Morgunblaðið - 02.06.2002, Qupperneq 16
16 SUNNUDAGUR 2. JÚNÍ 2002 MORGUNBLAÐIÐ
Þ
AÐ fyrsta sem ég veitti athygli var
að loftið var léttara, það var meiri
eftirvænting í öllu og menn voru
ekki jafnvarir um sig. Göturnar
voru hreinni, fólkið var frjálslegra í
fasi og óþvingaðra en áður.
„Það er allt að breytast hérna og
til hins betra,“ sagði sýrlenskur kaupsýslumað-
ur við mig. „Bashar er klókur eins og faðir hans
en hann er nútímamaður og hefur sýnt mikla
festu í samskiptum við stóru valdaklíkuna eða
hirðina sem faðir hans hafði komið upp í kring-
um sig.“
Margir óttuðust einmitt að hirð Hafez al Ass-
ad, sem ríkti í áratugi, mundi reynast Bashar
þung í skauti og reyna með kjafti og klóm að
koma í veg fyrir að nokkrar breytingar yrðu á
því fyrirkomulagi sem var á stjórnartímum
Assads eldri.
Auk þess var margra trú að Bashar, sem er
aðeins rúmlega hálffertugur og hafði litla
reynslu af stjórnunarstörfum og takmarkaða
tiltrú í Sýrlandi, mundi þurfa að halla sér það
sterklega að ráðgjöfum að þeir héldu sínu og
enginn úr valdastéttinni missti spón úr aski sín-
um. Sú virðist ekki ætla að verða raunin. Bash-
ar Assad tryggir sig í sessi æ betur með hverj-
um mánuðinum sem líður og þær umbætur sem
hann er að gera í landinu ganga fram – hægt að
vísu en þokast þó.
Konur prísa forsetafrúna sem
birtist æ oftar opinberlega
Skömmu eftir að Bashar var kosinn forseti í
þrautskipulögðum „kosningum“ sumarið 2000
eftir að faðir hans lést, gekk hann að eiga sýr-
lenska skólasystur sína. Hún var samtíða hon-
um í Bretlandi og lagði þar stund á tölv-
unarfræði og sagt er að hún hafi raunar verið
meira og minna uppalin þar í landi.
Gamla frú Assad hafði verið frú síns forseta í
áratugi en fæstir Sýrlendinga höfðu nokkurn
tíma séð henni bregða fyrir. Það hefur ekki ver-
ið venja arabaleiðtoga að vera að hampa konum
sínum út á við þó svo að því hafi lengst af verið á
annan veg farið til dæmis í Jórdaníu þar sem
konur Husseins, hins sálaða Jórdaníukonungs,
hafi látið til sín taka á opinberum vettvangi og
síðar Rania, kona Abdallah, núverandi kon-
ungs.
En í Sýrlandi birtist nú allt í einu bráðfalleg
eiginkona Bashars þegar hann var við opinber-
ar athafnir, hún tók að sér að vera verndari ým-
issa velferðar- og hjálparsamtaka, sýndi áhuga
á að aðstoða og koma upp skóla fyrir fötluð
börn, tók þátt í umræðum á kvennaþingum í
Sýrlandi og hvaðeina. „Og aldrei bar hún svo
mikið sem slæðu um hárið, og sýndi með því út
á við að sýrlenskar konur ráða því algerlega
hvernig þær klæða sig og eru ekki kúgaðar til
að hylja hár sitt og þaðan af síður andlit,“ sagði
Mara, fulltrúi kvennasamtaka Sýrlands við
mig.
Og fleira gerðist sem allir röktu til hinnar
fögru forsetafrúar. Net- og farsímanotkun
hafði verið stranglega bönnuð í landinu en nú
varð þar á breyting sem fáir hefðu trúað. Net-
kaffi eru ekki á hverju strái í Sýrlandi og þótt
maður setjist inn á þau er alveg spurning hvort
maður nær sambandi. En það stafar ekki leng-
ur að mestum hluta af því að það sé bannað,
heldur því hvað Sýrlendingar eru aftarlega í
fjarskiptamálum og stefna að því á næstu árum
að gera stórmikið átak til að bæta það. Þeir
hafa þegar gert samninga við nokkur evrópsk
fyrirtæki um það. Og farsíma ganga menn nú
með út um allt og þykir ekki nema sjálfsagt.
„Þótt ekki væri nema fyrir þetta, hefur Sýrland
breyst,“ sagði Mara.
Og svo hefur forsetahjónunum nú fæðst erf-
ingi og ekki hefur dregið úr gleðinni við það.
Ég veitti því eftirtekt að nýi forsetinn hefur
ekki reynst jafnofboðslega myndaglaður og
faðir hans. Myndir af föðurnum, málverk, stytt-
ur og skilti eru áfram úti um allt og vissulega
eru víða myndir af nýja forsetanum.
