum notað um syndina sjálfa. Hinn forni höfundur Hungurvöku (hub 1200), spekingur góður, lætur orð falla á þessa lund; „Margur hefir þess raun, ef hann leitar sér skammrar skemmtanar, að það kemur eftir á löng áhyggja.“ I fornri hómílíu (104) er tekið öllu alvarlegi-a á hlutunum: „Lítil er stund munúðlífsins, en fyr þá týnir maður eilífu lífi.“ Önnur hómílía flytur kenn- ingu sem kemur heim við fyrra hlutann: Skammætt er yndi syndarinnar. Barlaams saga og Jósaphats orðar þetta svo: „En að liðinni gleði er það leiðast er áður var kærast. Hugsa svo fyrir að liðinni þessa heims gleði, þá er engin hjálp.“ Á öðrum stað segir í sömu sögu: „[...] og heimsins munúð, þá skal skjótt frá þér líða og þig fyrir láta. Fornar skáldsögur beita snöfurlegu orðalagi: Margur fær þrá fyrir litla stundarfýst (Bragða- Mágus saga) og Eftir stutta gleði mun koma löng hryggð (Adonias saga). Enginn hörgull er á latneskum orðskviðum af slíku tagi, og sakar ekki að minna á einn: Post gaudia mille dolores. = „Eftir gleði - þúsund sútir“. Hér skal klykkja út með upphafinu á 10. v. Sólar- ljóða: Munaðarríki hefír margan tregað. Það mikla vald sem munúð fylgir hefir valdið mörgum angri og sút. 9. Hverfleiki auðs Sú hugmynd er býsna algeng að auði sé illa treystandi, og að henni lýtur fyrri hluti 8. er- indis í Sólarljóðum: Auði né heilsu ræður engi maður þó honum gangi greitt I Hávamálum segir svo: „Svo er auður sem augabragð. Hann er valtastur vina.“ Ummæli Hugsvinnsmála (34) eru önnur: „Margur er sá aumur er fyrir auði ræður. Illt er auði að trúa.“ „Oft verður sá aumur er fyrir aurum ræður og hefír aurum amað.“ Síðar í sama kvæði er brugðið upp skemmtilegri mynd til að minna á hverfíeika auðs: • Hársíðan mann sá eg í hölda liði, þó var honum skalli skapaður. Svoermaður sem margt á fjár og verður um síðir snauður. SJÁ NÆSTU SÍÐU LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ~ MENNING/LISTIR 10. JANÚAR 1998 5

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.