Morgunblaðið - 25.10.2002, Side 16
SUÐURNES
16 FÖSTUDAGUR 25. OKTÓBER 2002 MORGUNBLAÐIÐ
Brósi, Caracter, Carmen, Cleo, Dúddi, Elegans, Hár- og snyrting, Hárný,
Hársaga, Höfuðlausnir, Jói og félagar, Medulla, Möggurnar, Salon Veh, Perma.
w w w. i n t e r c o i f f u r e . i s
LAUGARDAGAR verða framvegis
helgaðir fjölskyldunni á Bókasafni
Reykjanesbæjar. Auk þeirra fjöl-
mörgu bóka, blaða og tímarita sem
safnið hefur upp á að bjóða verður
yngstu fjölskyldumeðlimunum boð-
ið upp á sérstaka laugardags-
dótakistu. Einnig verður á boð-
stólum fjöldi spila sem fjölskyldan
getur glímt við í sameiningu.
Í stefnumótun Reykjanesbæjar
er lögð áhersla á að bærinn verði
fjölskylduvænt sveitarfélag og að
undanförnu hefur verið lögð
áhersla á þætti sem miða að því að
styrkja fjölskylduna.
Starfsfólk Bókasafns Reykjanes-
bæjar vill með fjölskyldudögum
taka þátt í því að gera Reykja-
nesbæ fjölskylduvænt sveitarfélag.
Að sögn Huldu Bjarkar Þorkels-
dóttur, forstöðumanns bókasafns-
ins, hafa fjölskyldur verið dugleg-
ar að notfæra sér
laugardagsafgreiðslutíma safnsins
og því hafi verið ákveðið að ýta
enn frekar undir heimsókn þeirra
á safnið. „Með þessum hætti getum
við samþætt ýmis atriði sem miða
að því að styrkja fjölskylduna. Hér
er nóg úrval bóka til að taka þátt í
lestrarátakinu og við höfum jafn-
framt útbúið lista yfir bækur sem
gott er að nota í átaki sem þessu.
Þá geta fjölskyldumeðlimir hlúð
hver að öðrum með því að gera
eitthvað skemmtilegt saman, eins
og spila. Fólk tók strax mjög vel í
þetta og sérstaklega hefur dóta-
kistan vakið mikla lukku hjá þeim
yngstu,“ sagði Hulda Björk.
Teitur Ari og Birta Ósk Theódórsbörn kunnu vel að meta dótið í kistunni á
fjölskyldudögum í Bókasafni Reykjanesbæjar.
Reykjanesbær
Fjölskyldan saman
á laugardögum
FLEIRI fluttust frá Suðurnesjum
en komu þangað fyrstu níu mánuði
ársins. Vegna þessa fækkar íbúum
svæðisins um 58.
Samkvæmt upplýsingum Hag-
stofu Íslands fluttust fleiri frá fjór-
um sveitarfélögum á Suðurnesjum
en þangað komu. Brottfluttir um-
fram aðflutta voru 31 í Reykja-
nesbæ, 26 í Sandgerði, 12 í Vatns-
leysustrandarhreppi og 4 í
Gerðahreppi. Hins vegar varð fjölg-
un í Grindavík, þangað komu 15 um-
fram þá sem fóru.
Fækkar um 58
íbúa vegna bú-
ferlaflutninga
Reykjanes
BÆJARRÁÐ Grindavíkur lýsir
áhyggjum sínum af uppsögnum
heilsugæslulækna, í ályktun sem
samþykkt var á fundi ráðsins í
fyrrakvöld.
Bæjarráðið skorar á deiluaðila
að finna lausn svo tryggja megi
nauðsynlega þjónustu við íbúa
Grindavíkur. „Það er með öllu
óviðunandi að Grindavík verði án
heilsugæslulæknis um skemmri
eða lengri tíma,“ segir í samþykkt
bæjarráðs.
Áhyggjur af
læknaleysi
Grindavík
BYRJAÐ hefur verið á byggingu 43
íbúða í Garði undanfarin tvö ár og bú-
ið að úthluta lóðum fyrir 25 til við-
bótar. Þegar allar þessar íbúðir verða
komnar í gagnið fjölgar íbúðum í
sveitarfélaginu um 20%.
Sigurður Jónsson sveitarstjóri hef-
ur látið taka þessar tölur saman.
Hann segir að nú þegar sé flutt inn í
16 af þessum íbúðum. Þar munar
mest um tíu íbúðir sem byggðar voru
fyrir Búmenn og flutt hefur verið í.
Fleiri íbúðir eru í byggingu fyrir Bú-
menn og þá er byrjað á 10 íbúðum
fyrir aldraða í nágrenni Garðvangs.
Sigurður sveitarstjóri segir að
hreppsnefnd bjóði lág byggingaleyf-
isgjöld til að stuðla að fjölgun íbúa
þannig að sveitarfélagið verði hag-
kvæmari eining. Þannig eru gjöld
fyrir einbýlishús á bilinu 300–400
þúsund krónur. Telur hann að það
eigi sinn þátt í þeim miklu bygginga-
framkvæmdum sem nú standa yfir.
