Morgunblaðið - 02.11.2003, Blaðsíða 13

Morgunblaðið - 02.11.2003, Blaðsíða 13
Morgunblaðið í 90 ár 1913 ∼ 2003 ∼ 13 urinn og myrkrið, og sólin gengin til viðar, en við sitjandi í lítilli stofu, hlustandi á skáldið í þögninni. Það var aftur hlýtt og notalegt, og Halldór Þorbjörnsson, fulltrúi sak- sóknara, tekur upp koníakspela. Þeir skála. Ásthildur kemur inn með kaffi: „Hefur nokkur verið kærður fyrir að stela öskutunnu?“ spyr hún „sakadómarann“. „Það er nýbúið að stela tunnunni okkar,“ bætir hún við. „Saka- dómarinn“ hristir höfuðið og lítur síðan á skáldið og bíð- ur. „Já, mikið helvíti var það skrýtið,“ sagði skáldið, „að þeir skyldu nenna að stela öskutunnunni. En hún var ný- máluð og þeim hefur fundizt hún falleg. En ég ætla ekki að kaupa aðra, onei – dettur það ekki í hug fyrst þær eru ekki greiddar niður af ríkissjóði. Ég er bóndi og kaupi ekki annað en það sem er niðurgreitt. En öskutunnur eru bráðnauðsynlegar, og það er eins og sumir hafi aldrei nóg af þeim.“ Hann strauk kettinum, kveikti í sígarettu og sagði svo: „Það er undarlegt hvað maður getur vanizt rottum. Ég bjó einu sinni í litlu herbergi, það var fyrir mörgum árum, og ég átti ekkert nema borð og bókaskáp. Herbergið var fullt af rottum, stórum og smáum rottum, og stundum klifruðu þær upp á bókaskápinn og duttu niður á mig þar sem ég lá í rúminu. Mér var lítið um þær gefið, en það er skrýtið í þeim hljóðið og merkilegt hvað það getur verið fallega lýrískt. Samt fékk ég mér rottueitur og setti það í skál á borðinu. Ég man það nú ekki, en held það hafi bor- ið einhvern árangur. Hitt var merkilegra að Ásmundur frá Skúfsstöðum fékk sér vænan mola af því þegar hann kom einhvern tíma í heimsókn. Það var von, þetta var eins og lagkaka, ágætt á bragðið, en undarlegt að honum skyldi ekkert verða meint af því.“ Louisa Matthíasdóttir „Varstu með hugann við af- straktlist í París?“ „Ég man ekki til ég væri með hugann við afstraktverk frekar en aðrar myndir. Afstrakt eða ekki – það hefur aldrei skipt mig neinu máli.“ „Hvað kom þér mest á óvart í París?“ „Það hefur aldrei neitt komið mér á óvart í listum. Mér hefur aldrei fundizt ég sjá neitt nýtt.“ „Aldrei neitt nýtt(!) Ekki frek- ar en Prédikarinn?“ „Nei. Mér hefur alltaf fundizt allt eins og það á að vera. Hef aldrei haft neinar áhyggjur af því hvort eitthvað er nýtt eða óvænt – eða ekki. Fell ekki í stafi yfir því sem ég sé.“ „Engin tímamótaáhrif í París?“ „Nei, alls engin(!) Maður sér svo mikið af bókum um list að það er ekkert sem kemur á óvart í þeim efnum. En það er auðvitað allt nýtt fyrir þeim sem eru alltaf með lokuð augu. Sá sem er með opin augu upplifir umhverfið eins og það er, eðlilegt.“ „En listmálarar sem þú kynntist?“ „Það getur verið að ég hafi hitt Júlíönu, en man það þó ekki. Skiptir ekki máli. Foreldrar mínir þekktu Jón Stef- ánsson og ég sá hann telpa. Kynntist honum þó ekki. Man ekki eftir neinni manneskju hvorki listmálara né öðrum sem ég var að tala við á þessum árum.“ „En um?“ „Tala um, nei!“ „Jerry Tallmer nefnir Matisse.“ „Tallmer, hver er það?“ „Blaðamaður New York Post sem skrifaði samtal við þig í fyrra.“ „Æ-já, hann. Það er rétt. Ég hef alltaf verið hrifin af Matisse. En ég er búin að gleyma hvað mér fannst um aðra málara á þessum árum. Fór auðvitað á margar list- sýningar, en á erfitt með að nefna málara sem urðu mér öðrum minnisstæðari.“ Etelríður Pálsdóttir Ég spurði nú Etelríði um sam- bandið milli Steins og föður hans og hún sagði, að sér væri óhætt að full- yrða, að það hafi ekkert verið. Og hún bætti við: „Það má búast við því, að það sé brostinn hlekkur, þegar svo er.“ „En reyndir þú ekki að ganga honum í föðurstað?