Lesbók Morgunblaðsins - 20.01.2001, Blaðsíða 11
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 20. JANÚAR 2001 11
forverunum svo það er nú elzta hús staðarins.
Í leikriti Ragnars Arnalds; Hús Hillebrandts,
eru þeir Sölvi búðarmaður og Sverrir steinsmið-
ur að ljúka við smíði Hillebrandtshúss:
„Sölvi: Einn nagli í viðbót og húsið er fullbyggt.
Sverrir: Ekki held ég, að þetta hús standi lengi.
Sölvi: Því segirðu þetta, maður?
Sverrir: Aldargamalt fúatimbur er ekki mér að
skapi.
Sölvi: Og þó spái ég því, að Hillebrandtshús
standi þegar Thomsenshús er löngu horfið.“
Verzlun breytt í verkstæði og íbúð
Svo fór að verzlunarhús Thomsens og Hille-
brandts komust í eigu sama manns, Jóhanns
Möller. Hann rak sölubúð sína í Thomsenshúsinu
og notaði Hillebrandtshúsið sem vörugeymslu.
Jóhann Möller lézt 1903.
Hjörleifur Stefánsson arkitekt sem var
Blönduósingum ráðgjafi varðandi endurbygg-
ingu Hillebrandtshússins rekur í greinargerð
sögu þess.
Eftir að Jóhann Möller eignaðist verzlunarhús
Hillebrandts kallaðist það Möllerspakkhús. Árið
1916 eru Magnús Stefánsson, kaupmaður á
Blönduósi, og Jón S. Pálmason, bóndi á Þing-
eyrum, eigendur hússins og 1922 er Magnús einn
skráður eigandi hússins, sem er eingöngu notað
sem pakkhús. Jón Pálmason er svo aftur talinn
meðeigandi Magnúsar að húsinu, en 1940 seldu
þeir Birni Einarssyni, trésmið frá Síðu, húsið.
Björn innréttaði íbúð í vesturhluta hússins og
hafði smíðaverkstæði í hinum hlutanum. Björn og
kona hans, Hallbera Jónsdóttir ljósmóðir, bjuggu
í húsinu og jók Björn það kvistum. Þau hjón og af-
komendur þeirra bjuggu svo í húsinu, þar til
Blönduóssbær keypti það og var kaupsamningur
undirritaður í ársbyrjun 1992.
Hársbreidd frá niðurrifi
Áhugi bæjaryfirvalda á að kaupa húsið stafaði í
fyrstu ekki af verndunarsjónarmiðum heldur var
ætlunin þvert á móti að rífa það.
Guðbjartur Ólafsson tæknifræðingur var
byggingafulltrúi bæjarins og segir hann menn
hafa ætlað að rífa húsið til þess að auðvelda
breytingar á lóðastærðum.
„Það verður að segjast eins og er að á þessum
tíma, þótt ekki séu nema tólf ár síðan, var það
ekki tízka að hugsa um gömul hús sem sérstök
verðmæti,“ segir Guðbjartur. „Hillebrandtshúsið
var bara gamalt forskalað hús, sem varð að víkja.
Það er sárgrætilegt til þess að hugsa, hversu
mörg gömul hús voru rifin á leiðinni út í gamla
bæinn og í honum sjálfum. Sem betur fer urðu
það ekki örlög Hillebrandtshússins.“ Sinnaskipt-
in rekur Guðbjartur til Valgarðs Ásgeirssonar
múrarameistara, sem þekkti til sögu hússins af
sögnum, sem hann hafði heyrt um það, þegar
húsið var flutt frá Skagaströnd og því landað í
sandinn við ósa Blöndu. Valgarður fékk Leif
Blumenstein, bygginga- og tæknifræðing, til þess
að semja greinargerð um sögugildi hússins og
segir Guðbjartur hana hafa opnað augu manna
fyrir þeim verðmætum sem í því fólust. Í grein-
argerðinni, sem dagsett er 1. maí 1990, er drepið
á sögu hússins og það sagt vel fallið til endur-
byggingar. Ágúst Þór Bragason, forseti bæjar-
stjórnar á Blönduósi, tekur undir það, að end-
urbyggingu hússins megi rekja til áhuga
Valgarðs Ásgeirssonar, en eftir að málið komst á
rekspöl hefur verið góð samstaða um endurbygg-
inguna. Um leið hefur áhugi manna á varðveizlu
gamalla húsa vaxið jafnt og þétt.
Fljótlega eftir kaup bæjarins tók safnanefnd
þá ákvörðun að endurbyggja Hillebrandtshús
sem pakkhús, án einangrunar og án innri klæðn-
ingar, og var Hjörleifur Stefánsson arkitekt feng-
inn til ráðgjafar um endurbygginguna. Kostnað-
aráætlun hljóðaði upp á 10,6 milljónir króna og
segir Ágúst Þór að heildarkostnaðurinn hafi los-
að 11 milljónir.
Vinna við endurbygginguna hófst 12. septem-
ber 1994 og var lokið við endurgerð hússins að ut-
an fyrir 120 ára verzlunarafmæli Blönduóss árið
1996. Endurgerð hússins að innan lauk svo á síð-
asta ári.
