Lesbók Morgunblaðsins - 27.11.1999, Blaðsíða 13

Lesbók Morgunblaðsins - 27.11.1999, Blaðsíða 13
mikils misst, má vera að Lenskíj hafi tekið með sér í gröfina heilagt leyndarmál, „lífgef- andi rödd“ mikils skáldskapar. En svo snýr Púshkín við blaðinu og segir: Hitt hefði líka getað orðið; að Lenskíj hefði orðið leiður á skáldskap, eins og fleiri, hann hefði setið á óðali sínu uppi í sveit, „sæll í sínum hlýja sloppi, gigtveikur kokkáll sem um fertugt át á sig ístru og lífsleiða og dó í rúmi sínu frá krökkum og grátkonum“. (6.37-38) Hér er rómantísk skáldskapardýrkun um leið og hún er borin fram rifin niður með raunsæislegri skoðun á möguleikum per- sónunnar. Höfundurinn er ekki heimssmið- ur sem gerir rétt sem honum þóknast, held- ur samtíðarmaður persónanna, stendur við hlið þeirra, hugsar upphátt um þær, kannar möguleika þeirra - án þess að gleypa þær. Þetta er með nokkrum hætti upphaf þeirrar margröddunar í skáldsögu sem Dostojevskij var svo mjög lofaður fyrir síðar. Höfund- urinn er jafnan nálægur, en hann er byrjað- ur að draga sig í hlé. Það er sem lífsfruma hans hafí skipt sér í nokkra kjarna og hver tekur sitthvað af hans reynslu og persónu- leika til sín - en öðlast um leið sjálfstæða til- veru. Ætlar hún að gifta sig? „Nú tók hún Tatjana mín upp á því að gifta sig, segir Púshkín í vinarbréfí - ekki bjóst ég við því af henni.“ - Nei hann bjóst ekki við því - en hann sá þegar hann hélt „út á víddir hinnar frjálsu skáldsögu" að þetta var einkar sennileg niðurstaða. Hann hafði áður sýnt unga stúlku sem er eins og óskrif- að blað í tilverunni og lifir ekki síst því lífi, sem hún þekkir af bókum. Þegar hún játar Onegín ást sína þá er hún einlægt og opin- skátt náttúrubarn - og um leið mótuð af þeim ensku skáldsögum (Klarissu Richard- sons o.fl.) sem hún elskar og „hafa komið henni staðinn fyrir allt“ (2.29) Það er þessi tillærða, rómantíska „orðræða ástarinnar" sem fær hana til að segja í ástarbréfi sínu, að guð hafi sent Onegín til sín, að allt hennar líf hafi verið bið eftir þeirra fundi. En þótt hún taki það fram í lokauppgjörinu við Onegín, að hún vilji helst ekkert annað en snúa aftur til þess tíma þegar hún lék sér í skógi og las bækur langt frá heimsins glaumi, þá verður ekki í þeim draumi lifað. Tilfinningar eru sterkar í sögunni, en þær stjórna ekki heim- inum eins og í „Raunir Werthers unga“ eða hástemmdum rómantískum sögum. Tilfinn- ingarnar eru í sögu Púshkíns til umræðu, til skilgreiningar - þær verða til í ákveðnu fé- lagslegu samhengi og þær eru hverfular, þeim er ekki treystandi til langframa. Þetta raunsæi verður til þess að Tatjana hefur undir lokin sætt sig við að sogast inn í hring- iðu samkvæmislífs sem er þó ómerkilegt og lágkúrulegt, eins og hún veit best sjálf - og meira að segja rógurinn er hundleiðinlegur. (7.48) Þetta raunsæi verður líka til þess að Tatjana hafnar Onegín, þótt hún elski hann enn. Og það er ekki einungis vegna þess, að hún vill ekki fara á bak við mann sinn. Það er einnig vegna þess, að nú þekkir hún heiminn - hún grunar Onegín um græsku: Kannski er hann nú svo hrifinn af konu sem hann áð- ur mat einskis vegna þess, að nú er hún vel gift og mikils metin við hirðina. Hann gæti unnið