Morgunblaðið - 25.11.2001, Blaðsíða 10
10 B SUNNUDAGUR 25. NÓVEMBER 2001 MORGUNBLAÐIÐ
B
ernharð Valsson og Elva Káradóttir sambýliskona hans fluttu frá Akureyri til
Frakklands strax eftir stúdentspróf frá MA 1985 og hafa búið þar síðan. Benni
hugleiddi að nema bókmenntafræði en ljósmyndun varð ofan á enda hafði
áhugi á henni lengi verið fyrir hendi.
Í stað þess að vera bókmenntafræðingur sem mundar myndavél í frístunum
er hann því ljósmyndari sem les bækur þegar færi gefst.
Framan af fékkst Bernharð mikið við tískuljósmyndun en síðustu ár hefur
hann unnið jöfnum höndum við tísku og portrett.
Á sýningunni í Háskólabíói eru portrettmyndir sem hann tók af hinum
ýmsu leikurum og leikstjórum á kvikmyndahátíðinni í Cannes í vor og á síð-
astliðnu ári, fyrir franska dagblaðið Libération og kvikmyndatímaritið Premiere í Frakklandi.
Sýningin var hugmynd Magnúsar Ásgeirssonar, yfirmanns Flugleiða í París; „hann vildi endi-
lega að ég kæmi þessum myndum á framfæri hér heima,“ segir ljósmyndarinn.
„Mér fannst kvikmyndahús rétti staðurinn, held að gallerí hefði orðið of hátíðlegt því þetta eru
allt pantanir; myndir sem eru yfirleitt gerðar á nokkrum mínútum. Þegar ég mynda fyrir svona
stór blöð er ég einn með þessum gaurum en fæ lítinn tíma. Veit hvað ég vil, er búinn að koma mér
fyrir þegar þeir koma, geri nokkrar myndir og fer.“
Portrett og tíska
„Þegar ég fór í skólann vissi ég í raun ekkert út á hvað þetta gengi. Ég hafði verið að mynda svo-
lítið fyrir blöð hér heima, hugsaði mér að vera í skólanum í tvö ár og fara svo heim og fá vinnu á
Mogganum. Það var það eina rökrétta. Svo var ég einhvern tíma með skólasystur minni í neð-
anjarðarlestinni þegar hún benti á einhverja tískumynd og sagði: þetta er Oliver Toscani; það er
ítalski ljósmyndarinn sem seinna gerði Benetton-auglýsingarnar. Ég sá hvergi nafnið hans og
spurði því hvernig hún gæti verið svona viss. Þá sagðist hún þekkja stílinn. Stílinn!
Fyrir mér var fréttaljósmyndun eina ljósmyndunin og tískuljósmyndarar höfðu engan stíl. Ég
hafði eiginlega aldrei litið á þeirra verk sem ljósmyndun. En upp frá þessu fór ég að skoða tísku-
blöðin og prufa að gera tískumyndir sjálfur.“
Eftir að námi lauk var Bernharð aðstoðarmaður auglýsingaljósmyndara í tvö ár.
„Á kvöldin og um helgar fékk ég oft lánað stúdíóið og gerði prufur. Eftir að ég hætti hjá honum
fór ég að vinna við tískuljósmyndun og gerði ekkert annað í nokkur ár, þangað til portrettin fóru að
birtast í möppunni minni með tískumyndunum!“
Það auðveldaði Benna margt í sambandi við tískuljósmyndunina að Elva kona hans er klæðskeri.
Nam þau fræði ytra og hóf að vinna hjá ungum frönskum fatahönnuði, Jean Colonna, strax eftir
skólann. „Hann hafði þá gert tvær „kolleksjónir“ sem ekki gengu upp og var í raun að byrja upp á
nýtt þegar Elva kláraði skólann og fór að vinna fyrir hann. Þessi náungi svaf alltaf fram yfir hádegi
og vann á nóttunni og ég kom oft við hjá honum á kvöldin, eftir vinnu hjá auglýsingaljósmynd-
aranum, þar sem ég var enn aðstoðarmaður.
Sýn Colonna á tískuna var eitthvað sem ég vissi ekki að mætti, væri til eða jafnvel hægt. Í mínum
huga var tískan alltaf einhver lúxus fyrir ríka fólkið; tískan var aldrei skólasystur manns heldur
eitthvað allt annað. Hann aftur á móti vann tískuna út frá og fyrir fólkið sem var í kringum hann.
Þau voru nokkur sem komu með alveg nýjan stíl á þessum tíma, og það var mikil uppgötvun fyrir
mig að sjá að tískan gæti verið svona persónuleg.“
Benni fór að mynda tískusýningar fyrir Colonna, gerði með honum stórt auglýsingaverkefni fyrir
Printemps-stórmarkaðina og ýmislegt fleira.
Tengsl Elvu mikilvæg
„Þessi tengsl hefðu verið óhugsandi nema í gegnum Elvu. Ég hefði aldrei kynnst þessu fólki
öðruvísi.“
Eftir að hún hætti að vinna hjá Frakkanum hóf Elva störf með japönskum fatahönnuði og Bern-
harð naut einnig góðs af því. „Í gegnum hann hef ég til dæmis unnið ýmis verkefni.“
En hvernig skyldi það hafa komið til að Bernharð sneri sér í svo ríkum mæli að portrettinu?