En hann virðist ekki hafa jafnríka þörf og
faðir hans fyrir að láta alla alltaf finna fyrir ná-
lægð sinni.
Í Damaskus sérstaklega og helstu bæjum
var varla hægt að snúa sér við svo ekki blasti
við mynd af Hafez al Assad. Hann er enn ná-
lægur því Bashar hefur ekki tekið niður mynd-
irnar af honum „af því að hann vill heiðra föður
sinn og þakka honum þann stöðugleika sem
ríkti í landinu okkar á stjórnartíma hans,“ sagði
Maher Hafez við mig. „En hann hefur lítið gert
af því að bæta við myndum af sjálfum sér.
Nema náttúrlega í stjórnarstofnunum en þar er
eðlilegt og sjálfsagt að hafa myndir af þjóðhöfð-
ingjanum. Hafið þið ekki myndir af kónginum
ykkar á þannig stöðum?“
Öndvert við það sem Bandaríkjamenn láta í
veðri vaka um stirfni og tregðu Sýrlendinga til
samvinnu varðandi hryðjuverkamenn, er margt
skjalfest þar um. Því hefur einhverra hluta
vegna ekki verið haldið á lofti í Bandaríkjunum
og alls ekki í Sýrlandi því Sýrlendingar vilja síð-
ur telja sig einhvers konar handbendi Banda-
ríkjastjórnar.
En það er á hreinu að sýrlenska stjórnin for-
dæmdi hryðjuverkið í Bandaríkjunum og það
er líka staðreynd að Sýrlendingar veittu ýmiss
konar aðstoð vikurnar eftir að atburðurinn
gerðist. Þegar Bandaríkjamenn töldu sig hafa
vitneskju um að einn flugræningjanna Mo-
hammed Atta, hefði um lengri eða skemmri
tíma, verið búsettur í Aleppo í Sýrlandi fékk
sendinefnd frá Bandarísku alríkislögreglunni
FBI leyfi til að koma til landsins og rannsaka
málið.
Einnig munu sýrlensk stjórnvöld hafa veitt
upplýsingar um bankainnstæður og símtöl
nokkurra manna sem Bandaríkjastjórn taldi að
lægju undir grun og hefðu tengsl við al-Qaeda-
samtökin.
Í Sýrlandi er eftirlit með almenningi og öðr-
um sem búa þar svo mikið að þetta mun ekki
hafa verið flókið mál.
Það hefur vafist fyrir Bandaríkjastjórn að
koma með sannfærandi skilgreiningu á því
hvað er hryðjuverk. Mér hefur fundist að
stundum sé það allt að því andlegt hryðjuverk
að vera á móti baráttu Bandaríkjamanna þó svo
markmiðið með baráttunni gegn alheims-
hryðjuverkum sé afskaplega loðið og óljóst.
En hvernig sem á málin er litið er skilningur
Sýrlendinga á því hvað telst hryðjuverk allt
annað en er í Bandaríkjunum. Sýrlendingar
skilgreina það ekki sem hryðjuverk þótt Palest-
ínumenn berjist gegn hernámi Ísraels og al-
mennt líta arabar svo á að þjóð Palestínu hafi
siðferðilegan og lögmætan rétt til að nota hver
þau meðul sem gætu skilað árangri til að koma
Ísraelum burt af þeim svæðum sem samkvæmt
alþjóðasamningum eru Palestínumanna.
Leiðir skilur þegar skilgreina
skal hvað eru hryðjuverk
Á sama hátt líta Sýrlendingar ekki svo á að
Hizbollah sem hefur aðalaðsetur sitt í Líbanon
séu að vinna hryðjuverk gegn Norður-Ísrael.
Hizbollah var stofnað um það leyti sem Ísraelar
gerðu innrás í Suður-Líbanon og var í fyrstu lit-
ið hornauga í Líbanon og víðar en hefur smátt
og smátt styrkt sig í sessi. Innan raða Hizbollah
eru margir mætir menn og konur og ákveðið
var að breyta samtökunum í lögmætan stjórn-
málaflokk sem á nú fjölda þingmanna á líb-
anska þinginu.
„Það hefur verið viðurkennt að þjóð eigi rétt
til að berjast gegn kúgara sínum og það er það
sem Hizbollah hefur gert,“ sagði Fahd Soheil,
forstjóri í Beirut, við mig. Soheil er prúður og
virðulegur maður, brosmildur og afar fjarri
hugmyndum manna á Vesturlöndum um hinn
ofstopafulla og grimma og venjulega heldur
ófrýnilega Hizbollah-félaga.
