Morgunblaðið - 29.10.2002, Blaðsíða 35
MINNINGAR
MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 29. OKTÓBER 2002 35
Áður en eitt var snurfusað og klárað
hafði annað bankað upp á og komið
huganum á nýtt flug.
Eins og nærri má geta um jafn
hugsandi og leitandi mann, sem upp-
lifði kreppuna og stríðið á sínum
mótunarárum, var pólitíkin ekki út-
undan. Hann var einn fárra í seinni
tíð sem með stolti kölluðu sig komm-
únista. Sá kommúnismi átti ekkert
skylt við valdboð, kúgun, ófrelsi og
skort heldur byggðist á hinni útóp-
ísku hugmynd um jafnræði, frelsi,
virðingu og reisn. Sem betur fer vor-
um við sjaldan sammála og ef
stefndi í slíkt óefni varð að skipta
um umræðuefni, lítið fútt í logninu.
Ekki má gleyma umræðukryddinu,
hinni hárfínu launkímni, hæfileikan-
um til að sjá hið broslega í heims-
ósómanum.
Síðustu vikurnar grúskaði hann í
gömlum bréfum úr tilhugalífi föður
síns og hafði af mikla ánægju, sagð-
ist vera að kynnast föður sínum upp
á nýtt. Ég veit að á nýjum lendum er
hann þegar farinn að pumpa þann
gamla um sumt og pota í annað.
Að leiðarlokum vil ég þakka
margar skemmtilegar og gefandi
stundir.
Við Sigríður vottum aðstandend-
um dýpstu samúð.
Guðmundur Guðmundsson.
Vinur okkar Helgi Jónsson er dá-
inn. Við minnumst sérstaklega
reglulegra heimsókna Helga heim
að Hólum í Hjaltadal undanfarin ár.
Hann féll vel að samfélaginu þar og
tók þátt í atburðum af mikilli gleði.
Hann hjálpaði okkur hinum að sjá
fegurð staðarins bæði í myndum og
umræðum.
Hann var mjög athugull og var
gjarnan með myndavél á lofti til að
fanga fegurð augnabliksins sem var
stöðugt að birtast honum. Það sem
hann ekki festi á filmu festi hann í
huga sér og gat lýst af innlifun.
Hann bar mikla virðingu fyrir móð-
ur náttúru. Helgi var myndlistar-
maður og hélt meðal annars sýningu
í Hólaskóla fyrir nokkrum árum.
Sýningin hét Vetrarkoma og mótífin
voru af Hólastað. Margar þessara
mynda prýða nú veggi á heimilum
Hólafólks.
Helgi var mikill pælari og heim-
speki hans einkenndist af sterkri
vitund fyrir grunngildum tilverunn-
ar, ekki síst friði, réttlæti og fegurð.
Við áttum um þetta langar og líf-
legar samræður. Hann var gagnrýn-
inn á þjóðfélagið, en trú hans á gott
samfélag manna var mikil og allt
hans líf einkenndist af ríkri sköp-
unargleði, ræktarsemi við skynsama
hugsun og leit að tilgangi hlutanna.
Þegar maður er svo lánsamur að
eignast vini sem Helga lærir maður
að þau gildi sem skapa farsælt
mannlíf og stuðla að hamingju
manna eru raunveruleg og að þau
má rækta. Þá sannfærist maður um
að lífið er vissulega þess virði að lifa
því, að verkefni dagsins í dag eru
spennandi og leiðir að úrlausnum
margar og áhugaverðar. Kannski er
þetta sá sannleikur sem raunveruleg
vinátta veitir? Við vottum aðstand-
endum Helga okkar dýpstu samúð.
Sólrún Harðardóttir
og Skúli Skúlason.
Sæl og bless, þannig heilsaði hann
alltaf. Ólafsvíkurvinurinn hann
Helgi var gull af manni.
Ég kynntist Helga á sjöunda ára-
tugnum í gegnum vinafólk mitt hér í
Ólafsvík. Hann dvaldi hérna um
nokkurra ára skeið. Var við vinnu
hjá rafveitunni á staðnum. Þó að
dvöl hans hér hafi ekki verið svo
ýkja löng, þá lagði hann margt gott
til málanna, sem mun vara um aldur
og ævi hér og við Ólafsvíkingar
munum seint fá þakkað. Hann var
einn af stofnendum Skógræktar-
félags Ólafsvíkur og sýndi því félagi
áhuga til hinsta dags. Einnig rækt-
uðu rafveitumenn fallegan lund við
rafveituhúsið sem Helgi annaðist á
meðan hann dvaldi hér og kom
gjarnan í heimsókn eftir að hann var
fluttur í bæinn til þess að grisja. Það
var gaman að spjalla við Helga,
hann var vinstrisinnaður í hugsun
og mikill alþýðumaður, safnaði ekki
veraldlegum auði en var þeim mun
ríkari af andlegum auði. Ég var allt-
af ríkari eftir samtal við Helga.
