Morgunblaðið - 23.01.2002, Síða 34
MINNINGAR
34 MIÐVIKUDAGUR 23. JANÚAR 2002 MORGUNBLAÐIÐ
✝ SvanhildurBjarnadóttir
fæddist í Reykjavík
8. febrúar 1937. Hún
lést af slysförum 5.
janúar síðastliðinn.
Foreldrar hennar
eru hjónin Bjarni
Pálsson vélstjóri, f.
27. júlí 1906, d. 17.
febrúar 1967, og
Ásta Jónasdóttir, f.
9. nóvember 1911.
Bræður Svanhildar
eru: Jónas, f. 23.
júní 1938, maki
Kristín Guðrún
Hjartardóttir, og eiga þau einn
son; og Svavar, f. 26. júlí 1943,
maki Brynja B. Halldórsdóttir,
og eiga þau þrjú börn.
Árið 1956 giftist Svanhildur
Þórarni Guðmundssyni, f. 9. júní
1936, d. 12. október 1955. Synir
þeirra eru: 1) Bjarni, f. 4. mars
1957, maki Magnea Ingólfsdótt-
ir; 2) Guðmundur Týr, f. 19. júlí
1958, maki Marsibil Jóna Sæ-
mundsdóttir; Guðmundur á fjög-
ur börn úr fyrri sambúðum; 3)
Ragnar, f. 16. febrúar 1961,
maki Elizabeth Jacobsen sem á
tvö börn af fyrra hjónbandi; bú-
sett í Bergen. Árið 1963 giftist
Svanhildur Sigurði A. Magnús-
syni, f. 31. mars 1928. Synir
þeirra eru: 1) Magnús Aðal-
steinn, f. 23. júní 1964, maki
Ragnheiður Valdimarsdóttir, og
eiga þau eina dóttur; 2) Sigurð-
ur Páll, f. 13. des-
ember 1968, maki
Hulda Magnúsdótt-
ir, og eiga þau tvo
syni. Hálfsystur
bræðranna eru: 1)
Kristín, f. 14. októ-
ber 1953, maki
Gunnar Valur Jóns-
son, og eiga þau
þrjú börn; 2) Hild-
ur, f. 27. júlí 1957,
maki Kristján Vatt-
nes Sævarsson;
Hildur á þrjú börn
af fyrra hjónabandi;
3) Þeódóra Aþan-
asía f. 23. desember 1991. Sam-
býlismaður Svanhildar undan-
farin ár var Bæringur Guðvarðs-
son, f. 9. júní 1928.
Svanhildur lauk gagnfræða-
prófi 1953 og stundaði nám í
hraðritun í Bretlandi um eins
árs skeið. Hún vann hjá Skipaút-
gerð ríkisins frá 1961 til 1964.
Árið 1974 réð hún sig á skrif-
stofu Flugleiða og starfaði þar
uns hún fór utan með manni sín-
um vorið 1978. Heimkomin
haustið 1980 var hún um skeið
auglýsingastjóri Þjóðviljans,
starfaði því næst hjá Hafskipum
og síðan ferðaskrifstofunni Far-
anda en hvarf aftur til Flugleiða
árið 1990 og starfaði þar fram á
haust 2001.
Útför Svanhildar verður gerð
frá Fossvogskirkju í dag og
hefst athöfnin klukkan 13.30.
Svanhildi tengdamóður minni
kynntist ég fyrir tíu árum. Hún kom
mér fyrir sjónir sem mjög glæsileg
kona, enda var hún ávallt vel til höfð
og stafaði af sér miklum þokka.
