Tíminn - 01.12.1968, Blaðsíða 5
Ófiafur JóSiannesson:
Fimmtíu
Á hálfrar aldar fullveldisafmæli
minnumst við þeirra manna, seni
fremst stóðu í sjálfstæðisbaráttunni,
lögðu henni lið og leiddu hana til far-
sælla lykta. Nöfn þeirra verða ekki
nefnd. Þeir eru svo margir. En þjóð-
in stendur í mikilli þakkarskuld við
þá. Þeirri skuld má ekki gleyma.
Þeir hugsuðu ekki um stundarhags-
muni. Þeir börðust óeigingjarnri,
hiklausri og þrotlausri baráttu, sem
oft á tíðum gat virzt vonlítil. En þeir
létu aldrei hugfallast. Þeir trúðu á
málstaðinn, treystu þjóðinni og unnu
sigur.
Það var á sínum tíma djarflegt,
já, næstum ofdirfskufullt, tiltæki að
setja á fót fullvalda ríki þessarar fá-
mennu og fátæku þjóðar. Það gat
brugðið til beggja vona, hversu til
tækist. Margir áhorfenda úti í þeim
stóra heimi hafa ugglaust litið á það
sem flónsku flan. En hvað segir
reynslan að fimmtíu árum liðnum?
Höfum við gengið til góðs götuna
fram eftir veg?
Mörg víxlspor höfum við stigið.
Mörg bernskubrek höfum við framið.
Mörg gelgjuskeiðsglöp höfum við
gert. Já, margt hefði mátt betur fara.
Samt hefur tilraunin tekizt. Frjálst
og fullvalda ríki hefur lifað hér og
starfað í fimmtíu ár. Og þrátt fyrir
allt og allt höfum við sýnt og sannað,
bæði sjálfum okkur og umheiminum,
að sjálfs er höndin hollust. Ég hygg,
að um það séum við öll sammála,
þrátt fyrir allan skoðanaágreining og
dægurmálapex.
Frá því við fengum sjálfstjórn í
upphafi þessarar aldar, höfum við sótt
fram á flestum sviðum. Á því tímabili
hafa orðið hér meiri framfarir en á
öllum öðrum öldum íslandsbyggðar
samantöldum. Það er ánægjuleg saga,
en þó með ýmsum skuggaköflum,
eins og gengur. Og nú eru margar
blikur á lofti, mest fyrir tiltektir
misviturra manna.
í áfangastað er litið til baka, yfir
farinn veg. En jafnframt er horft
fram á veginn, til framtíðarinnar.
Saga er aðeins saga, lifuð og liðin
tíð. Framtíðin skiptir mestu. Henni
eru vonirnar tengdar. Hvað er fram-
undan? Það er sú brennandi spurning.
Engin þjóð, allra sízt smáþjóð, hef-
ur almættisbréf upp á eilífðarsjálf-
sjálfstæði. Vitur maður hefur sagt, að
sjálfstæðisbarátta smáþjóðar væri
ævarandi. Það er orð að sönnu. Þjóð
getur glatað frelsi sínu og fullveldi.
Það sýna dæmin. Ég held, að við sé-
um komnir á hættulega braut. Það
er rautt ljós framundan. Við þurfum
að stinga við fótum.
Efnahagslegt sjálfstæði þjóðarinn-
ar stendur á veikum grunni. Atvinnu-
vegirnir eru fjárvana og liggur við
TÍMINN
ára fullveldi
Ólafur Jóhannesson
gjaldþroti. Á það ekki hvað sízt við
um sjávarútveginn og fiskiðnaðinn,
sem afkoma þjóðarinnar út á við bygg
ist mest á. Mörg atvinnufyrirtæki eru
lömuð. Atvinnuleysi er víða byrjað
en annars staðar yfirvofandi. Skuldir
þjóðarinnar við útlönd eru uggvæn-
legar. Sú skuldabyrði verður þung á
næstu árum, ekki sízt í erfiðu ár-
ferði. Haldið er áfram að taka erlend
lán. Vanskilafaraldur gengur yfir.
