Tíminn - 01.12.1968, Blaðsíða 16

Tíminn - 01.12.1968, Blaðsíða 16
1. DESEMBER 1968 Þetta tókst vegna þess að þjóðin trúði á sjálfa sig: Manndóm sinn, menningu sína, stjórnsemi, hugvit og dugnað. Hún krafðist þess að fá sinn sess í samfélagi þjóðanna, barðist fyrir sjálfstæði sínu, stjórnar- farslegu, efnahagslegu og menningarlegu. Þótt baráttan væri oft tvísýn og sé það enn, hefir lengst af þokað fram á leið og mikilvægir sigrar hafa unnizt. Nú eru fimmtíu ár síðan stærsta áfanganum í hinni stjórnarfarslegu sjálfstæðisbaráttu var náð. Bjartsýnin hafði sigrað og ísland var orðið fullvalda ríki. Og þjóðin fylgdi þeim sigri eftir, svo sem sigurvegurum sæmir með nýjum sókn- arlotum í hinni efnahagslegu og menningarlegu sjálfstæðisbaráttu og með stofnun lýðveldis. Sigurlaunin urðu hið nýja ísland. íslenzk sjálfstæðisbarátta breytti um svip 1918. Áður sat hin stjómarfarslega sjálfstæðisbar- átta í fyrirrúmi. Hún markaði flokkaskipunina og um hana snerust stjórnmálaumræðurnar og stjómmálabaráttan. Þar var því barizt um utan- ríkismál. Nú urðu það innanlandsmálin, sem sátu í fyr- irrúmi, um þau stóð deilan og viðhorfin til þeirra réðu hinni nýju flokkaskipan. Sjálfstæðisbaráttan tók í ríkara mæli að bein- ast inn á við, að undirstöðum sjálfstæðisins, hinni efnahagslegu og menningarlegu framfara- sókn, hinu efnahagslega og menningarlega sjálf- stæði. Sú kynslóð, sem hóf sóknina 1918 lagði metn- að sinn í að skila okkur betra og auðugra landi en hún tók við, fullkomnara og réttlátara þjóð- félagi. Og þetta tókst henni að flestu leyti. Og nú er komið að okkur. Þótt síðustu fimmtíu árin séu í heild tími framsóknar í sjálfstæðismálum íslendinga, hafa þau jafnframt fært okkur heim sanninn um, að sjálfstæðisbarátta þjóðarinnar er sífelld og oft á tíðum erfið. Og þann dag, sem þjóðin missir trúna á sjálfa sig, er baráttan töpuð. Og nú stafar sjálfstæði okkar hætta af ýmsu því sem óþekkt var 1918. Einangrun landsins er rofin. Við höfum orðið fyrir sterkum erlendum áhrifum menningarlega. En því miður að lang- mestu leyti aðeins úr einni átt. Við höfum tekið við stórfelldri erlendri efna- hagsaðstoð og æ sér gjöf til gjalda. Við höfum búið við erlenda hersetu um helm- ing þess tíma sem liðinn er frá 1918. Um lyktir þess máls verður ekki spáð. En spor hins er- lenda hers á íslandi munu ekki gróa í bráð. Þjóðir heims fylkja sér nú í stærri efnahags- legar heildir. Afstaðan til markaðsbandalaga Vestur-Evrópu er eitt vandasamasta og örlagaríkast úrlausnar- efni okkar nú. Það er á ýmsan hátt ljósara en áður, hvar skórinn kreppir. Við höfum öðlazt nýjan skiln- ing á ýmsum þáttum sjálfstæðisbaráttu okkar. Við höfum af fimmtíu ára reynslu lært, að mestu hætturnar, er steðja að sjálfstæði okkar, koma ekki utanfrá, heldur innanfrá, þær eru í því fólgnar, að okkur takist ekki að byggja okkar þjóðfélag þannig upp, að það standist í straumi tímans og þróunarinnar. Þær eru fólgnar í skammsýni og röngum stjórntökum forustumanna, vanmati á vanda- málunum, ábyrgðarleysi og undirlægjuhætti og óraunsæjum viðhorfum. Hætturnar eru fólgnar í því, að okkur takist ekki að treysta innviðina. Efnahagslegt sjálfstæði okkar verður ekki varðveitt nema efnahagsmálunum sé stjórnað á raunhæfan hátt, hinni dugmiklu þjóð veitt sú forusta, er hún þarfnast við að byggja upp at- vinnuvegina, nýta auðlindir landsins og hafsins og vinna dýrmæta markaðsvöru úr þeim auð- æfum. Þar skortir endurnýjaða skipulagshyggju. í þeim efnum mun síðasti áratugur verða það víti til varnaðar, er lengi verður munað, því vonandi auðnast okkur að snúa óheillaþróun- inni við, áður en það verður of seint. Menningarlegt sjálfstæði okkar verður ekki varðveitt nema við séum vakandi á verðinum og snúum vörn í sókn. Við megum ekki leyfa okkur að halda þvi fram, að íslenzk menning sé svo sterk, að ekkert bíti á hana, meðan hún er að grotna niður fyrir augum okkar og soranum er beinlínis veitt inn í landið. Og við megum ekki heldur láta. menn- ingarlega einangrunarsinna ráða stefnunni. Menning þjóðar fær því aðeins þroskazt og borið ávöxt, að um hana leiki sem fjölbreyti- legastur gustur erlendra áhrifa, hún sé í eðli- legum tengslum við önnur menningarsvæði. Þetta á ekkert skylt við það, að opna allar gáttir fyrir straumum úr einni átt. Stjórnarfarslegt sjálfstæði okkar verður ekki varðveitt óskerhtil frambúðar nema við sýnum reisn og manndóm í samskiptum við aðrar þjóð- ir, treystum sjálfum okkur betur en verið hefur, temjum okkur sjálfsvirðingu í stað undirlægju- háttar. Okkur hefur ekki tekizt að öðlast þann sess í samfélagi þjóðanna, sem metnaður okkar stóð til. íslenzk utanríkisstefna síðustu ára hefur verið fálmkennd og ósjálfstæð og ef við nytum ekki frænda okkar á Norðurlöndum væri rödd íslands talin með öllu marklaus 1 samfélagi þjóðanna. í lausn þesara innri vandamála er sjálfstæðis- barátta okkar fólgin. Árangur þeirrar baráttu veltur á því, hvort nú tekst að fylkja íslenzkri þjóð til nýrrar og djarfhuga sóknar. Sú sókn verður því aðeins sigursæl, að þjóðin trúi enn á sjálfa sig: Manndóm sinn, menningu sína, stjórnsemi, liugvit og dugnað. Jafnt leiðtogar þjóðarinnar sem hver einstak- ur þjóðfélagsþegn. Undir nýrri forustu verður þjóðin að fylkja liði til nýrrar stórhuga sjálfstæðisbaráttu. Við verðum að byggja upp atvinnuvegi okkar og efnahag, við verðum að ávaxta menningar- arf okkar til nýs þroska. Við verðum með sameiginlegum skipulögð- um átökum að skapa það þjóðfélag, er veiti þegnum sínum slík efnahagsleg kjör, félagslegt réttlæti og menningarlega aðstöðu, að til íslands verði horft sem fyrirmyndarríkis, til þess verði sóttar fyrirmyndir af umbótamönnum meðal annarra þjóða og á rödd þess verði hlýtt með athygli á alþjóða vettvangi. Þá fyrst eru hugsjónirnar frá 1918 orðnar að veruleika. M.

x

Tíminn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Tíminn
https://timarit.is/publication/50

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.