Lesbók Morgunblaðsins - 03.03.2001, Blaðsíða 5
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 3. MARS 2001 5
hafa margt við sig sem hægt er að spá í og túlka
– það má í raun lesa þá eins og ritmál og gilda í
aðalatriðum sömu aðferðir í þeim vísindum.
Þær felast í að skilgreina einkenni og bera þau
saman við sömu einkenni í öðru samhengi – úr
því fæst þá merking. Lestur forngripa er bara
sjaldgæfari hæfileiki en lestur fornrita, hann
krefst meiri og sértækari þekkingar á fáheyrð-
um atriðum, en fyrst og fremst á hann sjaldan
við því algjör minnihluti forngripa er þess eðlis
að hægt sé að lesa hann með þessum hætti. Af
þeim sökum fannst Kristjáni að því væru klár
takmörk sett hvað fornleifafræðin gæti lagt til
málanna – hann þekkti öll málin og alla gripina
og vissi af reynslu að ólíklegt er að nýir gripir
komi í ljós sem gerbreyti þeirri fortíðarmynd
sem ritheimildar bregða upp.
Fornleifar í fjölmiðlum
Það er líka alveg rétt hjá Kristjáni og forn-
leifafræði sem fæst eingöngu við að sanna eða
afsanna það sem fram kemur í ritheimildum
getur aldrei orðið mjög frjó. Hún verður í besta
falli myndskreyting, uppfyllingar- og ítarefni
sem gerir söguritið skemmtilegra, hjálpar les-
andanum að sjóngera fortíðina en breytir í raun
litlu um skilning hans á henni. Það er hins vegar
á þessu plani sem fjölmiðlar fjalla um fornleifa-
fundi og í huga almennings er það þetta sem
fornleifafræðingar gera – þeir finna bæ Ingólfs
og atgeir Gunnars og virðist engan hneyksla
þótt tugum milljóna sé eytt í slík verkefni. Nú
stendur yfir uppgröftur við Aðalstræti í
Reykjavík og þar hafa meðal annars verið
grafnar fram leifar Innréttingahúsa frá seinni
hluta 18. aldar. Ein fyrsta fréttin sem greindi
frá þessum uppgrefti nú í janúar fjallaði að
stórum hluta um stétt sem verið hefur í húsa-
porti milli þriggja samtengdra Innréttingahúsa.
Það sem blaðamanninum fannst merkilegt var
að stéttin skyldi vera þarna – það dugði honum,
og sennilega lesendum hans, að fundist hefði
mannvirki sem hægt er að benda á og segja:
„svona var umhorfs á Innréttingatímanum í
Reykjavík – þarna gæti Skúli Magnússon hafa
gengið um. Á sama plani væri svo sagnfræðing-
urinn sem tæki ljósmynd af stéttinni og setti
hana í bók sína um sögu Innréttinganna til að
brjóta upp textann eins og það er kallað.
Það er auðvitað ekkert að þessu, en sem
skattgreiðandi í Reykjavík þá myndi það
hneyksla mig ef annað kæmi ekki út úr upp-
greftinum en upplýsingar af þessu tagi. Borgin
ætlar að eyða tugum milljóna í uppgröftinn og
má vel spyrja hvort ekki væri ódýrara og árang-
ursríkara að ráða hóp sagnfræðinga til að rann-
saka sögu Innréttinganna, enda liggi eitt og
annað óuppgrafið um þær í skjalasöfnum. Því
myndi maður svara játandi ef frétt blaðamanns-
ins gæfi rétta mynd af því vísindastarfi sem
fram fer við Aðalstræti þessa dagana. Það gerir
hún ekki af því að hann lét sér nægja að gleðjast
yfir stéttinni eins og maður myndi gleðjast yfir
bók sem finnst án þess að spyrja um hvað stóð í
bókinni.
Um hvað er stéttin heimild?
Fyrsta svarið sem mönnum dettur í hug er að
hún sé heimild um Innréttingarnar. Hún er það
kannski en hún er að mínu viti hundómerkileg
heimild um þær og bætir litlu við lýsinguna á
henni í úttekt frá 1759.
Það má líka segja að einhvers virði sé að geta
nú endurgert þetta smáatriði í heildarmynd
verksmiðjuþorpsins – það er gagnlegt að hafa
aðgang að slíkum upplýsingum þegar gera á lík-
an, eða kannski leikmynd fyrir kvikmyndagerð.