Efnahagslífið er sjúkt. Þetta er alvöru
mál, því að án efnahagslegs sjálf-
stæðis getur stjórnarfarslegt fullveldi
reynzt lítils virði. Hér hefur margur
vaknað við vondan draum — vaknað
fram á hengiflugi. Hér þarf að skipta
um stefnu. Það þarf að marka nýja
heildarstefnu í atvinnumálum. Þeirri
stefnu þarf að fylgja fram með einurð
og festu. Raunvísindi og tækni eiga
að vísa veginn til bættra lífskjara.
En maðurinn lifir ekki af einu sam-
an brauði. Þau sannindi þurfum við
að muna. Tilveruréttur smáþjóðar
getur reynzt valtur, nema hún eigi
andlegan auð. Andleg fátækt getur
orðið fullveldi okkar fjötur um fót.
Þess vegna þarf að auðga menningu
þjóðarinnar. Það þarf að örva til sköp
unar andlegra verka. Eitt skáld, einn
listamaður, einn skapandi snillingur,
getur orðið þjóðarvitund og sjálf-
stæðri þjóðartilveru að ómetanlegu
liði. Menningarafrek eru styrkasta
stoð framtíðarfullveldis.
Við lifum ekki lengur í einangrun.
Við verðum að taka þátt í marghátt-
uðum samskiptum þjóða, hvort sem
okkur líkar betur eða verr. En 1 slíku
samstarfi megum við ekki afsala í
neiiiu sjálfsákvörðunarrétti okkar og
fullveldi. í slíkum samskiptum verð-
um við að halda reisn okkar, þótt
smáir séum. Þar gildir, að mennt er
máttur. Traust menntun og andleg
reisn verður haldbezta vörnin gegn
ásækinni minnimáttarkennd. Heil-
brigður þjóðarmetnaður og alþjóðleg-
ur skilningur þurfa að haldast í
hendur.
í samskiptum sínum leggur Fram-
sóknarflokkurinn áherzlu á, að stefna
íslands í utanríkismálum sé jafnan
við það miðuð að tryggja sjálfstæði
og öryggi landsins. Flokkurinn telur,
að íslendingum beri að kappkosta
góða samvinnu við allar þjóðir, sem
þeir eiga skipti við, en leggur áherzlu
á, að sem nánast samstarf sé haft
við Norðurlandaþjóðimar. Hann tel-
ur, að íslendingum beri að taka þátt
í alþjóðasamstarfi, eftir því sem á-
stæður leyfa og þörf krefur, enda sé
þess jafnan gætt, að landið afsali sér
ekki sjálfsákvörðunarrétti í eigin mál-
um og að ekki sé gengið undir nein
jafnréttisákvæði útlendingum til
handa. í samræmi við það, telja Fram-
sóknarmenn útilokað, að ísland geti
gerzt aðili að Efnahagsbandalagi Ev-
rópu. Jafnframt hafa þeir varað við
vanhugsaðri og ótímabærri ákvörðun
um aðild Islands að Fríverzlunar-
bandalaginu. Framsóknarflokkurinn
telur rétt, að óbreyttum aðstæðum,
að íslendingar taki þátt í varnarsam-
tökum vestrænna þjóða. Með þeim
hætti vill hann reyna að tryggja ör-
yggi landsins. Á þessi mál er hér sér-
staklega minnt af því, að utanríkis-
málin og öryggismálin eru einmitt
snar þáttur hinnar ævarandi sjálf-
stæðisbaráttu.
Enginn veit með öruggri vissu,
hvað framtíðin ber í skauti. Sjálfsagt
skiptast þar á skin og skúrir. Við skul-
um vona, að þjóðinni takist að sigrast
á þeim erfiðleikum, sem nú steðja
að. Við skulum vona, að grundvöll-
ur fullveldisins styrkist í framtíðinni.
En það gerist ekki af sjálfu sér. Að
því þarf markvisst að vinna. Við þurf
um að læra af mistökunum. Við þurf
um samstillt að sækja að ákveðnum
markmiðum. Hentistefnan er hættu-
leg. Þjóðin má ekki verða bónbjargar-
lýður, heldur sjálfbjarga menn. Við
skulum stefna að réttlátu fyrirmynd-
arþjóðfélagi fullvalda en fámennrar
þjóðar. Með því hugarfari skulum við
halda af stað í næsta fullveldisáfanga.
Við skulum hafa reynsluna að vegar-
nesti, en trú á land og lýð að leiðar-
ljósi.