Fyrstu árin kom ég mikið á heimili
hennar og eyddi þar mörgum góðum
stundum. Hún tók alltaf á móti mér
með móðurlegri umhyggju. Hjá
henni leið mér ævinlega eins og
heima hjá mér. Ég gat leitað til henn-
ar með flest það sem lá mér á hjarta
og fengið hjá henni skilning og holl
ráð. Þegar fram liðu stundir varð
samband okkar mjög náið. Hún var
að mörgu leyti mín önnur móðir enda
held ég að hún hafi fundið í mér dótt-
urina sem hana hafði langað að eign-
ast. Til marks um það má hafa að
þegar upp kom ágreiningur á milli
okkar hjóna, tók hún alltaf minn mál-
stað. Hún hrósaði mér oft og studdi
mig í flestu sem ég tók mér fyrir
hendur. Hún kom mjög fallega að
mér á fyrri meðgöngu minni og
studdi mig í sjálfri fæðingunni. Þar
kom hún mér í skilning um að fæðing
væri eðlilegasti hlutur í heimi og hún
vissi nákvæmlega hvað ég væri að
ganga í gegnum því sjálf hefði hún al-
ið barn fimm sinnum. Eftir að eldri
sonur minn fæddist sinnti hún ömmu-
hlutverkinu af mikilli kostgæfni og
gerði mér m.a. kleift að ljúka námi
með því að gæta litla snáðans sem þá
var aðeins tveggja mánaða. Komur
hennar urðu síðan tíðari á heimili
okkar þar sem hún vildi fylgjast með
hvernig fjölskyldan dafnaði. Eftir að
seinni sonurinn fæddist urðu heim-
sóknir hennar ennþá tíðari. Seinni ár-
in eyddi hún jólunum á heimili okkar
og munu þær sérstöku stundir geym-
ast í minningunni. Síðustu jól voru
okkar síðustu stundir með henni og
þykir mér sérstaklega vænt um þá
minningu um hana.
Svanhildur var mér góð og skiln-
ingsrík tengdamóðir sem leita mátti
til með hverskyns vanda. Hún var
jarðtengd og gaf mér stuðning í að fá
manninn minn til að sjá hlutina í réttu
ljósi. Hún bar með sér gleði inn á
heimilið og hafði hæfileika til að sjá
fegurðina í umhverfinu. Hún var víð-
sýn og veraldarvön, og hjálpaði mér
til að koma auga á fjölbreytileikann í
tilverunni. Mér þótti ákaflega vænt
um Svanhildi og mun sakna hennar
sárlega. Hún skilur eftir sig tóm sem
ekki verður fyllt.
Hulda I. Magnúsdóttir.
„Tæp er lífsins leið,“ segir gamall
málsháttur og sannaðist átakanlega
við sviplegt fráfall Svanhildar
Bjarnadóttur í Las Palmas á Kanarí-
eyjum 5. janúar síðastliðinn. Hafði
hún farið þangað á laugardagsmorgni
til tveggja vikna dvalar ásamt sam-
býlismanni sínum, Bæringi Guð-
varðssyni, en var liðið lík að kvöldi
sama dags eftir hörmulegt slys.
Leiðir okkar Svanhildar lágu sam-
an í tvo áratugi (1961–81). Af þeim
sökum þykir mér tilhlýðilegt að
minnast hennar með fáeinum kveðju-
orðum í þakklætisskyni fyrir mikils-
vert hlutverkið sem hún lék í lífi mínu
og þann veigamikla þátt sem hún átti
í uppeldi og mótun sonanna. Árin sem
við áttum saman voru með köflum
erfið, en þau voru í senn viðburðarík,
margbreytileg og að flestu leyti
ánægjuleg, enda var Svanhildur með
afbrigðum atorkusöm, glaðvær og fé-
lagslynd. Það var mikið verkefni og
vandasamt að koma fimm sonum til
manns og ekkert áhlaupaverk að
koma þaki yfir fjölskylduna við þær
aðstæður sem þá voru ríkjandi. En
það lukkaðist og þá ekki síst vegna
þess að Svanhildur var djarfhuga og
órög við að leggja útí tvísýn ævintýri
þegar um það var að ræða að láta
drauma rætast.
Við hjónin áttum ótaldar samveru-
stundir með góðum vinum jafnt
heima sem heiman. Við þau tækifæri
var Svanhildur einatt hrókur alls
fagnaðar, þrungin gáska og lífsorku,
pjattlaus, frískleg, orðheppin, fas-
mikil og framtakssöm. Til dyranna
kom hún jafnan einsog hún var
klædd, sem var kannski ekki ævin-
lega vel séð af ráðsettum góðborg-
urum, en hún lét sér það í léttu rúmi
liggja. Hún var ekki haldin þeim sál-
ræna kvilla sem lýsir sér í snobbi eða
fagurgala. Ögrandi hispursleysi
hennar og hreinskiptni kunni ég að
jafnaði vel að meta, en einsog verða
vill kom stundum fyrir að skærist í
odda, og þá gat hvesst. En sáttfýsin
var henni í blóð borin og langrækni
ekki til í hennar fari. Svo kynlega sem
það kann að hljóma var Svanhildur að
eðlisfari dul um sínar innstu tilfinn-
ingar, flíkaði þeim sjaldan og vildi
helst ekki um þær ræða, en hún var
ótrauður og örvandi félagi og mun
seint gleymast þeim sem höfðu af
henni persónuleg kynni.
