Lesbók Morgunblaðsins - 30.05.1998, Blaðsíða 19

Lesbók Morgunblaðsins - 30.05.1998, Blaðsíða 19
SKIPULAG OG HÚSAGERÐ í REYKJAVÍK Á 20. ÖLD ARKITEKTÚR BQ^GARINNAR SKOÐAÐUR I AFÖNGUM ARKITEKTAFÉLAG íslands og byggingarlistardeild á Kjarvalsstöð- um standa að raðgöngu um Reykja- víkurborg á Listahátíð og hefst sú fyrsta á morgun, sunnudaginn 31. maí og sú síðasta verður farin 6. júní. Raðgöngunni er ætlað að að varpa ljósi á helstu drætti í skipu- lags- og húsagerðarsögu Reykjavíkur á 20. öld, hugmyndafræði, veruleika og framtíð ís- lenskrar byggðar. I stað þess að fjalla um söguna í fyrirlestri eða sýningu er borgin sjálf skoðuð sem eins konar „arkitektúrsýning". í fyrstu sex göngunum verður sjónum beint að því sem er og átti að verða. í hverri ferð er fjallað um afmarkað tímabil og helstu sér- kenni í skipulagi byggðar og hönnun bygg- inga. Svæðin sem skoðuð verða eru valin með það í huga að gefa sem gleggsta mynd af hverju tímaskeiði fyrir sig. Með leiðsögu- manni verða sérstakir gestir í hverri göngu sem tengjast viðkomandi svæðum eða tíma- bilum. Auk þess verða einn eða fleiri ungir arkitektar með í ferð sem lýsa munu skoðun- um sínum á því sem fyrir augu ber. í seinustu göngunni verður sjónum beint að framtíðinni, þeirri Reykjavík sem gæti orðið. Ungir arkitektar sem nýkomnir eru heim frá námi munu miðla hugmyndum sínum um Reykjavík framtíðarinnar og þeim möguleik- um sem í borginni felast. Gengið verður frá Skólavörðuholti og niður að Skúlagötu, þar sem ólíkar aðstæður og gerðir bygginga koma við sögu. Fyrsti áfangi Pétur H. Ármannsson arkitekt verður að- alleiðsögumaðurinn en um undirbúning sáu Anna Hjartardóttir, Pétur H. Ármannsson, Sigríður Sigþórsdóttir og Steve Christer. Ekkert þátttökugjald er í ferðunum. Hér verða birtar þrjár fyrstu ferðirnar, sem farnar verða um helgina og á þriðjudaginn. í fyrsta áfanga, 1900-1915, verður gengið Morgunblaðið/Ámi Sæberg í FYRSTA áfanga raðgöngunnar verður arkitektúr miðbæjarins skoðaður. frá Iðnó og gamla Iðnskólanum á morgún kl. 14 og miðbær Reykjavíkur kannaður. Fjallað verður um skipulag og húsagerð heimastjórnartímabilsins. Frá Iðnó verður gengið að fyrstu „villu“ landsins, húsi Thors Jensen að Fríkirkjuvegi 11. Næst liggur leiðin upp í Miðstræti, þar sem er að fínna nokkur af veglegustu timburhúsum alda- mótaáranna. Að svo búnu verður gengið norður Ingólfsstræti, fram hjá elsta stein- steypta íbúðarhúsinu í Reykjavík, áleiðis að Arnarhóli. Þar verður staðnæmst og fjallað m.a. um byggingu Safnahússins við Hverfis- götu og áform þess tíma um þyrpingu opin- berra stórbygginga á Arnarhóli. Leiðsögu- maður: Pétur H. Ármannsson arkitekt. Gestur: Nikulás Úlfar Másson arkitekt, Ár- bæjarsafni. Annar áfangi í öðrum áfanga, 1915-1930, mánudaginn 1. júní kl. 14, hefst ferðin á Skólavörðuholtinu, gengið frá styttu Leifs Eiríkssonar, þar sem m fyrr á þessari öld var helsta aðkomuleiðin inn í bæinn. Minnst verður Skólavörðunnar gömlu og greint frá stórbrotnum hugmyndum Guðjóns Samúelssonar um háborg efst á hæð- inni. Af holtinu verður gengið að safnhúsi Einars Jónssonar myndhöggvara, frumbyggj- ans á holtinu. Fjallað verður um „guðlastið“, byggðina efst á holtinu og skoðaðar sambygg- ingar við Njarðargötu. Þaðan verður gengið um villuhverfið sunnan Njarðargötu og stíl- gerðir í byggingum skoðaðar. Að svo búnu verður haldið aftur upp á Skólavörðuholtið. Göngunni lýkur við Bamaskóla Austurbæjar. Leiðsögumaður verður Pétur H. Armannsson arkitekt en gestur verður Illugi Eysteinsson myndlistarmaður. Þriðji áfangi Þriðji