Alþýðublaðið - 29.03.1989, Blaðsíða 6
6
Miðvikudagur 29. mars 1989
bogi Rútur heyjaði áður í skepnur
sínar. Nú er þar að rísa ein vegleg-
asta sundiaug landsins, sem var
mikið áhugamál þeirra hjóna.
7. júlí 1946 er tímamótadagur i
sögu Kópavogs. Þá ná Kópavogs-
búar meirihluta í hreppsnefnd
Seltjarnarness. Finnbogi Rútur
átti ríkan þátt í þeim sigri. Nú ger-
ast hlutir hratt.
1. janúar 1948 varð Kópavogur
sjálfstætt hreppsfélag. Finnbogi
Rútur verður fyrsti oddvitinn og
sýslunefndarmaður. Fólki fjölgar
ört, lóðum og löndum er úthlutað
og alls staðar er verið að byggja
við þröngan efnahag i lok stríðs-
ins, en af bjarsýni og stórhug.
Menn brutu lönd og svitnuðu
saman. Þá myndaðist þessi merki-
lega samstaða allra í bæjarfélag-
inu og samhjálp, sem við finnum
vonandi ennþá glögglega stað.
Fólk safnaðist saman í Framfara-
félaginu undir styrkri forystu
oddvitans án tillits til stjórnmála-
skoðana.
Víða voru menn með skepnur
og garðrækt til búdrýginda og í
því sem öðru tók Finnbogi Rútur
þátt af kappi. Þetta var skemmti-
legur dráttur í lífsstíl heimsborg-
arans, sem nú hafði tekið sæti á
Alþingi og lét sig þar einkum
varða alþjóðamál.
Á hreppsárunum 1948-1955
fimmfaldaðist íbúatalan. 11. maí
1955 fær Kópavogur kaupstaðar-
réttindi og áfram er Finnbogi Rút-
ur í stafni og nú bæjarstjóri til
1957, er hann tekur við stjórn Út-
vegsbanka íslands. Hann sat þó
áfram í bæjarstjórninni næstu
fimm árin og hið nána samstarf
þeirra hjóna varð aldrei nánara,
því að Hulda tók við starfi hans
sem bæjarstjóri, fyrst íslenzkra
kvenna í þeirri stöðu og gegndi því
til 1962.
Á fundi bæjarstjórnar Kópa-
vogs 8. okt. 1976 voru þau kjörin
heiðursborgarar Kópavogs fyrir
áratuga farsæl störf í þágu sveit-
arfélagsins. Bæjarstjórn og bæj-
arbúar allir standa í mikilli þakk-
arskuld við hinn látna fram-
kvæmda- og baráttumann.
Fyrir þeirra hönd votta ég
Huldu Jakobsdóttur og fjöl-
skyldu hennar virðingu og þökk
og flyt þeim samúðarkveðjur við
fráfall höfðingjans Finnboga
Rúts Valdemarssonar.
Kveðja frá Bæjarstjórn Kópavogs
Kristján Guðmundsson
bæjarstjóri.
Sumir menn eru þeirrar gerðar,
að þeir hljóta jafnan að bregða
stórum svip yfir umhverfi sitt og
samfélag meðan þeir eru ofar
moldu, ekki aðeins meðan þeir
eru í fullu fjöri og starfi, heldur
einnig þótt um kyrrist og þeir setj-
ist í stein elliára. Þeir eiga jafnvel
samleið með nýrri kynslóð inn í
framtíðina og móta líf hennar að
einhverju leyti með fyrri verkum
sínum eftir að þeir eru gengnir.
Finnbogi R. Valdimarsson var
einn slíkra manna. Hann lést 19.
mars. sl. 82 ára að aldri og verður
borinn til grafar i dag.
Finnbogi R. Valdimarsson
fæddist í Fremri-Arnardal í Eyrar-
hreppi í Norður-ísafjarðarsýslu
24. sept. 1906, sonur Valdimars
Jónssonar, bónda þar og Elínar
Valdimarsdóttur konu hans.
