Morgunblaðið - 02.06.2002, Qupperneq 4
FRÉTTIR
4 SUNNUDAGUR 2. JÚNÍ 2002 MORGUNBLAÐIÐ
Taktu þátt í
Tölvufræðibraut Iðnskólans í Reykjavík hefur verið í fararbroddi á sínu sviði.
Og nemendur þaðan gegna víða ábyrgðarstöðum. Kennt er allt um tölvuna;
stýrikerfi og notkun algengasta hugbúnaðar, forritun, gagnasafnsfræði
og tölvutækni, allt eftir áhuga nemenda á sérhæfingu.
Upplýsinga- og fjölmiðlabraut Iðnskólans í Reykjavík menntar fólk til
starfa við allar helstu hliðar nútíma fjölmiðlunar, svo sem bókaútgáfu,
blaðaútgáfu, ljósvakamiðlun og netmiðlun, allt eftir því sérsviði sem
nemendur velja sér eftir grunnnám. Sérsviðin eru; grafísk miðlun, prentun,
ljósmyndun og veftækni. Tekið er mið af nýjum tímum og nýrri tækni
við framsetningu og miðlun upplýsinga.
IÐNSKÓLINN Í REYKJAVÍK
Skólavörðuholti • 101 Reykjavík • Sími 522 6500
www.ir.is • ir@ir.is
Upplýsinga- og tölvusvið
upplýsingabyltingunni!
Traust menntun í framsæknum skóla
LAGADEILD Háskóla Íslands hef-
ur nú í fyrsta skipti sent nýstúdent-
um um land allt bréf þar sem fram fer
kynning á lagadeildinni. Að sögn Kol-
brúnar Lindu Ísleifsdóttur, kennslu-
stjóra lagadeildar HÍ, er þetta m.a.
gert til að bregðast við aukinni sam-
keppni íslenskra menntastofnana um
verðandi laganema. Jón Steinar
Gunnlaugsson, sem ráðinn hefur ver-
ið prófessor við lagadeild Háskólans í
Reykjavík, frá og með næsta hausti
segir að það veki auðvitað sérstaka
athygli ef lagadeild Háskóla Íslands
taki upp á því að skrifa nýstúdentum
sérstakt bréf til að hræða þá frá því
að setjast í lagadeild Háskólans í
Reykjavík. Hann segir að lagadeild
Háskólans í Reykjavík muni hefja
kennslu næsta haust og sinna þar
fullri lagakennslu, þ.e. útskrifa full-
numa lögfræðinga.
Í kynningarbréfinu er vakin at-
hygli á því að lagadeild HÍ er eina
lagadeildin sem býður upp á laganám
til embættisgengis hérlendis. Orðrétt
segir: „Lagadeild Háskóla Íslands er
eina háskóladeildin sem útskrifar
lögfræðinga með embættispróf, en
það (eða sambærilegt próf) er for-
senda þess að fá að starfa sem lög-
maður eða dómari hér á landi.“
Um þetta segir Kolbrún Linda:
„Þetta er kynning á lagadeild Há-
skóla Íslands sem er og hefur verið
eina deildin sem býður enn upp á full-
gilt embættispróf í lögfræði.“ Fram
til þessa hefur lagadeildin ekki haft
þann háttinn á að eiga samskipti við
verðandi laganema áður en nám
hefst, fyrr en skráningar liggja fyrir.
Í bréfinu er m.a. fjallað um upp-
byggingu laganámsins og samstarf
við aðrar háskóladeildir.
Kolbrún segir að tilurð bréfsins sé
einnig tilkomin vegna ákveðinnar
gagnrýni sem komið hafi fram á laga-
deildina, sem lýtur að meintri eins-
leitni í deildinni. Þannig hafi verið
gagnrýnt að laganemar séu steyptir í
sama mót og læri allir það sama án
þess að eiga val í námi. Þetta segir
Kolbrún að hafi breyst mikið á und-
anförnum tveimur áratugum og nú
standi laganemum margfalt fleiri val-
möguleikar til boða innan deildarinn-
ar en fyrr á árum. „Þeir sem segja að
laganámið hafi lítið breyst, eru
kannski þeir sem útskrifuðust milli
1970 og 1980 og vita því ekki um þær
breytingar sem gerðar hafa verið á
lagadeildinni síðan þá,“ segir Kol-
brún Linda.