áfanginn, 1930-1945, verður þriðju- daginn 2. júní, Vesturbærinn, og er viðfangs- efni húsagerð og bæjarskipulag kreppuár- anna. Gengið verður frá Landakotskirkju kl. 20 að húsum byggingarsamvinnufélagsins „Félagsgarðs“ við Hávallagötu, þar sem skoðuð verða áhrif funksjónalisma í arki- tektúr. Þaðan verður haldið að verkamanna- bústöðum við Hringbraut. Því næst liggur leið yfir Hringbrautina, sem upphaflega átti að marka útjaðar byggðar í Reykjavík. Geng- ið verður yfir Hringbrautina og inn í Mela- hverfið. Skoðaðar verða fyrstu „blokkirnar“ -e. og þær breytingar sem urðu í húsagerð á stríðsárunum. Ferðinni lýkur við Melaskól- ann. Leiðsögumaður verður Pétur H. Ár- mannsson arkitekt en gestir verða Illugi Ey- steinsson myndlistarmaður og Margrét Leifsdóttir arkitekt. VALKYRJA DROTTINS DYGGÐUM PRÝDD TÓIVLIST Sfgildir diskar HUMMEL Johann Nepomuk Hummel: Píanókonsert í As Op. 113; Concertino í G Op. 73; Ges- ellschafts-Rondo í D Op. 117. Howard Shelley, píanó/hljómsveitarstj.; London Mozart Pla- yers. Chandos CHAN 9558. Upptaka: DDD, London 1/1997. Útgáfuár: 1997. Lcngd: 59:08. Verð (Japis): 1.799 kr. REFJALAUST: Þessi diskur kom á óvart. Með því kann að komast upp um skammar- lega lítil kynni undirritaðs hingað til af píanó- konsertum Hummels almennt og brezka pí- anóleikaranum Howard Shelley sérstaklega, en það verður að hafa það - þó að undarlegt megi telja um sólistann, sem á hátt í hundrað diska að baki og hefði vel mátt bera á góma fyrr í þessum dálki. Það er kannski skiljan- legra með Hummel, því ofangreind verk hans fyrir píanó og hljómsveit hafa fram að þessu lítt verið hljóðrituð, og „Samkvæmis- rondóið" (útg. 1829), ef trúa má utanáskrift plötubæklings, birtist nú í fyrsta skipti. En allt um það er bæði tónlist og flutningur hér af því tagi sem dæmigerðir klassík/snemm- rómantíkfíklar sækjast eftir - vel samin verk í dillandi ki'istalstærri túlkun og hljómmikilli en skýrri upptöku, sem löngu er orðin fanga- mark Chandos-útgáfunnar. Kunni menn að meta vínarheiðlist á annað borð, mun þessi diskur ekki rykfalla í safninu, því hann er sannkallað eyrnayndi. Sumum kann að vísu að þykja stíll Hum- mels ófrumlegur - Concertínóið (útg. 1816) er þannig anzi nálægt Mozart í anda - en það sem minnir á Chopin í As-dúr konsertinum (1827) er öllu frekai- vegna áhrifa Hummels á pólska meistarann en öfugt. Hummel var víð- frægur píanósnillingur, mikils virtur af stór- meisturum eins og Schubert og Beethoven, og gaf út einhvern mest selda píanóskóla 19. aldar. Hann var líka nafntogaður fyrir leik sinn að fingrum fram, og minnist bæklingui- inn á John Field (sá er „fann upp“ noktúrnuna), er kvað hafa hrópað upp eftir slíka upplifun án þess að bera kennsl á einleikarann: „Þú ert annaðhvort Skrattinn sjálfur eða Hummel!“ Að Johann Nepomuk (1778- 1837) skuli draga dám af Mozart í fyiTÍ verkum er of'ur skiljanlegt. Hann lærði nefni- lega píanóleik (og kannski einnig tónsmíðar) hjá Wolfgang í Vín 1787, reyndar sama ár og unglingur nokkur frá Bonn að nafni Ludwig van Beethoven kom þar við í stutta heimsókn, og virðist jafnvel hafa búið hjá honum um hríð. Hummel gerðist snemma víðförull konsertpíanisti og ferðaðist m.a. til Lundúna, Parísar og St. Pétursborg- ar, bjó um skeið í Stuttgart en fluttist síðan til Weimars. Hann var atorkumikill tónhöf- undur, skapgóður í lund og eftir því vinsæll. Verk hans áttu framan af fylgi að fagna, en upp úr 1830 tók hann að þykja gamaldags, enda ávallt heiðlistarmaður inn við beinið. Nú á dögum er hann líklega kunnastur fyrir