“ „Ég sagði áðan við þig, að mér hefði fundizt, að ég ætti hann ein, svo útlista ég það ekki meir.“ „Ertu trúhneigð kona, Etel- ríður?“ „Mér finnst ég trúa. Ég hef sterka trú á öllu því, sem mér hefur verið kennt.“ „Kenndir þú Steini að trúa?“ „Hann var svo lítið undir minni hendi á þeim aldri.“ „Líklega hefur hann beðið verulegt tjón af því að vera ekki meira hjá þér?“ „Það er nú kannski of mikið álit á sjálfri sér að segja það, en ég álít nú samt, að það sé léleg móðir, sem er ekki betri fyrir börnin að fá að njóta í uppeldinu en ókunnugt fólk, sem gengur þeim í föður- eða móðurstað. Sá, sem missir móður sína eða föður, hann missir mikið.“ „Þú hefur auðvitað alltaf verið að hlusta eftir því, hvernig honum vegnaði fyrir vestan?“ „Já, já, ég gerði það, heyrði t.a.m. um lærdóminn, hvað honum gekk prýðilega að læra. Þær komu til mín að segja mér það, og ég mat það mikils. Svo kom presturinn til mín, þegar hann skrapp í sóknina, þar sem Steinn var og sagði mér, hvað hann væri vel gefinn. Það þótti mér vænt um. Og ég var sannfærð um það með sjálfri mér, að það væri illa farið, ef hann kæmist ekki áfram í lífinu. En ég mátti mín einskis. Ég bara hlustaði.“ „En varstu viðstödd, þegar hann var fermdur?“ „Já, hann var þá á Miklagarði.“ „Ertu stolt af Steini?“ hef ég nú spurt undir lokin. En Etelríður svaraði: „Ég hef aldrei fundið til stolts. En mér hefur þótt vænt um að vita, að það óx álit á honum. Mér þótti skáldskapur hans í fyrstu hálfgert bull. En það eru merkir menn sem hafa álit á skáldskapnum hans, og þeir vita þetta betur en ég. Og nú eru gagnrýnisraddirnar að þagna.“ Louis Armstrong „Þegar þú varst drengur, fannst þér þá erfitt að lifa?“ „Nei, ekki mjög. Við sem vorum músikantar, áttum góða ævi; fólkið sóttist eftir okkur til að hlusta á okkur spila, við fengum alltaf nokkrum dollurum meira en hinir. En þeir höfðu lítið, verkamennirnir í þá daga.“ „En hvernig er nú að vera svert- ingi í Suðurríkjunum?“ „Ég trúi og veit, að það er allt annað nú en áður. Þá áttum við enga framtíð, sem ástæða var að hlakka til. Við fengum að vísu að spila á fínum stöðum. Fína fólkið klappaði fyrir okk- ur, við fengum vel borgað. Við vorum hamingjusamir. En við vorum alltaf látnir ganga um bakdyrnar. Samt leið okk- ur vel, eins og ég sagði. Og miklu betur en öðrum svert- ingjum. Nú hefur orðið mikil breyting. Ungir svertingjar hafa fulla ástæðu til að líta björtum augum á framtíðina í Bandaríkjunum. Þetta er allt annað en þegar við vorum ungir.“ „Hefurðu mjög ríka tilfinningu fyrir því, að þú sért Am- eríkani?“ Hann hugsaði sig um andartak, var í vafa, hvernig hann ætti að svara, sagði síðan: „Ég hef ríka tilfinningu fyrir því, að ég er maður.“ „Þykir þér gott að vera frægur?“ „Gott? Já, ágætt. En það var ekki ég, sem gerði mig fræg- an, heldur fólkið. Það tók list mína upp á arma sér, og ég er þakklátur því fyrir það. Eins og það metur mig, þannig hef ég einnig ástæðu til að meta það. Mér þykir gaman að lifa og gaman að vera metinn. En ég hef alla mína hentisemi, raka mig hægt og rólega, fæ mér einn lítinn … ég má ekki bjóða ykkur einn kátan?“ „Þakka þér fyrir. Ætlar þú að fá þér líka?“ ,Já, auðvitað, ekki skota samt, drekk aldrei skota.“ „En hvað með heilsuna? Heldurðu að það sé gott fyrir hana að fá sér einn lítinn?“ „Hví ekki það? Læknar ráðleggja áfengi við sumum kvill- um. Hvaða viskí framleiðið þið hér á íslandi?“ „Ekkert.“ „Hvað þá?“ „Við lögum vín, sem heitir Svarti dauði.“ „Ég þarf endilega að reyna það,“ sagði hann. „Ég er ákveðinn í því. Black Death, what a name!