Morgunblaðið - 24.08.2003, Blaðsíða 12

Morgunblaðið - 24.08.2003, Blaðsíða 12
Hvað er það sem gerir hasarmynd góða? Ofurhetjan Lara Croft úti um allar trissur eða venjuleg- ur maður innlyksa í símaklefa? „Það sem gerir hasarmynd að góðri hasarmynd er saga sem grípur áhorfand- ann,“ segir Jan de Bont, hollenski leikstjórinn og kvikmyndatökumaðurinn sem í seinni tíð hefur orðið einn helsti hasarhönnuður Hollywood og stýr- ir framhaldshasarnum Lara Croft Tomb Raider: The Cradle of Life, sem frumsýndur er hérlendis um helgina.  KVIKMYNDAVERIN í Holly- wood hafa ákveðið að fresta nokkrum fjölda frumsýninga á ódýrari, listrænni myndum í næsta mánuði til að freista þess að lengja lífdaga stóru „sumarsmellanna“, sem sumir hverjir urðu skellir og hafa vald- ið því að aðsókn að kvikmynda- húsum hefur dregist saman miðað við í fyrra. Ýmsar Holly- woodstjörnur eru sagðar æfar vegna þessa, því frestun metn- aðarmeiri mynda þeirra getur dregið úr mögu- leikum til Óskarstilnefninga. Meðal þeirra er Meg Ryan sem sögð er sýna á sér alveg nýja hlið sem leikkona í hnefaleikadramanu Against the Ropes, Christina Ricci en mynd hennar Prozac Nation hefur verið margfrestað og Val Kilmer sem hafði bundið miklar vonir við gengi næstu myndar sinnar Blind Horizon. Hollywood reynir að mjólka „stórmyndirnar“ Meg Ryan: Óhress með frestun.  HINN fýlulegi sonur Ozzies Osbournes, Jack, og heim- ilisvinur þeirra sem fylgst hafa með „raunveruleikasyrpunni“ um þá söngelsku fjölskyldu, hefur nú fengið sitt tækifæri í bransanum, ekki þó í tónlist- arbransanum eins og Kelly systir, heldur kvikmyndunum. Jack Osbourne mun leika rokksveitarumboðsmann í gamanmyndinni New York Minute, sem tökur eru hafnar á í Toronto. Kvik- myndin er sögð lýsa degi í lífi tvíburasystra, annars vegar pönkara og hins vegar fyrirmyndarnemanda. Þær leika tvíburasysturnar Mary-Kate Olsen og Ashley Olsen. Lilli fær hlutverk Jack Osbourne: Nýtt tækifæri.  SMELLALEIKSTJÓRINN Steven Spielberg er að hefjast handa við tökur næstu kvik- myndar sinnar. Hún heitir Terminal og leikur þar Tom Hanks, sem síðast lék hjá Spielberg í Catch Me If You Can, austur-evrópskan mann sem hyggst setjast að í Banda- ríkjunum vegna stríðsátaka heimafyrir en verður innlyksa á flugvelli í New York vegna ógildra pappíra. Á flugvellinum kynnist hann flugfreyjunni Catherine Zeta-Jones og Diego Luna sem er flugvallarstarfsmaður. Spielberg að leggja í hann Tom Hanks: Strand á flugvelli. LÍTIL frétt um daginn vakti at- hygli á sérstöðu vestrans í Banda- ríkjunum og í bandarísku þjóð- arsálinni. Þetta var fréttin um eftirlætismyndir Bandaríkja- forseta undanfarna áratugi. Engin mynd var sýnd oftar í bíói Hvíta hússins en hinn sígildi vestri Freds Zinnemanns High Noon. Þar lék að- alhlutverk önnur helsta karl- mennskuímynd Bandaríkjanna um miðbik síðustu aldar, Gary Cooper; hin hlýtur að teljast önnur vestrastjarna og aðalleikari Johns Fords, John Wayne. Í High Noon leikur Cooper, orðfár, viðkvæmnislegur en sterkur þegar á reynir, lög- reglustjóra í þorpi sem glímir við óþjóðalýð, næstum því einn síns liðs. Myndin lýsir því hvernig einn einstaklingur býður ofurefli birg- inn og segir: Hingað og ekki lengra. Og verður leiðtogi fyrir vikið. Það kemur því ekki á óvart að þeir dauðlegu og mistæku og ófull- komnu menn sem um hríð veljast til