Lesbók Morgunblaðsins - 24.03.2001, Blaðsíða 19

Lesbók Morgunblaðsins - 24.03.2001, Blaðsíða 19
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 24. MARS 2001 19 Nokkur dæmi um ný orð tengd tölvum og upplýsingatækni sem komið hafa inn í tungumálið á síðastliðnum áratug eru: browser, brugernavn, dosprompt, download, e-post, hyperlink, pc-virus og smiley. Í bókinni er að finna lista þar sem orðunum er raðað í tímaröð, þ.e. með tilliti til þess hvenær þau hafa komið inn í tungumálið. Þar má t.d. sjá að orðin cowboybukser (gallabuxur), hjernevask (heilaþvottur) telefonsvarer (símsvari) og satellit (gervihnöttur) eru fyrst skráð árið 1955. Það er hins vegar ekki fyrr en árið 1970 sem orð eins og mandschauvinisme (karl- remba), reagensglasbarn (glasabarn) og rød- strømpe (rauðsokka) verða hluti af dönskum orðaforða. „ÞAÐ KOM mér á óvart og gladdi mig mjög að finna þennan mikla áhuga meðal Íslendinga á danskri málstefnu. Það var indælt,“ sagði Pia Jarvad í stuttu samtali við blaðamann morg- uninn eftir fyrirlesturinn. Þá var hún nýkomin af fundi í Íslenskri málstöð og átti skömmu síð- ar að halda fyrirlestur í tíma hjá dönskunem- um í Háskólanum. „Á síðustu árum eru Danir reyndar almennt orðnir áhugasamari um tungumálið en áður. En ég geri ekki ráð fyrir að íslenskur fræði- maður sem héldi fyrirlestur í Danmörku um ís- lenska málstefnu myndi draga að svo marga áheyrendur,“ segir hún. Pia Jarvad lauk cand.mag.-prófi í dönsku og hljóðfræði frá Kaupmannahafnarháskóla árið 1973. Hún hefur starfað sem fræðimaður hjá Danskri málnefnd allt frá árinu 1974, þar sem hún hefur fengist við skráningu og rannsóknir á nýyrðum í dönsku og orðabókafræði. Hin síð- ari ár hafa rannsóknir hennar einkum beinst að enskum áhrifum á danska tungu og fyrir tveimur árum sendi hún frá sér orðabókina Nye ord 1955–1998. Gallabuxur og glasabörn Bókin inniheldur um 10.000 uppflettiorð; ný orð sem tekin hafa verið inn í orðaforða dönsk- unnar eftir 1955, nýjar merkingar eldri orða og ný orðasambönd. Fram kemur hvenær orðin hafa fyrst komið fram í dönskum heimildum og uppruni þeirra er skýrður. Dæmi eru gefin um notkun orðanna með tilvitnunum í blöð, tíma- rit, bækur o.fl. „Til þess að komast inn í bókina verða orðin að hafa ákveðna útbreiðslu í dönsku samfélagi, hvorki vera fag- né slang- uryrði, né heldur bundin ákveðnu landsvæði eða mállýsku,“ segir höfundurinn. Einnig sú staðfesting væri einhvers konar niðurstaða Hlutverk danskrar málnefndar er m.a. að rannsaka þróun málsins, sjá um endurskoðun og útgáfu Réttritunarorðabókarinnar og svara fyrirspurnum um málfarsleg atriði. Sumir hafa haldið því fram að ekki sé til nein eiginleg dönsk málstefna – en því er Pia Jarvad ekki sammála. Hún segir að dönsk málstefna hafi hingað til einkennst af svokallaðri „laissez faire“ afstöðu eða afskipta- og hlutleysi. „Við höllum okkur aftur í rólegheitum og erum viss um að þetta gangi á endanum vel þrátt fyrir allt,“ segir hún til að lýsa þessari afstöðu nán- ar. „En það er auðvitað málstefna í sjálfu sér,“ segir hún og bætir við að það sé pólitísk ákvörðun að vera ekki að hafa of miklar áhyggjur af þróun málsins. Pia Jarvad kveðst þó fagna allri umræðu um danska tungu og málstefnu og segir að öll umræða um tungu- málið hljóti að styrkja það. Hver niðurstaða umræðunnar verði viti hún ekki frekar en aðr- ir. „Það má svo sem vel vera að þessi afskipta- leysisstefna verði staðfest – en þá það – einnig sú staðfesting væri einhvers konar niður- staða,“ segir hún. Ekki vernda heldur styrkja „Á síðustu árum hefur sprottið upp umræða í Danmörku um að efla, styrkja og vernda tungumálið,“ segir Pia Jarvad og bætir við að þær raddir hafi verið háværar að réttara sé að tala um að styrkja málið en vernda það. Í orða- laginu liggi að með því að styrkja málið hljóti það að vera þokkalega sterkt fyrir en með því að vernda það sé gefið í skyn að staða tungu- málsins sé veik og það séu ekki æskileg skila- boð. Sjálf er hún á því að ekki skipti öllu máli hvort orðalagið sé notað, aðalatriðið sé að að- hafast. Hún segir þó að til þess að vernda tungumál þurfi það að vera almennt álitið að tungumálið sé í ákveðinni hættu. Sökum þess að danska hafi lengi verið mál nýlenduherra hafi menn ekki haft tiltakanlegar áhyggjur af því að málið væri í hættu. Nú sé tími Danmerk- ur sem nýlenduveldis hins vegar liðinn. Málstefna í mótun hjá menningarmálaráðuneyti Hún nefnir nokkrar greinar og bækur sem hafa að undanförnu hleypt lífi í faglega um- ræðu um tungumálið og framtíð þess. Á ráð- stefnu sem menningarmálaráðuneytið hélt á Louisiana-safninu á síðastliðnu ári var aðal- umræðuefnið dönsk málstefna. „Þar vildu menn alls ekki hafa málnefndina með í ráðum. Niðurstaða ráðstefnunnar var að ætti eitthvað að gera fyrir danska tungu væri það að minnsta kosti ekki hlutverk Danskrar mál- nefndar.