Morgunblaðið - 02.11.2003, Blaðsíða 19

Morgunblaðið - 02.11.2003, Blaðsíða 19
Morgunblaðið í 90 ár 1913 ∼ 2003 ∼ 19 É g skrifaði mína fyrstu grein í blaðið sjö ára og á enn áritaða bók frá Styrmi Gunnarssyni fyrir söguna mína. Sagan fjallaði um bú- ið mitt í sveitinni norður í Svarfaðardal, þangað sem ég á ættir að rekja í móð- urætt,“ segir Ólafur. Næsta skref var þegar hann kom á Morgunblaðið í starfskynningu fjórtán ára og hann hóf svo störf sem sumarmaður þegar hann átti tvo daga í nítján ára afmælið sitt, 9. júní 1987. „Ég hef starfað hér á Morg- unblaðinu meira og minna síðan. Ég vann á blaðinu meðfram öllu mínu há- skólanámi, þannig að það er óhætt að segja að blaðið hefur verið mikilvægur hluti af tilveru minni nokkuð lengi. Ég prófaði í rúm tvö ár að vinna annars staðar og það voru skemmtileg og áhugaverð störf. Engu að síður tók ég feginn því tækifæri að koma aftur á blaðið, þá sem aðstoðarritstjóri í janúar árið 2001.“ Ólafur segir ástæðu þess að hann hafi haldið þessa tryggð við þenn- an vinnustað ekki síst vera þann góða og að mörgu leyti einstaka starfsanda sem sé á Morgunblaðinu. „Þetta er af- skaplega fjölbreyttur vinnustaður, full- ur af skemmtilegu og áhugaverðu fólki. Það er óvíða sem fara fram jafnlíflegar og skemmtilegar umræður á hverjum degi og hér. Morgunblaðið er mikill þjóðfélagsspegill og því óskaplega skemmtilegur vinnustaður fyrir fólk sem hefur áhuga á þjóðmálum og hug- myndum og vill láta eitthvað gott af sér leiða.“ Ólafur segir að fjölmiðill eins og Morgunblaðið gegni mjög mikilvægu hlutverki í lýðræðisþjóðfélagi við að upplýsa almenning með hlutlægum hætti í gegnum vandaðan fréttaflutn- ing. „Sem leiðarahöfundur á stóru dag- blaði hefur maður jafnframt haft tæki- færi til að hafa áhrif á að koma málum í betri farveg. Það sem ég hef vonandi getað lagt til stefnu blaðsins er í fyrsta lagi að halda áfram á lofti og þróa þá grundvallarhugsun sem auðvitað hefur alltaf verið kjarninn í stefnu Morg- unblaðsins, áherslu á frelsi ein- staklingsins til orðs og æðis. Ég hef einnig haft mikinn áhuga á alþjóðlegu samstarfi og þátttöku Íslands í því og að opna Ísland fyrir alþjóðlegum straumum, án þess að fórna þeim verð- mætum, sem liggja í íslenskri tungu og menningu. Það að stofna fjölskyldu og eignast tvær dætur hefur gert að verk- um að ég hef fengið mikinn áhuga á fjöl- skyldu- og jafnréttismálum, sem vænt- anlega sér stað í því sem ég skrifa. Bakgrunnur minn í fjölskyldu sem tengist kirkjunni mikið gerir einnig að ég hef viljað viðhalda þeirri stefnu Morgunblaðsins að styðja við kirkjuna og kristin gildi.“ Eitt af því sem Ólafur segir jafnframt að hann hafi kynnst af eigin raun og myndað sér skoðun á á löngum tíma í blaðamennsku er mik- ilvægi gegnsærrar og opinnar stjórn- sýslu og greiður aðgangur almennings að bæði upplýsingum og ákvörðunum í stjórnkerfinu. „Það hefur orðið gífurleg breyting í stjórnsýslunni að þessu leyti á undanförnum árum, en það er ekki síst hlutverk fjölmiðla að halda stjórn- völdum við efnið og enduróma sjón- armið almennings.