“ Svavar Guðnason Svavar Guðnason er að opna sýn- ingu í Listamannaskálanum. Ein af myndunum á sýningunni heitir „Næturútvarp á Öræfajökli“. Hún mun vera máluð til heiðurs Jóni Leifs. Við stóðum fyrir framan þessa ágætu mynd og virtum hana fyrir okkur. Ég spurði listmálarann, hvort hann gæti ekki sagt mér eitthvað sérstakt um hana. Þá settist hann á dálitlar trétröppur, sem þarna voru, og ætlaði að grípa til gleraugnanna. „Ég er nefnilega nýbúinn að fá þau,“ sagði hann afsak- andi. Svo kallaði hann til Gunnlaugs Schevings og spurði, hvort hann hefði ekki séð þau. „Jú, þau liggja hérna á borðinu,“ sagði Gunnlaugur. Svavar sótti gleraugun og settist síðan aftur á tröppurnar. Hann sneri gleraugunum án afláts, svo leit hann á mig og sagði: „Eitthvað sérstakt? Þegar ég hef lokið við að mála mynd, þá er ég búinn með hana.“ Svo setti hann upp gleraugun og leit hvasst á myndina til þess að ganga úr skugga um að svo væri. „Já, þá er ég búinn með hana,“ sagði hann aftur með áherzlu. „Svo legg ég hana fyrir daginn, og hann kveður upp sinn dóm. Ég hef sagt allt, en svo kemur einhver jafnvitlaus og þú og spyr með lokuðum augum: „Getið þér ekki sagt mér eitthvað sérstakt um þessa mynd?“ Þá segi ég: „Nei, myndin er þarna. Mig langar ekki til að forfúska eða for- simpla hana með einhverju ómerkilegu blaðri, það heyrir til litteratúrnum.“ Málið var útrætt. Við gengum út í annað suðurhornið. Þar eru gamlar myndir, sem áttu einhvern tímann að skreyta kvæðabækur Kiljans. Fáir þekkja þær og enn færri hafa séð þær. List- málarinn gaf þeim nöfn í samráði við Kiljan, en hinn síð- arnefndi er sérfræðingur í slíku, eins og nöfnin bera með sér: „Hattur á syndlausri hóru heitir þessi.“ „Ég sé ekki hattinn,“ segi ég, „en þarna eru tvö stór brjóst.“ „Hvað er brjóst og hvað er hattur?“ segir Svavar, og það er ekki laust við, að hann sé dálítið hreykinn af því, hvernig honum tekst að snúa sig út úr þessu. Svo bætti hann við: „En þarna er mynd, sem heitir: Járngrár víkingur, litirnir kaldir, dálítið annað en rauði liturinn í haustskógarsinfón- inum, þar er hiti, ástríður …“ „Já, litir eru mismunandi,“ segi ég. „Sumir eru ero- tískir …“ „Ef þú ætlar að fara að tala um kvennfar á þessum stað, þá fer ég fram og fæ mér einn lítinn, ég vil ekkert forspill- ingartal við mínar myndir.“ Svo fór Svavar fram. agt atthíasar er mikilvæg. Hann dregur ur hugtökum, annars vegar um spyr- arnefnda lýsir því að viðmælandinn er hreyfiafl samtalsins, hann hefur sam- er höfundur þess því að hann spyr og er viðfangið. á viðmælandanum heldur virðingu á r er orðið bókmenntir notað að yf- enntir eins og blaðasamtöl geta sann- að koma upplýsingum á framfæri eða gflest blaðaviðtöl nú um stundir, held- ýsing. Í samtölum Matthíasar er ekki bara spurt og svarað, í þeim er einnig sviðsett, í þeim er að finna höfundarinn- skot – og í þeim er spyrðillinn iðulega látinn mæla að sínum hætti, með sínu persónulega orðfæri. Hann fær að koma til dyranna eins og hann er klæddur. Heyri hann illa segir hann ha! í samtalinu, verði hann undrandi lætur hann það í ljós með einhverjum hætti, misskilji hann eitthvað þá verður svo að vera, vilji hann kveikja sér í vindli þá gerir hann það að lesandanum „sjáandi“ o.s.frv. Það er með öðrum orðum eins og að detta ofan í skáldsögu að lesa samtal eftir Matthías. Ástæðan er vafalítið sú að þau eru samin af höfundi sem ber ótak- markaða virðingu fyrir viðfangsefni sínu. Hér eru birt fáein brot úr samtölum eftir Matthías sem undirritaður hefur val- ið. Samtölin birtust í Morgunblaðinu á um það bil þrjátíu ára tímabili. Þröstur HelgasonMatthías Johannessen og Halldór Laxness á Morgunblaðinu.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.