Morgunblaðið - 21.01.2001, Page 27

Morgunblaðið - 21.01.2001, Page 27
Höfundur starfar sem lög- fræðingur hjá Evrópuráðinu en var áður blaðamaður á Morgunblaðinu. Hann hefur tekið að sér að skrifa pistla öðru hverju í Morgunblaðið um lögfræðileg efni. Fyrsta efnið sem hann tekur fyrir að þessu sinni að beiðni ritstjórnar er nýfallinn dóm- ur Hæstaréttar í máli Trygg- ingastofnunar ríkisins gegn Öryrkjabandalagi Íslands. F YRIR nokkrum árum hygg ég að engum hefði dottið í hug að dómur af þessu tagi gæti komið frá Hæstarétti Íslands. Ekki vegna þess að lög skyldu felld úr gildi. Það er ekki óalgengt, gerist á hverju ári svo að segja. Meira að segja var þennan sama dag kveðinn upp annar dómur þar sem lögum frá Alþingi var vikið til hliðar. Nei, fyrir nokkrum árum hefði kröfum verið hafnað með vísan til þess að málefnið væri alfarið í verkahring löggjafans, þ.e.a.s. ef því hefði ekki verið hrein- lega vísað frá vegna aðildarskorts sem kallað er. Fyrsta hindrunin sem dómarar Hæstaréttar þurftu að yf- irstíga til að komast að niðurstöðu sinni var nefnilega sú að heimila yf- irleitt að mál af þessu tagi skyldi tek- ið til efnislegrar skoðunar. Í þessu máli var í raun látið reyna afstætt á lagaákvæði án þess að neinn tiltek- inn einstaklingur ætti í hlut. Svipað gerðist í kvótadómi Hæstaréttar haustið 1998, þar sem dómsmál var í raun búið til í því skyni að láta reyna á lögin um stjórn fiskveiða. Þessi þróun í stjórnarskráreftirliti af hálfu dómstóla er mikið umhugsunarefni. Svipað hefur reyndar gerst í Banda- ríkjunum en þar eru aðstæður auð- vitað aðrar að mörgu leyti svo sem eins og varðandi stöðu Hæstaréttar og sjálfstæði og þjóðfélagið þolir slíka íhlutun dómstóla betur. Veitir 76. gr. rétt sem hægt er að byggja á fyrir dómi? Í öðru lagi þurfti Hæstiréttur að yfirvinna þá hindrun að ekki blasir við að viðkomandi stjórnarskrár- ákvæði veiti einstaklingsbundinn rétt sem hægt sé að verja fyrir dóm- stólum. 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrár- innar hljóðar svo: „Öllum, sem þess þurfa, skal tryggður í lögum réttur til aðstoðar vegna sjúkleika, örorku, elli, atvinnuleysis, örbirgðar og sam- bærilegra atvika.“ 76. greinin er eina hreinræktaða félagslega réttinda- ákvæði stjórnarskrárinnar og mælir að öðru leyti fyrir um rétt til mennt- unar og um velferð og vernd barna. Er athyglisvert að minnast þess að nokkrar deilur stóðu um það við end- urskoðun stjórnarskrárinnar 1995 hvort ekki hefði átt að gera félags- legum réttindum hærra undir höfði. Það eru engin skörp skil á milli þess- ara tveggja réttindaflokka. Rökrænt séð er munurinn aðallega sá að borg- araleg og stjórnmálaleg réttindi, þ.e. hin klassísku frelsisréttindi, leggja þá skyldu á herðar ríkinu að halda að sér höndum, en félagsleg réttindi út- heimta að ríkið leggi eitthvað af mörkum með virkum hætti. Alþjóða- stofnanir og mannréttindasamtök hafa lagt áherslu á að öll mannrétt- indi séu óaðskiljanleg og ekki eigi að gera upp á milli þeirra. Það má líka halda því fram að félagslegu réttindin eins og réttur til fæðis, húsnæðis eða atvinnu skipti allan almenning miklu meira máli heldur en tjáningarfrelsi til dæmis, sem er dæmigert fyrir hin klassísku réttindi. Raunin er hins vegar sú að í flest- um stjórnarskrám vestrænna ríkja standa félagsleg réttindi höllum fæti, þau eru orðuð þannig í alþjóðasamn- ingum að þau veita einstaklingum takmarkaðan rétt og loks hafa dóm- stólar verið tregir til að byggja á þeim. Þetta er þó að breytast í Evr- ópu. Má vitna í nýsamþykkta mann- réttindaskrá Evrópusambandsins þar sem eru ítarleg ákvæði um félagsleg réttindi. 