Morgunblaðið - 07.04.2003, Blaðsíða 20

Morgunblaðið - 07.04.2003, Blaðsíða 20
MINNINGAR 20 MÁNUDAGUR 7. APRÍL 2003 MORGUNBLAÐIÐ ✝ Anna MaríaÓlafsdóttir fædd- ist á Akureyri hinn 17. febrúar 1977. Hún lést á heimili sínu hinn 30. mars síðastliðinn. Foreldr- ar hennar eru hjónin Ólafur Haraldsson stýrimaður, f. 13. ágúst 1953, og Inga Lára Bachmann mót- tökuritari, f. 3. jan- úar 1955. Anna María var í miðið í þriggja systkina hópi. Bróðir hennar var Jósep f. 30. júní 1974, d. 6. jan- úar 1990, og systirin Katrín, f. 21. september 1982. Sonur Önnu Mar- íu er Róbert S. Steindórsson, f. 24. júní 1996. Faðir hans er Steindór Ívar Ívarsson, f. 2. júní 1972. Unn- usti Önnu Maríu er Árni Friðriks- son, f. 5. nóvember 1972. Anna María ólst upp á Akur- eyri, stundaði grunnskólanám í Lundarskóla og Síðuskóla og lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri 1997. Hún kenndi í eitt ár við Síðuskóla og fór síð- an til náms við Kenn- araháskóla Íslands og lauk kennara- prófi vorið 2001. Næst lá leiðin til Liv- erpool í Englandi þar sem hún kenndi litlum grunnskóla- börnum almenna kennslu auk íslensku við góðan orðstír. Hún flutti aftur í heimahagana ásamt unnusta og syni sumarið 2002 og þau festu kaup á íbúð í Melasíðu 4. Anna María hóf kennslu við Giljaskóla sl. haust þar sem hún kenndi 1. bekk. Útför Önnu Maríu fer fram frá Glerárkirkju í dag og hefst at- höfnin klukkan 14. Drottinn daga og stunda, Drottinn tíma og rúms, Drottinn dýrðarfunda, Drottinn næturhúms. Stýr þú hönd og huga, hjarta, lífi og sál, lát ei bölið buga blessa allra mál. (Guðbjörg Jónsdóttir.) Úti er sól og tærleiki í lofti, litfagr- ir krókusar stinga sér upp úr mold- inni og græn blöð túlípana hækka dag frá degi, farfuglar koma og dag- inn lengir – allt eru þetta óskeikulir vorboðar í hringrás tímans. En það eru aðrir atburðir sem ekki gera boð á undan sér, óbærilegir og óskiljanlegir. Það syrti yfir þegar fregnin barst um að elskuleg bróð- urdóttir mín, Anna María Ólafsdótt- ir, væri látin. Hver er tilgangurinn með því að ung stúlka í blóma lífsins er í einu vetfangi kölluð burt frá manni og ungum syni, systur og foreldrum sem áður höfðu misst son? Enginn fær skilið almættið né svarað öllum þeim spurningum sem streyma um hugann, en ég vil trúa því að sér- stakur tilgangur liggi á bakvið þenn- an sorgaratburð, að Önnu Maríu hafi verið ætlað æðra hlutverk á öðrum stað. Minningarnar streyma; kotroskin, lítil, hnellin táta að potast í stígvél til að koma sér út í sandkassa og rólu, stígvélin dugðu ein fata hefði hún sjálf mátt ráða. Dugnaðarforkur í leik og hafa í tré við eldri bróður á leikvellinum, í garðinum og um móa og fjörur á Kljáströnd. Ábyrg stóra systir sem uppskar ómælda aðdáun litlu systur sem vildi gera í einu og öllu eins og sú stóra. Ljúf og heillandi frænka dóttur minnar sem ekki sá sólina fyrir Önnu Maríu, hennar fyr- irmynd, enda tveimur árum eldri. Anna María var söngvin, lærði lög og texta á örskotsstund og hún var sér- staklega glögg að muna og vinna með tölur. Kennarastarfið hugleikið frá bernsku, Anna María kenndi dúkk- um, böngsum og vinkonum og skráði nöfn ímyndaðra nemenda sinna í bækur – skipulögð frá fyrstu stund. Á æskuárunum spilaði Anna María fótbolta með íþróttafélaginu Þór og lærði á hljómborð og spilaði af inn- lifun sér og öðrum til ánægju. Grunnskólaganga hófst í Lundar- skóla og síðan í