Morgunblaðið - 10.11.2002, Síða 8

Morgunblaðið - 10.11.2002, Síða 8
8 B SUNNUDAGUR 10. NÓVEMBER 2002 MORGUNBLAÐIÐ Ætlaði ekkert að ílengjast í tónlistinni Salurinn í Kópavogi er þétt-setinn er þeir Valgeir Guð-jónsson og Jón Ólafssonstíga á svið. „Við ætluðumupphaflega að hafa hljóm- sveit, en svo ákváðum við að hafa hlé,“ segir Valgeir grafalvarlegur á svip þó að brosglampinn í augunum leyni sér ekki. „Þið verðið að spyrja Neytenda- samtökin um ástæðurnar.“ Og að þeim orðum töluðum hefst fyrsta lag- ið á útgáfutónleikum Valgeirs. Hljóm- sveit skipuð þeim Pétri Erni Guð- mundssyni, Friðrik Sturlusyni, Jóhanni Hjörleifssyni, Stefáni Má Magnússyni og söngkonunni Regínu Ósk Óskarsdóttur slæst í lið með þeim félögum að laginu loknu og Ekki segja góða nótt, annað lag af plötu Valgeirs, Skellir og smellir, tekur að hljóma. Hljómsveitin er afslöppuð, áheyrendur vel með á nótunum og þeir Valgeir og Jón skeggræða málin milli laga, stoppa jafnvel ef takturinn, eða hraðinn, er ekki réttur og byrja upp á nýtt og húmorinn er aldrei langt undan. Helgi Björnsson birtist á sviðinu eftir fimmta lag og tekur Hver getur læknað kramið hjarta ásamt Regínu Ósk og að því loknu stígur Sigurður Flosason fram og leikur með hljóm- sveitinni út tónleikana. „Finnst ykkur þetta óþægilegt?“ spyr Valgeir glottandi þegar hann stöðvar leik hljómsveitarinnar enn einu sinni. „Þetta hlýtur að vera fé- lagsráðgjafinn í mér. En annars má segja að þetta séu svona raunveru- leika tónleikar.“ „Já, því hér getur allt gerst,“ skýtur Jón inn í og þar með eru þeir komnir á flug enn eina ferð- ina. Sigrún Hjálmtýsdóttir, Diddú, tek- ur þrjú lög með hljómsveitinni eftir hlé og uppsker dúndrandi lófatak áheyrenda. Það er sannur Spilverks- andi sem svífur yfir vötnum er þau Valgeir syngja Nei sko og Ævintýri Hrekkjusvínanna fær ekki síðri við- tökur. Lögin hljóma eitt af öðru, flest hver kunnugleg, en inni á milli heyr- ast ný lög eins og Allir þessir gluggar og Ástin vex á trjánum sem Valgeir tileinkar konu sinni. Hann fræðir áheyrendur þá um að Bara ég og þú hafi upphaflega verið hugsað sem „svona íslenskt trukkabílstjóralag“ og áður en Popplag í G-dúr er leikið tilkynnir Valgeir að það sé síðasta lag kvöldsins. „Við vitum að það tíðkast alltaf á íslenskum tónleikum að klappa hljómsveitina upp. Þess vegna biðjum við ykkur að klappa meira eft- ir þetta lag og við skulum þykjast hafa farið af sviðinu.“ Áheyrendur bregðast vel við þessari bón og í kjöl- far fylgir Hægt og hljótt áður en hljómsveitin yfirgefur sviðið. Áheyr- endur vilja þó greinilega meira, lófa- takið er kröftugt og Valgeir syngur aftur Ástin vex á trjánum áður en tón- leikunum lýkur. Lögin endurskoðuð „Það þótti víst kominn tími til að ég, eins og aðrir tónlistarmenn, liti um öxl og skoðaði afraksturinn,“ seg- ir Valgeir er blaðamaður hittir hann í vikunni eftir tónleikana. „Afrakstur- inn reyndist síðan ekkert minni en ég bjóst við, því ég á ansi mikið af lögum – fleiri en margir gera sér eflaust grein fyrir.