Lesbók Morgunblaðsins - 24.03.2001, Síða 5

Lesbók Morgunblaðsins - 24.03.2001, Síða 5
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 24. MARS 2001 5 allra goðheima mæta á fund Draums til að sækja um yfirráðaréttinn yfir Helvíti, eftir að Lúsífer hafði sagt upp störfum sínum þar og af- hent Morfeusi lykilinn. Þarsem þau standa fylktu liði, Óðinn (Ásgarður), Anubis (Egypta- land), Susano-o-no-Mikoto (Nippon), Azazel (Djöflar), Remiel (englar), sendiboði álfa, fulltrúi Reglu og Prinsessan af Kaos, þá verður það svo fallega ljóst að allir þessir guðir standa í raun fyrir svipaða hluti og eru því fyrst og fremst mannleg sköpun, persónugervingar og endurspeglanir hugmynda og hugsjóna, afla og hlutverka. Þannig skapast ein af þessum dásamlegu bókmenntalegu lykkjum, þegar hinn goðsögu- legi Draumur hefur áhrif á bókmenntasköpun (t.d. Draum á Jónsmessunótt); bókmennta- sköpun sem á sjálf þátt í því að (endur)skapa goðmögnin (Óberon og Títaníu), og í póstmód- ernískri flækju, þá er það bókmennta(og goð- sagna)sköpunin (Shakespeare) sem hefur áhrif á og innblæs verk Gaimans (Sandman), sem fjallar um áhrif goðmagna á skáldsköpun. Þess má geta í framhjáhlaupi hér að þessi tengsl drauma og skáldskapar eru auðvitað þekkt frá Freud, sem var mjög upptekinn af draumum og hélt því fram að draumar og skáld- skapur væru hliðstæðar verur – og það mætti segja að Gaiman taki þessa gömlu og gagn- merku hugmynd bókstaflega í Sandman-serí- unni. Fyrst ég er á annað borð farin að droppa nöfnum þá má einnig telja til sögunnar Georges Bataille og Júlíu Kristevu sem bæði sáu skáld- skap sem arftaka trúarbragða. Ekki venjuleg myndasaga Eins og áður sagði er grunnstef seríunnar vangaveltan um staða goðmagna í trúlausum samtíma. Annarsvegar kemur það stef fram í samfellunni við bókmenntir og hinsvegar í þeirri hugmynd að goðmögnin séu ekki eilíf né séu þau fyllilega ofurmannleg. Sagan byrjar jú á því að Morfeus er fangaður af manni og hún endar á því að hann deyr. Þannig eru goðin sjálf ekki hafin yfir mannleg örlög, sem endurspegl- ar klárlega stöðu þeirra í hinum trúlausa heimi. Í sjöunda bindi sögunnar kemur yngsta systirin Óráð (sem áður hét Delight, eða Gleði, en brjál- aðist og varð að Óráði) að máli við Draum og biður hann að koma með sér að leita að bróður þeirra, Tortímingu, en hann hafði yfirgefið ríki sitt á 18. öld á þeim forsendum að mannkynið hefði aflað sér nægrar þekkingar til að standa fyrir tortímingu án hans hjálpar. Enn er hér undirstrikað að hlutverk þessara goðmagna er óljóst, þau eru persónugervingar tímalausra afla, frekar en afgerandi gerendur, og sem per- sónugervingar geta þau horfið jafnóvænt og þau birtast. Ferð Draums með Óráði í leit að Tortímingu verður svo til þess að hann tortímist sjálfur, og í staðinn kemur nýr Draumur, ný persónugerving. Morfeus og Óráð finna Tor- tímingu sem neitar af hverfa aftur til ríkis síns, en vegna atburða sem á leið þeirra systkina verða, dæmir Draumur sjálfan sig til Dauða. Þetta er mun dramatískara en það lítur út fyrir að vera. Það að láta aðalsöguhetjuna, sjálfa Hetjuna, deyja í lok seríunnar, stríðir gegn helstu lögmálum og hefðum myndasögu- sería. Myndasöguseríur þekkjum við helst í formi ofurhetjusagna og þær seríur ganga bein- línis útá það að hetjan sé eilíf og eldist ekki, annars væri þetta ekki sería. Það er því ánægjulega írónískt að velta fyrir sér tengslum Sandmans við ofurhetjusögur, en þau eru margbrotnari en virðast í fyrstu. Morfeus, Sandmaðurinn, er sjálfur afsprengi eða útgáfa af myndasöguhetju frá 1941, Sandman, sem var minniháttar hetja í DC-hetjuheiminum, en sá Sandmaður notaði svefngas til að svæfa óvinina. Þannig séð er Sandman-serían einskonar