Og menningarfornleifafræðingur af kynslóð
Kristjáns Eldjárns myndi túlka gerðfræði stétt-
arinnar – hún ber vitni um ákveðið verklag og er
örugglega lögð af Dönum. Hann myndi jafnvel
líka spá í táknfræði stéttarinnar – hún sýnir að
menn reyndu af praktískum eða fagurfræðileg-
um ástæðum að halda forinni milli húsa í skefj-
um. Mönnum á 18. öld var ekki sama um nán-
asta umhverfi sitt og lögðu á sig vinnu við að
fegra það og bæta.
Með þessum hætti má kreista nokkra þekk-
ingarmola út úr þessari stétt og eru þeir auðvit-
að góðra gjalda verðir en þetta eru samt ekki
ástæðurnar fyrir því að menn ráðast í dýra forn-
leifauppgrefti.
Fyrir fornleifafræðing hefur stéttin í Aðal-
stræti 14 svipað gildi og einhver tiltekin setning
úr miðri Íslendingasögu. Setningin ein og sér er
takmörkuð heimild – af henni má kannski draga
einhvern lærdóm eða fá innsýn inn í miðalda-
heiminn en gildi hennar liggur fyrst og fremst í
því að vera hluti af heild.
Þetta snýst því að hluta til um mælikvarða –
það sem gestur sér eða er mest áberandi í forn-
leifauppgrefti er ekki endilega hinar merking-
arbæru einingar sem fornleifafræðingurinn
fæst við. Fyrir honum er uppgröfturinn allur
eins og bók – og ekki frekar en að sagnfræð-
ingur getur tjáð sig af mikilli speki um heimild-
irnar sem hann fæst við fyrr en hann er búinn
að lesa þær þá getur fornleifafræðingurinn oft
lítið sagt sem heyrir til stórtíðinda í fortíðar-
bransanum fyrr en hann hefur lokið við upp-
gröft sinn.
Þetta snýst hins vegar líka um orðræðu. Orð-
ræða sagnfræðinnar byggir á ritheimildum –
hún er nálgun á fortíðina sem takmarkast alger-
lega af eðli heimildanna sem hún byggist á. Það
dettur engum í hug að ritheimildir gefi alhliða
eða fullkomna mynd af lífi mannanna. Og eftir
því sem við förum lengra aftur í fortíðina þeim
mun takmarkaðra verður sjónarhorn ritheim-
ildanna. Viðfangsefnin sem sagnfræðingar hafa
valið sér mótast af þessu og þau eru líka samofin
hugmyndum manna um hvað það er við fortíð-
ina sem máli skiptir. Á undanförnum áratugum
hafa sagnfræðingar verið að brjótast undan
hinni hefðbundnu söguskoðun og látið reyna á
hvort heimildirnar geti ekki svarað öðruvísi
spurningum, spurningum sem almenningur
myndi ekki endilega eiga von á að menn vildu
reyna að spyrja. Þrátt fyrir að ýmis ný svið hafi
opnast með þessu eru ákveðin svið mannlegrar
tilveru sem ekki er hægt að nálgast með skoðun
ritheimilda, og aðrar hliðar á hag- og félags-
kerfum sem hægt er að ímynda sér.
Nýir straumar
Um og upp úr 1960 uppgötvuðu fornleifa-
fræðingar að til væru aðrar hliðar á fortíðinni en
þær sem ritheimildir segja frá. Þá átti sér stað
heilmikið uppgjör við menningarfornleifafræði
eins og þá sem Kristján Eldjárn er fulltrúi fyrir
og ungir og reiðir fornleifafræðingar – einkum í
Bandaríkjunum – höfnuðu hinni sagnfræðilegu
orðræðu fornleifafræðinnar og vildu byggja sér
sjálfstæða orðræðu. Þessi stefna, sem kölluð er
Nýja fornleifafræðin eða prósessúal fornleifa-
fræði, sótti styrk sinn til tölfræði, félagsvísinda
og landafræði. Listfræðilegum aðferðum og un-
un góðra gripa var kastað fyrir róða og í stað
þess var hafist handa við að búa til lýsingar á
horfnum samfélögum sem byggðust á mæling-
um, vegalengdum, fjölda eða þyngd gripa og
innbyrðis afstöðu þeirra. Það er einföldun, en
segja má að samhengi fornleifanna, bygginga
eða gripa, hafi fengið merkingu þar sem áður
var aðeins spáð í þær sem einstaklinga. Þessar
nálganir hafa reynst frjóar og skilningur manna
á forsögulegum samfélögum hefur aukist gríð-
arlega. Og lesendum þarf ekki að koma á óvart
að þar sem til varð prósessúal fornleifafræði þá
er nú komin póst-prósessúal fornleifafræði, en
hún hafnar kerfisáráttu og talnagleði forvera
sinna og leggur áherslu á túlkun og hinar hug-
lægu breytur í mannlegu samfélagi.