Hann hringdi reglulega og spurði
frétta, vissi þá oftast meira en ég,
því hann fylgdist ótrúlega vel með
því sem hér var að gerast. Hann var
mikill listamaður, málaði, skar út í
tré og vann leirmuni.
Um skeið kenndi hann útskurð.
Og hið fallega merki Ungmanna-
félagsins Víkings í Ólafsvík er eftir
hann. Þessum góða manni þakka ég
samveruna hérna með þessum fá-
tæklegu orðum og segi vertu bless-
aður og sæll.
Ester Gunnarsdóttir.
Í minningu Helga Jónssonar rita
ég þessi orð þegar í huganum birtast
myndir liðinna ára.
Helgi hafði ríka þörf fyrir tján-
ingu og sköpun í myndlist og fékkst
mjög við hana seinni árin. Hann
stundaði nám við Myndlistaskólann í
Reykjavík um árabil svo sem í teikn-
un, olíumálun, vatnslit og mótun ým-
iss konar. Hann var hagur maður og
vandvirkur sem hafði fjöldamörg
áhugamál og naut þeirra. Hann
stundaði einnig nám í tréskurði og
eftir hann liggja margir fallegir út-
skornir hlutir, rennd leirker og mál-
verk. Helgi hélt nokkrar sýningar á
verkum sínum bæði í Reykjavík og
úti á landi. Hann fékkst einnig við að
þýða greinar um myndlist úr ensku.
Á tímabili var Helgi svo samgró-
inn Myndlistaskólanum í Reykjavík
að sjálfsagt þótti að sjá hann þar öll-
um stundum. Hann var í mörgum
deildum, þróaði list sína og hélt sér
við. Hann bar hag skólans fyrir
brjósti og var traustur vinur.
Hann var síhugsandi um hvað
hann tæki sér næst fyrir hendur og
þarnæst. Hann íhugaði myndefnið
vandlega áður en hann hófst handa
og lá oft lengi yfir hverju verki enda
sóttu fyrirmyndir eldri tíma mjög
að, bæði alvarlegar og skondnar.
Hann hugleiddi manna mest
skýjafarið og festi augnablikin í
skissabækur sínar sem hann gekk
með á sér og var síteiknandi. Að
fanga birtuna var viðfangsefni sem
honum geðjaðist að.
Ein eftirminnilegasta mynd
Helga finnst mér vera lítið olíumál-
verk þar sem Þjórsá beljar fram í
forgrunninn með ógnarkrafti og sér
uppeftir henni á flúðum í stríðum
straumi. Langt í fjarska sér á Núp-
inn, Miðfell og Hagafjall í mildum
grábrúnum jarðlitaskala og jafnri
heildstæðri birtu.
Ég votta aðstandendum öllum
samúð mína.
Katrín Briem.
Mig langar að minnast föðurbróð-
ur míns. Ég heimsótti hann ásamt
foreldrum mínum fyrir stuttu á
heimili hans. Hann var þá að skrá
hluta af ævi foreldra sinna frá 1920
úr dagbókum föður síns frá þessum
árum. Helgi færði þessi skrif í frá-
bært form fyrir okkur hin, er eigum
eftir að njóta verka hans, um ævi afa
og ömmu, og hafði á orði hve lítill
tími væri til stefnu fyrir sig að koma
vitneskjunni frá. Við dáðumst að
verkum hans og miklum áhuga.
Hann sýndi okkur teikniblokkir yfir
50 ára gamlar, þær voru svo vel með
farnar, eins og nýjar, myndirnar af
samferðafólki, þá teiknaði hann and-
litsmyndir þeirra.
Hann var fjölhæfur listamaður,
málverk, ljósmyndir, leir, tré og
höggmyndir, sama hvaða efni voru í
höndum hans, það urðu sérstakir
munir úr öllu sem hann vann með.
Hinn 18. okt. sl. hittist svo allur
systkinahópurinn hans, ásamt fleira
fólki, til að fagna afmæli föður míns.