Síðuskóla þegar fjöl- skyldan flutti úr Grundargerði í Rimasíðu. Anna María lauk stúd- entsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri 1997. Anna María varð einungis 19 ára móðir en móðurhlutverkið tók hún af mikilli alvöru og ábyrgð frá fyrstu stundu. Róbert, litli sólargeislinn, ber það með sér að hafa verið alinn upp af ástúð, í kærleik og miðlað af viskubrunnum í samræmi við þroska hverju sinni. Hann var stolt móður sinnar og mjög hændur að henni. Okkur, sem eftir lifum og erum hon- um náin, ber að sjá til þess að hann geymi í hjarta sínu minningu um kærleiksríka móður sem unni honum framar öllu. Anna María og Árni, unnusti henn- ar, kynntust sumarið sem Anna lauk stúdentsprófi og fljótlega varð hann sem einn af fjölskyldunni. Í uppeldis- starfinu var Árni ómetanleg stoð og stytta og hefur verið drengnum sem faðir frá því hann var eins árs. Anna María vildi reyna kennara- starfið áður en hún færi til frekara náms og kenndi eitt ár við Síðuskóla. Þar með var bernskuákvörðun um ævistarf staðfest. Litla fjölskyldan flutti til Reykjavíkur og hreiðraði um sig í íbúð sem þau keyptu við Ból- staðarhlíð, og Anna María settist á skólabekk við Kennaraháskóla Ís- lands þaðan sem hún lauk kennara- prófi vorið 2001. Anna María hafði m.a. tekið ensku sem valgrein og vildi efla þann þátt kennslufræðanna. Hún fékk styrk til dvalar í Englandi og kenndi við grunnskóla í Liverpool skólaárið 2001–2002. Hún kenndi al- menna kennslu og litlum hópi ís- lensku sem valgrein og réðist m.a. í það að útfæra ævintýri í leikbúning og láta unga nemendur sína leika á íslensku við góðan orðstír. Foreldr- um Önnu og systur eru minnisstæð dvöl þeirra yfir jól í Liverpool, m.a. þegar þau voru við messu í kirkju og breskir nemendur Önnu Maríu sungu barnasálm á íslensku. Anna, Árni og Róbert áttu góða daga í Liv- erpool og ljúfar minningar enda stóð til að verja hluta sumarfrísins þar á komandi sumri. Sumarið 2002 flutti fjölskyldan aftur heim til Akureyrar, þau keyptu litla íbúð og Anna María hóf kennslu í Giljaskóla. Hún var samviskusöm í starfi, var mjög annt um nemendur sína og bar velferð þeirra fyrir brjósti, hún var hug- myndarík og einkar skipulögð og hafði mikinn metnað til þess að standa sig vel. Stundvísi var henni sem í blóð borin. Hún vildi hvergi vamm sitt vita. Það hvílir sorg yfir Giljaskóla og Önnu Maríu er sárt saknað. Anna María; fallegt bros þitt mun standa mér fyrir hugskotssjónum og dillandi hlátur þinn hljómar áfram í minningunni. Mín kæra frænka, ég kveð þig í trú um að þér hafi verið ætlað annað hlutverk á æðri stað, þar munt þú og litla ófædda barnið ykkar Árna lifa og blómstra. Ástarkveðjur frá ömmu þinni og Gunnu sem nú dvelur í Ástralíu, svo langt í burtu frá okkur. Elsku Árni og Róbert, Óli, Inga og Kata. Ég vildi ég gæti komið að liði og sefað sorgina en bæði orð og at- hafnir virðast svo máttlaus þessa dagana. Guð gefi ykkur huggun og styrk í ykkar miklu og djúpu sorg. Halldóra. Hér sitjum við hljóð og eigum erf- itt með að finna réttu orðin. Það er svo erfitt að ekkert sé hægt að gera til að fá þig aftur. Elsku Árni bróðir, Róbert, Inga, Óli og Kata, ykkar missir er ólýsanlegur. Elsku Anna María, þú sem gerðir Árna okkar svo hamingjusaman, hamingja ykkar var svo mikil og ást ykkar svo sterk. Þið sem voruð svo full tilhlökkunar yfir fjölguninni í litlu fjölskyldunni ykk- ar, Róbert var