Lítil merki hafa sést um þessa þróun á Ís-
landi, enda hefur ekki verið sama þörf á nýjum
aðferðum hér þar sem við höfum þegar ágæta
mynd af fortíð lands og þjóðar byggða á rit-
heimildum. Íslenskir fornleifafræðingar hafa
fyrst og fremst fengist við að finna svör við
sagnfræðilegum spurningum, fylla út í hina
sagnfræðilegu mynd og framleiða myndefni.
Þeir hafa sýnt furðulega lítinn áhuga á að búa til
sjálfstæða orðræðu um fyrstu tvær aldir Ís-
landssögunnar – sem þó er forsögulegur tími og
nokkuð ljóst að aðrar heimildir en fornleifar eru
ekki líklegar til að bæta við þekkingu okkar um
hann – og ekki sýnt minnstu tilhneigingu til að
búa til sjálfstæða orðræðu fornleifafræði hins
sögulega tímabils eftir 1100. Þetta væri þó alveg
hægt og ætla ég að ljúka máli mínu á að taka
dæmi sem ég held að lýsi þeim möguleikum sem
fyrir hendi eru.
Meðal hefðbundinna verkefna íslenskra forn-
leifafræðinga er að velta fyrir sér þróun ís-
lenska torfbæjarins. Það er að segja hvað olli
því að íveruhús manna breyttust smátt og smátt
frá einföldum skálabyggingum til gangabæja
með mörgum litlum herbergjum? Það er nokk-
uð samdóma álit þeirra sem um þetta hafa
fjallað að í þessari þróun megi sjá merki um
hnignun, einkum í hinum síðari stigum hennar,
og hafa menn jafnvel reynt að tengja þessa þró-
un við hag þjóðfélagsins á sviðum eins og versl-
un og sjálfstæði; stór og einföld hús eru þá á
tímum sjálfstæðis og frjálsrar verslunar en hús-
in minnka og skiptast meira niður eftir því sem
stjórn landsins og verslun við það kemst meira
og meira í hendur útlendinga. Ástæðurnar fyrir
þessari þróun húsagerðar sem helst hafa verið
nefndar eru annars vegar kólnandi veðurfar á
síðmiðöldum og fram yfir 1800 og hins vegar
þverrandi aðgangur að góðu byggingarefni.
Meiningin er þá sú að menn vildu hafa byggt sér
stóra og einfalda skála en bara gátu það ekki
vegna ytri aðstæðna og urðu að láta sér nægja
þrönga torfkofa í staðinn. Síðan hefur það farið
eftir því hvort menn eru hallari undir vistræði-
legar eða efnahagslegar skýringar á harmsögu
þjóðarinnar hvora orsökina menn telja mikil-
vægari.
Fyrsta viðbragð prósessúal fornleifafræðings
við slíkum hugmyndum væri að spyrja hvort
þær ættu í raun við rök að styðjast. Hann myndi
fara með reglustiku og mæla út flatarmál allra
þessara bæja frá mismunandi tímum. Hann
myndi þá komast að því að stórir gangabæir frá
því eftir siðaskipti eru síst minni að flatarmáli
en hinir stóru skálar landnámsaldar. Rýmið er
raunar í mörgum tilvikum mun meira í ganga-
bæjunum – því er bara skipt meira niður. Pró-
sessúal fornleifafræðingurinn er hallur undir
félagsfræðilegan þankagang og myndi í fram-
haldi af þessu spyrja hvort ekki væri nær að líta
á þessa þróun sem merki um ákveðna aukningu
lífsgæða. Það er snyrtilegra og skipulegra að
aðgreina rými fyrir geymslu, svefn, elda-
mennsku, vinnu og gestamóttöku en að hafa
þetta allt í einu herbergi – innan um húsdýrin
jafnvel.