“ Smellir og skellir er samvinnuverk- efni þeirra Valgeirs og Jóns og í sam- einingu plægðu þeir í gegnum um 50 lög áður en lagavalið var þrengt niður í 12 gömul lög og 4 ný. „Við ræddum þessa plötu heilmikið áður en við byrjuðum og ákváðum að fara þá leið að taka lögin til endur- skoðunar. Sum gömlu laganna þurfa ekki endurgerðar við. Til að mynda er mikið af því efni sem Spilverkið flutti þannig að mér fannst ég ekki hafa neinu þar við að bæta. Önnur lög voru síðan þess eðlis að þau urðu að vera með. Það eru lög eins og Popplag í G- dúr sem í raun er búið að fylgja mér eins og skuggi,“ segir Valgeir og blaðamanni leikur forvitni á að vita hvort hann telji Popplagið góðan eða slæman skugga. Hann brosir tvírætt og segir, „skuggarnir eru lög sem eru spiluð svo mikið að það verður svolítið skrýtið að lifa með þeim. Annað slíkt lag er Icelandic cowboy. Þessi lög voru á sínum tíma samin í einhvers konar hálfkæringi, sem hálfgert grín, og þeim aldrei ætlað að vera neitt meira. Svo öðlast þau öllum að óvör- um þetta mikla langlífi. Bæði Popp- lagið og Kúrekinn eru hins vegar þess eðlis að þegar þau eru spiluð lyftist brúnin á fólki og því þótti mikilvægt að hafa þau með.“ Tónlistarmennirnir sem leika með Valgeiri á plötunni eru þeir sömu og komu fram með honum í Salnum sl. sunnudag. „Tónleikarnir eru í raun platan. Fyrir gerð hennar söfnuðum við Jón saman alveg frábærri hljóm- sveit og hún kom með sitt innlegg. Fyrir vikið var það í raun hrein skemmtun að taka upp plötuna, enda verður allt betra þegar maður vinnur með góðu fólki. Þetta tók líka fljótt af. Við gengum ákveðið til verks og ef hlutirnir ekki gengu – við prufuðum til dæmis lag og ákváðum að ef við fyndum ekkert í því eftir 5 mínútur sem okkur þætti þess vert að gera upp á nýtt – þá hættum við bara. Það var af alveg nógu öðru að taka.“ Kindreki ekki kúreki Í þeim anda að endurskoða lög sín tók Valgeir sig til og samdi íslenskan texta við Icelandic cowboy fyrir Skelli og smelli og þar segir m.a. „Íslensku kúrekarnir, við rekum kindur, en kindreki er ekki fallegt orð.“ „Með þessum nýja texta fékk lagið eigin- lega annað líf og ég verð að segja að mér finnst miklu skemmtilegra að syngja það á íslensku. Það hafði ekki hvarflað að mér áður að íslenska text- ann, en svo varð hann bara til dag einn í ökuferð með fjölskyldunni norður í land. Þá sat ég þögull í bíln- um í um klukkustund og glímdi við þessa gestaþraut.“ Tilurð Skella og smella má m.a. rekja til fimmtugsafmælis Valgeirs fyrr á árinu og ljóst að eftir hann ligg- ur mikill fjöldi laga. „Ég var þó seinn til og ætlaði ekkert að ílengjast í tón- listinni,“ segir hann spurður um upp- haf tónlistarferilsins. „Ég fann mig ekki í háskólanum eftir menntaskól- ann og á þeim tíma vorum við búnir að vera að spila saman þessi kjarni sem síðar varð Spilverk þjóðanna og Stuðmenn. Einhvern veginn fór það síðan svo að við ákváðum að gefa þessu smátækifæri. Sú hugmynd vatt upp á sig með miklum eftirmálum og býsna löngum í mínu tilfelli. Ég leyfi mér að fullyrða að ef ég væri ekki að semja, þá væri ég ekki í tónlist. Ég er ekki nógu flinkur spilari til að gera mig gildan sem slíkur og lít ekki á mig sem söngvara heldur. Þess vegna syng ég.