Mun skila sér í fjölgun
Íbúum hefur ekki fjölgað í Garð-
inum á síðasta ári og í ár. Sigurður
segir að breytt fjölskyldumynstur
hljóti að valda því en einnig telur
hann að einhverjir eigi eftir að flytja
lögheimili sitt í sveitarfélagið. Segist
sveitarstjórinn sannfærður um að
umrædd aukning í byggingu íbúðar-
húsnæðis muni skila sér í fjölgun íbúa
á næstu árum. Þá aukist útsvarstekj-
ur og hreppssjóður fái aukin fast-
eignagjöld. Getur Sigurður þess að
þótt íbúum hafi ekki fjölgað undan-
farna mánuði hafi þeim fjölgað um
rúm 12% á síðasta áratug.
Sigurður segir að tölur Hagstof-
unnar um búferlaflutninga sýni að
mikil hreyfing sé á fólki. Fasteignir í
Garði hafi selst fljótt og verð farið
hækkandi.
Sveitarstjórinn segir að það sé al-
varlegt mál þegar fólk komist upp
með að flytja ekki lögheimili sitt þeg-
ar það flytur á milli staða. „Því miður
virðist það vera svo að fólk komist
upp með að hafa lögheimili sitt skráð
í öðru sveitarfélagi en það býr í.
Dæmi eru um slíkt hér í Garði. Erfitt
er að fá Hagstofuna til að breyta
þessu, þótt það sé hægt að sýna fram
á það með rökum að fólk hafi búsetu
hér í sveitarfélaginu,“ segir Sigurður.
Einnig er aukning á atvinnuhús-
næði. Fiskivinnsluhús hafa verið
stækkuð og fleiri í undirbúningi. Þá
hafa Samkaup fengið lóð fyrir nýja
verslun í nágrenni bensínstöðvar
Esso.
Margar íbúðir í byggingu í Gerðahreppi
Stefnir í 20%
fjölgun íbúða
Garður
SKÚLI Thoroddsen telur að Jón
Kristjánsson heilbrigðisráðherra
hafi misnotað jafnréttislögin þegar
hann rökstuddi ráðningu Sigríðar
Snæbjörnsdóttur í embætti fram-
kvæmdastjóra Heilbrigðistofnunar
Suðurnesja. Hyggst hann leita eftir
rökstuðningi ráðuneytisins og öllum
gögnum til undirbúnings þess að
höfða mál á hendur ráðuneytinu
vegna stöðuveitingarinnar.
„Það er augljóst að ráðherra hef-
ur ákveðið að hunsa vilja Suður-
nesjamanna í þessu máli, ákvörðun
hans fer gegn ótvíræðum vilja meiri-
hluta stjórnar Heilbrigðisstofnunar-
innar,“ segir Skúli þegar leitað er
viðbragða hans við ráðningu Sigríð-
ar Snæbjörnsdóttur í stöðu fram-
kvæmdastjóra Heilbrigðisstofnunar
Suðurnesja.
Eins og fram hefur komið stóð
valið einkum milli tveggja umsækj-
enda af átta, það er þeirra Sigríðar
og Skúla sem metin voru hæfust.
Fjórir fulltrúar í stjórn stofnunar-
innar mæltu með ráðningu Skúla og
einn mælti með ráðningu Sigríðar.
Fulltrúi ráðherra í stjórninni, Hall-
grímur Bogason í Grindavík, sem er
formaður stjórnarinnar, greiddi Sig-
ríði atkvæði. Þeir stjórnarmenn sem
lögðu til að Skúli yrði ráðinn eru
Böðvar Jónsson og Björk Guðjóns-
dóttir, bæjarfulltrúar Sjálfstæðis-
flokksins í Reykjanesbæ, Jórunn
Guðmundsdóttir, fulltrúi Sandgerð-
isbæjar, og Agnes Garðarsdóttir,
fulltrúi starfsmanna. Við ákvörðun
um að ráða Sigríði kvaðst ráðherra í
yfirlýsingu styðjast við ákvæði laga
sem kveði á um að stefnt skuli að því
að framkvæmdastjórar sjúkrahúsa
hafi sérþekkingu á rekstri sjúkra-
húsa. Einnig hafi verið tekið mið af
ákvæðum jafnréttislaga en engin
kona hafi áður verið skipuð í emb-
ætti af þessu tagi.
Undirbýr málshöfðun
Skúli segir að krafan um sérþekk-
ingu geti ekki beinst gegn ráðningu
sinni í starfið, hann búi yfir slíkri
þekkingu. Hann segist hafa eins árs
sérnám á þessu sviði við Norræna
heilbrigðisþjónustuskólann í Gauta-
borg og auk þess rekið heilbrigð-
isstofnun á grundvelli þeirra laga
sem ráðherra nefnir og hliðstæðra
laga. Vísar hann þar til reksturs
afeitrunarsjúkrahúss í Svíþjóð.