Hann hélt áfram: „Á meðan á heimsstyrjöld-
inni seinni stóð í Evrópu og nasistar hernámu
hvert landið af öðru voru andspyrnumenn í
hverju landi og þeir voru tilbúnir að láta lífið
fyrir málstaðinn. Evrópulönd státa af því mörg
hve kröftugar þessar andspyrnuhreyfingar
voru og telja félaga þeirra hetjur. Þetta fólk var
að vinna að sama markmiði og við erum að
gera. Hizbollah hefur vaxið ásmegin og við njót-
um stuðnings og tiltrúar vegna þess að við telj-
um málstaðinn réttan. En þið stimplið okkur
sem hættulega glæpamenn eða úrhrök. Það býr
mikið dómgreindarleysi og þekkingarskortur
að baki mörgu sem er skrifað um okkur.“
Ástæðan fyrir því að það ber vott um veru-
lega fáfræði að gruna sýrlensk stjórnvöld um
stuðning við al- Qaeda samtökin er meðal ann-
ars sú að þar hefur löngum ríkt mikil tortryggni
í garð hópa sem á einn eða annan hátt skera sig
úr og falla ekki að vilja stjórnvalda. Það átti við
um Múslimabræður upp úr 1980 en þeir voru
brotnir á bak aftur af mikilli hörku þá og hafa
enga fótfestu í Sýrlandi nú.
Þegar Bashar Assad kom til valda lýsti hann
því yfir að hann væri reiðubúinn að gera ýmsar
breytingar í landinu í átt til meira frelsis borg-
aranna. En hann var mjög afdráttarlaus þegar
kom að öfgahópum. Og þó Sýrlendingar skil-
greini Hizbollah og Hamas ekki sem hryðju-
verkasamtök af því þau samtök eru að berjast
fyrir að endurheimta það sem þau telja að sé
sitt land, þá hafa Sýrlendingar engan áhuga á
að styðja hópa hryðjuverkamanna sem berjast
gegn öðrum þjóðum og á þeirra landi, svo sem
árásina á Bandaríkjamenn.
„Sýrlendingar hafa enga samúð með þeim
öfgasinnum sem fremja morð og ódæðisverk í
nafni íslam og telja hryðjuverkin 11. sept. sér til
tekna. Það gengur alveg þvert á vilja okkar og
við teljum að það brjóti ekki aðeins gegn íslam
og öllum hennar kenningum – heldur gengur
það líka þvert á almenna afstöðu okkar. Við vilj-
um að Ísraelar viðurkenni rétt Palest-
ínumanna. Við viljum að Bandaríkjamenn beiti
áhrifum sínum þar. En við sjáum engan tilgang
í því að myrða Bandaríkjamenn í Bandaríkj-
unum eða nokkurs staðar annars staðar – nema
ef við værum á landi Palestínumanna og þeir
væru að berjast með Ísraelum.“
Þetta svar fékk ég hvarvetna þegar ég spurði
um afstöðu manna til hryðjuverkanna og í blöð-
um var einnig sagt frá því að sýrlenska lög-
reglan hefði unnið með bandarísku leyniþjón-
ustunni í austurhluta landsins og hjálpað til að
handsama nokkra náunga sem voru grunaðir
um hollustu við al-Qaeda.
Síðustu mánuði hefur færst aukin harka í
deilur Palestínumanna og Ísraela. Um það þarf
vart að fjölyrða. Mörgum hefur orðið tíðrætt
um af hverju arabar styðji ekki Palestínumenn
og standi með þeim í baráttunni við Ísraela. Að
sumu leyti sýna slíkar yfirlýsingar nokkra fá-
fræði á því hvernig í pottinn er raunverulega
búið. Ýmsir þjóðhöfðingjar arabalanda hafa
verið á sífelldum fundum og þeir hafa komið
með tillögur um hvernig megi leysa deiluna.
Hvað þekktust er líklega tillaga Sáda sem var
síðan rædd á leiðtogafundi í Beirút í Líbanon,
en það var í sjálfu sér tilgangslítið þar sem Ísr-
aelar bönnuðu Yasser Arafat að fara og sitja
fundinn.
Það er auðvitað í sjálfu sér makalaust að
maður sem kjörinn hefur verið yfirmaður Pal-
estínuþjóðarinnar og er eitt helsta sameining-
artákn hennar – þó svo hann fari í taugarnar á
Ariel Sharon, forsætisráðherra Ísraels – verður
að sæta slíkri framkomu án þess að nokkuð sé
hægt að gera.
Allir vita að það var þrýst á Ísraela og það er
þrýst á þá, en allt kemur fyrir ekki.
„Og þá segið þið blákalt, af hverju standið þið
ekki með þeim. Af hverju ráðist þið ekki bara á
Ísrael,“ sagði Ahmed Mahmoud, sýrlenskur
stjórnmálaskýrandi, við mig í Damaskus um
daginn. „Það vita allir að Ísrael er kjarn-
orkuveldi. Bandaríkjamenn hafa ekki gert at-
hugasemdir við það þó svo þeir gangi af göfl-
unum af bræði af því þeir segjast hafa grun um
að ofstopamaður eins og Saddam Hussein,
Íraksforseti, sé að koma sér upp slíkum vopn-
um.