Þar naut Helgi sín svo vel í fjör-
ugum umræðum í góðra vina hópi,
öllum þótti svo gaman þetta kvöld.
Mér var mikið brugðið, nú er hann
dáinn, við eigum erfitt með að skilja
það. Helgi var hæglátur og hjarta-
hreinn maður og þótti mér óskap-
lega vænt um hann. Ég bið Drottin
að varðveita hann, afa, ömmu og Al-
dísi systur hans, sem eru nú öll sam-
an, þau unnu öll listum og voru mikl-
ir listamenn sjálf.
Ég og fjölskylda mín vottum allri
fjölskyldu hans samúð.
Kveðja
María Ingvarsdóttir.
Hinn 22 október sl. lést Helgi
Jónsson á heimili sínu Eiðismýri 22
á Seltjarnarnesi. Helgi var sonur
Jóns Helgasonar húsgagnabólstrara
og Maríu Sólveigar Majasdóttur
konu hans. Helgi var næstelstur í
sex systkina hópi. Bernska Helga
var eins og margra annarra á þess-
um árum, þegar kreppa og atvinnu-
leysi var um mestallan heim. Það
var ekki spurt um aldur barna, sem
urðu og vildu leggja sitt af mörkum
til að geta lifað á þessum erfiðu ár-
um.
Helgi réð sig í járnsmíðanám ung-
ur að árum. Hann lauk námi í vél-
smíði í vélsmiðju Jötuns, sem var við
Hringbraut í Reykjavík. En náms-
löngun Helga og þrá eftir fræðslu
var ekki lokið. Hann hóf nám í
sænskum bréfaskóla og lærði meira
um vélar og teikningar. Það hlýtur
að hafa verið erfitt að læra á máli,
sem hann kunni ekki og varð því að
læra málið samtímis, en það vafðist
ekki fyrir honum. Hann hélt síðan
náminu áfram í Vélskólanum hér
heima og lauk prófi í vélhönnun.
Helgi var mikill listunnandi og
stundaði bæði málun, útskurð í tré
og leirsmíði í tómstundum sínum.
Hann var virkur í öllu sem hann tók
að sér, hvort sem það voru félagsmál
um ólíklegustu efni, verkalýðsmál,
stjórnmál, skógrækt og ótalmargt
annað. Ekkert var honum óviðkom-
andi.
Helgi kvæntist Þórunni Magnús-
dóttur, sem þá var borgarfulltrúi
hér í Reykjavík. Þórunn átti stóran
þátt í að útrýma herskálaíbúðum,
sem þá voru margar í borginni.
Helgi og Þórunn áttu eina dóttur
sem heitir Guðrún. Hún er vel
menntuð og er með doktorsnafnbót í
kennslufræðum í handmennt. Hún
er gift Helga Thorarensen, sem er
líffræðingur og einnig doktor í sinni
grein. Þau búa á Hólum í Hjaltadal
og starfa þar, Helgi við fiskeldi, sem
var hans aðalnámsgrein, og Guðrún
starfar að ferðamálum.
Þórunn átti fjögur börn frá fyrra
hjónabandi og gekk Helgi þeim í
föðurstað, sem væru þau hans eigin
börn, og hafa þau öll komið sér vel
áfram í lífinu. Þórunn og Helgi slitu
sambúð í bróðerni og héldu áfram að
læra. Þórunn fór í langskólanám og
lærði sagnfræði og starfaði sem slík.
Helgi hélt sínu sjálfsnámi áfram við
lestur, skriftir og listsköpun fram á
síðasta dag. Hann var hjá mér í af-
mæli 18. október og þar lagði Helgi
sig fram um að tala við sem flesta og
ekki síst unga fólkið, frændfólkið
sitt af yngri kynslóðinni, sem sumt
var í raun að kynnast þessum hóg-
væra manni í fyrsta sinn, en Helgi
hafði næma kímnigáfu og kom öllum
í ljúft skap, sem hann umgekkst.
Við vottum öllu hans nánasta fólki
okkar dýpstu samúð.
Ingvar og Kristín.
