Lesbók Morgunblaðsins - 17.02.2001, Side 16
16 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 17. FEBRÚAR 2001
annars konar verk fyrir valinu sem gáfu
Leikfélaginu ákveðið svipmót sem leikhúsi á
þessum árum, svipmót sem hefur í rauninni
haldist allar götur síðan en drættirnir hafa
máðst og á köflum er engu líkara en skyldu-
rækni hafi ráðið ferðinni fremur en grund-
vallaður skilningur á því hvers vegna verið
sé að velja saman verkefni með þessum
hætti. Áhersla LR á sviðsetningu nýrra ís-
lenskra verka og sú hvatning til höfunda
sem í því fólst skilaði sér strax á 7. og 8.
áratugnum og þar komu fram nokkrir af
okkar sterkustu höfundum sem hafa lagt
megináherslu leikritun á síðan. Má þar
nefna Odd Björnsson, Guðmund Steinsson,
Birgi Sigurðsson og Kjartan Ragnarsson að
ógleymdum Jökli Jakobssyni sem var óska-
barn LR frá því er Hart í bak var frumsýnt
1963. Sá höfundur sem naut þó hvað mestr-
ar alþýðuhylli á 7. og 8. áratugnum (og gerir
reyndar enn) var Halldór Laxness en leik-
gerðir eftir skáldsögum hans voru meðal
vinsælustu sýninga LR á þessu tímabili.
Þetta verður að hafa í huga þegar mótun ís-
lensks leikhúss á þessu tímabili er skoðuð
þar sem framsetningarmáti þessara verka
réð talsvert miklu um hugmyndir leikhús-
fólks um hvernig mætti setja saman leikrit.
Það er ennfremur athyglisvert að leikgerðir
skáldsagna hans hafa haft meiri áhrif að
þessu leyti en leikritin, fáir hafa tekið tón af
skáldinu í leikritaskrifum þess en því meir
af leikgerðunum. Er þar átt við hinn epíska
frásagnarmáta og opna sviðsetningu með
fjölmörgum atriðum og ólíkum staðsetning-
um sem fremur eru gefnar í skyn en útfærð-
ar í smáatriðum. Þetta leikritunarform á sér
aldagamla hefð sem gekk í endurnýjun líf-
daga með kenningum Brechts sem höfðu
talsverð áhrif á íslenskt leikhúsfólk á þess-
um tíma ekki síður en annars staðar.
Útlendingar í eigin landi
Þegar leikrit íslenskra höfunda frá 7. ára-
tugnum eru skoðuð verður að hafa í huga að
þeir voru ungir, framsæknir frumkvöðlar.
Fyrirmyndir þeirra voru róttækir, evrópskir
framúrstefnuhöfundar á borð við Genet,
Ionesco, Beckett og Pinter sem allir voru að
skrifa sig frá hefðum sem fáir þekktu til hér
uppi á Íslandi. Ný íslensk leikrit á þessum
tíma þóttu því sum hver nokkuð útlendings-
leg og komu íslenskum almenningi stundum
spánskt fyrir sjónir. Þetta var engu að síður
mikilvægur tími tilrauna og frumrauna og
afraksturinn skilaði sér á fáum árum með
því að höfundarnir fundu þráðinn sem
tengdi þá við sitt fólk. Tilraunastarfsemin
tók á sig ýmsar myndir og verður að horfa í
fleiri áttir en til LR og Þjóðleikhússins þeg-
ar áhrifavaldar eru týndir til. Sjálfstæðir
leikhópar 7. áratugarins, Gríma og Litla
leiksmiðjan, höfðu talsverð áhrif því þar
voru ekki aðeins kynntar framsæknustu
hugmyndirnar í leikhúsinu heldur mótaði
umræðan sem fram fór innan þessara hópa
viðhorf stórs hluta heillar kynslóðar leik-
húsfólks sem þá var að stíga sín fyrstu spor
á leiksviðinu. Kynslóð sem átti eftir að hafa
hvað mest áhrif í leikhúsinu á næstu áratug-
um. Verður nánar fjallað um sjálfstæðu leik-
hópana á þessum árum síðar.
Náið samneyti sjálfstæðra leikhópa við at-
vinnuleikhúsin tvö hefur allt frá þessum
tíma verið sterkt einkenni á íslensku leik-
húsi og lengst af verið atvinnuleikhúsunum
ákveðin listræn brýning. Það er því nauð-
synlegt að hafa starfsemi sjálfstæðu hóp-
anna í huga þegar þróun stóru leikhúsanna
síðasta aldarfjórðunginn er skoðuð.
