Morgunblaðið - 23.06.2002, Blaðsíða 26
26 SUNNUDAGUR 23. JÚNÍ 2002 MORGUNBLAÐIÐ
Í
LOK maímánaðar féll dómur þar sem
Hæstiréttur Íslands staðfesti lög-
bann héraðsdóms á sýningu heimild-
armyndarinnar Í skóm drekans eftir
Hrönn Sveinsdóttur og Árna Sveins-
son, sem þau framleiddu í samvinnu
við Böðvar Bjarka Pétursson undir
nafni fyrirtækisns Tuttugu geitur ehf.
Í heimildarmyndinni er leitast við að gefa
innsýn í það ferli sem ungar konur sem taka
þátt í fegurðarsamkeppnum þurfa að ganga í
gegnum, jafnframt því sem þær útlitskröfur
sem gerðar eru til kvenna eru teknar til skoð-
unar. Í því skyni að komast í nálægð við feg-
urðarsamkeppni skráði Hrönn Sveinsdóttir sig
í keppnina Ungfrú Ísland.is sem haldin var í
fyrsta sinn árið 2000, komst inn og kvik-
myndaði þátttökuferlið allt fram til úr-
slitakvöldsins í Perlunni. Markast sjónarhorn
frásagnarinnar við upplifun Hrannar og þeirra
sem henni standa næstir að undirbúningnum;
af því að vera í raun
að taka þátt á þeim
forsendum að gera
kvikmynd um keppn-
ina og þeim tog-
streitum sem hún
upplifði á þessu tíma-
bili.
Undirrituð hefur undanfarin ár fylgst af
áhuga með þróun kvikmyndagerðar á Íslandi
og hefur athyglin ekki síst beinst að þeim end-
urnýjandi krafti sem birst hefur í heimild-
armyndagerð. Þegar ég heyrði af umræddu
kvikmyndaverkefni Hrannar Sveinsdóttur og
félaga vaknaði mikil forvitni með mér um að
sjá afrakstur þessarar djörfu tilraunar. Feg-
urðarsamkeppnir og hagnýting tískuiðnaðar-
ins á yfirborðkenndum og einhæfum út-
litskröfum, einkum til kvenna, er þáttur í
menningu okkar sem seint verður full-
gagnrýndur. Það olli mér því miklum von-
briðum þegar ég las um það í fréttum að hér-
aðsdómur hefði sett lögbann á myndina að
kröfu eigenda fegurðarsamkeppninnar
Ungfrú Ísland ehf. annars vegar og fjórtán
þátttakenda sem voru í Ungfrú Ísland.is
keppninni árið 2000, á þeim forsendum að með
tökum á efni fyrir myndina hafi verið brotið
gegn lögum um friðhelgi einkalífs keppend-
anna. Eftir að hafa fylgst með störfum Hrann-
ar Sveinsdóttur og bróður hennar Árna á lista-
sviðinu hafði ég nefnilega grun um að um
áhugaverða heimildarmynd gæti verið að
ræða. Ég hugsaði með mér að vel hefði verið
hægt að gera mynd af þessu tagi væri þess að-
eins gætt, að hið gagnrýna sjónarhorn á
ákveðinn þátt í samfélaginu sem lagt væri upp
með einkenndist af yfirvegun og nærfærni við
viðfangsefnið. Hér væri reyndar komin fram
íslensk heimildarmynd sem reyndi á margar af
þeim siðferðilegu og fræðilegu spurningum
sem metnaðarfull heimildarmyndagerð um
heim allan glímir sífellt við. Þ.e. hvernig birt-
um við innviði og kjarna þess samfélagslega
veruleika sem við búum við og hvenær helgar
tilgangurinn meðalið? Í kringum lögbannið á
myndina sköpuðust erfið málaferli, þar sem
þátttakendum keppninnar þótti gengið nærri
persónurétti sínum þegar uppgötvaðist að efni
sem Hrönn tók á vettvangi keppninnar ættu
að verða efniviður í opinberri heimildarmynd.
Skapaðist óhjákvæmlega lagalega og tilfinn-
ingalega erfið staða, þar sem réttur höfunda
myndarinnar til að tjáningarfrelsis, og þess að
miðla gagnrýnni sýn sinni á samfélagið, skar-
aðist á við friðhelgi einkalífs keppenda.