Þegar horft er um öxl svífa fyrir
hugarsjónum fjölmargar ljóslifandi
svipmyndir úr daglegu vafstri á
Kleppsvegi 2 og Felli í Mosfellssveit,
ökuferðir og útreiðar, ásamt árlegum
ferðalögum til framandi staða í
fjórum heimsálfum, að ógleymdum
langdvölum í Grikklandi og Vestur-
Berlín. Fyrir þær margbreytilegu
minningar verð ég ævinlega þakklát-
ur. Ég votta níræðri móður Svanhild-
ar, Ástu Jónasdóttur, bræðrunum
Jónasi og Svavari og fjölskyldum
þeirra, sonunum fimm og fjölskyld-
um þeirra, ásamt Bæringi Guðvarðs-
syni, mína dýpstu samúð og bið góð-
an Guð að hugga og styrkja
eftirlifandi ástvini í sorg þeirra og
söknuði. Blessuð sé minning Svan-
hildar Bjarnadóttur.
Sigurður A. Magnússon.
Okkur langar í fáum orðum að
minnast kærrar föðursystur okkar,
Svanhildar Bjarnadóttur. Sviplegt
andlát hennar var okkur mikið áfall.
Svanhildur var glæsileg kona með
sterkan persónuleika og setti hún
mikinn svip á umhverfi sitt. Fyrstu
minningar okkar um Svanhildi eru
frá því hún bjó að Felli í Mosfellssveit
ásamt þáverandi manni sínum og
fimm sonum. Faðmlag og orðin „elsk-
in mín“ er við hittumst, fylgdu henni
alla tíð. Alltaf var gott að sækja Svan-
hildi heim, hún var gestrisin og lét
fólk finna að það væri velkomið. Sam-
skipti okkar við Svanhildi voru helst
tengd einhverjum viðburðum í fjöl-
skyldunni og er við hittum hana hjá
Ástu ömmu. Þrátt fyrir það fann
maður aldrei fyrir því að einhver fjar-
lægð hefði myndast, fjölskyldubönd-
in voru sterk. Það stafaði alla tíð sér-
stök útgeislun af Svanhildi og er
mikill sjónarsviptir af henni. Við
kveðjum nú kæra frænku með sorg í
hjarta og ástvinum öllum vottum við
okkar dýpstu samúð.
… Hvíl í friði.
Halldór, Ásta, Árný Anna
og Helgi Páll Svavarsbörn.
Elsku frænka og vinkona. Ekki ór-
aði mig fyrir því þegar við töluðum
saman á nýársdag að þetta yrði okkar
síðasta samtal. Þú varst svo kát og
hress, ánægð með að vera hætt að
vinna og geta eytt meiri tíma fyrir þig
og þína. Þú varst að fara í sólina til
Kanaríeyja og það síðasta sem þú
sagðir við mig var „Sjáumst þegar ég
kem aftur.“ Við eigum ekki eftir að
hittast hérna megin elskuleg, en ég
veit að við eigum það eftir.
Við voru systradætur og jafnöldr-
ur og ólumst upp svo að segja saman.
Við áttum saman margar eftirminni-
legar bernskustundir og þá standa
upp úr samverustundirnar á Gunn-
arsbraut hjá ömmu og afa og síðan
hjá afa eftir að amma féll frá. Við
voru kátar og fjörugar stelpur, uppá-
tækjasamar svo sumum þótti nóg um,
en við skemmtum okkur dásamlega
saman og það undarlega er að ég man
ekki til þess að við höfum nokkurn
tímann rifist.
Við giftumst um svipað leyti og að-
eins nokkrir mánuðir voru á milli
elstu barna okkar, Gulla og Bjarna.
Þó við værum ekki í daglegu sam-
bandi og stundum leið langur tími á
milli þá vissum við alltaf, að ef eitt-
hvað bjátaði á þá var hægt að leita til
hinnar. Að þínu frumkvæði áttum við
því láni að fagna, að fara saman í
ógleymanlega Grikklandsferð með
Rannveigu móðursystur okkar og
þær þrjár vikur sem við vorum sam-
an þar verða mér ógleymanlegar.
