Morgunblaðið - 23.01.2002, Side 16
SUÐURNES
16 MIÐVIKUDAGUR 23. JANÚAR 2002 MORGUNBLAÐIÐ
BROTIST var í fyrrakvöld og
-nótt inn í tvo vörubíla sem stóðu í
Helguvík. Annar bíllinn er í eigu
Ístaks og hinn í eigu sementsfyr-
irtækisins Aalborg Portland.
Samkvæmt upplýsingum frá lög-
reglunni í Keflavík voru bílrúður
brotnar með grjóthnullungum og
úr öðrum bílnum var stolið geisla-
spilara og útvarpi. Ekkert var
tekið úr hinum.
Að sögn lögreglu var tilkynnt
um innbrotin í gærmorgun þegar
starfsmenn mættu til vinnu sinn-
ar. Er talið að innbrotin hafi verið
framin eftir lok vinnudags á
mánudag. Lögreglan biður þá
sem urðu varir við mannaferðir í
Helguvík á þessu tímabili að hafa
samband.
Innbrot í vörubíla
Helguvík
REYKSKYNJARI varð tveimur
húsráðendum og heimilishundi
þeirra til happs þegar eldur kom upp
í stóru einbýlishúsi við Norðurtún í
Sandgerði í fyrrinótt. Lögreglunni í
Keflavík var gert viðvart um brun-
ann laust fyrir klukkan eitt um nótt-
ina.
Þegar lögreglu og Slökkvilið
Sandgerðis bar að var talsverður
reykur í eldhúsinu en lítill eldur í
innréttingunni. Er slökkviliðsmenn
fóru inn í húsið voru rúður í eldhúsi
sprungnar og húsið fullt af reyk.
Að sögn lögreglu eru skemmdir í
húsinu talsverðar, einkum vegna
sóts á innanstokksmunum og vatns á
gólfefni. Heimilisfólkinu og hundin-
um varð ekki meint af reyknum.
Gísli Arnbergsson skipstjóri er
húsráðandi við Norðurtún 10 og
ásamt konu hans vöknuðu þau upp
við reykskynjarann. Hann sagði við
Morgunblaðið að þau hefðu reynt að
slökkva eldinn sjálf en reykurinn
hefði verið það mikill að þau hefðu
orðið að hörfa út ásamt hundinum og
bíða eftir slökkviliðinu. Hann sagði
ljóst að reykskynjarinn hefði bjarg-
að miklu því svefnherbergi þeirra
væri í öðrum enda hússins og eldhús-
ið í hinum endanum. Eldhúsið er
gjörónýtt og unnu iðnaðarmenn við
það í gær að ryðja út skemmdum
húsgögnum og raftækjum.
Eldsupptök ókunn
Guðmundur Baldursson, rann-
sóknarlögreglumaður í Keflavík,
sagði eldsupptök ókunn en að málið
væri í rannsókn. Við fyrstu sýn virt-
ist sem kviknað hefði í út frá upp-
þvottavél en Guðmundur sagði það
óstaðfest.
Hann sagði þetta atvik minna enn
og aftur á mikilvægi reykskynjara
og vildi brýna fyrir fólki að koma
slíkum eldvarnarbúnaði upp í híbýl-
um sínum, væri hann ekki fyrir
hendi nú þegar.
Brunatjón í stóru einbýlishúsi
Reykskynjari
vakti húsráðend-
ur og hundinn
Sandgerði
MARÍA Svavarsdóttir, 25 ára göm-
ul úr Vestur-Landeyjum, er að
læra til smiðs í Sandgerði og
hyggst útskrifast með sveinspróf
um næstu jól. Hún fór upphaflega
til Sandgerðis til að heimsækja
bróður sinn og taka sér mánaðarfrí
frá bústörfunum heima í sveitinni.
Í fríinu fékk hún vinnu við smíðar
hjá Hagtré ehf. og í framhaldi af
því samning hjá Heimi Sigursveins-
syni, húsasmíðameistara og annars
eigenda Hagtrés.
María ílengdist því í Sandgerði,
þar sem hún hefur verið í fjögur
ár. Hún segir starfið mjög fjöl-
breytt og fela í sér verkefni allt frá
því að sópa upp í að smíða heil hús.
Þá sé það líka kostur að geta bjarg-
að sér heima og sinnt þar ýmsu
sem þarf að laga og bæta, en María
er í sambúð með Elvari Ólafssyni,
sem nemur iðnrekstrarfræði í
Tækniskólanum í Reykjavík. Hann
hefur verið í málningarvinnu á
sumrin og segir María það hafa
komið sér vel þegar þau standsettu
íbúðina sína að hafa bæði málara
og smið á heimilinu.
,,Ég er vön ,,groddavinnu“ úr
sveitinni, en annars væri ég ekkert
í þessu starfi. Ég get ekki verið að
hanga í einhverri kyrrsetuvinnu,
því ég hef gaman af fjölbreytninni
og að vera ekki alltaf á sama stað
að gera það sama allan daginn. Svo
er líka alveg frábær vinnuandi í
fyrirtækinu og það gerir starfið
enn skemmtilegra.“
– Er það rétt að þú sért stundum
kölluð ,,smiðjan?