“ Í kjölfar ráðstefnunnar var hafist handa við mótun nýrrar danskrar málstefnu að frum- kvæði menningarmálaráðuneytisins og verður sú stefna kynnt innan tíðar. Stefnumótunin er árangur samvinnu fimm ráðuneyta; menning- ar-, menntamála, rannsókna-, atvinnumála- og utanríkisráðuneytanna en frumkvæðið mun þó upphaflega vera komið frá Danskri málnefnd. „Innihaldið þekki ég ekki – en þó er að minnsta kosti alveg öruggt að það stendur ekki til að innleiða íslenska módelið,“ segir Pia Jarvad og vísar til þess að Danir muni seint taka upp mál- stefnu á borð við þá íslensku. „Dönsk málnefnd á að koma með raunhæfa valkosti og leyfa Dönum að velja – en ekki gefa út tilskipanir eða fyrirmæli um rétt og rangt. Það er ekki hlutverk nefndarinnar,“ segir hún. Á síðastliðnu ári kom út bókin Sprogrenser- ordbog eða Málhreinsiorðabók eftir danska lektorinn Kirsten Rask, þar sem höfundurinn hvatti landa sína til að taka upp dönsk orð í stað þeirra ensku og hálfensku orða sem svo mikið eru notuð. Pia Jarvad segir að bæði bók- in og höfundurinn hafi fengið slæma útreið. „Mér þykir engin ástæða til að gera gys að fólki vegna þess að það kemur með skemmti- legar tillögur að orðum. Auðvitað voru þarna mörg dæmi um ný orð sem munu aldrei eiga möguleika en þetta var djarft framtak og vel til þess fallið að vekja umræðu um tungumálið,“ segir hún og þykir miður að höfundurinn hafi verið niðurlægður á opinberum vettvangi vegna hugmynda sinna og tillagna. Danir umgangast enskuna af virðingarleysi Sjálf er Pia Jarvad á því að hjá enskunni verði ekki komist og að ómögulegt sé að hreinsa danska tungu af enskum áhrifum. Hún bendir á að Danir umgangist enskuna af virð- ingarleysi. „Við tökum það sem við þurfum á að halda og hendum afganginum,“ segir hún og vísar til þess að oft sé einungis ein merking af mörgum merkingum orða í ensku tekin með þegar enskt orð er tekið inn í danskan orða- forða. Sem dæmi um þetta nefnir hún orðið city. „Við fáum aðeins lánaðan hluta merking- arinnar. Í ensku er orðið notað yfir bæði borg og miðborg en í dönsku tökum við aðeins seinni merkinguna að láni.“ Þetta segir hún vera val en ekki meðvitaða yfirtöku á öðru tungumáli og segir það raunar benda til þess að áhrifin séu ekki svo djúpstæð þrátt fyrir allt. ÖLL UMRÆÐA UM TUNGUMÁL- IÐ HLÝTUR AÐ STYRKJA ÞAÐ Pia Jarvad, fræðimaður hjá Danskri málnefnd, hélt í síðustu viku fyrir- lestur í Háskóla Íslands um danska málstefnu. MARGRÉT SVEIN- BJÖRNSDÓTTIR var meðal fjölmargra áheyr- enda í stofu 301 í Árna- garði og sá með eigin augum undrunina í svip fyrirlesarans yfir hinni góðu mætingu. Morgunblaðið/Ásdís Pia Jarvad er ötull orðasafnari. Bók hennar, Nye ord 1955-1998, inniheldur um 10.000 orð sem hafa bæst við orðaforða dönskunnar á síðari helmingi 20. aldar. INGA J. Backman sópransöngkona og Reynir Jón- asson organisti halda tónleika í Neskirkju á morgun, sunnudag, kl. 17. Að sögn Ingu skiptist efnisskráin í þrennt; íslenska sálma, Bach og antikaríur. Sálmarnir eru þrír: Hvíta- sunna, lag eftir Jón Ásgeirsson við texta Sigurbjörns Einarssonar, Maríukvæði Atla Heimis Sveinssonar við ljóð Halldórs Laxness og Ó, undur lífs eftir Jakob Hallgrímsson við ljóð Þorsteins Valdimarssonar. Þá leikur Reynir verk eftir Bach og Inga syngur fræga aríu „Ich hatte viel Bekümmernis“ úr kantötu Bachs nr. 21. „Svo endum við tónleikana á nokkrum þekktum antikaríum frá 16. og 17. öld. „Þetta eru allt ást- araríur og mjög skemmtilegt viðfangsefni sem hefur verið sérstaklega gaman að æfa,“ segir Inga. ÍSLENSKIR SÁLM- AR, BACH OG ANTIKARÍUR Morgunblaðið/Þorkell Inga J. Backman sópransöngkona og Reynir Jónasson organisti.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.