Lífið lék ekki alltaf við þig, en að
mörgu leyti varstu gæfumanneskja,
þú eignaðist 5 myndar syni sem þú
varst ákafleg stolt af og varst orðin
amma og langamma. Þú ljómaðir allt-
af þegar þú varst að tala um litlu kríl-
in þín og fjölskyldu. Þú varst líka svo
lánsöm að eiga þitt góða skap og
skörpu greind og þú varst alltaf hrók-
ur alls fagnaðar og hláturinn þinn svo
smitandi að yfirleitt endaði með því
að allir tóku undir.
Elsku Svanhildur mín, þú varst
mín besta vinkona og trúnaðarvinur,
engin reyndist mér betur en þú þegar
ég þurfti á að halda. Ég á eftir að
sakna þín svo lengi sem mér endist
aldur. Nú ertu farin í ferðina sem við
eigum öll eftir að fara, en ég veit að
margar ástríkar hendur verða til að
taka á móti þér.
Ég kveð þig með kveðjuorðinu
okkar.
„Sjáumst.“
Regína.
Mig langar að minnast frænku
minnar Svanhildar með nokkrum
orðum. Svanhildur kom snemma inn í
líf mitt þar sem hún var eins og elsta
dóttir móður minnar. Fyrstu minn-
ingarnar eru frá því að hún var gift
fyrri eiginmanni sínum og átti von á
Ragnari yngsta syni þeirra. Þetta var
á árum þar sem ekkert óvenjulegt
gerðist og við lifðum frekar fábrotnu
lífi dag frá degi, það var ekkert sjón-
varp og hátindur vikunnar var Lög
unga fólksins sem var einn klukku-
tími í Ríkisútvarpinu einu sinni í viku.
Svo kom Svanhildur og þá breyttist
allt. Hún var fallegasta kona sem ég
hafði á ævinni séð, mér fannst hún
eins og Grace Kelly eða Shirley Mac-
laine. Útgeislun Svanhildar og kímni-
gáfa var engum lík, hún hafði ein-
stakt lag á að hressa upp á tilveruna
og hrífa fólk með sér. Svanhildur bjó
á Bugðulæk og við á Hraunteig og
þegar hún kom til okkar með strák-
ana sína og öll vandamálin var sem
lífið færi í gang. Athygli móður minn-
ar var meira á henni en okkur systr-
unum fjórum til samans en okkur
Björgu sem eldri vorum leiddist
þetta ekki, við fylgdumst með öllu
sem fram fór og stundum þegar
dramatíkin var á hátindi þurftum við
að fela okkur í fatahenginu til að
missa ekki af neinu. Þetta var sápu-
ópera sjöunda áratugar síðustu aldar.
Ekki minnkaði áhugi minn á þessari
fallegu frænku þegar Sigurður A
kom inn í líf hennar, þá uppgötvaði ég
heim gleði og veisluhalda, frumsýn-
inga og síðkjóladansleikja að
ógleymdum ferðalögum hennar og
Sigurðar til Grikklands og víðar. En
það var ekki lognið á þeim bæ frekar
en í fyrra hjónabandi hennar og þeg-
ar stormarnir geisuðu sem hæst hafði
ég oft samúð með Sigurði þó oftar
hafi mér mislíkað við hann. Skrif Sig-
urðar um Svanhildi í bókinni Undir
dagstjörnu eru í fullkomnu ósam-
ræmi við það sem birtist mér sem
unglingur og ung kona. Eftir að ég
fullorðnaðist urðum við Svanhildur
nánar vinkonur í nokkur ár uns leiðir
skildu, hún fór sína leið og ég mína en
alltaf höfðum við samband öðru
hvoru. Hún sagði mér glöð frá því
þegar hún hitti Bæring og hversu
gott líf hún ætti með honum, nú væri
hún endanlega búin að finna sinn
rétta félaga.
Guð blessi minningu Svanhildar,
ég sendi fjölskyldu hennar og ástvin-
um mínar dýpstu samúðarkveðjur.
Margrét Kjartansdóttir.