„Ég hafði alltaf verið að gera portrett, aðallega fyrir sjálfan mig en gerði mér ekki grein fyrir því
hve mikill markaður væri fyrir þau. Það var svo einhvern tíma fyrir á að giska þremur árum að ég
fór með möppuna mína á Libération og fékk pöntun frá þeim daginn eftir. Baksíðan á blaðinu er
alltaf portrett í lit og eitt viðtal, mjög vinsælt efni. Þetta skoða allir og í mínu tilviki virkaði það
strax. Daginn sem ég átti fyrst portrett á baksíðu Libération; það var af breska leikaranum Rupert
Everett sem var þá að leika í einhverri mynd með Madonnu, var hringt í mig frá franska Premiere í
hádeginu og ég gerði mynd fyrir þá í vikunni. Síðan fóru önnur blöð að biðja mig um portrett og allt
í einu var þetta það sem mest var beðið um frá mér.“
Benni vann fyrir Libération á kvikmyndahátíðinni í Cannes í fyrra, í ár myndaði hann þar fyrir
Premiere en segist vinna jöfnum höndum fyrir bæði blöðin, auk þess að taka tískumyndir. „Mér
finnst þetta tvennt fara ágætlega saman. Tískan er hópvinna sem tekur sinn tíma; við skipuleggjum
langt fram í tímann. Þegar ég geri portrett er það hins vegar alltaf með stuttum fyrirvara; eftir tvo
daga eða á morgun. Maður vinnur hratt og þá finnst mér reyna miklu meira á mig sem ljósmynd-
ara. Reynslan úr tískunni kemur sér ágætlega; þar þarf maður oft að stýra fólki, huga að lýsingu og
þess háttar sem nýtist í portrettinu og svo getur maður notað „spontanitetið“ úr portrettinu í
tískuna. Þess vegna finnst mér þetta mjög áhugavert saman.“
Andlitslandslag
Bernharð segist sinna ýmsum persónulegum verkefnum þegar færi gefst. „Ég er til dæmis að
gera portrettseríu hér á Íslandi; mynda fjóra ættliði í hverri fjölskyldu í beinan karl- eða kvenlegg.
Þetta eru þröngar myndir sem ég raða hlið við hlið og þá sést vel hvernig sá litli verður stór og
hvernig sá stóri var lítill!“
Hugmyndin að þessu kviknaði í tengslum við verkefni sem hann vann fyrir Libération hér á
landi. „Libération vildi að ég myndskreytti umfjöllun blaðsins um Íslenska erfðagreiningu og þar á
bæ voru menn að velta fyrir sér portretti af Kára [Stefánssyni forstjóra ÍE] eða mynd úr rannsókn-
arstofu. Ég sagði þeim strax að ég hefði engan áhuga á að fara hingað heim til að mynda rannsókn-
arstofu en fékk svo þessa hugmynd. Hafði verið heima um sumarið og lét þá mynda mig með afa,
pabba og strákunum mínum tveimur, Breka og Starra. Það sat svolítið í mér og ég kom með þá hug-
mynd að mynda fimm fjölskyldur í beinan karllegg eða kvenlegg; fjalla þannig um efnið á ljóðrænni
hátt en aðrir höfðu gert. Þeim fannst hugmyndin góð, sendu mig af stað og þetta kom ágætlega út.“
Hann er einnig að vinna að landslagsmyndum. „Það er langtíma verkefni; ég geri tvær til þrjár
myndir á ári og mynda bara í vissum ljósaskilyrðum. Ef það er ekki hægt meðan ég er heima í fríi
geri ég það bara ári seinna. Landslagið er alltaf á sínum stað.
Það má eiginlega segja um ættarmyndirnar að það séu líka landslagsmyndir. Þetta eru ekki sál-
arportrett heldur sýna þær hvernig landslagið í andlitinu tengir fólk.“
Kvenmannsleysið
„Ég var spurður að því um daginn af hverju það væru bara tvær konur á sýningunni en þrettán
karlar. Gat ekki svarað því strax en áttaði mig síðar: Í hvert skipti sem ég er beðinn um að mynda
leikkonu fer maður að pæla í hvað hún sé gömul og hvernig ljós fari henni best; það má helst ekki
sýna hrukkurnar og hvernig hún hefur elst. Maður er sem sagt orðinn lýtalæknir en ekki ljósmynd-
ari. Konur vilja vera fallegar á myndum – karlar vilja hafa karakter. Og það er ívið meira spennandi
að fást við karakter en að taka „bjútí“skot.“
Portrett og „bjútí“skot
Hvers vegna eru bara tvö kvenandlit á sýningu Bernharðs Vals-
sonar í anddyri Háskólabíós? Skapti Hallgrímsson forvitnaðist
um það og fleira hjá ljósmyndaranum, sem búsettur hefur ver-
ið í París í hálfan annan áratug.
Morgunblaðið/Skapti Hallgrímsson
Bernharð Valsson: „Konur vilja vera fallegar á myndum – karlar vilja hafa karakter.“skapti@mbl.is
Ein ljósmynda Bernharðs Valssonar á sýningunni í Háskólabíói. Bandaríski leikarinn og leikstjórinn
Sean Penn. Myndina tók hann fyrir tímaritið Premiere á hátíðinni í Cannes á síðastliðnu vori.