sér „freistandi frægð“ með því að eignast aðra eins ástkonu! Og líklega hefur Tatjana rétt fyrir sér: eitthvað svipað gerð- ist þegar Vronskíj kynntist Önnu Karenínu hálfri öld síðar - í frægri skáldsögu Tolstojs - og allir vita hvernig það fór. Vissulega hefur Púshkín nálgast mjög realismann með hans könnun á einstakl- ingnum: hvernig stétt og staða, umhverfi og menning mótar hvern og einn. Og hann er um leið nógu stór í sér til að sneiða hjá ein- faldri félagslegri forlagahyggju: menn eru dæmdir til ákveðinna lífshátta en þeir eiga sér alltaf nokkurra kosta völ. Glæpur On- egíns - daðrið við Olgu, unnustu Lenskíjs, og svo einvígið sjálft - er vitaskuld ekki óumflýjanlegur. Glæpurinn er eitt af því sem getur hent lífsleiðan og sjálfhverfan mann. Onegín er gramur út í Lenskíj, sem hefur dregið hann í leiðinlegt samkvæmi, og vill hefna sín á honum með stríðni. Um leið kemur hér ef til vill fram ómeðvitað hatur á vininum, sem er svo sæll í sinni ást á Olgu, meðan Onegín sjálfur getur ekki elskað nokkurn mann: hér er öfund hins ástlausa einhvers staðar á bak við þótt hún sé aldrei færð í orð.1 Hér er einnig á ferð sljóleiki hins eigingjarna sem er svo vanur að láta að eigin geðþótta að hann skilur ekki að hann er að gera öðrum illt. Um leið er Onegín aðal- smaður, sem lýtur harðstjórn fáránlegra hugmynda um móðgun og æru: Hann vill helst sættast við Lenskíj en þá færi milli- göngumaður þeirra, gamall einvígjahundur, að bera út kjaftasögur um að Onegín sé hug- laus, þori ekki að ganga á hólm (6.11) Málið er komið úr höndum hans um leið og fleiri en tveir vita. Allt er þetta, sem nú var nefnt, til þess fallið að stækka í vitund lesandans þessa einföldu sögu af tiltölulega venjulegu fólki. En svo er annað: örlög sögunnar í rúss- neskri menningu. Það er einmitt í umræðu um ljóðsöguna Jevgeníj Onegín að til verður í rússneskri menningu ákveðin túlkunar- hefð: að gera einkalíf persóna í skáldsögum að heimild eða vísbendingu um ástand og möguleika samfélagsins í heild. Onegín fékk ekki lengi að vera barasta lífsleiður ungur aðalsmaður sem kannski var um leið eftir- líking og skopstæling á bókmenntapersón- um sem þá voru í tísku. Nei - menn fóru að kalla hann „hinn fyrsta óþarfa mann“. Sjá í honum harmleik heillar kynslóðar hæfi- leikamanna, sem finnur sér engin verkefni við hæfí í því þrúgandi andrúmslofti sem einkenndi stjórnartíð Nikulásar keisara fyrsta (1825-55) - en það var hann sem kom í alvöru á fót ritskoðun og pólitískri lögreglu í Rússlandi. Litið var svo á, að tilvistarvandi þessara ungu gáfumanna kæmi skýrt fram í einkamálum þeirra. Þeir bregðast á stefnu- móti við unga konu sem er reiðubúin til að leggja á þá heita og einlæga ást, ástin er prófraun á þá og þeir flýja af hólmi (eins og Onegín vísar Tatjönu frá sér). Og konan, Tatjana í þessu dæmi, verður þá ekki aðeins sú ást sem ekki varð af, hún er tákn og ím- ynd þess lífsafreks sem hinn óþarfi maður hefði átt að vinna, hefði hann ekki látið tí- mann smækka sig. Kannski finnst okkur langt gengið í túlk- unarofsa þegar látið er að því liggja að On- egín geti ekki elskað Tatjönu strax og skjóti Lenskíj fyrir klaufaskap vegna þess hve vont stjórnarfar var í Rússlandi. En