Morgunblaðið - 02.12.2001, Blaðsíða 4
4 B SUNNUDAGUR 2. DESEMBER 2001 MORGUNBLAÐIÐ
sig ekki fyrr en jólasveinninn var farinn. Móðir
hennar spurði hvort nokkuð væri að, en þá svar-
aði Lotta: „Mig kitlar svo í magann þegar ég sé
jólasveininn. Fransson kitlar mig mikið í mag-
ann!“
Lotta leikur einnig stórt hlutverk í bókinni
Víst kann Lotta næstum allt, (Mál og menning,
1979) eins og nafnið ber með sér.
Margir eru ákaflega vanafastir á margt í
tengslum við jólin, og í bókinni kemur í ljós að
þegar pabbinn ætlaði að kaupa jólatré var engin
tré að hafa. Ekki eitt einasta tré var til sölu í
bænum.
„En við verðum að hafa jólatré,“ sagði Jónas
og Mía bendir á að pabbi hefði getað keypt tréð
fyrr. „Af hverju gerðirðu það ekki?“
Þá upplýsir pabbinn að hann væri vanur að
kaupa jólatré á torginu þrem dögum fyrir jól.
„En í ár væri svo mikill snjór í skógunum, og þá
væri víst erfitt að ná í nóg af grenitrjám. Að
minnsta kosti voru engin til á torginu, sagði
pabbi, og honum þótti það sannarlega líka mjög
leitt.“
En Lotta bjargaði auðvitað málinu og útveg-
aði jólatré, ótrúlegt en satt. „Þessu gleymum við
aldrei. Þegar þú komst heim með jólatréð til
okkar,“ sagði mamma við hana, þegar fjölskyld-
an í gula húsinu við Skarkalagötu var að skreyta
tréð á Þorláksmessu og pabbi bætti við: „Nei,
við munum eftir jólatrénu hennar Lottu þó að
við gleymum öllum hinum jólatrjánum.“
Annað dæmi um hve fólk er vanafast er frá-
sögnin af drengnum í fyrrnefndri bók Ole Lund
Kirkegaard, Ég, afi og Jóla-stubbur:
„Á hverju ári þegar jólin fara að nálgast flyt
ég út í sveit og gerist sveitamaður.
Það er víst öllu réttara að segja sveitastrákur
þegar maður er bara átta ára og vantar eina
framtönn.
Það er alls ekki hollt fyrir svona smástrák að
búa í borg, segir afi við mömmu mína. Nei,
svona grænjaxl ætti að vera í sveit og fylla nefið
á sér af snjó og skeggið af hrími.
Já, segir mamma, en drengurinn er alls ekki
með neitt skegg.
Er hann ekki með neitt skegg? hrópar afi.
Nei, það er alveg rétt. Þeir eru víst skegglausir
á þessum aldri. En hann hlýtur þó að vera með
nef?“
Drengurinn fer til afa í þetta skipti eins og
venjulega. „Svo er einhver lykt af honum afa,“
segir drengurinn. „Nei, nei, alls ekki vond – öllu
heldur ósköp notaleg. Það er aðallega svona
fjósalykt og töðuilmur – en hann lyktar líka af
tóbaki, tuggu, brennivíni og reyk úr eldavél-
inni.“
Þetta var 1. desember og síðan er hver dag-
urinn fram að jólum rakinn í bókinni.
En hvað skyldi drengurinn hafa gefið afa sín-
um í jólagjöf? „Ég gaf honum tíu lakkrísrör.
Ummm, sonur sæll, segir hann og klórar sér í
skegginu. Þetta er ein sú allra besta gjöf sem ég
nokkru sinni hef fengið.“
Hin fyrstu jól
Á jólum fagna kristnir menn fæðingu frels-
arans eins og allir vita, þó svo sú staðreynd virð-
ist ekki alltaf efst í huga þeirra sem halda hátíð.
Börnum er þó vonandi kunnugt um það sem
fram fór á hinum fyrstu jólum.