Lögum verði breytt
Jón Steinar Gunnlaugsson, sem
ráðinn hefur verið prófessor við laga-
deild Háskólans í Reykjavík frá og
með 1. september nk., segir að laga-
deild Háskólans í Reykjavík muni
hefja kennslu næsta haust og sinna
fullri lagakennslu, þ.e. útskrifa full-
numa lögfræðinga. „Fram að þessu
hefur eins og menn vita bara verið
starfandi á Íslandi ein háskóladeild
sem útskrifar lögfræðinga; lagadeild
Háskóla íslands,“ segir hann og bætir
því við að með tilkomu lagadeildar
Háskólans í Reykjavík virðist sem
upp sé komin samkeppni, vegna
hennar. „Það vekur auðvitað sér-
staka athygli ef lagadeild Háskóla Ís-
lands tekur upp á því að skrifa ný-
stúdentum sérstakt bréf til að hræða
þá frá því að setjast í lagadeild Há-
skólans í Reykjavík á þeirri forsendu
að þeir lögfræðingar sem þaðan út-
skrifast muni ekki fá réttindi til að
starfa sem lögmenn og dómarar.“
Jón Steinar segir það vera hreina
fjarstæðu að fara fram með þessum
hætti. „Það er að vísu rétt að í núgild-
andi lögum um lögmenn er sérstak-
lega vitnað í Háskóla Íslands, þ.e. að
skilyrði fyrir því að fá réttindi sé að
hafa lokið embættisprófi í lögfræði
við Háskóla Íslands. En ástæðan fyr-
ir því að sá skóli er nefndur í lögunum
er auðvitað sú að það er eini skólinn
sem hefur útskrifað lögfræðinga.“
Jón Steinar segir að það geti þó
ekki verið að nokkrum, allra síst lög-
fræðimenntuðum manni, detti það í
hug að það verði hægt í íslenskum
lögum, þegar önnur lagadeild hafi
tekið til starfa, að veita lagadeild HÍ
einhver sérréttindi í því að útskrifa
lögfræðinga. „Það myndi sennilega
vera brot á almennum reglum um
jafnræði sem gilda í samfélaginu,“
segir Jón Steinar, og bætir því við að
það veki auðvitað mikla undrun að ný
lagadeild við Háskólann í Reykjavík
trufli virðulega prófessora við laga-
deild HÍ svo mjög að þeir sendi frá
sér bréf sem vitnað er til hér að ofan.
„Það er ástæða til að taka það fram
að það er enginn vafi á því að lögum
verður breytt þannig að ekki verður
gert upp á milli skólanna að þessu
leyti.“
Ekki búið að taka afstöðu
Samkæmt upplýsingum frá dóms-
málaráðuneytinu hefur ráðuneytinu
borist erindi frá Háskólanum í
Reykjavík þar sem því er beint til
ráðuneytisins að breyta gildandi lög-
um í samræmi við það að Háskólinn í
Reykjavík bjóði upp á nám sem hafi
það að markmiði að útskrifa lögfræð-
inga. Samkvæmt upplýsingum frá
ráðuneytinu hefur þó enn ekki verið
tekin afstaða til þessarar beiðni.
Háskólinn í Reykjavík
fer fram á lagabreytingu
MARGMIÐLUNARSKÓLINN
verður í framtíðinni sérstakur skóli
innan Iðnskólans í Reykjavík sam-
kvæmt samkomulagi milli Rafiðnað-
arskólans og Prenttæknistofnunar,
sem áður ráku skólann í sameiningu,
og Iðnskólans. „Með samkomulaginu
sameinast Margmiðlunarskólinn Iðn-
skólanum sem mun reka hann sem
deild eða sérstakan skóla,“ segir
Baldur Gíslason, skólameistari Iðn-
skólans. Hann verður einnig skóla-
stjóri Margmiðlunarskólans með
sameiningunni.
Skólagjöld Margmiðlunarskólans
verða felld niður, að sögn Baldurs, því
til að byrja með verður skólinn á
framhaldsskólastigi innan Iðnskólans
og innritunargjöld í samræmi við það.
Margmiðlunarskólinn mun flytjast í
húsnæði Iðnskólans. Hluti af tækja-
búnaði Margmiðlunarskólans verður
fluttur í Iðnskólann, að sögn Baldurs.
Byggt ofan á grunnnám
Margmiðlunarnámið í Iðnskólan-
um verður í stórum dráttum á sömu
nótum og áður, að sögn Baldurs.
„Í Iðnskólanum er kennt grunn-
nám af sama toga og það sem kennt
er í Margmiðlunarskólanum og við
munum byggja þetta nám ofan á það.
Því er óhætt að segja að Margmiðl-
unarskólinn verði skóli innan skólans,
við ætlum að nemendur fari ekki inn í
margmiðlunarnámið nema að loknu
undirbúningsnámi í framhaldsskóla.“
Stefnt er að því að nám í Margmiðl-
unarskólanum verði tvö ár eftir fram-
haldsskóla. Inntökuskilyrði verða
tveggja ára nám í upplýsinga- og fjöl-
miðlagreinum, sveinspróf í bóka-
gerðagreinum, tölvubrautum, nám af
listnámsbrautum eða annað sambæri-
legt nám. „Við munum leggja metnað
okkar í að sinna þeim nemendum sem
flytjast með skólanum, gagnvart þeim
höfum við ákveðnum skyldum að
gegna,“ segir Baldur. Þá á hann von á
að einhverjar fjöldatakmarkanir
verði á náminu í framtíðinni.