Óheft flæði frá jaðri að miðju
Þétt og nær órofin sambúð allra þátta ís-
lenskrar leiklistar, þ.e. menntunar leikara,
sjálfstæðrar starfsemi leikhópa og stærstu
leiklistarstofnananna tveggja – eða þriggja
eftir að LA varð atvinnuleikhús 1970 – hefur
í senn verið helsti styrkur íslensks leikhúss
og þess mesti veikleiki. Styrkur í þeim skiln-
ingi að hugmyndir á jaðrinum hafa átt greið-
an aðgang inn að miðju ef svo má segja og
listamenn hafa getað gengið hindrunarlaust
þar á milli. Hugmyndafræðilegur ágrein-
ingur hefur aldrei verið hindrun og þrátt
fyrir misjafnar pólitískar skoðanir leikhús-
fólksins hafa þær aldrei hindrað þetta flæði
svo marka megi. Leiklistarmenntunin var
fram yfir 1970 á vegum leikhúsanna sjálfra
og þannig var samgangur nemanna við leik-
húsin sjálfsagður. Með stofnun Leiklistar-
skóla Íslands urðu samskiptin formlegri og
aðgreindari en kennsla hefur lengst af verið
í höndum starfandi leikhúsfólks og því hafa
myndast tengsl sem nýútskrifaðir leikarar
njóta strax í upphafi. Veikleiki þessa er á
hinn bóginn sá að íslenskt leikhúslíf hefur
haft tilhneigingu til að verða sjálfhverft og
lokað og borið hefur á tortryggni gagnvart
þeim sem sótt hafa menntun sína annað.
Hugmyndaheimur og aðferðafræði íslensks
leikhúss hafa einnig haft tilhneigingu til að
takmarkast við áhrif fárra sem vakið hafa
hrifningu eða stýrt leikhúsunum um árabil.
Þróunin á seinni árum í átt til einsleitni staf-
ar að hluta til vegna þessa.
Áratugirnir þrír sem hér um ræðir hafa
þó allir sitt sérstaka svipmót og í nokkrum
greinum á næstu mánuðum verður gerð til-
raun til að rekja í hverju það er fólgið.
LEIKLIST Í ALDARFJÓRÐUNG
Bríet Héðinsdóttir og Hugrún Gunnarsdóttir í Vinnukonum Jean Genets í sýningu Grímu 1963. Leikstjóri var Þorvarður Helgason.
„VETTVANGUR
ÍSLENSKRAR
TILFINNINGAR“
Íslensk atvinnuleiklist hefur tekið gagngerum
breytingum undanfarinn aldarfjórðung. Í þessari
inngangsgrein skoðar HÁVAR SIGURJÓNSSON
jarðveginn sem framhaldið spratt úr.
Þ
EGAR síðasti fjórðungur 20.
aldarinnar í íslenskri leiklist er
tekinn til skoðunar kemur
þægilega á óvart hversu heppi-
legt um margt árið 1975 er til
viðmiðunar. Þá urðu ýmsar
breytingar og nýjungar í ís-
lensku leiklistarlífi sem áttu
eftir að hafa afgerandi áhrif á þróun list-
greinarinnar og eru í dag sú undirstaða sem
íslensk leiklist hvílir á. Má segja að það eigi
við hvort sem horft er til leikritunar, leik-
húsvinnu eða menntunar leikhúsfólks þar
sem 8. áratugurinn var tímabil mikilla hrær-
inga í listrænum og pólitískum skilningi og
höfðu þær ekki síst áhrif á leikhúsið. Má
nefna til glöggvunar áður en lengra er hald-
ið að árið 1975 var kvennafrídagurinn 24.
október, Leiklistarskóli Íslands var stofn-
aður og Alþýðuleikhúsið var stofnað. Allt
átti þetta eftir að hafa mikil áhrif en konur
urðu í fyrsta sinn atkvæðamiklar í íslensku
leikhúsi sem leikstjórar á 8. áratugnum. Um
hlut kvenna í leikhúsinu, Leiklistarskólann
og Alþýðuleikhúsið verður fjallað nánar síð-
ar í þessum greinaflokki.