„Þá standa eftir jafnréttissjónar-
miðin sem hann byggir ákvörðun
sína á og telur greinilega ráða úrslit-
um. Þá hlýtur hann að meta Sigríði
að minnsta kosti jafnhæfa mér ef
ekki hæfari. Það er eingöngu mat
ráðherrans sjálfs. Með þessu tel ég
að hann sé að misnota jafnréttislög-
in og tel að í því felist áskorun hans
til mín um að láta á þessi ákvæði
reyna fyrir dómstólum,“ segir Skúli.
Hann kveðst munu gera það.
Fyrst verði leitað eftir því að fá afrit
af öllum þeim gögnum sem ráðherra
byggi ákvörðun sína á, meðal annars
greinargerð um mat á hæfni um-
sækjenda, svo og rökstuðningi fyrir
ákvörðuninni.
Telur landlækni vanhæfan
Landlæknir hefur eftirlit með
heilbrigðisstofnunum landsins, gæð-
um þjónustunnar sem þar er veitt
og á að gæta hagsmuna sjúklinga.
Skúli vekur máls á þessu og lætur
þá skoðun í ljósi að þar sem Sig-
urður Guðmundsson landlæknir sé
eiginmaður nýráðna framkvæmda-
stjórans hljóti landlæknisembættið
að vera vanhæft til að sinna þessari
skyldu sinni gagnvart Heilbrigðis-
stofnun Suðurnesja. Telur hann að
með pólitískri ákvörðun hafi ráð-
herrann sett sig út á hálan ís í þessu
efni.
Elsa B. Friðfinnsdóttir, aðstoðar-
maður heilbrigðisráðherra, segist
ekki sjá nein vandamál þessu sam-
fara. Ef málefni tengd Heilbrigðis-
stofnun Suðurnesja komi upp muni
landlæknir víkja sæti í málinu og að-
stoðarlandlæknir eða einhver annar
til þess bær aðili verða settur í hans
stað.
Skúli Thoroddsen unir ekki ákvörðun um ráðningu framkvæmdastjóra HSS
Segir ráðherra
hafa misnotað
jafnréttislögin
Keflavík
Ljósmynd/Hilmar Bragi
ÁÆTLAÐ er að 52 milljóna króna
halli verði í ár af rekstri bæjarsjóðs
Reykjanesbæjar, samkvæmt tillögu
að endurskoðaðri fjárhagsáætlun. Er
það 128 milljóna króna verri afkoma
en gert var ráð fyrir í upphaflegri
fjárhagsáætlun ársins.
Árni Sigfússon bæjarstjóri lagði
fram endurskoðaða fjárhagsáætlun í
bæjarráði í gær. Í greinargerð bæj-
arstjóra kemur fram að launakostn-
aður hefur aukist um 133 milljónir frá
því fjárhagsáætlun var gerð. Er þar
aðallega um að ræða uppsafnaðar
greiðslur í kjölfar starfsmats og nýir
samningar við tónlistarkennara. Þá
hefur bæjarráð samþykkt aukin út-
gjöld að fjárhæð 134 milljónir kr. sem
vísað hefur verið til endurskoðunar
fjárhagsáætlunar. Fram kemur hjá
bæjarstjóra að þar er meðal annars
verið að bregðast við þörf fyrir nýjar
kennslustofur, kostnaði við bruna-
varnir og skertum framlögum úr
Jöfnunarsjóði sveitarfélaga.
Minni tekjur af gatnagerð
Tekjur af gatnagerðargjöldum
virðast ekki ætla að skila sér í sam-
ræmi við áætlanir. Nú er gert ráð fyr-
ir að þar vanti 69 milljónir upp á. Þá
hafa endurgreiðslur frá varnarliðinu
vegna þátttöku þess í holræsafram-
kvæmdum ekki skilað sér með þeim
hraða sem áætlað var í upphafi ársins
en samningar tryggja greiðslur til
Reykjanesbæjar innan tíu ára.
Fram kemur að gengisþróun hefur
verið jákvæð á árinu. Bæjarstjóri
gerir ráð fyrir því að skuldir í árslok
samsvari um 390 þúsund krónum á
íbúa en þær námu um 400 þúsund
krónum í upphafi árs.
Við afgreiðslu fjárhagsáætlunar í
upphafi árs var gert ráð fyrir að
rekstrarafgangur yrði tæplega 76
milljónir króna á árinu. Nú er áætlað
að halli verði á rekstrinum, 52 millj-
ónir kr.
128 milljóna kr. verri afkoma
Reykjanesbær
TÓNLISTARSKÓLINN í Keflavík
stóð fyrir strengjamótum á árunum
1994 og 1996, svipuðum mótinu sem
Tónlistarskóli Reykjanesbæjar hélt
um helgina.
Að sögn Kjartans Más Kjartans-
sonar, fyrrverandi skólastjóra Tón-
listarskóla Keflavíkur, voru þátttak-
endur þá einnig um 200, víðs vegar
að af landinu.
Af fyrirsögn fréttar um mótið um
helgina mátti ráða að það hafi verið
hið fyrsta sinnar tegundar. Svo er
ekki eins og sést á upplýsingum
Kjartans Más.
Strengjamót
voru haldin
Keflavík
♦ ♦ ♦