margir túlkendur hafa vissulega verið á þessum buxum.6 Og eitt er víst: Onegín eignaðist langan slóða eftirmanna í rússneskum bók- menntum - persónur í sögum Lermontovs (Hetja vorra tíma), Gontsjarov (Oblomov), Túrgenévs og fleiri höfunda sem fengu að heita einu nafni „hinir óþörfu menn“. Það eru þeir sem finna sér ekki stað, hvorki í hin- um „stóra“ heimi né hinum „smáa“ (einka- lífinu) og gætu vel tekið undir það með Jón- asi Hallgrímssyni að „tíminn vill ei tengja sig við mig.“ Þessi ættartala óþarfra manna segir margt um þýðingu Púshldns fyrir gul- löld hinnar rússnesku skáldsögu. Það er meira að segja hægt að færa líkur að því, að Raskolnikov stúdent og morðingi í skáld- sögu Dostojevskijs Glæpur og refsing sé einn af niðjum Onegíns - eða svo taldi Dost- ojevskíj sjálfur: Báðar voru þessar persónur að hans mati dæmi um skaðvænleg vestræn áhrif á rússneska æsku, áhrif sem slitu hinn unga mann úr sambandi við það sem var gott, kristið og rússneskt. En allir þeir kost- ir komu saman í Tatjönu sem ekki vill taka fram hjá manni sínum vegna þess að hún er sönn rússnesk sál sem ekki getur hugsað sér að reisa gæfu sína á ógæfu annarra.6 Þessi útlistun Dostojevskíjs á Jevgenij Onegín leiðir hugann að spurningu sem Pús- hkín lætur „Skrflinn“ spyrja Skáldið í þekktu kvæði: „Hvað ertu þú að kenna okk- ur?“ Hver er boðskapur sögunnar? Er hann tengdur því að Onegín fái makleg málagjöld: „stór var mín villa, hörð mín refsing" segir hann í bréfinu til Tatjönu í lok sögunnar. En svo hafa ýmsir móralistar talið. Eða er það óþarft kannski og heimskulegt að spyrja um „boðskap" þessa verks? Hverfulleiki alls, vonbrigði, illur uggur, óvissa um allt nema það að hamingjan muni renna okkur úr greipum - þetta er allt til staðar í skáldsögunni. Astin er tekin frá öll- um, saklaust skáld drepið, Tatjana, þessi ör- láta og göfuga sál gengin inn í meinfúst sam- kvæmislíf og kemst ekki þaðan aftur. Allt er þetta dapurlegt - en samt stafar einhverri undarlegri birtu af þessum heimi. Þetta verk Púshkíns einkennist öðrum fremur af því sem Rússar nefna svetlaja grúst - bjart- ur dapurleiki. I ljóðsögunni um Jevgeníj og Tatjönu vakir fegurð heimsins, skáldið gleymir því ekki að allir eru í lífsháska en hann man enn betur þá gleði sem felst í að njóta sem best og með skapandi glaðværð hverfulla gæða lífsins. Hann ræðir þessi mál aldrei beint, en segir þetta án þess að segja það, þræðir þessa afstöðu til heimsins inn í skáldskap og ber þannig fram það „kampa- vín, glitrandi í sólskini"7 sem þessari rauna- sögu hefur verið líkt við. 1 A.S. Púshkín: Polnoje sobranije sotsjinenij. Moskva 1958. VII, bls. 298. 2 D.I. Písarév: Púshkín íBelinskij. Solsjinenija, Moskva 1956. III, bls, 856-364. 8 G. A. Gúkovskij: Púshkín i problemy realistítsjeskovo stíya. Moskva 1957, bls. 130. 4 E. Wilson: In Honour of Pushkin. The Triple Thinkers. Penguin 1962, bls. 51. 8 L. Grossman: Púshkín, Moskva 1958, bls. 372-388. 6 F. M. Dostojevskij. Púshkín. Sobranije sotsjineng. Moskva 1958. X, bls. 447-454. 