Lykilatriðið í þessu máli tel ég veraspurninguna um hvernig höfundarmyndarinnar miðla efniviði sínum.Hins vegar virðist staðfestingardómur
Hæstaréttar að stórum hluta hafa verið felldur
á tæknilegum forsendum, þar sem aðstand-
endum heimildarmyndarinnar var gert að
bera hallann af því að neita að afhenda sókn-
araðilum vinnslueintak af myndinni til skoð-
unar. Ekki ætla ég að rekja þau málsatvik nán-
ar, en svo virðist sem heimildarmyndin sjálf,
þegar hún loks varð fullbúin seint og síðar
meir, hafi verið dæmd ótækt sönnunargagn í
málinu og því sé dómur Hæstaréttar ekki
byggður á yfirvegaðri skoðun á því verki sem
lögbann hefur verið sett á. Í þessu mikilvæga
máli hefur því ekki reynt fyllilega á spurningar
sem hljóta að vera hvað mest aðkallandi í
þessu samhengi, þ.e. hvaða málefni er hér um
að ræða, hvaða sýn á veruleikann leitast höf-
undarnir við að miðla og hvað er það í mynd-
inni sem gengur svo á æru keppendanna að
réttlætanlegt sé að loka fyrir þá gagnrýnu
rödd sem hér hefur óneitanlega kveðið sér
hljóðs?
Á dögunum leitaði ég til framleiðenda verks-
ins Í skóm drekans um að sjá hina umdeildu
mynd. Eftir að hafa séð myndina finn ég mig
knúna til að gera grein fyrir því hvers konar
verk þar er á ferðinni, hvaða nálgun er beitt á
viðkvæmt viðfangsefnið út frá listrænum og
samfélagsgagnrýnum forsendum og dreg það
stórlega í efa, að þau atriði þar sem öðrum
þátttakendum bregður fyrir gangi svo nærri
einkalífinu að ritskoðun eigi rétt á sér.
Heimildarmyndin er öflugur listrænn miðill
og hefur frásagnaraðferð hans orðið fræði-
mönnum tilefni áhugaverðra vangaveltna
um miðlun og skynjun á veruleikanum.
Andstætt því sem virðist í fyrstu, þar sem
heimildarmyndin „fangar“ að öllu jöfnu
efnivið sinn beint úr veruleikanum, er
formið ávallt undirselt stýrðri frásögn.
Þannig er ávallt sú hætta fyrir hendi að
kvikmyndagerðarmaðurinn hafi áhrif á
þann veruleika sem hann leitast við að
varpa ljósi á og myndin því skekkt eða
skrumskæld. Sjónarhorn kvikmyndargerð-
armannsins verður að markast af viðleitni
við að varpa ljósi á viðfangsefnið og að
nálgunin leiði til aukins skilnings á því efni
eða samhengi sem sjónum er beint að. Ná-
lægð heimildarmyndarinnar við umfjöll-
unarefnið gerir þetta verkefni í senn vand-
meðfarnara og beittara en í mörgum öðrum
listmiðlum og verður kvikmyndagerðarmað-
urinn að gæta þess að vinna af yfirvegun og
innsæi.
Heimildarmyndin Í skóm drekans er tekin
við gríðarlega erfiðar aðstæður, í mikilli ná-
lægð við umfjöllunarefnið, en engu að síður
tekst höfundum myndarinnar að halda athygl-
inni á því sem máli skiptir, þ.e.a.s. viðleitninni
við að fjalla um ungar konur andspænis hefð-
bundnum hugmyndum um kvenleika og eft-
irsóknarvert útlit. Í nálgun sinni við viðfang-
efnið ákveður kvikmyndagerðarkonan að nota
sjálfa sig sem nokkurs konar prófstein á þann
veruleika sem kannaður skal. Þetta er ekki
einungis djörf ákvörðun, heldur líklega sú eina
rétta, því tilraun til að fylgjast með þessari til-
teknu fegurðarsamkeppni utan frá hefði ein-
ungis brugðið upp fjarlægri og yfirbor-
skenndri mynd af keppninni og þátttakendum
hennar. Og með því að gerast þátttakandi í
keppninni opnar höfundurinn fyrir mögu-
leikann á hinu óvænta, svo úr verður sér-
staklega áhugavert kvikmyndaverk sem segir
á stundum meira en þúsund orð þann yf-
irborðskennda leik sem fegurðarsamkeppnir
geta verið. Höfundar sýna þá nærgætni sem
þeim er unnt gagnvart öðrum keppendum
myndarinnar, sem eru lítt áberandi í atburða-
rásinni, um leið og hvergi er hikað við að tala
hreint út um hlutina.