76. grein stjórnarskrárinnar er þannig upp byggð að í hverri máls- grein er tekið fram að viðkomandi réttur skuli „tryggður í lögum“. Það er hefðbundin aðferð víðar en á Ís- landi til að draga slagkraftinn úr við- komandi réttindum. Oft er þetta túlkað svo að löggjafanum beri að mæla fyrir um þessi réttindi og svo fremi hann geri það þá verði mati hans ekki raskað. Með öðrum orðum, ekki er mælt fyrir um beinan rétt einstaklinga á hendur ríkinu, heldur einungis uppálagt að einhvers konar réttindi af þessu tagi skuli tryggð með lögum. Það er athyglisvert að forveri 76. gr. var afdráttarlausari. Þar sagði: Sá skal eiga rétt á styrk úr almenn- um sjóði, sem eigi fær séð fyrir sér og sínum, og sé eigi öðrum skylt að framfæra hann, en þá skal hann vera skyldum þeim háður, sem lög áskilja (70. gr. fram til 1995). Þótt þarna sé kveðið skýrlega á um rétt á styrk úr almennum sjóði, sagði Ólafur Jó- hannesson um þetta ákvæði að það væri fyrst og fremst stefnuyfirlýsing en hefði takmarkaða réttarlega þýð- ingu (Stjórnskipun Íslands, 1978, bls. 461). Þess má geta að í dönsku stjórnarskránni er enn ákvæði sam- hljóða gömlu 70. greininni okkar. Þar greinir fræðimenn á um hvort byggja megi á ákvæðinu rétt eður ei. Sú afstaða Hæstaréttar að ein- staklingar eða samtök þeirra geti yf- irleitt byggt beinan rétt á 1. mgr. 76. gr. eins og hún hljóðar nú var því alls ekki sjálfgefin. Hvað felst í réttinum til aðstoðar? Þegar hins vegar kemur að því að skýra inntak réttarins samkvæmt 1. mgr. 76 gr. skilur leiðir milli meiri- og minnihluta Hæstaréttar. Meiri- hlutinn byrjar á því að slá því föstu að skilyrðið um að styrkþegi eigi sér ekki skylduframfærendur hafi verið afnumið með stjórnarskrárbreyting- unni 1995. Býr þar að baki það skýr- ingarsjónarmið að allar textabreyt- ingar hafi þýðingu nema annað sé sérstaklega tekið fram. Minnihlutinn vísar hins vegar til þess að hvorki verði ráðið af orðalagi ákvæðisins né af lögskýringargögnum að löggjafan- um sé ekki eftir sem áður heimilt að líta til þess hvers stuðnings öryrki megi vænta af maka sínum. Vissulega eru lögskýringargögnin ekki skýr hvað þetta varðar. Stjórn- arskráin var endurskoðuð á mettíma og líklega hefur mönnum yfirsést að ákvæðið kynni að vera túlkað svo sem meirihlutinn gerir. Og eins og áður segir hefur kannski ekki hvarfl- að að mönnum að það yrði skýrt svo að það hefði bein réttaráhrif. Ákvæðinu til fyllingar vísar Hæstiréttur til ýmissa alþjóðasamn- inga. Þau ákvæði alþjóðasamninga sem Hæstiréttur vitnar í (þ.e. eink- um Félagsmálasáttmála Evrópu og Sáttmála Sameinuðu þjóðanna um efnahagsleg, félagsleg og menning- arleg réttindi) eru flest mjög al- mennt orðuð og taka ekki nákvæm- lega á álitaefninu um tekjutenginu bóta. Undantekningu er þó að finna í 67. gr. alþjóðavinnumálasamþykktar frá 1952 um lágmark félagslegs ör- yggis. Þar er kveðið á um