Við Helgi kynntumst ungir að ár-
um og voru það kynni sem entust
alla ævi, það var happ fyrir mig og
ættmenni mín að kynnast þessum
hægláta og listhaga manni, þar dró
aldrei skugga yfir. Hver ný skoðun
var honum áskorun um gaumgæfi-
lega athugun, ekkert var honum
hlægilegra og fyrirlitlegra en hlaup
eftir peningum, þessum þjónum til
að auðvelda skipti á upphafi auðs
sem annars verða að herrum og
helsi margra, því endir og upphaf
alls er starf, og fylgd var ekki um að
ræða nema þar sæist einörð stefna
til mannbóta, því gerðist hann
snemma vinstrisinnaður, sá sem
reyndi einhverja breytingu þar á
hafði ekki nein áhrif. Við áttum ýmis
verkefni saman og alltaf óx virðing
fyrir hinni óbeygðu skoðanafestu
sem sýnd var með hógværð þessa
hljóðláta heiðursmanns sem í engu
mátti þola að réttu máli væri hallað.
Eftir stendur autt svið sem myndast
þegar góður maður er genginn. Við,
ég og fjölskylda mín, kveðjum þenn-
an einstaka vin með því að vitna í
hluta ljóðs eins af uppáhaldsskáld-
um okkar, Guðmundar Böðvarsson-
ar, Kvöld í smiðju.
Því draumur vor skal kljúfa
hvern dimman nætursæ
þó djásn vort heimti eilífð til að þróast.
Og tilraun vor til sigurs
skal endurtakast æ
þó aldaraðir verði að hverfa og sóast.
Svo vinnist þér á morgun
það sem vannst ei mér í dag.
– það verða skal að lokum hinzta kveðjan,
er kyrrist um í smiðju
og kemur sólarlag
og kulnað sindur liggur kringum steðjann.
Einar Magnús Guðmundsson.
við Nýbýlaveg, Kópavogi
Innilegar þakkir til allra þeirra sem sýndu okkur
samúð, vinarhug og stuðning við andlát og útför
JÓNS MÁS ÞORVALDSSONAR
prentara,
sem jarðsunginn var frá Grafarvogskirkju föstu-
daginn 11. október síðastliðinn.
Sérstakar þakkir til starfsfólks gjörgæsludeildar
Landspítala Fossvogi og okkar góða prests,
séra Vigfúsar Árnasonar.
Minning um ástkæran föður, tengdaföður og afa lifir.
Finnur Logi Jóhannsson, Oddný Halla Haraldsdóttir,
Þorvaldur Ingi Jónsson, Dís Kolbeinsdóttir,
Jóhanna Marín Jónsdóttir,
Ingibjörg Agnes Jónsdóttir, Engilbert Þórðarson
og barnabörn.
Innilegar þakkir fyrir auðsýnda samúð og hlý-
hug við andlát og útför móður okkar, tengda-
móður, ömmu, langömmu og langalang-
ömmu,
GUÐBJARGAR PÉTURSDÓTTUR
frá Langholti,
Grænumörk 3,
Selfossi.
Þorsteinn Hermannsson, Bára Guðmundsdóttir,
Steinunn Hermannsdóttir,
Helga Hermannsdóttir, Óli A. Haraldsson,
Pétur Hermannsson, Bjarney Sigurlaugsdóttir,
Alda Hermannsdóttir, Tryggvi K. Gestsson,
Hermann Hermannsson,
Hreggviður Hermannsson, Hjördís Helgadóttir,
ömmubörn, langömmubörn
og langalangömmubarn.
Afmælis- og minningargreinum má skila í tölvupósti, netfangið er minning@mbl.is, svar er
sent sjálfkrafa um leið og grein hefur borist. Ef greinin er á disklingi þarf útprentun að
fylgja. Nauðsynlegt er að símanúmer höfundar og/eða sendanda (vinnusími og heimasími)
fylgi með. Þar sem pláss er takmarkað getur þurft að fresta birtingu greina, enda þótt þær
berist innan hins tiltekna frests. Nánari upplýsingar eru á mbl.is. Um hvern látinn ein-
stakling birtist formáli og ein aðalgrein af hæfilegri lengd á útfarardegi, en aðrar greinar
skulu ekki vera lengri en 300 orð, u.þ.b. 1.500 slög (með bilum) eða um 50 línur í blaðinu (17
dálksentimetrar). Tilvitnanir í sálma eða ljóð takmarkast við eitt til þrjú erindi. Einnig er
hægt að senda örstutta kveðju, HINSTU KVEÐJU, 5–15 línur, og votta virðingu án þess að
það sé gert með langri grein. Greinarhöfundar eru beðnir að hafa skírnarnöfn sín en ekki
stuttnefni undir greinunum.