Lesbók Morgunblaðsins - 16.10.1999, Blaðsíða 13

Lesbók Morgunblaðsins - 16.10.1999, Blaðsíða 13
SMÁSAGA EFTIR MAGNÚS INGIMARSSON ✓ G VAR alveg að gefast upp á þessu. Var búinn að ganga Njáls- götu-Grettisgötu-hringinn kvöld eftir kvöld og hugsa málið. Heima hét þetta heilsu- bótarganga og Dísa var án- ægð með þessa útiveru mína - hún vildi hafa það rólegt heima á kvöldin - hún drakk - ekki bara drakk - hún var full frá morgni til kvölds; sagði að mér kæmi það ekki við, ég væri minniháttar persóna og ræfill á alla enda og kanta og hún hefði aldrei átt að giftast mér. Hún gat leyft sér að rífa kjaft, hún átti húsið, allar þrjár hæðirnar, og ég réði ekki neinu - leigjendurnir borguðu mánaðarlega inn á hennar bankareikning og Dísa impraði iðulega á því að ég væri óþarfa besefi sem hvergi ætti við í hennar tilveru. Þó skaffaði ég til heimilisins nær öll mín laun. Ekki höfðu okkur fæðst nein börn á þess- um fimmtán árum og ekki virtist neitt slíkt í vændum eins og sambandi okkar var háttað. Ég var alveg að gefast upp á þessu. Dísa hamraði á því í tíma og ótíma að hús- eignin á Njálsgötunni væri hennar séreign, hún hafði erft þetta eftir hann pabba sinn, rétt eins og það myndi verða svo um aldur og ævi - allavega skyldi ég ekki að vera að ybba mig neitt. Hún ætti fyrir sínum sjússum og ég ætti frekar að hunskast til að fá mér betri vinnu heldur en að vera í fýlu. Ég var alveg að gefast upp á þessu. Það var eftir óvenju snarpa sennu einn morguninn sem mér datt í hug hvort ekki væru til einhver ráð til að losna við Dísu - ekki senda hana norður til frænku sinnar, heldur má hana algerlega út úr lífi mínu. Ég var eini erfinginn að eignunum og ef rétt væri að farið sýndist mér að ég gæti hugsanlega einhvern tíma komist á græna grein í lífinu. Morð? Manndráp? Nei, þetta varð að skoðast sem óhjákvæmileg hagræð- ing. Og eftir mikil heilabrot sýndist mér allt í einu tækifærið loks blasa við. Dísa var orðin pissfull þá um kvöldið. Rauður himinn flæddi yfir þetta skuggalega hverfi - og það var Jónsmessa - og af því tilefni stakk ég upp á að við færum í bíltúr. Klukkan var orðin ansi margt, en konan mín, sem reyndar vissi varla hvort nótt væri eða dagur var til í allt og af stað keyrðum við. Það var við endann á Ingólfsgarði sem ég hitti ekki á bremsuna og ískaldur sjórinn gleypti okkur. Ég hafði ekki spennt beltið og glugginn mín megin var galopinn, svo fljót- lega komst ég út og buslaði upp að garðinum, þar sem mér var tosað upp af aðvífandi lög- regluþjónum. Það var í þeim svifum sem ég kom auga á Gulla Hansen. Hann hallaði sér upp að ljósastaur og glotti. Guðlaugur Hansen var gamall skólabróðir okkar Dísu. Laglegur strákur í den, rauð- hærður, hár og þrekinn, kvennagull í skóla, en þræddi smákrimmaleiðina þegar fram í sótti. Hafði verið orðaður við ýmiss konar svindl og svínarí, innbrot, fjárkúgun og skjalafals en aldrei hafði neitt á hann sann- ast. í lögreglubílnum spjó ég sjó út um allt þótt aðalhreinsunin hefði verið á bakkanum - ég spurði um konuna mína. - Henni var bjargað naumlega, var ég að frétta í þessu, sagði flokksstjórinn. Hún var hálfflækt í beltinu og þar að auki dauða- drukkin. Hún var flutt upp á spítala, en er ekki í lífshættu - nær sér eftir nokkra daga, segja þeir. Viltu skreppa uppeftir og fylgjast með henni? - Nei ég held ekki - ekki í nótt. Lögreglan bauðst þá til að keyra mig heim. Gulli Hansen sagðist vilja slást i hóp- inn, sagðist vera gamall vinur og skólabróðir. Þegar á Njálsgötuna var komið átti flokksi erindi við okkur aftur: - Þú þarna Rauðhaus, okkur vantar heimilisfangið þitt og símann - þú verður ábyggilega kallaður til sem vitni. En þú drengur minn, komdu þér nú inn, þú hríðskelfur. Og það voru orð að sönnu. Ég hafði týnt lyklunum, veskinu og misst annað lauslegt í sjóinn um morguninn, en lyklaval Gulla opnaði okkur leið inn í íbúðina. Ég reif mig úr fötunum, fór í heita sturtu, henti mér í slopp og fór fram í stofu. Gulli hafði fundið eitthvað í glas handa okkur. Við sátum hljóðir smástund. Það hvarflaði að mér að spyrja Gulla hvað hann hefði verið að þvælast niðri við höfn um hánótt - en ég lagði ekki í það. En ég var ekki sloppinn. - Jonni, ég sá að þú keyrðir viljandi fram af bryggjunni. - Viljandi? Hvað ertu að gefa í skyn? - Ég sá að þú varst að reyna að drepa hana. - Drepa? Ertu eitthvað ruglaður? - Jonni, ég sá hvað þú varst að reyna. En ég skal koma til liðs við þig - ég skal losa þig við hana. Gegn sanngjamri borgun. Ég er ekkert of fjáður. Og ég kann ýmislegt fyrir mér þó að ég hafi verið í öðnim bransa. - Gulli, er þér alvara? - Ég skal vera ódýr, þú ert jú gamall vinur minn. En það er vissara að þú hverfir burt af svæðinu og verðir fjarri vettvangi - ég legg til að þú farir úr bænum í svona þrjá/fjóra mánuði meðan ég er að bralla þetta. Og ég fór úr bænum og var í burtu allt sumarið. A vissan hátt afslöppun og tilbreyt- ing en hugurinn var allur við ráðagerðirnar fyrir sunnan - ég hafði ekkert séð í blöðum um svipleg dauðsföll eða annað sem skipt gæti framtíð mína neinu. En draumar mínir voru farnir að umreikna Njálsgötueignirnar í einbýlishús í Garðabænum og unga konu sem myndi ala mér börn... Ég kom til Reykjavíkur síðla kvölds - vissi í rauninni ekki hvar ég gæti fengið upplýs- ingar um framvindu mála. Gulli Hansen hafði ekki gefið mér upp neitt símanúmer eða heimilisfang - lögreglan hafði að vísu skráð það niður á sínum tíma, en sú leið var of hættuleg. Ég var að bræða þetta með mér fram undir hádegi daginn eftir, en loks beit ég á jaxlinn og hringdi á Njálsgötuna - svona til að gera eitthvað - karlmannsrödd svaraði, og það hvarflaði að mér strax að lögreglan væri á staðnum; ég afsakaði mig strax með „vitlaust númer“ en þá sagði röddin: - Er þetta ekki Jonni? Gulli hérna, blessaður skrepptu hingað snöggvast og spjallaðu við mig. Þegar ég hringdi dyrabjöllunni á Njáls- götunni kom Gulli Hansen til dyra, fáklædd- ur og letilegur eins og hann hefði alist upp þarna í forstofunni. - Ég bjóst við að þú dúkkaðir upp ein- hvern daginn, og það hefur svo sannarlega ýmislegt gerst á meðan þú varst í burtu. - Já, það ætla ég rétt að vona. En hvern andskotann ertu að gera hér heima hjá mér? - Heima hjá þér? Ja - þetta fór öðruvísi en ætlað var. Þegar ég áttaði mig á að þessi glæsilega og þrýstna kona sem mér var ætl- að að ráða af dögum var stelpumjónan sem stalst upp í til mín á kvöldin austur á Laugar- vatni hér um árið skipti ég um áætlun á síð- ustu stundu. Við Dísa höfum reyndar búið saman í tvo mánuði. - Hvaða rugl er þetta? Dísa er konan mín. - Við erum að flytja í einbýlishús í Garða- bænum sem við keyptum um daginn. Við er- um búin að selja Njálsgötuna. - Djöfulsins svikari. Þetta eru mínar eign- ir. Láttu konuna mína í friði. - Konuna þína? Ertu að tala um þessa elsku sem þú reyndir að drekkja í vor? Það kom í ljós við rannsókn á bílhræinu þínu að bremsurnar voru í besta lagi. Ég var aðal- vitnið að slysinu, var yfirheyrður í bak og fyrir en gaf aldrei neitt í skyn sem hefði get- að leitt grun að þér. En auðvitað gæti mér snúist hugur. Dísa er líka