lágmarks- bætur sem hlutfall af launum verka- manns. Einungis megi fara niður úr lágmarkinu þegar aðrar tekjur fjöl- skyldunnar fari fram úr fyrirfram ákveðnum verulegum fjárhæðum. Með öðrum orðum, aðrar tekjur fjöl- skyldunnar eiga ekki að byrja að hafa áhrif strax til lækkunar. Rétt er að taka fram að þær stofn- anir sem hafa eftirlit með fyrrgreind- um samningum hafa ekki fundið að framkvæmd Íslands á þeim ákvæð- um sem hér voru í húfi. Þó verður að geta þess að í áliti nefndar, dags. 12. maí 1999, sem starfar á grundvelli sáttmála SÞ, um síðustu skýrslu Ís- lands er mælst til þess að íslenska ríkið rannsaki gaumgæfilega bága fjárhagsstöðu tiltekinna hópa fólks þar á meðal öryrkja með það fyrir augum að rétta hag þeirra. Bann við mismunun Hæstiréttur byggir einnig á ákvæði 65. greinar stjórnarskrárinn- ar og gerir það í raun með tvennum hætti. Annars vegar hvað varðar jafnréttisþátt hennar, sem sagt að það sé misrétti í því fólgið að tekjur „maka skipta ekki máli við greiðslu til dæmis slysatrygginga, sjúkra- trygginga, atvinnuleysistrygginga og fæðingarstyrks.“ Eins eigi skerð- ing þessi sér samsvörun hvað snertir ellilífeyrisþega. „Staða öryrkja getur þó verið að því leyti ólík stöðu ellilíf- eyrisþega að margir þeirra greiða ekki í sama mæli í lífeyrissjóð og geta því ekki öðlast sams konar réttindi úr lífeyrissjóðum,“ segir í dómnun. Hins vegar les Hæstiréttur það út úr 65. gr. að hver einstaklingur skuli njóta almennra mannréttinda. Hvað öryrkja varðar felist þessi mannrétt- indi í að tryggja beri fötluðum jafn- rétti og sambærileg lífskjör við aðra þjóðfélagsþegna og skapa þeim skil- yrði til þess að lifa eðlilegu lífi“ og er þar byggt á lögum um málefni fatl- aðra. Ennfremur hafnar Hæstiréttur þeim rökum héraðsdóms að gagn- kvæm framfærsluskylda hjóna renni stoðum undir það fyrirkomulag að tengja bætur við tekjur maka. Bend- ir hann á að þetta eigi ekki við um ýmsar aðrar bætur og það sé aðal- regla íslensks réttar að slík tekju- tenging eigi sér ekki stað, sbr. einnig jafnréttisákvæði laga og stjórnar- skrár. Er einnig vitnað í 5. gr. 7. samningsviðauka við mannréttinda- sáttmála Evrópu um jafnrétti hjóna og segir Hæstiréttur felast í henni réttur einstaklinga til framfærslu fjölskyldu sinnar. Þetta síðastnefnda virðist reyndar vera nokkuð nýstár- leg túlkun í þessu samhengi. Niður- staða Hæstiréttar er því sú að skylt sé að tryggja að lögum rétt sérhvers einstaklings til að minnsta kosti ein- hverrar lágmarksframfærslu. Þótt löggjafinn hafi svigrúm til að af- marka þessi lágmarksréttindi sé of langt gengið með núgildandi fyrir- komulagi þar sem öryrki í sambúð getur setið uppi með rúmar 17 þús- und krónur. Í bakgrunni, þótt ekki sé það beint orðað, virðist vera sú hugs- un að það fái ekki samrýmst sjálfs- virðingu einstaklinga að þeir séu al- farið upp á maka sinn komnir fjárhagslega. Þessi túlkun gengur lengra en al- þjóðasamningar beinlínis mæla fyrir um. Má benda á að það viðhorf er víða rótgróið að félagslega trygging- ar- og aðstoðarkerfið hlaupi einungis undir bagga ef fjölskyldan af ein- hverjum ástæðum framfleytir ekki viðkomandi. Hæstiréttur er því fyrst og fremst að taka sjálfstæða afstöðu á grundvelli, skulum við segja, nú- tímaviðhorfa um stöðu