Hann var bráðger og frábær
námsmaður og tók stúdentspróf
frá Menntaskólanum í Reykjavík
1927 og las síðan lögfræði i Há-
skóla Islands næsta vetur en var
næstu fimm ár við nám í alþjóða-
rétti í París, Genf, Berlín og Róm.
Þegar hann kom heim 1933 varð
hann ritstjóri Alþýðublaðsins til
1938. Þá kom í ljós að hann var
ritfær í besta lagi, harðsækinn
baráttumaður og gagnmenntað-
ur. Hann lyfti Alþýðublaðinu til
nýs vegar og gerði það áhrifaríkt
málgagn. Með breytingum á útliti
þess og framsetningu vann hann
að ýmsu leyti brauðryðjendastarf
í íslenskri blaðamennsku. Árið
1938 beitti hann sér fyrir stofnun
Menningar- og fræðslusambands
alþýðu og varð framkvæmda-
stjóri þess. Það gaf út allmargar
góðar bækur á næstu árum og
starfaði af þrótti.
Árið 1938 kvæntist Finnbogi
Huldu Jakobsdóttur, og 1940
fluttust þau í Kópavog og reistu
iér býlið Marbakka við Fossvog.
Þar bjuggu þau síðan nálega hálfa
3ld. Finnbogi var landskjörinn
þingmaður árið 1949-59, síðan
þingmaður Reykjaneskjördæmis
til 1963 en varð þá bankastjóri Út-
vegsbanka íslands og gegndi því
starfi til 1972. Hann sat hafréttar-
ráðstefnu S.Þ. 1974 og allsherjar-
þings S.Þ. 1956 og 1957.
Þegar Finnbogi og Hulda flutt-
ust í Kópavog 1940 var þéttbýlið
þar að hefjast með fálmandi tök-
um, skipulagsleysi og fátækt fólk
sem kom víða að og reisti sér skýli
eins og landnámsmenn og háði
baráttuna við allsleysið í sporum
þeirra. Það var engu líkar en ungu
hjónin á Marbakka tengdust þess-
ari barnungu byggð og fólki henn-
ar þá þegar þeim böndum sem
aldrei yrðu slitin. Þau gengu í
þessa sveit með hug og hjarta
landnámsmannsins og urðu óað-
skiljanlegur hluti hennar, og
Finnbogi sjálfgefinn forystumað-
ur sem hvergi lét undan síga. Um
hann safnaðist vösk sveit úr hópi
þessara frumbyggja. Þeir stofn-
uðu Framfarafélagið, sem varð
brjóstfylking íbúanna í Kópavogi
í hraðri og sögulegri sókn til
skipulegra sambúðarhátta og
sjálfstæðs sveitarfélags. Þessi
samfylking landnámsfólksins á
okkar tíð í Kópavogi undir forystu
Finnboga R. Valdimarssonar réð
úrslitum um árangursríka og
manndómslega framvindu í mál-
efnum byggðarlagsins.
Finnbogi var óskoraður for-
ystumaður Kópavogshrepps frá
upphafi til loka, og samfylking
frumbyggjanna um hann rofnaði
aldrei. Auðvitað urðu átök stund-
um hörð, einkum er á leið og fólki
fjölgaði, en mikill meirihluti stóð
ætíð fast saman um Finnboga
Rút. Þegar kaupstaðarstofnun
komst á dagskrá, var Finnbogi
henni andvígur í fyrstu, taldi hana
ekki tímabæra enn árið 1954, því
að of margt væri enn ógert og rétt-
ara að vanda grunninn betur en
orðið var, áður en í þetta yrði ráð-
ist. Annað kallaði framar að. En
það er sögulegur vitnisburður um
þennan forystumann, að í fyrstu
bæjarstjórnarkosningum í Kópa-
vogi á ári kaupstaðarstofnunar
hlaut hann og liðssveit hans mik-
inn meirihluta eins og áður hafði
verið, en ekki þeir sem fyrir breyt-
ingunni höfðu barist, eins og
hefði verið eðlilegt að vænta.