Svanhildur Bjarnadóttir var vin-
kona mín. Við kynntumst fyrir rúm-
um 30 árum þegar við vorum báðar
að byggja í Mosfellsveit. Meðan á
byggingarframkvæmdunum stóð
bjuggu þau hjónin og strákarnir 5 í
litlum bragga sem stóð á lóðinni þar
sem verið var að byggja húsið þeirra,
Fell. Þrátt fyrir þröngan húsakost í
bragganum var stöðugur gestagang-
ur. Allir voru velkomnir og ekki
minnkaði gestrisnin þegar flutt var í
nýja húsið.
Við urðum fljótt mjög góðar vin-
konur og varla leið sá dagur að við
hittumst ekki á þessum árum. Það
var ávallt mikill samgangur á milli
fjölskyldna okkar á meðan við bjugg-
um í Mosfellssveitinni. Þótt langt hafi
liði á milli funda okkar síðastliðin ár
vorum við ætíð góðar vinkonur. Þeg-
ar ég hugsa til hennar kemur alltaf
sama myndin upp í huga mér: Svan-
hildur stendur brosandi og veifandi
með strákahópinn í kringum sig,
snúrurnar fullar af þvotti, ilmandi
bökunarlykt úr eldhúsinu, iðnaðar-
mennirnir saddir og sælir – enda
voru þeir í fæði hjá henni, bæði
kvölds og morgna. Svanhildur var
bráðskemmtileg. Hún geislaði af lífs-
orku og krafti. Það leiddist engum í
návist hennar. Hún var glæsileg og
bráðgreind kona sem tókst á við lífið
af fullum krafti, ávallt jákvæð og
bjartsýn.
Ég hitti Svanhildi síðast í sumar.
Að vanda geislaði hún af gleði, því
hún var hamingjusöm með Bæringi
sem hún hafði hafið sambúð með fyrir
nokkrum árum. Hún hlakkaði mikið
til þess að hætta að vinna og geta not-
ið fleiri samverustunda með honum.
Ég samgladdist henni innilega.
Kæru Ásta, Bæringur, Bjarni,
Mummi, Raggi, Magnús og Siggi
Palli, ég votta ykkur og fjölskyldum
ykkar innilega samúð mína. Ég finn
til með ykkur á þessari sorgarstundu.
„Drottinn gefðu dánum ró og hin-
um líkn sem lifa.“
Hólmfríður Kofoed-Hansen.
Mjög var okkur vinkonum Svan-
hildar brugðið er okkur barst and-
látsfrétt hennar. Við erum flestar
búnar að þekkjast í yfir 50 ár og má
telja það stórmerkilegt að milli eins
ólíkra einstaklinga og okkar hafi vin-
áttan haldist þetta lengi. Snerrur
okkar í milli hafa verið ófáar en sætt-
irnar jafn margar. Solla var með
Svanhildi í bekk í Austurbæjarbarna-
skólanum en Thelma, Sigrún, Elsa og
Halla kynntust henni í 1. bekk í
Gagnfræðaskólanum við Lindargötu.
Seinna fórum við allar í Gagnfræða-
skóla Austurbæjar. Við vorum lífs-
glaðar ungar hnátur og fyrir utan
skólaskemmtanir var aðal fjörið í
Oddfellowhúsinu á sunnudögum milli
kl. 3 og 5. Þar lék KK-sextettinn fyrir
dansi. Í tvo tíma dönsuðum við linnu-
laust og nutum okkar í „tjúttinu“ með
tilheyrandi loftfimleikum. Okkur öll-
um fannst við flinkar dansstjörnur.
SVANHILDUR
BJARNADÓTTIR
! "#
!
"
#$%%
& '
()*
+
,)--.
$ %&"'"()*
+' ,%)* -.*/((
0%'" ,%)* ')%!'!
1*' ( # 0()*
'%)*'"
2$-&
0!,'!
,%'"'
3
31*41*(&5
ÆSKILEGT er að minningar-
greinum fylgi á sérblaði upp-
lýsingar um hvar og hvenær sá,
sem fjallað er um, er fæddur,
hvar og hvenær dáinn, um for-
eldra hans, systkini, maka og
börn, skólagöngu og störf og
loks hvaðan útför hans fer
fram. Ætlast er til að þessar
upplýsingar komi aðeins fram í
formálanum, sem er feitletrað-
ur, en ekki í greinunum sjálf-
um.
Formáli
minning-
argreina