starfa í Hvíta húsinu skuli hafa gert High Noon að sinni eftirlæt- isbíómynd, a.m.k. ekki að þessu leyti. Hins vegar er því miður ekki þar með sagt að þessir forsetar hafi velt fyrir sér eða almennt gert sér grein fyrir því að High Noon (1952) var í raun lítt dulbúin gagn- rýni á McCarthyismann og norna- veiðar hans, sem þá stóðu yfir. Að sama skapi voru þeir endurskoð- unarvestrar sem gerðir voru á seinni hluta 7. áratugarins og fram yfir 1970, myndir á borð við The Wild Bunch Sams Peckinpahs, Sold- ier Blue Ralphs Nelsons og Little Big Man Arthurs Penns, að hluta til ádeilur á stríðsrekstur Bandaríkj- anna í Víetnam. Vestrinn hefur gengið í gegnum ýmis tímabil, allt frá einföldum „þá riðu hetjur um héruð“- vestrum fyrri hluta 20. aldar, þar sem dyggðum prýddir landnemar börðust við „villimennina“, frum- byggjana, indíánana eða við bófa og ræningja úr eigin röðum, til hinna stílfærðu satíruvestra sem kenndir eru við spaghetti og Sergio Leone og Clint Eastwood unnu braut- argengi á 7. áratugnum. Þegar John Ford sleppti hendinni af vestrahefðinni, sem hann hafði léð í senn raunsæi, goðsagnablæ og mannúð, var það Eastwood sem tók við kyndlinum. Af seinni tíma kvikmyndagerðarmönnum hefur enginn gert meira fyrir vestrann en hann, fyrst með fyrrnefndum spaghettivestrum, síðan með því að þróa áfram með sínum hætti viss einkenni þeirra, gefa þeim enn sterkara goðsagnagildi svo jaðrar við mystík eða dulrænu, í myndum á borð við High Plains Drifter og Pale Rider, en síðan með dýpri og áhrifameiri túlkun á Ford-hefðinni, sem hann blandaði áhrifum frá endurskoðunarvestr- unum, í afbragðsverkum á borð við The Outlaw Josey Wales og, ekki síst, Unforgiven. Allan þennan tíma hefur jarð- vegur fyrir þessa kvikmyndahefð verið misfrjór, bæði hvað varðar áhuga kvikmyndagerðarmanna og almennra bíógesta, en vitaskuld vill þetta tvennt haldast í hendur á markaðnum. Og einmitt núna virðist hann óvenju blómlegur fyr- ir „amerískustu“ kvikmyndahefð allra kvikmyndahefða. Hátt í tugur nýrra vestra er nú í smíðum vestur í Hollywood. Fyrst reið á vaðið þar um síðustu helgi Open Range eftir Kevin Costner sem eflaust bindur vonir við að vestri geti komið sér upp úr þeim öldu- dal sem hann hefur dvalið í und- anfarin ár sem leikari og leik- stjóri; það var einmitt langur en á ýmsan hátt prýðilegur vestraópus Costners, Dances With Wolves, sem var hápunktur velgengnistímabils hans um og upp úr 1990. Viðbrögð almennings og gagnrýnenda við Open Range benda til að þetta hafi Costner tekist með prýði. Frumkvæðið að því að þessi vestranýbylgja færi af stað núna átti hins vegar Michael Eisner, yf- irmaður „amerískasta“ kvik- myndafélagsins í Hollywood, sem hefur gegnum tíðina staðið vörð um hefðbundin amerísk gildi, um amerísku fjölskylduna og amer- íska drauminn, þ.e. Disney- félagsins. Hann áttaði sig á því að atburðirnir 11. september myndu hafa margháttuð áhrif á kvik- myndamarkaðinn og sá í hendi sér að þjóðleg bandarísk hefð eins og vestrinn ætti endurnýjaða mögu- leika. Strax hinn 18. september hafði Eisner ákveðið að end- urgerður yrði vestri Johns Waynes The Alamo (1960) um hetjulega baráttu 200 Texasbúa – og athugið að forseti Bandaríkjanna er Tex- asbúi – við 5.000 manna ofurefli Mexíkóhers þar sem þeir vörðust í Alamovirkinu árið 1836. Hinn klóki Eisner vissi að