Í barnabiblíunni, sem Pat Pat Alexander end-
ursagði og séra Karl Sigurbjörnsson, nú biskup
Íslands, þýddi (Útgáfan Skálholt, 1985), segir:
„Jósef smiður var áhyggjufullur. María, unn-
usta hans, átti von á barni. Það var ekki hans
barn, og þau voru ekki gift. Mikið var slúðrað í
þorpinu, öllum fannst sjálfsagt að Jósef sliti trú-
lofuninni.
En þá dreymdi Jósef draum. Hann dreymdi
að engill Guðs kæmi til hans og segði:
„Jósef, þú skalt ekki slíta trúlofuninni. María
hefur ekkert rangt gert. Guð hefur ákveðið að
hún verði móðir konungsins, sem hann hefur
heitið að senda. Þú átt að láta hann heita Jesú,
(en það þýðir frelsari), því hann mun frelsa
mennina frá syndinni.“
Þegar Jósef vaknaði var eins og þungu fargi
væri af honum létt. Hvað varðaði hann um bæj-
arslúðrið? Hann ætlaði að ganga að eiga Maríu
og annast hana og barnið.“
Ágústus, keisari í Róm, fyrirskipaði skömmu
síðar að allir íbúar ríkisins skyldu láta skrá sig
vegna manntals. Jósef fór með Maríu ríðandi á
asna til Betlehem en þegar þangað kom – eftir
meira en 100 kílómetra ferðalag yfir fjöll og firn-
indi – fengu þau hvergi gistingu. Gistihúsið var
fullt af ferðalöngum. En þau fengu leyfi til að
leggjast til svefns í heyi í fjárhúsinu og um nótt-
ina fæddi María drenginn.“
Litla stúlkan með eldspýturnar
Átakanlegasta barnasagan sem gerist um há-
tíðarnar er eflaust ritsmíð Danans H.C. And-
ersen, Litla stúlkan með eldspýturnar, sem
hann skrifaði árið 1845. Í formála að bókinni
(Fjölvi, 1995) segir meðal annars:
„Ævintýrið um Litlu stúlkuna sem dó á gaml-
árskvöld talar enn öflugt til okkar, jafnvel undir
lok 20. aldar á tímum vaxandi misskiptingar
auðs, hvort sem er meðal einstaklinga, þjóða eða
heimshluta. Og einmitt börnin verða oftast verst
úti.“
Bókin er líklega öllum ógleymanleg sem hana
hafa lesið eða heyrt lesna og óteljandi tár líklega
runnið niður hvarma á meðan.
„Það var nístingskuldi með fjúki og
fannkomu, og það var orðið dimmt um
kvöldið; það var líka síðasta kvöldið á
árinu; það var gamlárskvöld. Í þessum
kulda og í þessu myrkri gekk á stræt-
inu lítil stúlka, bláfátæk, berhöfðuð og
berfætt. Að sönnu hafði hún gengið á
tréskóm, þegar hún fór að heiman, en
hvað hjálpað það? Það voru stórir tré-
skór af móður hennar; en af því aum-
ingja litla stúlkan mætti tveimur vögn-
um, sem óku svo ákaflega hart, varð
hún að hlaupa úr vegi fyrir þeim til þess
að verða ekki undir. Hún týndi báðum
tréskónum, því þeir voru svo stórir, að
þeir tolldu ekki á fótunum á henni; ann-
ar tréskórinn fannst aldrei aftur, en
drengur, sem gekk fram hjá, fann hinn,
hann hljóp burt með hann og sagðist
ætla að hafa hann fyrir vöggu þegar
hann eignaðist sjálfur börn.“
Fætur veslings stúlkunnar voru
rauðir og bláir af kulda, svuntan gömul
og rifin og enginn keypti neitt af henni;
„enginn hafði gefið henni einn einasta
eyri; þarna gekk hún sársvöng og nötr-
aði og var svo döpur, veslings barnið.“
Út úr hverjum glugga skein ljósbirtan,
„og um allt strætið ilmaði steikarlyktin;
það var líka gamlaárskvöld, og um það
var hún að hugsa.“
Hún vissi að faðir hennar myndi
berja hana þegar heim kæmi, hefði hún
ekkert selt af eldspýtunum. Miðað við mynd-
skreytinguna er hann drykkjumaður. „Hún
settist niður og hnipraði sig saman í skoti milli
tveggja húsa; annað þeirra stóð framar í götunni
en hitt. Hún kreppti undir sér fæturna, en það
varð æ kaldara og kaldara, og heim til sín þorði
hún ekki að fara.“
Hún stelst til þess að kveikja á einni eldspýtu
til að verma á sér fingurna. Síðan kveikti hún á
annarri og þeirri þriðju. Og í hvert sinn sá hún
eitthvað fallegt, sem hverfur jafn hratt og það
birtist þegar slökknar á eldspýtunni.