svo glaður yfir því að verða stóri bróðir enda yndislegur strákur sem átti yndislega móður. Foreldrar Önnu Maríu hafa misst mikið, nú búin að missa tvö börn sín og Kata bæði systkini sín, en nú ert þú, elsku Anna María, hjá Jósep bróður þínum og litla ljósið ykkar Árna sem þú munt nú gæta þar til þið hittist á ný. Ykkur litlu fjölskylduna var svo gaman að heimsækja, þú varst búin að gera svo fallegt heimili fyrir þig, Árna og Róbert. Þú hugs- aðir vel um strákana þína og þeir um þig. Við getum endalaust rifjað upp skemmtilegar minningar og þær munum við geyma í hjörtum okkar um ókomna tíð. Við munum aldrei gleyma fallega andlitinu með glað- hlakkalega brosinu þínu sem mætti okkur ætíð er við hittumst. Við þökk- um þér fylgdina þótt hún hafi verið allt of stutt, við þökkum fyrir að hafa fengið að kynnast þér og njóta sam- vista þinna. Elsku Árni bróðir, Guð styrki þig, Róbert, Ingu, Óla og Kötu auk allra annarra sem auk okkar syrgja elsku Önnu Maríu. Nú er sál þín rós í rósagarði Guðs kysst af englum Döggvuð af bænum þeirra sem þú elskaðir Aldrei framar mun þessi rós blikna að hausti (Ragnhildur P. Ófeigsd.) Guð geymi þig, elsku Anna María okkar. Þínir tengdaforeldrar, Friðrik og Ragnheiður, Þórður, Aðalheiður og börn, Jón og Margit, Elísabet og synir, Sverrir. Elsku Anna María. Ef einhver hefði spurt mig hver besta vinkona mín væri fyrstu 10-12 ár ævi minnar hefði svarið verið öruggt – Anna María, frænka mín. Síðastliðna daga, eftir að ég heyrði af andláti þínu, hef- ur mér mikið verið hugsað til æsku- áranna og allra stundanna okkar saman. Mér hefur verið hugsað til allra furðulegu leikjanna sem við bjuggum til, t.d. ísbjarnarleiksins góða sem aðallega fólst í því að snúa herberginu hennar ömmu á hvolf, ofsahræðslunnar sem greip okkur þegar við fórum niður á Stekk á held- ur óheppilegum tíma árs, þ.e. þegar æðarfugls- og kríuvarp bar hæst, spil á hljómborð, svo ég tali nú ekki um Santa Barbara ævintýrið. Það sem stendur samt upp úr er virðing mín fyrir þér þar sem þú varst tveimur árum eldri og hlaust þar með að vita og geta allt best. Ég lét sem ég væri líka vaxin upp úr Póstinum Páli um leið og þú þó að það væri ekki staðreyndin og þó að ég hefði ekki minnsta áhuga á íþrótt- um var ég Þórsari af því þú varst það. Ég minnist einnig góðra stunda sumarið 1993 þegar þú komst með okkur mömmu til Bristol, við mamma til ársdvalar en þú í sum- arskóla og bjóst hjá okkur. Síðustu ár höfum við fylgst hvor með annarri en oft úr fjarlægð þegar við höfum ekki verið samtímis á landinu. Ég er innilega þakklát fyrir að hafa komið heim um jólin og átt með þér góðar stundir. Ég á erfitt með að skilja að nú verði þær ekki fleiri. Það er erfitt að verða ekki bitur og hugsa af hverju í ósköpunum þetta þurfti að gerast. Slíkar hugsanir hjálpa engum og því reyni ég að einbeita mér að öll- um góðu minningunum sem ég á nú þegar, af nógu er að taka. Óli, Inga, Kata, Árni og Róbert, ég vildi óska að ég gæti verið með ykkur á þessum erfiða tíma og deilt sorg- inni. Það er lítið hægt að segja annað en að ég hugsa til ykkar og sendi ykkur innilegar samúðarkveðjur. Og Anna mín, það er erfitt að geta ekki verið við útförina og fá að kveðja en ég trúi því að hluti af þér sé líka hérna með mér í Ástralíu. Takk fyrir allar góðu stundirnar. Guðrún Sif Friðriksdóttir, Perth, Ástralíu. Kveðja frá samstarfsfólki við Giljaskóla