Sú gagnrýna umfjöllun sem höfundar heim-
ildarmyndarinnar tefla hér fram er að mínu
mati er bæði verðug og brýn. Umfjöllunarefnið
er jafnframt áhugavert með skírskotun til
smáþjóðarinnar Íslands sem hefur haft sterka
tilhneigingu til að byggja landkynningarímynd
sína á þeirri hugmynd að hér búi fallegustu
konur í heimi og að því sé það eftirsóknarvert
fyrir útlendinga að koma hingað. Íslenskar
konur og fagurt sköpulag þeirra hefur þannig í
gegnum tíðina verið gert að söluvöru, hvort
sem konunum hefur líkað það betur eða verr.
Nú hefur fyrirtækið Ungfrú Ísland ehf. ein-
mitt selt hugmynd sína að nútímalegri fegurð-
arsamkeppni á alþjóðamarkað og hefur frekari
útflutningur á „íslenskri fegurð“ verið hafinn.
Með sinnni duldu nærskoðun láta höfundar
heimildarmyndarinnar reyna á hvaða mann
fegurðarsamkeppnin Ungfrú Ísland.is hefur
að geyma og að hvaða leyti lýsingar aðstand-
enda á „nútímalegri“ hugmyndafræði keppn-
innar stenst þegar skyggnst er inn í hana. Þar
birtist víða sýn sem gefur áhorfendum tæki-
færi til að meta svart á hvítu hvaða kröfur eru í
raun gerðar til þátttakenda, hvaða þátt fjöl-
miðlar og styrktaraðilar spila í slíkum við-
burði. Hvaða mælikvarða er í raun verið að
leggja á einstaklinga í fegurðarsamkeppni og
hvaða áhrif hefur slíkt mat á sjálfsmynd ungr-
ar konu?
Hér komum við að þætti í sjónarhorni heim-
ildarmyndarinnar sem gefur henni hvað mest
gildi. Persónan sem er í umfjölluninni miðri,
Hrönn Sveindóttir, er engan veginn hafinn yfir
þær stöðluðu útlitskröfur sem hún heldur
þarna í krossferð gegn. Þessi togstreita spegl-
ast jafnframt í „hinum stúlkunum“ þar sem
þeim bregður fyrir í undirbúningsferlinu og
hún speglast í okkur áhorfendum. Við glímum
öll við þau viðmið sem samfélagið hefur sett
okkur um rétta hegðun og útlit. Þar vega kröf-
ur um rétt kyngervi og rétta kynhegðun þungt
og hlýtur þrá okkar eftir aðdáun og virðingu,
og ómeðvituð upplifun okkar á því hvernig við
„eigum“ að vera, alltaf að leggja mark á það
hvernig við metum okkur sjálf. Í þessari glímu
getur verið gott að vera meðvitaður um það, að
tískuiðnaðurinn hagnýtir óspart hina duldu
þrá okkar eftir að vera fallegust og best.
Hrönn fer í gegnum rækilega sjálfsskoðun í
heimildarmyndinni Í skóm drekans og slíka
sjálfsskoðun verður fyrirtækið Ungfrú Ís-
land.is líka að geta borið.
Heimildarmyndin Í skóm drekans ger-ir það sem öll sönn listaverk eiga aðgera. Hún tekur tiltekið mál til skoð-unar og bregður því í víðara sam-
hengi. Hið breiða samhengi er nokkuð sem
mikilvægt er að hafa hugfast þegar rætt er um
kynhlutverk og stöðu kynjanna, því það er
ekki síst í hugarfari og menningunni í kringum
okkur sem eimir eftir af gömlum kreddum.