Kópavogsbúar treystu honum ein-
faldlega best fyrir málum nýs
kaupstaðar alveg eins og hrepps-
félagsins áður. Og Finnbogi brást
í engu fremur en fyrr. Hann tók
heilum höndum á þessu verkefni,
beitti sér af festu og skarpri rök-
vísi fyrir réttindum bæjarins bæði
á Alþingi og við rikisstjórn ekki
síður en á heimaslóð. Það var eitt
fyrsta verk hans í bæjarstjórn að
bera frarn það mál, að bærinn
fengi keypt landið sem hann stóð
á með viðráðanlegum hætti. hann
hélt því fram með skýrum rökum,
að ríkið ætti að selja bænum
landið á frumverði, því að um-
bætur og ræktun á því væri verk
og eign íbúanna sjálfra. Á þessi
rök var fallist. Þessi forysta bar
ómetanleg og varanleg áhrif sem
gæta mun um langa framtíð sem
undirstaða bæjarbyggðar, þar
sem lóðirnar urðu eign bæjarins.
Ég held að þessi mikilvægu úrslit
séu öllu öðru fremur skjótri og
snjallri málafylgju Finnboga að
þakka — og að sjálfsögðu velvilja
ráðamanna ríkis á þeirri stundu,
er málum þessum var ráðið til
lykta.
Hér verður ekki rakið hversu
framsýni Finnboga og glögg-
skyggni kom víða fram á þessum
hraðvaxtarárum hrepps og bæjar.
Hann setti fram skýrar meginhug-
myndir um framtíðarskipulag
bæjarins, og menn muna það vel
hve mikla alúð hann lagði sjálfur
við að finna þeim atvinnustöðv-
um, sem hann taldi mestu skipta,
heppilega staði. Þegar fyrstu skól-
um voru valdir staðir, lagði hann
kapp á að lóðir þeirra yrðu stórar
og rúmmiklar. Ég held að við
fyrstu skipulagsvinnu bæjarins
hafi hann fyrstur hreyft þeirri
hugmynd, að mikilvægustu fé-
lags- og menningarstofnanir í
bænum yrðu reistar því sem næst
í einni línu á miðjum hálsi þar sem
hæst ber yfir byggðina, og því má
heita að Kópavogur sé nú byggður
á sjö hæðum eins og Róm forðum
— Kársnesskóli yst, þá Kópavogs-
kirkja, Myndlistasafnið, Félags-
heimilið, Kópavogsskóli, Mennta-
skólinn, Digranesskóli og Hjalla-
skóli — allt í einni röð með byggð-
ina á báðar hendur. Það er margs
að minnast úr þessari sögu, og
verður ekki rakið hér.
Starf Finnboga R. Valdimars-
sonar á Alþingi var mikið og
nrargþætt. Fyrir þá daga átti hann
sæti í frægri og atkvæðamikilli at-
vinnumálanefnd 1934 en á þingi
var hann atkvæðamestur i utan-
ríkismálum og alþjóðastjórnmál-
um, enda var þekking hans á þeim
málum veigamest og víðtækust.
Hann var annálaður málafylgju-
maður í þingræðum, rökvís og
málsnjall, og beitti þekkingu sinni
af víðsýni. Það var jafnan hlustað
vel á framlag hans til mála á þingi.
Hann sat öll þingár sín í utanríkis-
málanefnd. Hann átti sæti í land-
helgisnefnd og lagði margt til
mála um þau mál á þingi þegar til
stórræða dró og hélt þar fram
mikilvægum rökum um málstað
okkar.
Finnbogi varð fyrsti bæjar-
stjóri Kópavogs 1955, en lét af því
starfi 1957 þegar aðrar annir juk-
ust, og þá kjöri bæjarstjórn
Huldu Jakobsdóttur, konu hans,
til bæjarstjóra, og var hún fyrst
kvenna til að gegna slíkri stöðu
hér á landi.