Fyrstu leikhússtjóraskiptin
Þremur árum fyrr (1972) höfðu fyrstu
leikhússtjóraskiptin átt sér stað í bæði Þjóð-
leikhúsinu og hjá Leikfélagi Reykjavíkur;
Sveinn Einarsson lauk 9 ára farsælum ferli
sem fyrsti leikhússtjóri LR og tók við Þjóð-
leikhúsinu af Guðlaugi Rósinkrans sem
gegnt hafði starfinu frá opnun hússins 1950
og Vigdís Finnbogadóttir tók við LR af
Sveini. Þau sátu síðan hvort á sínum stóli út
áratuginn, en Vigdís lét af leikhússtjóra-
starfi 1980 er hún var kjörin forseti lýðveld-
isins og Sveinn var þjóðleikhússtjóri til
1983.
Vigdís hélt áfram í aðalatriðum þeirri
stefnu sem Sveinn hafði mótað hjá Leik-
félagi Reykjavíkur og vitaskuld hélt hann
sjálfur áfram á sömu braut í Þjóðleikhúsinu.
Listfræðileg hugsun þeirra beggja var einn-
egin sprottin úr svipuðum jarðvegi. Þau eru
nær jafnaldra og bæði menntuð í Frakklandi
þótt Sveinn hafi lokið fyrrihluta síns há-
skólanáms í Svíþjóð. Áherslurnar og verk-
efnavalið urðu því býsna keimlík í báðum
leikhúsum næstu árin og helsti munurinn
var fólginn í aðstöðu, fjármagni og
mannafla, allt Þjóðleikhúsinu í vil þar til LR
flutti í Borgarleikhúsið (1989) og aðstaða
þess batnaði til muna. Sveinn Einarsson
setti fram markmið sín fyrir hönd LR árið
1967 og fela þau orð í sér kjarna þeirrar list-
rænu stefnu sem hann setti LR og síðar
Þjóðleikhúsinu. „Markmiðið er í fáum orðum
þetta: Að gera íslenska áhorfendur þátttak-
endur í hugsun nútímans, gamalli eða nýrri,
eins og hún birtist skörpust og skemmtileg-
ust í ágætustu verkum erlendum og leitast
við að koma henni til skila óbrenglaðri og
með listrænum áhrifamætti. Að vera vett-
vangur íslenskrar hugsunar eins og hún má
vera skýrust og íslenskrar tilfinningar eins
og hún má vera hreinust. Að vera hugheill
þátttakandi í mótun íslensku þjóðarinnar,
þátttakandi í sögu hennar í dag, þátttakandi
sem vekur til umhugsunar um spurningar
samtíðarinnar, þátttakandi sem eykur henni
listræna fegurð.“
Allt er þetta í fullu gildi enn í dag og sumt
jafnvel enn brýnna en áður þó brýningin sé
hvort tveggja hátíðlega stíluð og efnislega
almenns eðlis. Pólitískar hræringar á þess-
um tíma, sem náðu hámarki í Evrópu nokkr-
um mánuðum eftir að þessi orð voru skrifuð,
höfðu vissulega áhrif á íslenskt samfélag og
leikhúsið þar með talið en ekki þannig að
endaskipti yrðu höfð á hinum borgaralegu
stofnunum, Leikfélagi Reykjavíkur og Þjóð-
leikhúsi, heldur varð yngra fólk til þess að
stofna sjálfstæða leikhópa sem voru býsna
áberandi á sjöunda áratugnum.
Þríþætt val verkefna
Verkefnavalið sem Sveinn lagði til grund-
vallar hjá Leikfélagi Reykjavíkur og hélt
áfram sem þjóðleikhússtjóri er skilgreint á
eftirfarandi hátt í Aldarsögu Leikfélags
Reykjavíkur (LR og Mál og menning 1997).
„Frá skipulagsbreytingunni árið 1963 og
fram að 75 ára afmæli Leikfélagsins árið
1972 sannaði það sig sem framsækið leikhús
þar sem blésu ferskir vindar. Þrír höfuð-
þættir réðu verkefnavalinu; íslensk verk, sí-
gild verk og erlend nútímaverk sem fjölluðu
um málefni líðandi stundar. Í vali verkefna
var einmitt lögð rík áhersla á að kynna at-
hyglisverð nútímaleikrit.“
Þegar þessi orð eru skoðuð verður að hafa
í huga að Leikfélagið var knúið til að sníða
sér stakk eftir vexti. Vafalaust hefur hugur
Leikfélagsfólks ekki síður staðið til upp-
færslu söngleikja en litla leikhúsið við
Tjörnina bauð ekki upp á slíkt. Því urðu