Mitt álit sem kvikmyndagagnrýnanda er
það, að Hrönn Sveinsdóttir hafi haft réttlæt-
anlegar ástæður til þess að beita fyrir sig
nauðsynlegum aðferðum til þess að búa til
heimildarkvikmyndina Í skóm drekans og að
þar hafi verið gætt eins mikillar nærfærni við
aðra þátttakendur keppninnar og hægt var,
innan þess ramma sem myndin setur sér. Ég
skora því á þátttakendur Ungfrú Ísland.is að
láta af þeim kröfum að banna sýningar á heim-
ildarmyndinni Í skóm drekans. Myndin er ekki
gerð í illum tilgangi, heldur göfugum og bygg-
ist hún ekki á því að „upphefja sjálfan sig á
kostnað annarra“ líkt og einn keppenda heldur
fram í yfirlýsingu, heldur að varpa ljósi á og
spyrja spurninga um það samfélag og þá val-
kosti sem ungar konur standa frammi fyrir í
dag, þegar þær leitast við að byggja upp sjálfs-
mynd sína. Þessa kvikmynd má ekki ritskoða,
skerða eða skemma.
Að sýna hið ósýnilega
Hrönn Sveinsdóttir fer í gegnum rækilega sjálfsskoð-
un í heimildarmyndinni Í skóm drekans.
AF LISTUM
Eftir Heiðu
Jóhannsdóttur
heida@mbl.is
Morgunblaðið/Jim Smart
ÞAÐ kostar sitt að verakona. Sá frumskógursem við þurfum að rata í
gegnum til að nálgast þær
neysluvörur, sem ætlaðar eru
okkur eingöngu, getur verið
dimmur og kræklóttur á köfl-
um. Undir beljandi hitabelt-
isstormi auglýsenda ráfum við
um skóginn og í hverju tréi má
finna eitthvað nýtt, eitthvað
sem við „verðum að prófa!“ Og
hversu hagsýn sem hver kona
er, þá á hégóminn það til að
taka undir með storminum og
skola sparseminni út í hafs-
auga þegar svo ber undir.
Dömubinda-hringavitleysan
Þegar ég byrjaði að nota
dömubindi, seint á níunda ára-
tugnum, var ekki úr mörgu að
moða. Þykk bómullarbindi
voru eini kosturinn og not-
uðum við stelpurnar ýmist
Sjafnarbindi eða gömlu Lotus-
bindin og þótti ekkert at-
hugavert við þau, enda þekkt-
um við ekkert annað. Smám
saman fóru bindin að þynnast
og ég man eftir þeirri byltingu
sem varð með Always Ultra.
Við fengum sent kynning-
areintak af þessum örþunnu
og „ótrúlega rakadrægu“
bindum og lékum okkur að því
að hella vatni á þau og sjá þau
sjúga í sig að því er virtist
endalaust. Bindin voru svo í
hægri en stöðugri þróun og
fylgdu aðrar tegundir í kjöl-
farið með „tímamótabreyt-
ingar“ á fyrirbærinu dömu-
bindi. Allir að reyna að marka
sér sérstöðu og vera fyrstir til
að koma með eitthvað nýtt.
Vængirnir voru eitt helsta
trompið, sem og þurra yf-
irborðslagið. Nú er hins vegar
svo komið að helsta nýjungin á
dömubindamarkaðnum er
svokölluð náttúruleg dömu-
bindi sem eru, að sögn dyggra
notenda, „miklu betri en allt
annað sem er í boði í dag“. Ég
fékk mér svoleiðis um daginn,
enda alvön því að prófa eitt-
hvað nýtt þegar kemur að
dömubindum, og mér til mik-
illar undrunar (og ánægju
verð ég að segja) eru þau al-
veg eins og gömlu Sjafnar- og
Lotusbindin. Þannig að nú er
ég aftur farin að nota þykk
bómullarbindi og finnst þau
betri en annað sem ég hef not-
að undanfarið. Þar til annað
kemur í ljós...
Stóra sokkabuxnasamsærið
Ég heyrði eitt sinn að sú
tækni sem þarf til að búa til
nælonsokkabuxur sem fá ekki
á sig lykkjuföll sé ekki aðeins
til, heldur sáraeinföld og ódýr.
Hins vegar hafi sokkabuxna-
framleiðendur heimsins tekið
sig saman og hindrað með ein-
hverjum aðferðum að tækni
þessi komist í hendur þeirra
sem gætu framleitt slíkar
sokkabuxur í stórum stíl og
komið þeim á markað þannig
að allir hefðu aðgang að þeim.