Póst-prósessúal fornleifafræðingurinn gæti
hugsað sér að líta á þessa þróun táknrænt. Til
dæmis þannig að samfélagið hafi verið flóknara
á 16. öld en á þeirri 10. og að það endurspeglist í
því hvernig menn raða niður híbýlum sínum.
Hann gæti hinsvegar líka bent á að viðtekinn
heimilishiti er afstæður, hann er menningarleg
breyta. Það hlýtur að hafa verið kalt í stóru
skálunum á Hofstöðum, Skallakoti eða Ísleifs-
stöðum og breytir litlu þótt það hafi verið einni
gráðunni heitara að meðaltali á landnámsöld.
Kannski fóru menn að gera auknar kröfur um
meiri hita á heimilum, kröfur um aukin þægindi
– og gætu þær hafa verið alveg óháðar hita-
sveiflum í náttúrunni – sem leiddu til þess að hí-
býlum var breytt þannig að þau héldu betur
hita. Það má jafnvel túlka þetta sem tákn um
velmegun – áherslur á lífsþægindi af þessu tagi
koma yfirleitt ekki upp á yfirborðið nema í sam-
félögum þar sem afkoman er trygg og menn
öruggir um sinn hag.
Ég ímynda mér að mörgum finnist svona
túlkanir fáránlegar, eða tilgerðarlegar eða jafn-
vel ónauðsynlegar. Þær eru hins vegar daglegt
brauð meðal forsögulegra fornleifafræðinga og í
vaxandi mæli meðal hins litla hóps íslenskra
fornleifafræðinga. Við sem vinnum á Fornleifa-
stofnun Íslands höfum á undanförnum árum
unnið að því að búa til akademískt samfélag í
fræðigrein okkar. Við höfum meðvitað lagt
áherslu á rannsóknir á íslenskri forsögu – land-
námsöld og víkingaöld. Í yfirstandandi rann-
sóknarverkefnum er aðferðum prósessúal og
póst-prósessúal fornleifafræði beitt á stöðu
kynjanna í heiðni, landnotkun og þróun valda-
kerfa, stéttaskiptingu og mannamun á víkinga-
öld. Til er að verða félagsleg fornleifafræði land-
námsaldar og sjálfstæð orðræða um hana. Ég
spái spennandi tímum í fræðum um íslenska
fortíð.
Höfundur er fornleifafræðingur. Hann hefur verið
forstöðumaður rannsókna- og kennslusviðs Forn-
leifastofnunar Íslands frá stofnun hennar 1995
en auk þess stjórnað fornleifaskráningu
á hennar vegum.
Brunnar viðarleifar í fjósi, sem Kristján Eldjárn
og Gísli Gestsson grófu upp á Bergþórshvoli
1951. Kolefnisaldursgreiningar bentu til að
fjósið gæti hafa brunnið í kringum 1000 – en
Njálsbrenna á að hafa átt sér stað 1013 – en
þrátt fyrir mikla leit hafa engar minjar fundist
brunninn skála frá þeim tíma.
Einn Grundarstólanna. Þeir voru upphaflega þrír, skornir út á 16. öld og gefnir Grund-
arkirkju af Þórunni dóttur Jóns Arasonar biskups. Einn er nú í Þjóðminjasafnnu í Kaup-
mannhöfn, annar í Þjóðminjasafni Íslands og færð hafa verið rök fyrir því að bakið úr
þeim þriðja sé þar einnig, en það kom til safnsins frá Bólu-Hjálmari.
Steinþró kennd við Pál biskup Jóns-
son sem kom í ljós við uppgröft í
kirkjugarðinum í Skálholti 1954.
Skrifpúlt Jóns Sigurðssonar á
Þjóðminjasafni Íslands.
Skyr Bergþóru. Hvítt efni sem Sigurður Vigfús-
son fann við uppgröft á Bergþórshvoli 1883.
Niðurstaða Storchs, formanns efnastarfhúss
hins konunglega dýralækninga- og landbún-
aðarskóla í Kaupmannahöfn, var „að þessi
efni hljóti að vera leifar af líkum mjólkurmat
sem skyr“.