,,Já, það passar, ég er kölluð
„Maja smiðja“. Það kom þannig til
að það var verið að tala um það
innan fyrirtækisins hvort ég ætlaði
að verða smiður, en Heimir sagði
að það passaði náttúrlega ekki og
sagði að ég væri smiðjan þeirra.
Eftir það hef ég gengið undir nafn-
inu „Maja smiðja“ og þeir eru mjög
stoltir af því að eiga þessa smiðju.
Svo töluðu þeir líka um það að ég
yrði ekki ,,sveinn“ að loknu sveins-
prófi heldur ,,María mey“,“ segir
María brosandi og er það greini-
lega ekkert á móti skapi að bera
hin ýmsu viðurnefni.
,,Annars fæ ég rosalega mikla at-
hygli út á þetta og er mikið spurð
um starfið. Það er heldur ekki mik-
ið um að konur læri til smiðs. Ég
veit um eina sem útskrifaðist með
Heimi, en svo hefur dóttir hins eig-
andans unnið hér á sumrin.“
Brandararnir
ekki sparaðir
– Hvað finnst strákunum um að
fá kvenmann í ,,karlastörfin“?
,,Þeim finnst það bara gaman, en
upphaflega fékk ég samt bara
vinnuna af því þetta var svo stuttur
tími. Líklega væri ég ekki hér enn
ef þeim væri illa við það. Það var
að minnsta kosti tekið mjög vel á
móti mér og hefur verið mjög gam-
an allan tímann.“
– Nú tíðkast það oft að það sé
grófur og kaldhæðnislegur húmor
á svona karlavinnustöðum, kannast
þú eitthvað við það?
,,Já, já,“ segir María hlæjandi.
,,Það kemur stundum fyrir að þeir
vilji ekki segja frá einhverju þegar
kvenmaðurinn heyri til, heldur
bara ræða það síðar. Það er nú líka
þannig að ef maður gerir einhver
smámistök að þá er ekkert verið að
spara brandarana. Hér er skotið á
fólk fram og til baka og þá ekki síst
á mig. Mér datt það í hug á tímabili
hvort það stæði á enninu á mér að
það ætti að stríða mér,“ segir
María brosandi, en bætir við:
,,Ég fæ alveg að finna fyrir því
að ég sé kvenmaður og það getur
bæði verið jákvætt og neikvætt.
Það kemur fyrir að mér sé til dæm-
is hlíft við því að bera einhverja
þunga hluti og strákarnir frekar
teknir í það. Það kom mér hins
vegar á óvart í byrjun hvað mér
var oft treyst fyrir miklu,“ segir
hin glaðbeitta „Maja smiðja“ að
endingu í samtali við Morgun-
blaðið.
María Svavarsdóttir gengst við viðurnefninu „Maja smiðja“
Stefnir á
sveinspróf í
húsasmíðinni
Sandgerði
Morgunblaðið/Sigríður Hjálmarsdóttir
María Svavarsdóttir, kölluð „Maja smiðja“, að störfum í húsasmíðinni.
STEFNT er að eflingu og markaðs-
setningu Bókasafns Reykjanesbæjar
sem upplýsingamiðstöðvar. Einnig
verður þjónustutíminn endur-
skoðaður. Kemur þetta fram í starfs-
áætlun safnsins sem lögð hefur verið
fram.
Í fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar
er veitt heimild til ráðningar nýs
bókasafns- og upplýsingafræðings að
safninu síðar á þessu ári. Aðeins einn
bókasafnsfræðingur er við safnið,
auk forstöðumanns, og hefur því ekki
verið hægt að sinna fyrirspurnum
gesta allan daginn.
Hulda Björk Þorkelsdóttir bæjar-
bókavörður segir að nemendur leiti
töluvert eftir aðstoð við upplýsinga-
leit. Þá sé lögð áhersla á að aðstoða
fólk við leit í rafrænum gagnasöfnum
og tímaritum og kenna því að leita.
Mikilvægt sé að bæta við bókasafns-
og upplýsingafræðingi til þessara
verka.
Hulda Björg segir að stefnt sé að
því að auglýsa betur einstaka þætti
starfsins. Nefnir hún notkun rafræna
gagnabankans, hvar.is, og upplýs-
ingaþjónustu safnsins almennt enda
átti margir sig ekki á því hvað margt
sé í boði á almenningsbókasöfnum.
Hún segir ákveðið að kynna betur
barna- og unglingastarfið. Reynt
verði að ná betur til barna og ung-
linga, meðal annars í tengslum við
starfsemi æskulýðsmiðstöðvarinnar
Fjörheima. Þá verði laugardagarnir
auglýstir sem fjölskyldudagar.