fatlaðra, sjálfsvirðingar einstaklingsins og jafnréttis hjóna. En um leið teygir hann sig lengra við skýringu stjórn- arskrárinnar en dæmi eru um. Viðbrögðin Það er tekist á um það í kjölfar dómsins að hve miklu leyti hann taki fyrir tekjutengingu bóta yfirleitt. Að sjálfsögðu snertir hann ekki teng- ingu við tekjur bótaþegans sjálfs þar sem hún er við lýði, sbr. ákvæði stjórnarskrárinnar sem talar um að öllum sem þess þurfa skuli tryggð aðstoð. Þá er álitamál hvort endur- skoða verði tengingu ellilífeyris við tekjur maka. Það sem veldur hugs- anlega vafa er að dómurinn leggur töluvert upp úr réttindum fatlaðra sem slíkra er hann kemst að niður- stöðu sinni. Loks, varðandi það atriði hvort dómurinn taki alveg fyrir teng- ingu örorkubóta við tekjur maka, má benda á að í 67. gr. alþjóðavinnu- málasamþykktar frá 1952 um lág- mark félagslegs öryggis sem Hæsti- réttur vitnar í er beinlínis gert ráð fyrir að slíkt megi gera enda sé um verulegar viðbótartekjur að ræða. Þróun atburða síðustu vikur bendir til að væntanlegum lagabreytingum verði aftur skotið til dómstóla. Í sjálfu sér er ekkert óeðlilegt við það í réttarríki að máli gangi með þeim hætti fram og aftur milli þings og dómstóla uns skýr niðurstaða er fengin. Sama gerðist í kvótamálinu, það þurfti tvö dóma Hæstaréttar áð- ur en öllum vafa var eytt. Aðrar afleiðingar Dómurinn er mikil lyftistöng fyrir félagsleg réttindi almennt og sér- staklega fyrir réttindi öryrkja. Hann kemur í framhaldi af nýlegum dóm- um Hæstaréttar um rétt blindrar stúlku til aðstoðar við að stunda há- skólanám og um rétt heyrnarlausra til að umræður í kosningasjónvarpi skyldu túlkaðar á táknmál. Túlkun 65. greinar stjskr. telst til nokkurra tíðinda og getur opnað leið síðar í öðrum málum til að slá föstum réttindum sem ekki eru beint orðuð í stjórnarskánni. Svipað hefur gerst hjá öðrum þjóðum þar sem stjórn- arskráreftirlit er hvað þróaðast, þ.e. að dómstólar hafa leitað leiða til að brúa bil milli stjórnarskrárákvæða og ákvæða alþjóðasamninga. Það verður hins vegar eilíft deiluefni hversu langt dómstólar eigi að ganga í þessu efni. Tenging jafnréttisreglunnar með þessum hætti við félagsleg réttindi auðveldar málshöfðanir þar sem til- teknir þjóðfélagshópar spyrja sem svo: Hvers vegna fáum við minna en hinir? Þannig er gefið undir fótinn með að deilumál sem hingað til hafa fyrst og fremst verið háð á pólitísk- um vettvangi fari í vaxandi mæli fyr- ir dómstólana. Þessi þáttur vekur hvað mestar spurningar. Er þetta æskilegt og lýðræðislegt eða einfald- lega óhjákvæmilegt í réttarríki? Hvernig eru íslenskir dómstólar í stakk búnir til að taka á málum af þessu tagi? Njóta þeir trausts til þess arna? Með réttlætiskenndina að leiðarljósi Höfundur er lögfræðingur hjá Evr- ópuráðinu. Skoðanir sem kunna að koma fram í þessari grein eru alfarið á ábyrgð höfundar. Vinsamlegast sendið ábendingar um efni til pall@evc.net. Morgunblaðið/Sverrir Mál Öryrkjabandalags Íslands gegn Tryggingastofnun ríkisins stóð í um tvö ár. Ragnar Aðalsteinsson lögmaður leggur hér á ráðin með liðsmönnum Öryrkjabandalagsins. Lög og réttur eftir Pál Þórhallsson 28 SUNNUDAGUR 21. JANÚAR 2001 MORGUNBLAÐIÐ

x

Morgunblaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.