“ „Eins og að hlaupa með lóð“ Textarnir eru jafnan stór þáttur laga Valgeirs í dag, en sú var ekki allt- af raunin. „Einu sinni komu lögin alltaf fyrst og þá rak maður textana á undan sér. Núna vinn ég hins vegar lag og texta nánast alltaf samhliða og lagið er ekki tilbúið fyrr en textinn er fullbúinn. Mér finnst eiginlega verst að ég skuli ekki hafa orðið þessa áskynja fyrr, því ég upplifi lagið meira sem eina heild þegar þetta er ferlið. Þegar ég byrjaði í tónlistinni þá tók það mig hins vegar nokkur ár að þora að semja texta. Sigurður Bjóla, félagi minn í Spilverkinu, er að mínu áliti einn besti textahöfundur þjóðarinnar. Þegar maður er með svo fínum höf- undi í hljómsveit þá er það átak að leggja í textagerð. Mínir fyrstu textar voru þess vegna oft á grínkantinum og fyrstu Spilverks- og Stuðmanna- textarnir mínir bera þessa merki. Þetta þróaðist þó með tímanum og ég fór að sinna textasmíðunum meira og af meiri kjarki ef svo má segja. Á þeim tímum samdi ég meira innan um fólk og margir Stuðmannatexta minna eru til að mynda samdir á rútu- ferðum með hljómsveitinni, og stund- um heyrðu menn að eitthvað skemmtilegt var að gerast og blönduð sér í málið. Síðan þá hef ég hins vegar algjörlega verið að semja upp á eigin spýtur og það hentar mér mjög vel. Annars er ég í dag að mestu hættur að setjast niður og semja lög. Ég leyfi þeim bara að koma og þau birtast til dæmis þegar ég er að keyra eða að setja í uppþvottavélina. Ef þau síðan þola fyrstu yfirferð fá þau að fara lengra. Svo tók ég náttúrlega upp á því að fara að stuðla og það má segja margt, bæði gott og vont, um þá þjóðlegu hefð. Hallgrímur Helgason ræddi það einhvern tímann við mig hvort mér þætti þessi stuðlasetning ekki vera að drepa alla frjóa hugsun og ég er því að mörgu leyti sammála. Það er ekki öll- um gefið að ráða við hana og stuðl- arnir ráða oft alfarið því sem kemur fram í texta eða kvæði. Þegar maður er hins vegar byrjaður á þessu er mjög erfitt að hætta og ég er að reyna að láta þetta ekki drepa mig. Ég er líka að reyna að venja mig af því að líta niður á það sem ekki er stuðlað, því ég hef staðið mig að því að finnast það ekki nógu fínt. Þetta er jú bara einn skóli og hentar alls ekki öllum. Að stuðla texta er í raun eins og að fara út að hlaupa með lóð í höndunum – það skapar aukaálag. En það er líka afskaplega gefandi þegar það skilar sér.“ Bjólan særð úr bjarginu Er viðtalið var tekið var Valgeir á leið út á land með gítarinn og hefur, er þetta birtist, spilað á Akureyri, Ólafsfirði og Siglufirði. „Þetta er aldr- ei eins. Síðustu helgi var ég með hljómsveit í Salnum, nú fer ég einn út á land með gítarinn og svo munum við Jón eflaust standa fyrir fleiri Skellum og smellum í Kaffileikhúsinu í vetur,“ segir Valgeir og kveðst hræðast fátt meira en endurtekningar. „Þetta er hluti af minni fötlun í lífinu, því sú hugsun að einhver í salnum hafi heyrt kynninguna áður, eða heyrt af henni, fyllir