Nú ertu leidd, mín ljúfa, lystigarð drottins í. Þar áttu hvíld að hafa hörmunga og rauna frí. Við guð þú mátt nú mæla, miklu fegri en sól, unun og eilíf sæla er þín hjá lambsins stól. Þetta vers úr sálmi Hallgríms Pét- urssonar, sem hann orti við lát ungr- ar dóttur sinnar, leitaði á hugann þegar frétt barst um andlát Önnu Maríu Ólafsdóttur. Þótt fæst okkar eigi ef til vill þann trúarstyrk og vissu um framhaldslíf, sem sálmur- inn tjáir, þurfum við sárlega á styrk og huggun að halda. Þegar ung kona og móðir er hrifin burt úr dagsins önn með svo skyndilegum hætti er erfitt að skilja öfugsnúinn gang lífs- ins og sættast við almættið. Anna María var einn af yngstu kennurum skólans og við nutum ekki langra samvista við hana, því hún hóf störf á liðnu hausti. Áður hafði hún unnið einn vetur við kennslu í Síðu- skóla – þá nýstúdent – og eftir út- skrift úr Kennaraháskóla Íslands annan vetur á Bretlandseyjum. Hún var því í vetur að feta sín fyrstu spor sem réttindakennari á Íslandi. Það kom í hennar hlut að taka á móti ein- um hópi yngstu nemendanna og hann var ekki svikinn af handleiðslu hennar. Hún vissi hvað þeim kom, sjálf móðir jafnaldra þeirra og leiddi stundum soninn Róbert sér við hönd um skólann. Þegar við fréttum að von væri á öðru barni samglöddumst við henni innilega. Anna María var góðum gáfum gædd og búin mannkostum sem nýt- ast vel í kennslu. Hún var kappsfull, vandvirk og samviskusöm svo af bar. Eitt sinn varð henni það á að hleypa hópnum sínum of snemma út í frí- mínútur. Þegar hún áttaði sig á mis- tökunum dreif hún börnin aftur úr útifötunum, hóaði þeim inn í stofu og hélt þeim inni þar til bjallan hringdi. Um margt var þessi unga kona okk- ur, þeim eldri og reyndari, góð fyr- irmynd. En fyrstu árin í kennslu reyna líka á – einkum þann sem ekki má vamm sitt vita – og þegar Anna María lýsti andvökunótt fyrir fyrstu foreldraviðtölin varð ýmsum hugsað til sinnar fyrstu kennslureynslu. Anna María var glöð og kraftmikil stúlka, hreinskiptin og yfirlætislaus. Hún bjó yfir ríku skopskyni sem þeir nutu sem næst henni stóðu í skól- anum. Oft mátti heyra bjartan og smitandi hlátur hennar á góðri stundu. Þegar við, starfsmenn Giljaskóla, kveikjum á kertum og minnumst Önnu Maríu dvelur hugur okkar hjá litlum dreng, yndi og stolti móður sinnar, sem mikið hefur misst; einnig hjá Árna, sambýlismanni hennar, foreldrum, sem nú sjá á bak öðru barni sínu, og hjá systurinni Katrínu. Þeim og öðrum ástvinum Önnu Mar- íu sendum við innilegar samúðar- kveðjur með nokkrum línum úr ljóði Ísaks Harðarsonar, Nafn lífsins: Vinir, opnum gluggann upp á gátt og berum lífsins nafn að nótt og dimmum dauða uns eilíft sumar ljómar nýjum heimi. Elsku, góða Anna María. Þú varst besti kennarinn okkar. Það þarf tvo til að fylla í skarðið þitt. Við söknum þín en núna kennir þú englabörnun- um á himninum. Ég fel í forsjá þína, Guð faðir, sálu mína því nú er komin nótt. Um ljósið lát mig dreyma og ljúfa engla geyma öll börn þín svo sofi rótt. (M. Joch.) Við viljum biðja Guð að styrkja og passa Róbert, Árna og fjölskylduna. Kveðja. Börnin þín í 1. bekk b í Giljaskóla. Við viljum með þessum fáu orðum votta virðingu okkar Önnu Maríu Ólafsdóttur, fyrrum nemanda okkar í Kennaraháskóla Íslands. Það er erf- itt að trúa því að þessi lífsglaða og fjöruga stúlka, sem hélt vongóð á vit ævintýra við kennslu í Englandi fyrir tæpum tveimur