Morgunblaðið - 30.09.2001, Blaðsíða 20
20 SUNNUDAGUR 30. SEPTEMBER 2001 MORGUNBLAÐIÐ
GRUNDVÖLLUR þess að hag-
kvæmt er að búa til lón við Norð-
lingaöldu í 575 metra hæð byggist
á því að dæla vatni úr lóninu yfir í
Sauðafellslón. Guðjón Jónsson,
verkefnisstjóri hjá VSÓ, sem unn-
ið hefur matsáætlun vegna Norð-
lingaölduveitu fyrir Landsvirkjun,
segir að með þessu móti verði lón-
ið mun minna en upphaflega var
ráðgert og jafnframt sé tryggt að
vatnsborðið verði stöðugt yfir
sumarið og haustið þegar mest
hætta er á rofi og foki.
Upphaflega var áformað að búa
til lón í 581 m hæð við Norð-
lingaöldu, en veruleg andstaða var
við það vegna þess að það hefði
sett á kaf talsvert stóran hluta
Þjórsárvera.
„Ef lónið hefði verið í 581
metra hæð hefði verið sjálfrennsli
yfir í Sauðafellslón. Síðan kom
upp sú hugmynd að dæla vatninu
svo hægt væri að lækka lónið enn
frekar. Lykillinn að því að fara
niður í 575 m hæð er sú að geta
alltaf dælt vatninu vegna þess að
skurðurinn sem er á milli Sauða-
fellslóns og Þórisvatns er það
þröngur að hann heldur uppi
vatnsborði í Sauðafellslóni og því
verðum við alltaf að dæla til að
koma vatninu þangað.“
Stöðugt vatnsborð til
að koma í veg fyrir rof
Guðjón sagði að einnig væri
áformað að halda vatnsborðinu al-
veg stöðugu fram eftir hausti, en
dæling úr lóninu hæfist í byrjun
vetrar. „Það verður aldrei nein
sveifla á vatnsborðinu. Vatnsborð-
inu er haldið stöðugu á þeim tím-
um sem rofhættan er mest, þ.e.
síðla sumars og á haustin. Þegar
rennsli minnkar í ánni, norðaust-
anáttir ganga yfir og það hefur
ekki snjóað yfir svæðið myndast
aðstæður fyrir rof. Lónið mun
ekki ýta undir rof vegna þess að
við byrjum ekki að lækka í lóninu
fyrr en svæðið er allt komið undir
snjó og ís.“
Guðjón sagði að eftir dælingu
yfir vetrartímann yrði lónið mjög
lítið, en það myndi hins vegar fyll-
ast mjög hratt á vorin. Útreikn-
ingar sýndu að það væri hægt að
fylla það eigi síðar en 8. júní.
„Þegar lónið er orðið fullt munum
við dæla um 30 rúmmetrum á sek-
úndu í gegnum jarðgöngin yfir í
Sauðafellslón. Vatnamælingar
sýna okkur hins vegar að það geta
runnið allt að 20 rúmmetrar á
sekúndu á yfirfalli niður árfarveg-
inn. Til samanburðar get ég nefnt
að Elliðaárnar eru 3-4 rúmmetrar.
Yfir sumarið verður því talsvert
mikið rennsli niður farveginn.“
Guðjón sagðist því telja að áhrif
Norðlingaöldulóns á fossa neðar í
ánni yrðu því ekki mjög mikil, en
hann viðurkenndi að þetta væri
umdeilt. Hann benti á að um 20
rúmmetra hliðarrennsli væri í
Þjórsá og þegar það bættist við
rennsli um yfirfall mætti ljóst vera
að rennslið niður fossana yrði
verulegt. Því mætti svo ekki
gleyma að þegar Kvíslaveita 5 var
tekin í notkun hefði rennslið
minnkað úr 100 rúmmetrum niður
í 50 rúmmetra. Við það hefði útlit
fossanna breyst.
Ítarlegar upplýsingar um Norð-
lingaölduveitu er að finna á Net-
inu á vefslóðinni www.nord-
lingaalda.is. Frestur til að skila
inn athugasemdum við matsáætl-
un rennur út á nk. mánudag, 1.
október.
Vinna við mat á umhverfisáhrifum Norðlingaölduveitu stendur nú yfir á vegum Landsvirkjunar
Lægri
lónshæð
næst
með
dælingu
Þessi mynd sýnir Þjórsárver og fyrirhugað Norðlingaöldulón. Dæla á vatni úr lóninu yfir í Sauðafellslón. Þaðan rennur það í Þórisvatn og síðan fer það
niður virkjanirnar á Þjórsár- og Tungnaársvæðinu. Ef Norðlingaöldulón verður búið til eykst orkugeta virkjana Landsvirkjunar um 760 Gwst.
Blái liturinn sýnir Norðlingaöldulón eins og það kæmi til með að líta út. Horft er til norðurs úr flugvél sunnan aðalstíflu sem fyrirhugað er að byggja í
farvegi Þjórsár. Til hægri eru sýnd göng sem eiga að liggja í Sauðafellslón, sem er uppistöðulón og tengist Þórisvatni, aðalmiðlunarlóni virkjananna á
Þjórsár- og Tungnaársvæðinu. Í miðjum göngunum verður dælustöð og er gert ráð fyrir að vatni úr Norðlingaöldulóni verði dælt yfir í Sauðafellslón.
Lykillinn að því að hafa Norðlingaöldulón í 575 m hæð er þessi dæling. Fyrri hugmyndir um Norðlingaöldulón gengu út á að hafa lónið í 581 metra hæð.
Svona liti lónið út þegar horft yrði til suðvesturs ofan við Sóleyjarhöfða. Stíflurnar sjást í fjarska.