slík mynd höfð- aði sterkt til samstöðu bandarísku þjóðarinnar sem ill öfl sóttu að, jafnvel til meðfylgjandi þjóð- rembu. Nú veit enginn hvernig til hefur tekist og upprunalegur leikstjóri The Alamo, Ron Howard, vék fyrir John Lee Hancock vegna deilna við framleiðandann um hversu „raunsæ“ myndin ætti að vera. Hitt er ljóst að Eisner vonast til að The Alamo verði ekki aðeins aðsóknarsmellur, heldur muni einnig keppa um næstu Óskars- verðlaun. Eftir því sama vonast Ron Howard sem gerði sér lítið fyrir og snaraði eigin vestra, The Miss- ing með Tommy Lee Jones og Cate Blanchett. Af öðrum vonbiðlum Óskars af vestratagi má nefna Cold Mountain eftir Anthony Minghella með Jude Law og Nicole Kid- man. Þessar myndir verða frum- sýndar fyrir árslok en enn fleiri eru í uppsiglingu, eins og Hidalgo eftir Joe Johnston með Viggo Morten- sen og Forty Lashes eftir Quentin Tarantino. Vestrinn er auðvitað séramer- ískt fyrirbrigði; orðið sjálft ber það með sér. Og vel má vera að bandarískur kvikmyndamarkaður bíði glorsoltinn eftir nýjum sér- amerískum hetjusögum úr fortíð- inni. Á forsetastóli í Hvíta húsinu, þar sem High Noon hefur gegnum áratugina verið sýnd oftar en nokkur önnur bíómynd, situr ein- mitt maður sem talar eins og vestraklisja. George W. Bush hljómar eins og John Wayne þegar hann tal- ar um að hryðjuverkamenn skuli „eltir uppi eins og veiðidýr“ og að Osama Bin Laden eða Saddam Hussein séu „eftirlýstir dauðir eða lifandi“. Varaforseti hans talar um yf- irmann sinn sem „kúreka“ sem „skjóti í mark“ (straight-shooter). Slíkur maður myndi tæpast skilja undirtexta verks á borð við High Noon. Eins og staðan er í vitlausa vestrinu núna er ekki ólíklegt að margir haldi með indíánunum, eins og í gamla daga. Villst í vestrinu „Ég geri vestra,“ sagði John Ford þegar hann var beðinn um að meta höfundar- verk sitt í kvikmyndum. Þetta sagði hann þrátt fyrir það að fáir leikstjórar sög- unnar eigi fjölbreyttari feril. Hann gerði gamanmyndir, sagnfræðileg drömu, film- aði leikhúsverk og stríðsmyndir, en í hans huga stóð eitt viðfangsefni og eitt form upp úr og þurrkaði hreinlega önnur út: Vestrinn. Ef þessi meistari, sem Sjónvarpið sýndi verðugan sóma með vestraþema um síðustu helgi, væri enn að störfum væri hann trúlega það sem hann hirti aldrei um meðan hann lifði – í tísku. Reuters Aftur á baki: Robert Duvall, Annette Bening og Kevin Costner.SJÓNARHORN Árni Þórarinsson RAUNAR held ég að orð de Bonts séu ekki aðeins samhljóma flestum fyrri skilgreiningum á góðri hasarmynd heldur einnig skilgreiningum á góð- um myndum yfirleitt. Alltaf þegar spekingar spjalla um gæði kvik- mynda er það gildi sögunnar sem er haft í mestum hávegum. Og góð saga – skyldi það kannski vera saga um persónur sem koma okkur við, „grípa“ okkur, fólk sem við höfum áhuga á vegna þess að það er nógu líkt okkur til að við getum lifað okkur inn í þá atburðarás sem það lendir í eða hrindir af stað og viðbrögð þess við henni? Skyldi góð saga kannski vera þannig? Höldum okkur við hasarmyndina. „Hasar“ merkir samkvæmt orðabók- inni „gáski, ólæti, hamagangur, fjör, (hættulegur) leikur“. Allt þetta ein- kennir flestar hasarmyndir, en sam- kvæmt ofangreindri skilgreiningu de Bonts er „góð hasarmynd“ sú sem leggur til áhugaverða sögu og per- sónur inn í gáskann, ólætin, hama- ganginn og hinn