Svo halda stóru sokkabuxna-
framleiðendurnir áfram að
framleiða sokkabuxur sem
duga aðeins örfá skipti, jafnvel
aðeins eitt kvöld sé maður
klaufskur, og þannig verðum
við konur sem höfum gaman
af því að ganga í pilsum og
kjólum en eigum ekki heima á
slóðum þar sem veður leyfir
bera leggi, að punga út stórfé
til að verða ekki kalt á fót-
unum (já, ótrúlegt en satt,
sokkabuxur eru skjólflík). Mér
er meinilla við að hugsa til
þess hve miklum peningum ég
hef eytt í sokkabuxur í gegn-
um tíðina, en geri ég það
reiknast mér svo til að ég ætti
fyrir sæmilegri útborgun í
íbúð núna ef ég hefði neitað
mér um þessa lélegu lúx-
usvöru.
Snyrtivörur (til skrauts)
Ég las merkilega grein í
Kosmópólitan um daginn þar
sem nokkrir frægir og virtir
förðunarmeistarar voru beðn-
ir að segja frá því hvaða
snyrtivörum þeir væru hrifn-
astir af. Þeir áttu að tilgreina
eftirlætis tegund sína af vara-
lit, augnskugga, maskara,
kinnalit, augnblýanti, nagla-
lakki og svo framvegis. Í ljós
kom að í mörgum tilfellum
voru það „ódýrari“ merki sem
urðu fyrir valinu, merki sem
erlendis eru seld í apótekum
en ekki snyrtivörubúðum.
Þegar fagmennirnir voru svo
spurðir hvernig á því stæði að
þeir tækju „ófínni“ merki
fram yfir þau fínni sögðu þeir
einfaldlega að þau væru oft á
tíðum betri. Yfirbygging og
umbúðir segðu ósköp lítið þeg-
ar snyrtivörur væru annars
vegar, en snyrtivöruframleið-
endur væru manna fremstir í
því að gera vöru sína aðlað-
andi og láta hana líta út fyrir
að vera betri en nokkur önnur
sambærileg vara. Þannig
mæltu þeir með því við les-
endur blaðsins að prófa sig
áfram og velja þær snyrtivör-
ur sem þeim þættu bestar og
ekki láta „status“ merkjanna
blekkja sig.
Krem eru svo kapítuli út af
fyrir sig, en samkvæmt aug-
lýsingum í tímaritum virðist
hægt að fremja ótrúlegustu
kraftaverk á andliti sínu og
líkama eigi maður réttu krem-
in. Hrukkur, óslétt húð, fitu-
keppir: allt þetta hverfur eins
og dögg fyrir sólu með hinum
ýmsu smyrslum. Fullyrðingar
þessar eru svo studdar með
rannsóknarniðurstöðum þar
sem segir að hrukkur geti
„minnkað um allt að 67%“ eft-
ir „aðeins tveggja vikna notk-
un í sumum tilfellum“. Eða að
appelsínuhúð hafi „minnkað
um að meðaltali 42%“ hjá um
„83% þeirra kvenna“ sem not-
að hafa tiltekið krem (ég skil
reyndar ekki alveg hvernig
svona útreikningar eru gerð-
ir). Ég viðurkenni alveg að ég
fell gjarnan fyrir girnilegum
ilmandi kremum sem gera
húðina silkimjúka og glans-
andi. En ég streitist hins veg-
ar enn á móti þegar af-
greiðslukonur í
snyrtivörubúðum reyna að
selja mér hrukkukrem. Þá
verður mér gjarnan hugsað til
þess sem ég heyrði eitt sinn
haft eftir Sophiu Loren, að
hún hafi aldrei notað neitt á
húð sína nema ólífuolíu. Og ef
það er satt, er þá ekki verið að
gera aðeins of mikið úr öllum
þessum kremum?
Vissulega er það að nokkru
leyti val að ferðast um frum-
skóginn. Þar er nefnilega oft
mjög gaman að vera og allt
þetta dót er hið skemmtileg-
asta glingur. En þrátt fyrir
það finnst mér nauðsynlegt að
rata út úr skóginum öðru
hvoru og reyna að sjá hann
fyrir trjánum.
Birna Anna
á sunnudegi
Frumskógur kven-
legrar neysluvöru
bab@mbl.is
Morgunblaðið/Jóra