Trompetkonserta sína í E og Es, en á því kann að verða breyting, ef stjörnudiskum sem þessum fjölgar á næstunni. HILDEGARD FRÁ BINGEN Hildegard frá Bingen: Ordo virtutum. Vox Animae, Mayfield kammeróperukórinn, Mich- ael Fields, harpa, Piers Adams blokkflauta og Steven Devine u. stj. Michael Fields og Evelyn Tubh. Etcetera KTC 1203. Upptaka: DDD, 10/1995. Útgáfuár ekki tilgreint. Lengd: 68:53. Verð (Japis): 1.999 kr. SÚ GAGNMERKA abbadís, tónskáld, ljóðskáld, myndlistarkona, heimspekingur, kirkjupólítíkus og grasalæknir frá Bene- diktsklaustrinu í Bingen er vér getum kallað Hildigerði á stórafmæli í ár - verður 900 ára. Það er því ekki seinna vænna að koma henni að hér í dálkinum, enda hefur farið töluvert fyrir henni á geisladiskum allt frá því er Gothic Voices sönghópurinn enski vakti hana úr gleymsku hljómplötuforlaga 1982. Hið stóraukna tónverkaval sem geisladis- kvæðingin hafði í för með sér fyrir forntón- list leiddi af sér hálfgerða Hildigerðar- bylgju, og hefur nú komið út á þriðja tug diska með kirkjutónlist þessarar dyggðum prýddu stríðskonu Drottins með valkyrju- nafnið. Virðist hún um leið hafa stuðlað verulega að þeirri fjölgun kvennasönghópa sem vart hefur orðið við í seinni tíð og sem hefur eytt þeirri til skamms tíma ríkjandi firru, að gregorssöngur sé eingöngu karl- kyns - líkt og aldrei hafi verið sungið í nunnuklaustrum! Ég heyrði fyrst mcistaraverk Hildigerðar Ordo virtutem (Framgöngu Dyggðanna) í janúar sl. úr danska Ríkisútvarpinu og féll hálfpartinn í stafi. Verkið fjallar um bai'áttu mannssálar gagnvart freistingum myrkra- höfðingjans, og kallar Sálin persónugerðar dyggðimar - 19 að tölu og allar (að sjálf- sögðu) kvenkyns - sér til fulltingis: Guðsvizku, Hlýðni, Ögun, Sigursæld, Stað- festu, o.s.frv., undir forystu drottningar þeirra, Auðmýktar. Áhrifamáttur þessarar fyrstu varðveittu andlegu „óperu“ tónsög- unnar frá 5. áratug 12. aldar felst ekki sízt í því hvað orðin og tónmálið eru oft furðu ástríðufull. Þetta er engin þurrpumpuleg móralpredikun, og lagferlið er sérkennilegt fyrir m.a. dramatísk rísandi stökk og langar ljóðrænar melismur. Undir niðri má skynja ólgandi blóðheitar mannlegar tilfinningar í gleði og sorg, synd og sakleysi. Eins og með alla forntónlist frá því fyrir tilkomu nútímanótnaskriftar, einkum lengd- argildakerfis Francos frá Köln er gerði sjálfstæða raddfærslulist mögulega, er lítið vitað hvernig tónlistin var útfærð í smáat- riðum. Margar túlkunarleiðir eru því færar, þar eð aðeins tónhæðir laglínanna liggja ljósar fyrir, en hvorki takttegundir, styrk- breytingar, hraði, hugsanlegur hljóð- færaundirleikur né annað í þeim dúr. Flest er því háð smekk og innsæi, og þar af leið- andi hætt við verulegum frávikum milli út- gáfna. En Vox Animae hópnum virðist hafa tek- izt mjög vel upp. Hljóðfærum er beitt mjög sparlega, og fer vel á því, og sömuleiðis fjöl- röddun, sem vitað er að var komin nokkuð á veg á tímum Hildigerðar, en hún lézt skömmu áður en Notre Dame organumstíll- inn fór að ryðja sér til rúms. Mestu skiptir þó að galdri lagferlis og tilfinningum text- ans sé komið til skila, og það tekst söngkon- unum ástríðufullu í Vox Ánimae með mestu ágætum. Verkið var tekið upp í kirkju Péturs og Páls í Wadhurst, Austur-Sussex og hafa tæknimenn því getað notað ósvikinn kirkju- hljómburð til að mana fram sannfærandi miðaldastemningu. RÍKARÐUR Ö. PÁLSSON Johann Nepomuk Hummel 4 ; LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ~ MENNING/LISTIR 30. MAÍ 1998 19

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.