af- leiðing ofursagnasería; hún segir sögu ofur- mannlegs manns og afskipta hans af mannlegu samfélagi. En Sandman skilur sig augljóslega frá venjulegum ofurhetjusögum, bæði eru sögu- þráður og efnistök gerólík slíkum sögum og svo er myndræni hlutinn, myndbyggingin og sögu- legt flæði mjög nýstárlegt. Á slóðinni http://www.holycow.com/dream- ing/academia, er að finna ritgerðir um The Sandman eftir Anne N. Thalheimer. Hún bend- ir meðal annars á að strax á forsíðum bókanna sé gefið til kynna að hér sé ekki um venjulega myndasögu að ræða – ef við gefum okkur að „venjuleg“ myndasaga sé almennt skilgreind sem barna- og unglingaefni, í mesta falli ódýrt afþreyingarefni fyrir fullorðna. Forsíðurnar eru gerðar af Dave McKean og eru ekki teikn- aðar, heldur gerðar með blandaðri tækni, ljós- myndum, teikningum, málun, tölvuvinnu og dóti sem er límt inn í rammana, og þannig eru undirstrikuð tengsl við listaheiminn fremur en ofurhetjuheim myndasagna. Þetta er síðan ítrekað með myndmáli frásagnarinnar, sem er „listrænna“ en lesendur eiga að venjast frá myndasögum. Í stað hreinna útlína ofurhetju- sagnanna eru rissaðar fínlegar línur notaðar, auk þess sem hin blandaða tækni heldur áfram að einkenna myndmálið. Svart/hvítt er áber- andi – t.d. eru persónur Draums og Dauða næstum alltaf teiknaðar í svart/hvítu – þrátt fyrir að serían sem slík sé í lit, línuleg ramma- frásögn er brotin upp og rammarnir renna hver inn í annan. Sú tækni er reyndar algeng í bandarískum myndasögum, en hér tekur hún á sig aukið vægi með tilliti til teiknistílsins og fjöl- tækniaðferðarinnar. Stíllinn, myndbyggingin og yfirhöfuð hin myndræna nálgun endurspegl- ar síðan efni seríunnar; til dæmis að því leyti sem hún fjallar um samruna og skörun milli „ólíkra“ heima, sem taka á sig greinilegustu myndina í skörun og samþættingu draums og vöku. Fagurfræðilega mætti næstum kalla The Sandman dekadent, bæði hvað varðar mynd- ræna hlutann og efnistökin. Allt er þetta mun framsæknara en lesendur eiga að venjast frá myndasögum, þ.e. myndasögum sem eru í raun „mainstream“ og verða síðan að metsölubókum. Vinsældir og andróður Því má segja að orð Glermannsins í The Un- breakable rætist á Sandmanninum, því serían hefur tekið á sig mýtískar víddir í sjálfu sér. Líkt og kenning Glermannsins segir til um er Sandman endurspeglun á horfnum goðmögn- um og „baráttu“ þeirra, sem er eiginlega frem- ur einskonar tilvistarkreppa en bardagi við hið illa – þó vissulega lendi Draumi saman við Lús- ífer og Loka nokkrum sinnum. Og hinn draum- kenndi goðaheimur Sandmannsins hefur síðan öðlast eigið „goðsögulegt“ líf, sagan hefur haft víðtæk áhrif og nú gefur útgefandi Gaimans, Vertigo, út sjálfstæðar sögur sem byggjast á þessum heimum sem Gaiman birtir í Sandman- seríunni. Netið er morandi í síðum um Gaiman og Sandman, þarsem aðdáendur safna saman íkonum úr sögunum, fyrst og fremst myndum af Draumi og Dauða, sem eru langvinsælustu persónurnar. Þannig hefur Gaiman skapað nýja goðsögu, og gefið myndasögunni nýjan goð- söguheim: líka má segja að með þessu hafi myndasagan sjálf skapað (sér) nýja goðsögu, sem er okkur nauðsynleg í guðlausum heimi. Eins og við má búast þegar verk af þessu tagi nær slíkum vinsældum er andróðurinn strax byrjaður, og hefur Sandman-serían, og sérstak- lega nýja sagan, The Dream Hunters (1999), sem byggir á japanskri þjóðsögu, verið gagn- rýnd fyrir tilgerð. Í sjálfu sér kemur slík gagn- rýni ekki á óvart þegar „listræn“ saga eins og Sandman kemur inn í neðanjarðar-, útjaðars- og undirmálsform eins og myndasagan er og vill vera. Þessi gagnrýni hefur reyndar dálítið með tískustrauma að gera, því Sandman hefur göngu sína árið 1988 eins og áður sagði, og