árum þegar við kvöddum hana í lok kennaranámsins sé horfin úr þessu jarðlífi. Anna María var geislandi og kraft- mikil og lagði sig alla í það sem hún gerði. Í litlum hópi nema í enskuvali á hennar ári skapaðist náinn og nota- legur andi, þar sem hver einstakling- ur lagði allt sitt af mörkum. Anna María var lykilmaður í þeim hópi. Hún kom við í Kennaraháskólan- um þegar hún sneri aftur frá Eng- landi síðastliðið vor. Allt hafði gengið vel og reynsla hennar þar hafði gefið henni mikið, bæði persónulega og faglega. Hún var full bjartsýni og áhuga á framtíðarstarfinu. Það duldist engum sem umgekkst Önnu Maríu að hún átti sólargeisla sem hún talaði oft um, soninn Ró- bert. Hún var þakklát fyrir litlu fjöl- skylduna sína og fólkið sitt. Það var greinilegt að heimahagarnir voru henni kærir. Við þökkum Önnu Maríu fyrir góðar samverustundir í Kennaraháskólanum og biðjum góð- an guð að styrkja fjölskyldu hennar. Auður Torfadóttir, Samúel C. Lefever, Ragnheiður Jónsdóttir. Elsku vinkona. Við munum haust- ið 1998, við vorum að byrja í KHÍ og öll óörugg og þekktum engan. En fljótt náðum við saman og sú vinátta mun haldast í gegnum lífið. Andlát þitt myndar stórt skarð í hópinn, en minning um góðan og traustan vin mun ylja okkur um hjartarætur um ókomna tíð og hvetja okkur áfram í lífinu því þú varst fyrirmynd okkar hvað varðar samviskusemi og alúð í garð annarra. Þú varst alltaf bros- andi og hress og auðvelt að heillast af þér. Við minnumst þín sem duglegrar, samviskusamrar og vel skipulagðrar stelpu sem gaman var að vinna með. Við vorum heppin að fá að kynnast þér og Róberti litla og fá að fylgjast með honum. Þú varst svo góð og um- hyggjusöm móðir. Við vorum svo spenntar að fá að hitta þig einhvern næstu daga, fá að heyra af meðgöngunni og hvernig hafi verið í Englandi. Það er ótrúlegt til þess að hugsa að þetta muni ekki verða og við hugsum til þín með söknuði, en við eigum góðar minn- ingar sem við þökkum Guði fyrir að eiga. Róberti, Árna og fjölskyldu Önnu Maríu vottum við okkar dýpstu sam- úð og biðjum Guð að styrkja þau í sorginni. Kveðja. Bekkjarfélagar úr Kennaraháskólanum. Elsku besta vinkona. Það var erfitt að móttaka þær fregnir sem mér bár- ust á miðvikudagskvöldið síðasta frá Íslandi, lífið getur verið svo óréttlátt oft á tíðum. Við höfðum nú ekki mikið samband síðustu þrjú árin en ég fékk þó tækifæri til að sjá þig og Róbert á meðan þú varst í námi í Kennarahá- skólanum fyrir sunnan. Minningarnar um okkur í æsku hafa hrannast upp í huga mínum síð- an mér bárust þessar hræðilegu fregnir. Við að spila lönguvitleysu inni í stofu heima hjá foreldrum þín- um í Rimasíðunni, hljómsveitin Greifarnir og hvað þú varst heilluð af þeim með plaköt út um alla veggi og margt annað sem við tókum okkur fyrir hendur. Ég vil þakka þér kærlega fyrir all- ar þær góðu stundir sem við áttum saman, vildi óska þess að þær hefðu verið fleiri eða ættu eftir að verða fleiri en það verður því miður að bíða betri tíma. Ég vil votta fjölskyldu þinni og nánustu vinum mína innileg- ustu samúð. Þú munt ávallt lifa í huga mínum og hjarta brosandi út að eyrum eins og þér var einni lagið. Þín skólavinkona Guðrún Jóhanna (Gudda), Kaupmannahöfn. ANNA MARÍA ÓLAFSDÓTTIR  Fleiri minningargreinar um Önnu Maríu Ólafsdóttur bíða birtingar og munu birtast í blaðinu næstu daga.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.