Ágúst Þór segir að húsið verði notað til sýning-
arhalds og hefur tilheyrandi ljósabúnaður verið
settur þar upp. Tvær sýningar hafa þegar verið
haldnar; sögusýning sumarið 1999 og á síðasta
sumri sýningin „Refsingar á Íslandi“ sem haldin
var í samvinnu við Byggðasafnið á Reykjum í
Hrútafirði.
Spýta fyrir spýtu
Trésmiðjan Stígandi á Blönduósi var ráðin
verktaki við endurbyggingu Hillebrandtshúss og
stýrði Gunnar Sig. Sigurðsson byggingameistari
verkinu.
Hjörleifur Stefánsson lýsir húsinu svo: „Húsið
er úr timbri, ein hæð með bröttu söðulþaki á und-
irstöðum úr grjóti. Kjallari er undir húsinu. Það
er 1.267 cm á lengd og 705 cm á breidd að utan-
máli . . . Húsið er vel viðað og hefur verið vel til
þess vandað. Sverrir Runólfsson hlóð kjallara
hússins, sem er merkilegur og töluvert mannvirki
út af fyrir sig. Húsgrindin er vel smíðuð og viðuð
og óvenjulega regluleg. Henni hefur ekki verið
breytt meira en svo, að auðvelt er að koma henni
aftur í upphaflegt horf.
Hillbrandtshús var upphaflega verslunarhús
og pakkhús. Ekki hafa mörg slík hús verið tekin
til varðveislu hér á landi og meðal slíkra húsa hef-
ur Hillebrandtshús nokkra sérstöðu.“ Gunnar
segir grjóthleðsluna hafa verið farna að gefa sig
að verulegu leyti, sérstaklega á vesturvegg. Og
búið var að steypa utan á hleðsluna. Nýtt grjót
sóttu menn út á Skaga, í Digramúla, og brekk-
urnar fyrir ofan Tjörn.
Sverrir Runólfsson steinsmiður, sem hlóð
kjallarann á sínum tíma, kom til þess verks frá
því að hlaða Þingeyrarkirkju. „Hann var snill-
ingur,“ segir Gunnar. „En hlóð því miður ekki
fleiri mannvirki. Héðan sigldi hann áleiðis til
Borðeyrar með hund sinn, sem hann kallaði
Magnús berfætta, en ekkert spurðist til þeirra
eftir það. Sagt er, að menn hafi tekið til þess, hvað
hundurinn var tregur að fara í bátinn.“ Gunnar
segir að lýsa megi endurbyggingunni þannig að
húsið hafi verið tekið sundur spýtu fyrir spýtu og
síðan byggt upp aftur.
Hann les úr dagbók sinni að fyrsta verkdaginn
hafi múrhúðin verið brotin utan af húsinu, nema
efst á stöfnunum.
Ýmislegt kom í ljós, þegar farið var að rífa. Til
einangrunar höfðu menn notað sag, spæni, gaml-
an reiðing, pappa, Alþingistíðindi 1917–1935
óuppskorin, sem hreppstjóri Engihlíðarhrepps
hefur lagt til, fuglsvængi, mannshár og fatnað
ýmiss konar.
Gunnar segir að það hafi komið sér mest á
óvart hvað menn hafa vaðið í breytingar á húsinu
af miklu skeytingarleysi. En allt var þetta unnið
til baka. „Við fylgdum forskrift Hjörleifs út í æs-
ar,“ segir Gunnar.
Hann kveðst telja að um fjórðapart af grind-
arefninu hafi orðið að flytja inn frá Noregi, nema
þakið, sem er unnið úr rekavið og var hann sóttur
út í Víkur. Gólfið niðri er allt gamalt, aðeins lítill
hluti gólfbita var endurgerður, og framhlið húss-
ins er nánast öll gömul. Mikla viðgerð þurfti á því
timbri, sem notað var, sérstaklega klæðningu og
hurðum.
Á bakhlið og stöfnum er nýtt timbur innflutt.
Við endurbygginguna segir Gunnar að hafi
fundizt númer á bitum og aukaspor, sem bentu til
þess að timbrið hefði áður verið notað í annað
hús.
Góður
grunnur
Komið aftur í það horf sem það var upphaflega
í á Blönduósi stendur Hillebrandtshús nú státið í
gamla bænum. Fegrunarnefnd staðarins veitti
Blönduósbæ umhverfisverðlaun í fyrra fyrir
framtakið. Um leið lýsti nefndin þeirri skoðun að
endurbygging Hillebrandtshúss væri góður
grunnur að frekari uppbyggingu og endurnýjun
húsa í gamla bæjarhlutanum fyrir innan á.
RANDTSHÚS STANDI ...“
Morgunblaðið/Jón Sigurðsson
ð í sundur spýtu fyrir spýtu og síðan endurbyggt.
Ljósmynd/Guðbjartur Ólafsson
Frá endurgerð Hillebrandtshúss.
Götuhlið Hillebrandtshússins áður en endurgerð þess hófst.
Ljósmynd/Jón Sigurðsson eftir ljósmynd í Héraðsskjalasafni A-Hún.
ður en endurgerð þess hófst.
Ljósmynd/Héraðsskjalasafn A-Húnavatnssýslu
Friðrik Hillebrandt
Ljósmynd/Guðbjartur Ólafsson
Morgunblaðið/Jón Sigurðsson
hús að innan.