mig skelfingu. Ég er ekki að segja að ég endurtaki aldrei neitt en það eru engin tvö skipti eins þegar ég spila og það er hluti af því sem gerir þetta spennandi og skemmtilegt. Kynningarnar og sögunar eru aldrei undirbúnar, heldur koma upp í hug- ann hverju sinni og fyrir vikið verða þær í raun hluti af efninu á hverjum stað. Þegar ég dró mig út úr Stuðmönn- um á sínum tíma var það að hluta til að sanna fyrir sjálfum mér að ég gæti komist yfir götu án þess að vera í hópi. Nú er ég hins vegar búinn að sitja við tölvu árum saman og semja tónlist, bæði fyrir kvikmyndir og sjónvarp. Það er mjög skemmtilegt en mun innhverfara og þegar öllu er á botninn hvolft er það ekki eins gef- andi,“ segir Valgeir og er ánægður með samstarf þeirra Jóns. „Við ætlum að rækta okkar tónlist- arlega samband frekar. Jón er hljóm- sveitarvanur maður og eftir að hafa verið einn lengi finnst mér mjög hressandi að vera meðal manna á ný. Hann er kannski af kynslóðinnni á eftir mér en þungt haldinn af tónlist- arlegri fortíðarhyggju, jafnvel meira en ég,“ segir Valgeir og útilokar ekki þann möguleika að þeir Jón eigi ein- hvern tímann eftir að leggjast í laga- skrif saman. Annar möguleiki sem freistar hans er að fá Sigurð Bjólu í lið með þeim. „Þegar við Sigurður Bjóla hittumst búum við mjög gjarnan til lag og ein hugmyndin er að særa Bjól- una, sem er hljóðmeistari Þjóðleiks- hússins, út úr bjarginu og fá hann til að gera eitthvað með okkur Jóni. Það hefur bara verið hreyft við þessari hugmynd í hálfkæringi ennþá, en það er aldei að vita.“ Lögin 16 á Skellum og smellum eru bara brot þeirra laga sem Valgeir hefði viljað koma á plötuna og útilok- ar hann ekki að fleiri eigi eftir að fylgja í kjölfarið. „Mér finnst þetta form í sjálfu sér svolítið sniðugt – að blanda saman nýju og gömlu efni. Ég á heilmikið af öðru efni sem mér finnst alveg þess virði að skoða og koma að með annarri hljómsveit og öðru hugarfari, líkt og hér er gert. Það er alltaf heilmikil áskorun að gera efni sem maður sættir sig við sjálfur og getur lifað með, en er samt þess eðlis að fólk hafi áhuga á að eign- ast það og hlusta á. Þetta hefur mönn- um gengið misvel og margar uppá- haldsplötur sögunnar eru ekki endilega uppáhaldsplötur listamann- anna. Skellir og smellir er hins vegar plata sem ég get alveg ímyndað mér að ég eigi eftir að hlusta á mér til ánægju og það eru nú alls ekki allar plötur manns sem ná því.“ Morgunblaðið/Jim Smart „Skuggarnir eru lög sem eru spiluð svo mikið að það verður svolítið skrýtið að lifa með þeim.“ Hann þolir ekki endurtekn- ingar, stuðlar texta sína og hefur afskaplega gaman af að beita fyrir sig húmornum. Anna Sigríður Einarsdóttir ræðir við fyrrum Stuðmann- inn, hrekkjusvínið og Spil- verksfélagann Valgeir Guð- jónsson sem á dögunum sendi frá sér nýja plötu. Morgunblaðið/Árni Sæberg Spilverksandinn sveif yfir vötnum í Salnum. Morgunblaðið/Árni Sæberg Valgeir ásamt þeim Regínu Ósk Óskarsdóttur og Sigurði Flosasyni. annaei@mbl.is

x

Morgunblaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.