Finnbogi R. Valdimarsson var
vel menntaður heima og erlendis í
mikilvægri og nútímalegri fræði-
grein, en hann lokaði sig ekki inni
í þeim fræðum, helgaði sig ekki
henni fræðanna vegna. Honum
var mest í mun að beita þeirri
þekkingu á heimavelli lífsins.
Hann gerðist að vísu atkvæða- og
áhrifamikill með því vopni á þingi
og þjóðmálavettvangi. En það
nægði honum ekki. Hann varð at-
kvæða- og frumkvæðismaður í
blaðamennsku og bókaútgáfu, en
staðnæmdist ekki þar. Líklega
fann hann sjálfan sig best þegar
hann kom í hóp landnámsmann-
anna á frumbýlingsárum Kópa-
vogs þar sem tekið var hendi til
nýrra lífskosta og gróandans þyt-
ur fór um voga og veðurbarða
hálsa. Á slíkum stað hafa þau
hjónin unað og átt heima í hálfa
öld — og verið þar heima alla tíð.
Lífsdæmi þessara hjóna, sam-
starf og framlag til þessarar bráð-
þroska heimabyggðar, er í senn
merkilegt og mikilvægt vitni um
margt það besta í gamalli og gró-
inni íslenskri Iífshefð og fram-
sókn nýs tíma. Kópavogur mun
lengi bera hinn sterka og stóra
svip sem Finnbogi R. Valdimars-
son og Hulda Jakobsdóttir
brugðu yfir hann á sögulegum
mótunarárum. Bæjarfélagið
gerði þau að fyrstu heiðursfélög-
um sínum svo sem sjálfsagt var.
Finnbogi R. Valdimarsson var
gáfaður atgervismaður, vígfimur
og sókndjarfur, skapríkur og fast-
ur fyrir. Hann beitti sér jafnan af
alhug og vék ógjarna frá sjónar-
miðum sínum, sem jafnan voru
fastmótuð af íhygli, þekkingu og
reynslu. Því urðu átök stundum
hörð þegar ráðist var gegn hon-
um, og sumum virtist hann harð-
leikinn. En ég man þess ekki
dæmi, að drenglyndi eða mál-
efnaleg rökvísi brygðist honum í
slíkum sennum. Að ræða við
hann á efri árum um liðna bar-
áttutíð og málefni líðandi stundar
var feginsfengur. Þar réð nökvís,
glögg og hreinskiptin yfirsýn öllu
máli. Það var eins og að hlusta á
lindir niða.
Andrés Kristjánsson
•
Kynni okkar Finnboga Rúts
voru mest í kreppunni 1968 til
1969. Síldin horfin, freðfiskmark-
aðirnir hrundir ásamt mörkuðun-
um fyrir mjöl og lýsi og borgara-
styrjöld í Nígeríu — þetta kom
allt í veg fyrir skreiðarsölu. Þús-
undir gengu atvinnulausar og
helstu menn horfðu í gaupnir sér.
Þá var auðvelt að verða róttækur.
„Svo þig vantar víxil. Heldurðu
að þú getir nokkurn tíma borgað
hann? Hagfræðingur frá Eng-
landi,“ og unaðslegt bros lék um
varir mildingsins í Útvegsbankan-
um, sem bara bankastjórar í góðu
skapi geta framkallað. Síðan hló
hann við og þá kom slík birta í at-
vinnulegt tillit fjármálajöfursins,
að ég varð enn sannfærðari um að
þessi maður, sem keyrði Jagúar í
Kópavoginn, væri breskur lord.