7 J. Lavrin: From Pushkin to Mayakovsky. London 1948. bls. 23. Höfundurinn er rithöfundur og hóskólakennari. ERLENDAR/ BÆKUR JACQUES LE GOFF The Works of Jacques Le Goff and the challenges of Medieval History. Edited by Miri Rubin. The Boydell Press 1997. Ef einhver þjóð ætti að leggja alúð við ástundun miðaldasögu þá eru það Islend- ingar. Engin þjóð í Evrópu á slíkan fjár- sjóð miðaldatexta á þjóðtungum og þeir. Fremsti sagnfræðingur miðalda var Snorri Stui-luson og næst honum kemur Stm-la Þórðarson. Helgi- og biskupasögur miðalda eru stöðug uppspretta miðalda- mynda og -persóna, jarteiknasögm-nar yf- irgripsmikil óbein lýsing á almennu mann- lífi og kjörum þjóðarinnai’ og síðan eru þessi furðuverk bókmenntanna, Islend- ingasögm-. Kveðskapurinn gerir þessa mynd enn fjölbreytilegri. Bestu textar sem skrifaðir hafa verið undanfarin tæp þúsund ár eru skráðir á miðöldum, tærleiki og skýrleiki málsins, tónninn og hinar margvíslegu tóntegundir furðuleg fyrirbrigði í bókmenntasögunni. Þessi blómatími íslenskrar sagnfræði og bókmennta stóð frá því á 12. öld og fram á þá 15. A þeim tímum voru íslenskir höf- undar innan hins alþjóðlega latínu-máls- væðis heilagrar kirkju. Hér blómgaðist ís- lensk og evrópsk listmenning með séríslenskum einkennum. Menntunin var evrópsk, vottui’ af svipaðri menningarlegri samþættingu átti sér stað í tíð Engilsaxa á Englandi fyrir daga Vilhjálms bastarðar. En hér á landi náði listsköpunin fullri hæð. Jacques Le Goff er meðal merkustu miðaldasagnfræðinga nútímans. Málþing um verk hans og áhrif var haldið í King’s College í Cambridge 6.-9. apríl 1994. Miri Rubin segir í formála í tilefni af sjötugsa- fmæli hans að einn af forstöðumönnum Boydells and Brewers hafi sýnt áhuga á að gefa erindi sem flutt voru á málþinginu út. Og hér er bókin. Le Goff virðist gefið mun meira ímynd- unarafl og innsæi en flestum þeim miðaldasagnfræðingum sem starfandi eru. Hugmyndaauðgi hans er einstök. Hann fjallar um þemu sem engum hefur dottið í hug að ræða. I þessari bók má marka hin miklu áhrif sem Le Goff hefur haft á aðra miðaldasagnfræðinga. Trúarbrögð al- mennings og tengsl þeirra við villutrú, konungstáknið og dulspekilega réttlæt- ingu þess, menntamenn í miðaldasamfé- lagi, tíma og peninga, þ.e. tíma kirkjunnar og tíma kaupmannsins. Aukin kaupsýsla á miðöldum varð kveikja nýs tímaskyns, ná- kvæmari mælingar tímans, meðan megin- þorri Evrópubúa bjó að tímatali kirkjunn- ar sem miðaðist við messudaga heilagra manna og hátíðir kirkjunnar. Hann skrif- aði: „aukið peningamagn í umferð varð til þess að tímamælingar urðu nákvæmari á 13. og 14. öld“. Bankastarfsemi á Ítalíu og upphaf tvöfalds bókhalds um 1340 verður á svipuðum tíma og notkun arabískra talna, og uppfundning klukkunnai’ um 1327. Nákvæm tímasetning var ný af nál- inni, þar sem mínútur og klukkustundir sólai’hringsins voru mældar á vélrænan hátt. Tenging verslunar og tímasetninga. R.I. More á hér ritgerð um „Heilagleika og hjáti’ú" sem á sér kveikju í riti Le Goffs: Time, Work and Culture in the Middle Ag- es. Þýtt úr frönsku af Arthur Goldhammer 1980. Le Goff hefur flestum betur nálgast trúarlega meðvitund miðaldamannsins og sýnt fram á líf hans „í tveimur heimum" jarðvist og vist handan grafar. An skiln- ings þessa verður öll miðaldasaga mark- laus. Þessi skoðun Le Goffs hefur orðið kveikja mikilla rannsókna og útlistana á þýðingu og mörkun