ber greinileg merki tísku þess tíma. Þetta er tími síðpönksins eða „gothsins“, og er Draumurinn sjálfur í „goth“-stíl, meðan Dauði (og reyndar líka Óráð) eru meiri pönkarar. Þrátt fyrir að bæði pönk og goth haldi sem betur fer enn velli meðal tónlistarmanna eins og Green Day og Marlyn Manson, þá er það vissulega ekki eins svalt og sérstakt í dag og það var þá. Þetta mætti líka leiða út á kynlegan hátt og vísa til „kvenlegrar“ upplifunar goðsögu í af- þreyingarmenningu, eins og Schechter og War- ner tala um, en myndasagan á sér langa hefð sem strákaform. Því mætti líta svo á að þessum strákaheimi finnist sér ógnað af „listrænu“ og „tilgerð“ sem einkennir The Sandman og er um margt ólík flestu því sem hefur sést í mynda- sögum. Nútímalegar myndir af hverfandi goðmögnum Fyrir Barthes er tungumál nútímagoðsagna tungumál ímynda, og því er myndasagan einkar hentugt form til að birta okkur nútímalegar myndir af hverfandi goðmögnum. Hún er ógleymanleg sagan í lok fyrsta bindisins, Pre- ludes & Nocturnes, sem lýsir endurfundum Draums og Dauða eftir að hann hefur sloppið úr prísund sinni. Lesandinn hefur ekki hitt Dauða fyrir og veit því ekki á hverju hann á von þar- sem Draumur situr að því er virðist sallarólegur á torgi og gefur dúfum. Ung stúlka kemur gangandi, sest hjá honum og vitnar í Mary Poppins: „Hvað færðu ef þú gefur dúfum of mikið?“ og svarar sér sjálf: „Feitar dúfur.“ Draumur hefur ekki séð Mary Poppins og virð- ist ekki hafa mikinn áhuga á því. Í staðinn segir hann frá fangavist sinni og afleiðingum hennar og er tiltölulega niðurdreginn. Þá brýst stúlkan á fætur og húðskammar hann fyrir að vera sjálfhverfasta persónugervingin á hvaða tilvist- arsviði sem er. Og það kemur í ljós að þau eru systkin, og stúlkan nennir ekki að skamma litla bróður sinn lengur, segist þurfa að vinna, hann geti komið með. Og þau ganga um borgina og stúlkan heimsækir fólk og drepur það, meðan þau ræða saman, og Draumur segir: það varst þú sem þeir ætluðu að fanga. Stúlkan er Dauð- inn og líkt og klisjan segir til um er Sandmað- urinn – Svefninn – bróðir Dauðans. Nema Draumur og Dauði eru ekki lík neinu því sem við höfðum ímyndað okkur, þeir eru ekki einu sinni bræður: þau eru systkin. Og þau systkinin eiga svo eftir að rifja upp þessar umræður þegar þau hittast í síðasta sinn í níunda bindi, The Kindly Ones, þarsem Draumur deyr. Tíunda bindið, The Wake, er einskonar eftirmáli seríunnar, og lýsir jarðarför Sandmannsins, og eftirmálum dauða hans. Í lokasögu seríunnar hittir Draumur aftur Shakespeare sem er þá að skrifa Ofviðrið, að boði Morfeusar sem segist vilja sögur um virðu- leg endalok, konung sem yfirgefur ríki sitt, galdramann sem verður aftur maður. Þarna er tíminn felldur saman: lesandi veit að Morfeus er að tala um eigin endalok, þrátt fyrir að sagan ætti „tímalega“ séð að gerast miklu fyrr. Kon- ungur draumanna segist þó ekki geta séð sjálf- an sig speglast í sögunni, því þótt hann sé prins sagnanna og geti gefið sögur, þá eigi hann enga sögu sjálfur, né muni hann nokkurntíma eign- ast slíka. Enn er Gaiman búinn að búa til lykkju, að þessu sinni um alla seríuna, sem hefst um leið og hún endar. Shakespeare lýkur Ofviðrinu og um leið lýkur sögunni af Sandmanninum,sem líkt og Óli lokbrá er einnig Prins sagnanna. Dauði kemur að sækja Draum, litla bróður sinn. Þau rifja upp samtalið sem þau áttu í fyrsta bindinu, þar sem Draumur gaf dúfunum og Dauði vitnaði í Mary Poppins. Leikhópur Shakespeares sviðsetur Draum á Jónsmessu- nótt fyrir sjálfar persónur verksins. Fulltrúi Reglu kemur á fund Draums til að krefjast lykilsins að Helvíti. Höfundur er bókmenntafræðingur.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.