Morgunblaðið - 14.05.2002, Side 17
AKUREYRI
MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 14. MAÍ 2002 17
AKUREYRI hefur mikilvægu
hlutverki að gegna varðandi það
að byggja Eyjafjörð upp sem vaxt-
arsvæði í framtíðinni. Um það eru
fulltrúar allra flokka sem bjóða
fram til bæjarstjórnarkosninga á
Akureyri nú í lok maí sammála.
Byggðarannsóknastofnun efndi á
dögunum til fundar með fulltrúum
stjórnmálaflokkanna þar sem rætt
var um Eyjafjörð sem vaxtarsvæði
og hlutverk Akureyrar í þeirri
þróun.
Þóra Ákadóttir, Sjálfstæðis-
flokki, sagði byggðamálin m.a.
snúast um að sveitarfélögin byðu
upp á öfluga grunnþjónustu. Væri
hún ekki í lagi gilti einu hvað gert
væri til að snúa byggðaþróuninni
við. Nefndi Þóra að markaðsátak
Akureyrarbæjar hefði vakið at-
hygli og styrkt ímynd svæðisins.
Akureyri ætti að vera álitlegur
valkostur til búsetu fyrir til að
mynda fólk sem væri að flytja til
landsins frá útlöndum og bærinn
ætlaði sér ekki að vera í vara-
mannahlutverki fyrir höfuðborgar-
svæðið.
Greiðar samgöngur
skipta öllu
Í máli Jóns Erlendssonar,
Vinstri grænum, kom fram að
greiðar samgöngur um svæðið
hefðu mikið að segja þegar vaxt-
arsvæði væru skilgreind. Vaðla-
heiðagöng réðu því úrslitum hvað
varðar greiðar samgöngur austur
á bóginn. Vissulega væri líka mik-
ilvægt að samgöngur til nágranna
í vestri væru góðar. Barátta um
opinbert fjármagn inn á svæðið
væri hörð og menn þyrftu að for-
gangsraða.
Að mati Jóns er skynsamlegra
að ráðast í göng undir Vaðlaheiði á
undan jarðgöngum milli Ólafs-
fjarðar og Siglufjarðar.
Akureyri hafi
frumkvæði
Jakob Björnsson, Framsóknar-
flokki, sagði hlutverk Akureyrar
krefjandi og óvægið, sömu kröfur
væru gerðar varðandi þjónustu
bæjarins og gerðar væru í Reykja-
vík. Hann sagði hlutverk Akureyr-
ar að hafa frumkvæði meðal sveit-
arfélaga á svæðinu t.d. gagnvart
ríkisvaldinu.
Oddur Helgi Halldórsson, Lista
fólksins, ræddi m.a. um mikilvægi
þess að jafna flutningskostnað, en
um mikið réttlætismál væri að
ræða fyrir fyrirtæki á landsbyggð-
inni. „Mér finnst ég alltaf vera að
greiða toll til Reykjavíkurhafnar,
þegar ég flyt inn vörur. Það þarf
að greiða gjald, þó svo að varan sé
á leið beint norður og komi aldrei
á land í Reykjavík,“ sagði Oddur
Helgi. Hann sagðist einnig vilja
kanna möguleika á sameiningu
orkufyrirtækja á svæðinu með það
að markmiði að gera þau öflugri.
Mikilvægt að efla nýsköpun
og standa vörð um verknámið
Ingi Rúnar Eðvaldsson, Sam-
fylkingunni, nefndi að byggja
þyrfti upp öflugt raungreinanám
við Háskólann á Akureyri ef bær-
inn ætti að rísa undir nafni sem
mótvægi við höfuðborgarsvæðið.
Mjög mikilvægt væri að efla ný-
sköpun á svæðinu og þá þyrftu
menn að huga að verknáminu.
Miklum erfiðleikum væri bundið
að halda úti verknámi við Verk-
menntaskólann á Akureyri og til-
hneiging til að flytja það allt suður
í Kópavog. Hvatti hann menn
mjög til að vera á verði gagnvart
þeirri þróun.
Nefndi Ingi Rúnar að Samfylk-
ingin væri á móti Vaðlaheiðagöng-
um í óbreyttri mynd. Þau væru
dýrt spaug ef einungis væri um að
ræða að búa til sunnudagsbíltúr
fyrir bæjarbúa austur í sveitir.
Hins vegar ef unnt væri með þeim
að stytta vegalengd til Húsavíkur
niður í hálftíma akstur þá væri
komin nauðsynleg forsenda fyrir
mannvirkinu. Ingi Rúnar sagði
líka mikilvægt að efla samstarf við
Skagfirðinga en til þess þyrfti að
laga veginn yfir Öxnadalsheiði.
Fulltrúar flokkanna voru sam-
mála um að Háskólinn á Akureyri
gengdi lykilhlutverki varðandi
byggðaþróun á svæðinu og því
þyrfti að standa um hann vörð.
Eins kom fram í máli fulltrúanna
vilji til að sameina sveitarfélög í
Eyjafirði og búa þannig til sterka
og öfluga einingu. Vilji nágranna-
sveitarfélaganna stæði hins vegar
ekki til slíkrar sameiningar, málið
ætti enn ekki hljómgrunn, en að
því hlyti að koma.
Hlutverk Akureyrar í þróun Eyjafjarðar sem vaxtarsvæðis
Morgunblaðið/Kristján
Fulltrúar stjórnmálaflokkanna sem bjóða fram á Akureyri eru sammála um mikilvægi Háskólans fyrir þróun
byggðar á svæðinu. Hér hlýða fundarmenn á framsögur.
Háskólinn gegnir
lykilhlutverki