Góð viðbót við
nám Iðnskólans
Sameiningin tekur gildi frá og með
deginum í dag, 1. júní, og munu því
þeir nemendur Margmiðlunarskólans
sem eru að ljúka námi, brautskrást
frá margmiðlunardeild Iðnskólans í
Reykjavík. Samkvæmt samkomulagi
munu nýir og eldri nemendur, vegna
næstu anna, verða innritaðir í Iðn-
skólann og námið auglýst og kynnt á
hans vegum.
Baldur segir að Rafiðnaðarskólinn
og Prenttæknistofnun muni ekki
koma að rekstri Margmiðlunarskól-
ans. Hann segir að undirbúningur
sameiningarinnar hafi staðið um hríð
en rekstarerfiðleikar fóru að gera
vart við sig hjá Margmiðlunarskólan-
um í byrjun ársins.
Margmiðlunar-
skólinn samein-
ast Iðnskólanum
HALLDÓR Ásgrímsson utanrík-
isráðherra fór í gær til Nablus, þar
sem hann heimsótti Al Aqrabanieh-
skólann, sem byggður var með að-
stoð Íslendinga. Utanríkisráðherra
þurfti að bíða í klukkustund við
varðstöð Ísraelshers við Nablus á
leiðinni í skólann og þurfti svo að
taka á sig klukkustundar krók til
að forðast átakasvæði. Í skólanum
var íslensku gestunum tekið fagn-
andi, en síðan lá leiðin í flótta-
mannabúðirnar í Jenín.
Halldór Ásgrímsson utanrík-
isráðherra hóf heimsókn sína til
sjálfstjórnarsvæða Palestínumanna
í Betlehem í fyrradag þar sem hann
skoðaði Fæðingarkirkjuna og um-
merki um fjörutíu daga umsátur
Ísraelshers um kirkjuna nú í vor.
Hann heilsaði einnig upp á börn
sem nutu skemmtunar trúða fyrir
utan kirkjuna, þáði hnetur og rús-
ínur að gjöf frá götusala og heim-
sótti ráðhúsið í Betlehem þar sem
honum var m.a. sýndur upp-
sprengdur peningaskápur sem Pal-
estínumenn segja að Ísraelsher hafi
rænt. Þá voru ráðherranum sýndar
skemmdir á og við Fæðingarkirkj-
una og skriðdrekaför á götum.
Mest er þó eyðileggingin í menn-
ingar- og fræðslumiðstöð sem reist
var fyrir gjafafé frá sænsku þjóð-
inni en þar hafði Ísraelsher aðsetur
á meðan á hernaðaraðgerðunum
stóð.
„Mér fannst ákaflega hátíðlegt
að koma að þeim stað þar sem frels-
arinn er fæddur,“ sagði Halldór eft-
ir að hafa skoðað sig um í borginni.
„Þetta er staður sem er afskaplega
sterkur í huga allra Íslendinga. Á
sama tíma erum við hins vegar að
verða vitni að þeirri miklu eyði-
leggingu sem hér hefur átt sér stað.
Ég sé hér margt sem hefur gerst
sem ég held að verði aldrei skýrt.
Það má vel vera að það sé alltaf
þannig þegar stríð og átök geisa en
það er til dæmis erfitt að sjá rökin
fyrir því að ráðast inn á skrifstofur
borgarinnar og eyðileggja þar öll
gögn.“
Halldór sagði það einnig hafa
haft mikil áhrif á sig að heyra að
börn í bænum kæmust ekki í skóla
og sjá fjölmargar verslanir við
Fæðingarkirkjuna lokaðar þar sem
engir ferðamenn komi lengur til
Betlehem. „Það er alveg ljóst að líf-
ið hérna getur ekki haldið áfram
nema þetta breytist og að það að ná
samningum hlýtur að vera sigur
allra. Það getur ekkert verið verra
en þetta.“
Morgunblaðið/Sigrún Birna
Halldór þurfti að bíða í klukkustund við varðstöð Ísraelshers í Nablus, á leið sinni í skóla sem Íslendingar áttu
þátt í að byggja. Síðan þurftu Íslendingarnir að taka á sig klukkustundar krók til að forðast ófriðarsvæði.
Halldór Ásgrímsson heimsótti Betlehem á för sinni um Miðausturlönd.
Halldór Ásgrímsson
hjá Palestínumönnum
Hátíðlegt
að koma
þar sem
frelsarinn
var fæddur
Nablus. Morgunblaðið.