Svo bætti hann við: ,,Er ekki ann-
ars aumkunarvert að læra hag-
fræði hjá þjóð, sem er blönkust
allra þjóða?“ Ég tuldraði eitthvað
um það, að þeir hefðu nú samt
unnið stríðið, og þrátt fyrir allar
gerðir breska heimsveldisins
hefðu þeir alltaf staðið dyggan
vörð um fríverslun í veröldinni,
sem við Alþýðuflokksmenn
styddum. Við þessi orð tókst
bankavaldið hreinlega á loft í stól
sínum: „Ert þú jafnaðarmaður
líka? Er Sjálfstæðisflokkurinn
annars búinn að herleiða Alþýðu-
flokkinn?“
Málið var orðið snúið. Ég kom
til að sníkja víxil, en var kominn í
vörn fyrir Viðreisnina og breska
heimsveldið! Ég gat þó bætt því
við, að ég hefði áhyggjur af
ástandinu og það væri ekki alveg
eftir kokkabókum hagfræðinnar
og Keynes, að ríkisvaldið væri
orðið jafnhrætt og einkaframtak-
ið og héldi ekki síður að sér hönd-
unum en einstaklingar. „Sem
skapaði heimskreppuna miklu og
allir hafa lært af nema við íslend-
ingar,“ bætti bankastjórinn við
og rétti síðan út höndina: „Hér
eru hundruð erlendra síðu- og
skuttogara af nýjustu gerð að
veiða fiskinn okkar upp að tólf
mílum. Heldur kratinn og hag-
fræðingurinn að það myndi ekki
skána hér eitthvað ástandið, ef
sjómennirnir okkar fengju svona
tæki til að fiska með? Þó ekki
nema til þess að selja ísfisk til að
byrja með, meðan ástandið er að
skána á freðfiskmörkuðunum, og
síðan að selja freðfisk, sem allar
þessar atvinnulausu hendur hér á
Islandi geta fengið vinnu við. —
Þú hefur hana mömmu þína á
blaðinu og kemur því svo til mín.“
Næstu vikur var ég í því að
stofna Félag áhugamanna um
sjávarútvegsmál, sem síðan fékk
fjölda valinkunnra manna í lið við
sig og í mörg ár knúði á um skut-
togaravæðingu fiskiskipaflotans,
útfærslu landhelginnar, öryggis-
mál sjómanna og bætta með-
höndlun aflans, sérstaklega með
að ísa fiskinn í kassa.
Fundirnir við Finnboga Rút í
Útvegsbankanum urðu margir.
Við höfðum miklar áhyggjur af
ástandinu í útflutningsmálum og
m.a. fór ég til Brussel til að reyna
að endurvekja markað fyrir grá-
lúðu, sem nóg var af og Finnbogi
var sannfærður um að hægt væri
að selja, eins og síðar kom á dag-
inn. Smám saman skánaði efna-
hagsástandið og við ræddum um
sameiningu jafnaðarmanna í einn
flokk. Þetta var mikið hugðarefni
Finnboga og breyttist reyndar
ekkert þó Hannibal bróðir hans
yrði ráðherra en Alþýðuflokkur-
inn færi i stjórnarandstöðu. Enda
var Alþýðuflokknum þrívegis
boðin þátttaka í þeirri stjórn.
„Jafnaðarmenn eiga að standa
saman á íslandi í einum flokki.
Það er best fyrir okkur öll og
þjóðina alla.“
Það var mikil andleg endur-
næring að'tala við Finnboga Rút.
Hann var ákaflega fróður, hafði
áhuga á/öllu og var sérstaklega já-
---/ _______________________
kvæður í afstöðu sinni til manna
og málefna. Hann hafði menntast
í alþjóðamálum í helstu höfuð-
borgum meginlandsins á milli-
stríðsárunum, þegar Evrópa var
enn drottning veraldarinnar og al-
þjóðahyggja og Evrópuhugsjónin
blómstruðu hvor í kapp við aðra.
Hvílíkt áfall fyrir ungan mennta-
mann af norðurhjara hefur ekki
þjóðernisrembingurinn og upp-
gangur fasismans og nasismans í
Evrópu verið. Enda hélt Finnbogi
Rútur heim á leið við valdatöku
nasista í Þýskalandi og hóf að rit-
stýra Alþýðublaðinu, sem varð
ekkert minna en bylting í blaða-
mennsku á íslandi.