hættulega leik. Við þurfum að hafa fyrir augum og eyrum fólk sem lendir í öllum þessum hremm- ingum af ein- hverjum skilj- anlegum ástæðum. Að- alsmerki hasarmyndanna er semsé hröð og gáskafull atburðarás með miklum ólátum og hamagangi sem öðlast tilgang og markmið gegnum sögu um hættulegan leik áhugaverðs fólks. Hér er orðið „hættulegur“ lyk- illinn. Spennan, eftirvæntingin eftir því sem gerist næst, sem framvinda hasarmynda byggist á, veltur á því að fólkið í sögunni sé í raunverulegri hættu. Ella er allt sjónarspilið inn- antómur gáski, ólæti og hamagangur, ekki aðeins þreytandi heldur beinlínis leiðinlegt. Bíósumarið 2003 er að stórum hluta sumar hins þreytandi, leið- inlega hasars. Hann er þreytandi og leiðinlegur vegna þess að góð saga hefur vikið fyrir tæknibrellum og lífs- háski, sannar mannraunir, fyrir marklausum ævintýrum ofurmenna og vélmenna. Þessar „persónur“ eru ódauðlegar, ódrepandi og því öllum öðrum áhorfendum gjörsamlega óvið- komandi en auðvitað markaðs- spekingunum í Hollywood sem sjá í þeim endalausa möguleika á fram- haldsmyndum. Obbinn af þessum „sumar- smellum“ á uppruna sinn í tölvu- leikjum eða myndasögublöðum. Höf- undarnir hirða almennt ekki um að gera sögu„hetjurnar“ þrívíðar og dauðlegar; þær eru tvívíðar og blóð- lausar. Og „sögurnar“ sem eru hann- aðar fyrir þessar „hetjur“ eru jafnan það sem kallað er draugur uppúr draug. X-Men 2 og Matrix Reloaded þjást af slíkri uppdráttarsýki. Sögur fyrstu myndanna voru ekki beysnar; þær voru í grunninum ævintýraklisjur um baráttu góðs og ills í „nýjum“ bún- ingi. Þegar framhöldin birtast svo kemur berlega í ljós að þessi „nýi“ búningur var nýju fötin keisarans. Báðar myndirnar eru þvælingslegt hjakk en reyna að fela með taugaveikl- uðu iði að þær standa í sömu sporum og forverarnir. Efnislega troða þær marvaðann. Charlie’s Angels 2 og Terminator 3 hafa enn minna fram að færa, upphituð uppsuða úr naglasúpu. Í Hulk reynir alvöru kvikmyndahöf- undur, Ang Lee, að gera betur. Hann reynir að ljá hasarævintýri mannlega og heimspekilega dýpt, en verður því miður steingeldu forminu að bráð. Hulk er kvikmyndalegur hlunkur sem í huganum skilur einvörðungu eftir sig eiturgrænan lit, rétt eins og sam- nefndir íspinnar gerðu á andlitum neytenda sinna. Við fyrstu sýn felst helsta nýjabragðið af þeim óvænta smelli Pirates Of the Carribean í því hversu gamaldags ævintýramynd hún virðist vera. En þegar upp er staðið er hún það ekki. Þegar sögusvið og sögutími, skemmtilegur leikur og ein- stök atriði í fyrri hlut- anum eru frátalin er hún, rétt eins og hinar myndirnar, allt of langur þvælingur kringum stefnulausan tæknibrelluhasar. Munið: Spenna án lífsháska er ekki til. Lífsháski án mannlegrar persónu- sköpunar ekki heldur. Og hasar án spennu er dauðinn. Einu gildir um allar tæknibrellur, glæsilegar leik- myndir og stórfenglega, fjöl- breytilega tökustaði um veröld alla. Til marks um þetta er mynd sem heitir Phone Booth. Hún gerist að mestu í og kringum einn símaklefa. Hún hreyfist varla úr stað. Hún er einfaldlega um breyskar, dauðlegar manneskjur í lífsháska. Hasar hennar er hasarinn í huganum. Hún er, þótt ekki sé hún gallalaus, besta has- armynd sumarsins. Hasarbasar sumarsins Lara Croft 2: Ys og þys út af engu? ath@mbl.is

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.