“ Ólafur segir mikilvægt að Morg- unblaðið haldi áfram að vera þjóðfélags- spegill og endurspegla áhugamál og óskir síns lesendahóps. „Frétta- hugtakið hefur í rauninni verið víkkað út á seinni árum og sú þróun mun ef- laust halda áfram. Við skrifum nú meira um neytendamál, skóla- og menntamál, heilbrigðismál, tækni og vísindi, svo dæmi séu nefnd, en áður var gert. Breyttu þjóðfélagi fylgir einnig að les- endur gera stöðugt auknar kröfur til að starfslið dagblaðs endurspegli les- endahópinn. Þar horfa menn til dæmis til hlutfalls kvenna í hópi blaðamanna. Þá er einnig spurning hvernig við get- um fengið í okkar raðir fulltrúa þess sí- stækkandi hóps Íslendinga sem eru af erlendum uppruna og leitast þannig við að endurspegla síbreytilegt samfélag. Þótt það sé nauðsynlegt að svara óskum lesendanna til að fjölmiðill standi undir sér rekstrarlega séð getur hins vegar of mikil þjónkun við svokallaðar þarfir markaðarins gengið of nærri hinu þjóð- félagslega hlutverki dagblaðs sem er að upplýsa, fræða og gagnrýna og vera lýðræðinu þannig stoð. Dagblöð eiga ekki einungis að birta það sem lesendur þeirra vilja lesa heldur einnig það sem ritstjórar þeirra og blaðamenn telja að þeir eigi og þurfi að lesa til að vera upp- lýstir borgarar í lýðræðislegu sam- félagi,“ segir Ólafur. „Ég hef einnig lagt mikla áherslu á að Morgunblaðið falli ekki fyrir þeirri freistingu að færa til mörkin á milli frétta og auglýsinga. Blöð sem rugla slíku saman í þágu svokallaðra mark- aðssjónarmiða verða ekki langlíf sem trúverðugir fréttamiðlar. Morgunblaðið er samkvæmt lesendakönnunum það dagblað sem lesendurnir treysta best og við viljum að það verði þannig áfram. Traust og trúverðugleiki skiptir öllu máli.“ Ólafur ber í starfi sínu meðal annars ábyrgð á rekstri ritstjórnar Morg- unblaðsins. Hann segir það vera mjög mikilvægt að fjölmiðill eins og Morg- unblaðið sé fjárhagslega sjálfstæður og vel rekinn, í harðnandi samkeppn- isumhverfi. „Þær breytingar og þau nýju verkefni sem við höfum farið út í að undanförnu, til dæmis nýir efn- isþættir og sérblöð, hafa öll verið fram- kvæmd með mjög hagkvæmum og skil- virkum hætti. Þau styrkja þannig samkeppnisstöðu blaðsins.“ Mikil um- ræða hefur átt sér stað á undanförnum árum um framtíð dagblaða í breyttu þjóðfélagi og á tímum örra tæknibreyt- inga. Ólafur segir að þrátt fyrir að breytingarnar séu vissulega örar blasi ekki við að neitt komi algjörlega í stað hins prentaða dagblaðs í bráð. „Dag- blaðið er létt, meðfærilegt og hreyf- anlegt. Maður þarf ekki að slökkva á því í flugvél og það skiptir ekki öllu máli þótt maður týni því. Það er auðvelt að geyma dagblað að hluta eða í heild og það er auðvelt að henda því. Sem frétta- miðill hefur dagblað einnig ákveðna sérstöðu. Blaðamönnum á dagblöðum gefst kostur á að staldra við og fjalla ýt- arlegar og dýpra um málefni líðandi stundar en rafrænu miðlarnir, hvort sem er Netið eða ljósvakamiðlarnir, gera. Hins vegar er hið raunverulega verðmæti sem ritstjórn dagblaðs fram- leiðir ekki falið í prentsvertu og pappír heldur í gæðum textans og myndefn- isins, framsetningu þessa efnis, trú- verðugleika upplýsinganna og þeim til- finningum sem lesendurnir bera til innihaldsins, hver svo sem miðillinn er sem notaður er til að koma þessu efni á framfæri. Dagblaðið getur komið út á pappír, á vef, í gegnum síma eða jafnvel með einhverjum allt öðrum hætti en við höfum séð fyrir. Miðill eins og Morg- unblaðið þarf að vera opinn fyrir öllum þessum nýju dreifileiðum, ekki síst til að ná til þeirra nýju kynslóða sem nota tæknina með alveg nýjum hætti.“  Traust og trúverðugleiki Ólafur Þ. Stephensen hóf störf við Morgunblaðið árið 1987 og hefur frá 2001 verið aðstoðar- ritstjóri.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.