kirkjunnar á líf hárra sem lágra. Hjátrúin kemur hér inn í mynd- ina. Forn trúarbrögð lifðu áfram oft í formi galdra og varúðarvenja og blönduðust hvíta galdri kirkjunnar. Aaron Gurevich hefur útlistað þessi efni manna best í „Cat- egories of Medieval Culture" 1985. Hann skrifar hér grein um: Annales in Moscow. En Annálamir era eitt merkasta sagn- fræðitímarit sem út hefur komið á þessari öld. Marc Bloch var hvatamaður að útgáfu þessa tímarits 1928. Ritgerðir og greinar í þessari bók eiga sér allar kveikjur í ritum Le Goffs. Höf- undamir rekja kenningar hans og sér- stæðan söguskilning og rekja síðan rit sem skrifuð era ef svo má segja undir forteikn- um hans. „Das Alte Europa und die Welt des Moderner" eftir Le Goff, þýsk þýðing 1994, er kveikjan að grein Ottos Gerhards Oexle um Le Goff í Þýskalandi. Jafnframt vitnar hann í bók, „L’Appétit de histoire“ Essais d’ego-histoire, ed. Pierre Nora, Paris 1987, bls. 173-239; og í Histoire et mémoire, París 1988. I þessum ritum leggur hann mikla áherslu á stöðu höfundarins og viðhorf til viðfangsefnisins og persónulega og þjóð- ernislega mótun eigin persónu og ekki síst þann málheim sem hann er fæddur í og mótaður af. Höfundar sagnfræðirita eru markaðir fyrirfram vissu umhverfi og það ber hverjum höfundi að hafa í huga. Mat á sögunni er fyrirfram ákveðið og niðurstað- an mótuð. Sá sem skrifar þætti úr þjóð- sögu er einnig að skrifa um sjálfan sig. Þetta glögga skyn á takmarkanir óhlut- lægi’ar sagnfræði hefur Le Goff skilgreint manna best. Viðfangsefni Le Goffs voru lengst af tengd efnahagssögu, menningarsögu og félagslegum tengslum miðaldaheimsins samofin trúarbrögðum. Síðasta stórvirki hans var ævisaga Lúðvíks IX. Lúðvíks helga Frakkakonungs, 1214-1270. Síðast- liðin 10 ár hefur Le Goff notað lífssögu Lúðvíks IX. sem lykil að heimum trúarinn- ar á hámiðöldum og á hvern hátt sá heimur tengist hinum ,jarðliga skilningi". Hann vefur fyrri verk sín, um gyðingdóm, versl- un og viðskiptí, kynjamun og umfjöllunina um menntamenn á miðöldum, inn í rit um Saint Louis, París 1996. Heimur þessa heilaga konungs, líf hans og krossferðir og veraldlegt umhverfi 13. aldai’ eins og hann hefur lýst því í ritgerðum og bókum, verð- ur honum hvati til enn nánari útlistana og skilnings á heimi Lúðvíks helga og heimi Snorra Sturlusonar sem gefinn var skiln- ingur á „hinni andlegu spektínni" sem var þessum samtíðarmönnum sameiginleg. SIGLAUGUR BRYNLEIFSSON GRÍMURTHOR BOLLASON ÓTTI Þú hugsar um þinn ótta, langar aðhverfa frá honum, þú biðst fyrir, reynir að fmna svar, þín tilvera er ruglandi, þú leitar inn íþig, þín sál er kvalin. Þú leitarsvars, biður fallnar sálir um hjálp, lítur upp til himins, hann er bjartur, skín fegurð sinni, horfir lengra, það skel&r þig, þú sérð sjálfan þig þaktan blóði. Þú leitar íþinni trú, fínnur ekkert svar, þú gefst upp. Þú ert af mold kominn, þú ert orðinn hún aftur, þú hverfurí dimman dal, sveimar um öskrandi, það heyrir enginn, umhverfið er kunnuglegt, þú hefur verið hér áður. Hvað er að gerast, þú ert að leysast upp, þín sál er að hverfa, sameinast föllnum sáium. LESBÓK MORGUNBLAÐSINS - MENNING/LISTIR 27. NÓVEMBER 1999 1 3 i

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.