Hver er munurinn á Saddam og Sharon í of-
stæki ef út í það er farið? Ég sé hann ekki.
Nema Saddam er í ónáð hjá Bush en Sharon er
að sögn Bandaríkjaforseta, vinur hans og frið-
arins maður. Hvernig eigum við að afbera að
hlusta á þetta. Þótt arabaríkin séu öll af vilja
gerð eru Ísraelar svo mikið herveldi að það
mundi vera ábyrgðarlaust með öllu að reyna að
ráðast gegn þeim.
Sharon hefur sýnt þannig framgang að hann
mundi varla hika lengi áður en hann henti
kjarnorkusprengju yfir araba. Og hverju væru
menn þá bættari? Við höfum einnig reynt að
sýna að við trúum ekki að vopn og endalaust
stríð leysi málin, við trúum á samninga-
viðræður. En meðan Bandaríkjamenn eru jafn-
hálfvolgir í því að sýna Sharon í tvo heimana, þá
gerist heldur ekkert gott. Málið er hér og það
brennur á okkur og stundum finnst mér yf-
irgengilegt rugl sem frá vestrænum fjölmiðlum
kemur, einkum bandarískum og breskum.“
Á aðra milljón í mótmælagöngu
í Damaskus
Á hverjum föstudegi og raunar oftar í viku
eru mótmælagöngur í helstu borgum Sýrlands
og Líbanons. Mótmælastöður eru allan sólar-
hringinn, þar sem menn koma saman, selja boli
og spjöld og fleira til styrktar Palestínu. Ein
helsta göngugatan í nýja miðbænum í Beirút
hefur verið lögð plakötum af Ariel Sharon. „Við
getum þá að minnsta kosti gengið yfir hann í
óeiginlegri merkingu,“ sögðu ungmenni sem
stjórnuðu mótmælunum, léku tónlist og flutt
voru ávörp.
Í Damaskus eru einnig mótmælagöngu á
föstudögum, þær enduðu stundum með ósköp-
um fyrr í vetur og hvað eftir annað var gerð at-
laga að um þúsund vopnuðum vörðum við
bandaríska sendiráðið í Damaskus. Nú hefur
stjórnin sett reglur um þessar göngur og hefur
mikinn viðbúnað á föstudögum og götur sem
liggja að bandaríska sendiráðinu og ýmsum
öðrum stofnunum þar í grennd eru lokaðar.
Sérstakar göngur og mótmælafundir eru einnig
í öllum helstu flóttamannabúðum Palest-
ínumanna á þessum svæðum, en að fenginni
reynslu er nú bannað að þær fari út fyrir flótta-
mannabúðirnar.
1. maí var á aðra milljón manns í mótmæla-
göngu í Damaskus og var sagt að aldrei hefðu
fleiri tekið þátt í göngunni. Þegar ég kom út af
hótelinu mínu með nokkrum Íslendingum voru
hópar að safnast saman og göngumenn veifuðu
þegar þeir sáu útlendingana. „Komið þið með,
mótmælið með okkur, þið eruð vinir fyrst þið
komið hingað,“ var hrópað úr öllum áttum.
Þrátt fyrir mikinn fjölda kom ekki til teljandi
vandræða þegar göngurnar sameinuðust allar.
Nokkur hópur reyndi þó að ryðja sér braut yfir
farartálmana við bandaríska sendiráðið en var
hrakinn frá og varð að beita hörku svo að
nokkrir urðu fyrir meiðslum.
Því virðist mér augljóst að sýrlensk stjórn-
völd vilja fyrir hvern mun forðast að espa
Bandaríkjastjórn meira upp gegn stjórninni í
Damaskus en orðið er. En það kemur fyrir lítið,
Sýrlendingar sitja enn á lista Bush yfir öxul-
veldi hins illa og á afstöðu Bandaríkjastjórnar
virðist engin breyting sjáanleg og að mínum
dómi er það miður
Bandaríkin líta svo á að Sýrlendingar séu ósveigjanlegir of-
stopamenn sem styðji hryðjuverk og þjálfi hryðjuverkamenn og
hafa nýlega ítrekað þá skoðun með því að hafa Sýrland á ríkja-
listanum sem teljast „öxulveldi hins illa“. En þegar að er gáð er
málið ekki svona einfalt, skrifar Jóhanna Kristjónsdóttir sem
var á dögunum í Sýrlandi og Líbanon.
Rofar til í Sýrlandi
Í Sýrlandi er fólk nú opnara og afslappaðra en áður. Hér er fjölskylda í lautarferð í Damaskus.