Hermann Jónasson forsætis-
ráðherra beitti sér fyrir því að
Finnbogi og kona hans, Hulda
Jakobsdóttir, fengju landspildu
til ábúðar í Kópavogi, sem skírð
var Marbakki. Finnbogi Rútur
þótti mikið hafa vit fyrir hinni
kraftmiklu fjölskydlu sinni og af
því er dregið hugtak, sem allir þeir
þekkja, sem á miðjum aldri eru,
Marbakkavaldið. Þetta val átti
þátt í þvi að breyta Kópavogi úr
kartöflugarði í eitt blómlegasta og
stærsta byggðarlag landsins, að-
eins höfuðborgin sjálf er fjöl-
mennari. Hannibal, bróðir Finn-
boga, var forseti ASÍ um árabil og
alþingismaður eins og Finnbogi
og ráðherra í stjórnum, sem m.a.
færðu út landhelgi íslendinga og
keyptu togara, svo víkingaþjóðin i
norðri lepti ekki dauðann úr skel
í landinu sem konungakynið fann
og færði óbornum kynslóðum.
Þetta er Marbakkavaldið.
Jón Baldvin Hannibalsson for-
maður Alþýðuflokksins og utan-
ríkisráðherra, yfirlýst sameining-
artákn jafnaðarmanna á Islandi
og farinn að hlutast til um málefni
Evrópu og veraldarinnar í krafti
embættis síns, er bróðursonur
Finnboga. Þarna er líka Mar-
bakkavaldið. Ritstjóri stærsta
blaðs þjóðarinnar, Morgunblaðs-
ins, Styrmir Gunnarsson, er
tengdasonur Finnboga.
íslendingurinn ungi, sem sat á
Unter den Linden í Berlín eða
horfði á fegurð Alpanna í Genf á
millistríðsárunum og Iét sig
dreyma um fagra veröld, frið og
velmegun mannkyns, varð að
horfa á mesta hildarleik mann-
kynssögunnar, heimsstyrjöldina
síðari, og hugsjónirnar hrundu.
Tugir milljóna manna féllu i val-
inn. Vigtólin geltu, þetta var skip-
brot. En heima á Fróni gengu hug-
sjónirnar upp. Áhrif Marbakka
hafa verið huggun harmi gegn
gegn þeim voðadómi, sem veröld-
in kvað yfir sjálfri sér í heims-
styrjöldinni síðari.
Finnbogi Rútur var mikill
gæfumaður í einkalífinu og hann
átti til góðra að gelta eins og aðrir
íslendingar. Fæddur og uppalinn
við gullkistuna við Djúp og þaðan
ættaður og af Ströndum. Frænd-
garðurinn inniber Jón Baldvins-
son, fyrsta formann Alþýðu-
flokksins, og Jón Sigurðsson for-
seta. Ég nefni það varla að ættir
séra Arnórs prófasts í Vatnsfirði,
langafa Finnboga og föðurafa
míns, koma saman í séra Bjarna
Þorsteinssyni í Vesturhópshólum
í Húnaþingi, fæðingarbæ Jóns
Þorlákssonar, fyrsta formanns
Sjálfstæðisflokksins.
Eilífðarmálin ræddum við
Finnbogi lítið. Sjálfsagt báðir
jafnvissir um, eins og allir prest-
arnir forfeður okkar, að ekkert
kemur af engu og ekkert verður
að engu, hvernig sem það er nú
orðað í allt frá guðfræði til eðlis-
fræði. Bankastjórinn kom inn i líf
mitt í miklu myrkri og á óvissu-
tímum. Fagnaðarerindið er boðað
á margan hátt. Sumir sjá fótstig
þegar aðrir sjá ekki neitt. Slíkir
menn verða leiðtogar þjóða, af
þeim stafar birta og það er gott að
fylgja þeim.
Eiginkonu, börnum og að-
standendum votta ég mína dýpstu
samúð. Þar sem góðir menn fara
eru Guðs vegir.
Guðlaugur Tryggvi Karlsson