Endurskoðun á
þjónustutíma
Vegna fjölgunar háskólanema í
fjarnámi hjá Miðstöð símenntunar á
Suðurnesjum hafa komið fram óskir
um að safnið sé lengur opið, einkum
að aðgangur að lessal sé lengur á
kvöldin og á laugardögum. Gerð var
tilraun með það í vetur. Hulda Björk
segir að aðsókn hafi ekki verið mikil
eftir hefðbundinn lokunartíma til að
byrja með en hafi aukist þegar prófin
nálguðust.
Hún segir að ætlunin sé að kanna
frekar óskir gesta safnsins um þjón-
ustutíma og reyna að verða við þeim.
Útlán Bókasafns Reykjanesbæjar
voru á síðasta ári 107.979 sem er tæp-
lega 10 útlán á íbúa. Eru þetta svipuð
útlán og árið á undan þegar lánaðar
voru 107.804 bækur.
Ljósmynd/Hilmar Bragi Bárðarson
Hulda Björk Þorkelsdóttir, bæjarbókavörður í Reykjanesbæ.
Aukin upplýsinga-
miðlun á bókasafni
Reykjanesbær
LÍKAMSRÆKTARSTÖÐIN Ree-
bok við Hafnargötu í Keflavík hefur
verið lokað í kjölfar þess að Lífsstíll
keypti stöðina á dögunum.
Pálmi Þór Erlingsson, einn af eig-
endum Lífsstíls, segir að Reebok
hafi gengið frekar illa enda sé ekki
pláss fyrir þrjár slíkar stöðvar í
Keflavík. Segir hann að Lífsstíll hafi
ákveðið að kaupa þessa stöð, þegar
það bauðst. Nú eru tvær líkams-
ræktarstöðvar á staðnum.
70–80% aukning
Lífsstíll er í Hótel Keflavík. Frá
því nýir aðilar tóku við rekstrinum,
1. maí á síðasta ári, hefur starfsemin
gengið vel. Segir Pálmi Þór að 70–
80% aukning hafi orðið í viðskiptum
á þessum tíma. „Það verður að sinna
viðskiptavinunum og elta þarfir
þeirra. Gæta sín á því að allt sé í
lagi,“ segir Pálmi um ástæður aukn-
ingarinnar. Hann bætir því við að
Lífsstíll sé stærsta líkamsræktar-
stöðin í Keflavík, hafi stærsta hús-
næðið og mestu fjölbreytnina.
Hann segir ánægjulegt hve marg-
ir séu að byrja í líkamsrækt. Mun
skemmtilegra sé að stækka markað-
inn með þeim hætti en að kroppa af
öðrum.
Líkams-
ræktar-
stöðvar
sameinast
Keflavík
Á FIMMTA tug fyrirtækja í bygg-
ingariðnaði og þjónustu á Suðurnesj-
um eiga aðild að nýju verktakafyr-
irtæki, VT verktökum hf. í Reykja-
nesbæ, sem hyggst hasla sér völl á
Keflavíkurflugvelli.
„Stofnun fyrirtækisins er svar okk-
ar við því sem er að gerast uppi á flug-
velli. Þar er verið að auka útboð og ár-
ið 2004 verða allar framkvæmdir,
viðhald og þjónusta boðin út,“ segir
Anton S. Jónsson, framkvæmdastjóri
Húsagerðarinnar, en hann er jafn-
framt framkvæmdastjóri VT verk-
taka og á sæti í stjórn félagsins. Með
honum í stjórn eru Einar Guðberg
Gunnarsson, framkvæmdastjóri
Meistarahúsa, og Ingólfur Bárðarson
rafverktaki.
Þarf öflugt fyrirtæki
Anton segir að öflug fyrirtæki þurfi
til að geta tekið þátt í útboðum hjá
varnarliðinu því til þeirra séu gerðar
afar miklar kröfur. Til þess að ekki
færu öll verk fram hjá Suðurnesja-
mönnum hefði þurft að láta reyna á
samstöðu þeirra. Í ljós hafi komið að
hún væri mikil og færi vaxandi. 38 að-
ilar stofnuðu fyrirtækið og fleiri hafa
bæst við síðan. Býst Anton við að
fljótlega verði hluthafarnir orðnir 50
talsins en hver þeirra leggur fram 200
þúsund krónur í hlutafé í upphafi.
Anton neitar því ekki að sviptingar
á verktakamarkaðnum á Suðurnesj-
um kunni einnig að hafa haft áhrif á
þróunina. Keflavíkurverktakar hf.
sem áður voru í dreifðri eigu iðnaðar-
manna og fleiri aðila á Suðurnesjum
eru nú komnir að mestu í eigu eins
manns.
VT verktakar hf. munu bjóða í verk
sem um þessar mundir eru í útboði
hjá varnarliðinu. Anton segir að tím-
inn verði að leiða það í ljós hvernig
fyrirtækinu gangi að komast að á
þessum markaði.
Nýtt verktaka-
fyrirtæki stofnað
Hyggjast
hasla sér
völl á flug-
vellinum
Reykjanesbær
♦ ♦ ♦