búin að átta sig á hvað þú ætlaðist fyrir. - Hvar er Dísa? Á fylliríi? - Hún er löngu hætt að drekka - nema svona eitthvert léttvínsgutl - og leggur það líka á hilluna núna, trúi ég - hún er í heim- sókn hjá lækninum sínum - þér að segja er hún komin eitthvað á leið... - Það getur ekki verið - hún er óbyrja. - Aldeilis ekki - en það er ekki sama hver mótherjinn er. - Þú ert óþverri - viðbjóður. - Jonni, ég stóð við mitt, ég losaði þig við Dísu. Og nú ættir þú að losa okkur við þig. Ég ætla að hlaupa út á horn og fá mér sígar- ettur, ég vil að þú verðir farinn þegar ég kem til baka. Samskiptum okkar er lokið, Jonni minn, viðurkenndu bara að þú hafir beðið lægri hlut, vertu sæll. Hann var ekki fyiT rokinn út en Dísa kom blaðskellandi inn í stofuna með innkaupa- poka í hendinni - létt í spori, glaðleg og fal- lega ljósa hárið þyrlaðist upp við súginn sem fylgdi henni að utan. Hún snarstoppaði þeg- ar hún kom auga á mig. - Jonni? Hvaðan ber þig að? Ég hélt að þú værir farinn norður og niður! - Hér hefur ýmislegt breyst skilst mér, hreytti ég út úr mér. - Hva? Þú vildir mig ekki, reyndir meira að segja að losna við mig - og ekki gat ég sof- ið ein á nóttunni til æviloka. Og Gulli er nú eiginlega gamall kærasti, eða svoleiðis. En nú skulum við vera glöð - við skulum halda upp á þetta því ég ætla að fara að eignast mitt fyrsta barn. Ég fékk það staðfest áðan. Hugsaðu þér, og ég á þessum aldri. En hvar er annars Gulli? - Hann fór að kaupa tóbak. - Nú. En ég keypti í leiðinni svoldið sér- stakt, austurlenska kjúklinga - enga stund að hita þá í ofninum. Borðaðu með okkur, Jonni, við getum rifist seinna. Ég á meira að segja indælis vín sem passar við þetta - Gulli gaf mér það þegar hann kom fyrst í dinner til mín í vor - indverskt sérrí - hann sagði það vera mjög bragðsterkt og hressandi, við smökkuðum reyndar aldrei á því þá. Þér að segja faldi ég flöskuna á góðum stað svo ég gæti komið honum skemmtilega á óvart ein- hverntíma seinna. Og nú skálum við fyinr löngu, góðu og misheppnuðu hjónabandi, Jonni minn, og bjartri framtíð - skál! Hún hafði ekki fyiT tæmt staupið en Gulli birtist í dyrunum. Hann stirðnaði upp. - Hva? Dísa? Guð minn almáttugur, hvar í andskotanum grófuð þið upp þessa flösku? Jesús minn, veistu Jonni... þetta er... - Nú, Dísa var að bjóða upp á drykk fyrir matinn. Gulli stóð eins og negldur við gólfið og var eins og afturganga i framan; rauði lubbinn á honum hafði breyst í einhvern bleikfölan óskapnað. Þá leit ég til hliðar og hrökk í kút. Dísa engdist sundur og saman í sófanum, froða stóð út úr henni og krampakippir hristu hana frá hvirfli tO ilja. - Hvað er í gangi? kjökraði ég - Gulli - hringjum á sjúkrabíl, gerum eitthvað! - Jonni, það er ekki til neins. Það hafði slaknað verulega á hetjunni. - ...Þetta eitur drepur strax. Ég bruggaði þetta í vor...þegar ég var á mála...hjá ...þér...fíflið þitt...en ég hélt að ég hefði ...hellt þessu niður fyrir löngu. Guðlaugur Hansen var allt í einu orðinn að mjög litlum karli. Frá eldhúsinu barst fram- andi lykt af sterku kryddi. Haustrigningin barði gluggana og skammdegisskuggi reyndi að læðast inn. Helsta skíman var flóð af þykku, glóandi hári sem breiddi sig yfir slitið teppið. Og við skólabræðurnir gömlu stóðum höggdofa hlið við hlið í gömlu hlýlegu stof- unni á Njálsgötunni og störðum eins og bjálf- ar á konuna okkar örenda á gólfinu. Höfundurinn erhljómlistarmaður í Reykjavík. LESBÓK MORGUNBIAÐSINS - MENNING/LISTIR 16. OKTÓBER 1999 13

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.