Loks sér hún stjörnu hrapa á himninum. „Nú
deyr einhver,“ sagði litla stúlkan, – því að amma
hennar sæla, sem var sú eina manneskja, sem
nokkurn tíma hafði verið góð við hana, hafði
sagt: „Þegar stjarna hrapar á himninum, þá fer
einhver sál til guðs.“
Hún kveikti á fjórðu eldspýtunni; hún lýsti
svo vel, og í bjarmanum stóð amma litlu stúlk-
unnar skínandi björt með milda ásjónu. „Amma
mín góð!“ kallaði litla stúlkan, „æ, taktu mig
með þér; ég veit að þú hverfur, þegar deyr á eld-
spýtunni, þú hverfur eins og heiti ofninn, góða
gæsasteikin og blessað jólatréð.“
Hún varð úti þetta síðasta kvöld ársins. „Hún
hefur ætlað að hita sér,“ sögðu þeir sem gengu
framhjá stúlkunni þar sem hún lá í snjónum að
morgni fyrsta dags nýs árs.
Stúlkan var komin til ömmu sinnar hjá guði;
„þar var enginn kuldi, ekkert hungur og ekkert
volæði,“ eins og segir í bókinni.
Tilhlökkunin
Hver kannast ekki við tilhlökkunina og
spenninginn sem fylgir biðinni eftir jólunum.
Formlega er byrjað að telja niður til jólanna 1.
desember, er það ekki? Um miðjan mánuðinn
kemur svo fyrsti jólasveinninn til byggða, og
heimildir herma að þeir komi víða við í því skyni
að gleðja litlu angana sem bíða spenntir.
Síðasti sveinninn, Kertasníkir, kemur til
byggða að morgni aðfangadags. Þá fyrst byrjar
svo spenningurinn fyrir alvöru; beðið er eftir að
jólin verði hringd inn klukkan 18. Þá setjast
margir að snæðingi, matarlystin jafnvel ekki
alltaf mikil hjá yngstu kynslóðinni, því pakk-
arnir undir trénu eru farnir að æpa á þau.
Síðasta biðstundin er víða sú þegar vaskað er
upp eftir málsverðinn. Þegar því er lokið kemur
fólk sér þægilega fyrir í grennd við jólatréð og
byrjað er að afhenda pakkana. Loksins, hugsar
eflaust margt barnið þegar það fær fyrsta pakk-
ann í hendur; loksins eru jólin komin!
Skáldið Jón Óskar yrkir svo í kvæðinu Jóla-
börn frá 1973:
Ég heyri börnin hlakka
til jólanna, það snjóar
á jólum eða ekki,
en börnin sé ég ljóma
af tilhlökkun og spyrja
um jólin og ég heyri
í fjarlægð dimma óma
frá stríði milli manna,
svo daprast hugarsýnin.
En barnagleðin lýsir,
og trú mín verður meiri
á friðinn, er ég heyri
að börnin fara að kyrja
og klukkurnar að óma,
og stjörnuaugun ljóma.
Tímarnir breytast, en ...
Börnin í Ólátagarði eru í uppáhaldi hjá mörgu
barninu. Astrid Lindgren hin sænska skapaði
þar skemmtilega og uppátækjasama krakka,
sem áður eru nefndir.
„Heima hjá okkur var allt á öðrum endanum
því að mamma og Agga voru í óðaönn að matbúa
jólabjúgun,“ segir í einni bókinni um barnahóp-
inn. Þetta var þegar að þau komu heim eftir síð-
asta skóladaginn fyrir jól.
Í bókinni Fleiri börn í Ólátagarði (Mál og
menning, 1991) segir Lísa, sögumaður-
inn, að á Þorláksmessukvöldi hafi legið
óskaplega illa á sér. „Ég var svo hrædd
um að mamma og Agga hefðu ekki tíma
til að ljúka öllu sem þurfti að gera fyrir
jólin. það var allt á tjá og tundri ennþá í
eldhúsinu og ég skældi pínulítið út af
þessu þegar ég var háttuð.
Morguninn eftir vaknaði ég snemma
og hljóp á náttkjólnum niður í eldhús. –
En ó, hvað allt var orðið fínt! Á gólfinu
voru nýjar tuskumottur og það var búið
að skreyta járnstöngina hjá eldavélinni
með rauðum, grænum og hvítum silki-
pappír. Á eldhúsborðið var búið að
breiða fallegan jóladúk og öll koparílát-
in voru fagurgljáandi. Ég varð svo feg-
in að mér fannst ég mega til að faðma
mömmu. Lassi og Bjössi komu þjótandi
rétt á eftir mér og þegar Lassi sá tusk-
umotturnar sagðist hann fá jólafiðring í
magann.“
Vart er hægt að neita því að hér er
um afskaplega raunsanna lýsingu að
ræða. Ekki satt?
Og svo talar Lísa um biðina, sem áð-
ur hefur verið nefnd: „... og þar á eftir
var ekkert annað að gera en að BÍÐA.
Lassi sagði að þessi tími seinni partinn
á aðfangadag þegar maður bara geng-
ur um og bíður og bíður eftir jólunum
gæti gert mann alveg gráhærðan. Við
biðum og biðum og biðum og annað
slagið leit ég í spegilinn til að gá hvort það væri
rétt hjá honum maður yrði gráhærður af því. En
það skrýtna var að hárið á mér var jafn hörgult
og það hafði alltaf verið. Bjössi bankaði öðru
hverju í klukkuna því hann hélt að hún hefði
stansað.“
En svo komu jólin. Og eftir matinn settist öll
fjölskyldan inn í stofu. „Það var búið að kveikja
á kertunum á jólatrénu og á borðinu stóðu líka
logandi kerti. Það fór hálfgerður hrollur um
mig. Það fer alltaf hrollur um mig þegar ég sé
eitthvað fallegt og hrífandi.“
Á meðan fjölskyldan söng Heims um ból
laumaðist Lassi, eldri bróðirinn, út en kom
skömmu síðar inn í jólasveinabúningi með stór-
an poka á bakinu.
„– Eiga nokkir góðir krakkar heima hér?
spurði hann.
– Já, tveir, svaraði Bjössi. Og svo er einn
óþekktarormur hérna sem heitir Lassi. En hann
hefur víst forðað sér út og það var líka vissara
fyrir hann.
– Ég kannast vel við hann, sagði jólasveinn-
inn. Það er mikill ágætisdrengur og ég ætla að
gefa honum fleiri jólagjafir en hinum.“
Samt fengu börnin öll jafn margar gjafir.
Í lok kaflans segir Lísa svo:
„Um kvöldið lagði ég allar jólagjafirnar á
náttborðið við hliðina á rúminu mínu til þess að
ég gæti skoðað þær um leið og ég vaknaði.
Það er afskaplega gaman á jólunum. Það er
bara verst að þau skuli ekki vera svolítið oftar.“
Astrid Lindgren skrifaði bækurnar um börn-
in í Ólátagarði á ofanverðum fimmta áratugnum
en segja má að sögurnar gætu allt eins gerst nú
um aldamót.
Tímarnir breytast sem sagt, en mennirnir
ekki. Að minnsta kosti ekki hvað varðar hugar-
ástand barna vegna jólanna ef marka má lýs-
ingar í hinum ýmsu bókum sem gluggað var í.
Börn í bókum Astridar Lindgren baka oft piparkökur fyrir jólin. Hér
eru systkinin Lotta, Jónas og Mía í bókinni Börnin í Skarkalagötu.
Teikning/Ilon Wikland
skapti@mbl.is
Litla stúlkan með eldspýturnar, látin í snjónum að morgni nýársdags. „Hún hefur ætlað að hita sér, sögðu þeir, er framhjá gengu,“ segir í bókinni.
Teikning/Anastasía Arkípóva