Lesbók Morgunblaðsins - 24.03.2001, Qupperneq 8
8 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 24. MARS 2001
A
LLAR götur síðan í sjálf-
stæðisbaráttunni á síðari
helmingi 19. aldar hafa
andstæðar fylkingar tek-
izt á um Ísland. Framan
af voru átökin að vísu
ekki málefnaleg nema í
aðra röndina heldur tók-
ust menn á um stjórnskipuleg formsatriði,
meiri eða minni heimastjórn og þess háttar.
Þetta var í rauninni tilgangslaust þref um
tittlingaskít og skilaði engum umtalsverðum
árangri þegar upp var staðið. Efnahagslífið
um landið var í niðurníðslu, þótt verzlun við
útlönd væri að vísu frjáls, og fátæktin var
gríðarleg. Í stað þess að ræða raunhæfar
leiðir til að lyfta oki fátæktarinnar af
herðum landsfólksins eyddu menn nær öllu
púðri sínu í einskisvert þjark um aukaatriði.
Rifrildið dró dilk á eftir sér: Það tafði fram-
för landsins og vandi þjóðina á vitleysu í
stjórnmálum.
Að fenginni heimastjórn 1904 og síðan
fullveldi 1918 þurfti ekki lengur að þrefa um
þau mál, og þá færðist þjóðmálabaráttan yf-
ir á annað svið. Gömlu flokkarnir voru leyst-
ir upp. Að erlendri fyrirmynd tóku menn nú
að skipa sér í stjórnmálaflokka eftir starfs-
stéttum (bændur í einum flokki, verkamenn
í öðrum, kaupmenn og eignamenn í hinum
þriðja). Hugsunin var sú eins og víða annars
staðar um Evrópu, að ólíkar stéttir hefðu
ólíka hagsmuni. Flokkaskipanin ýtti með
þessu móti undir tilefnislausar ýfingar milli
stétta. Gallinn á þessu fyrirkomulagi var og
er sá að flokkaskipanin endurspeglaði ekki
nema að litlu leyti skiptingu landsmanna í
fylkingar eftir ólíkum grundvallarsjónarmið-
um um samfélagsmál.
Frá fyrstu dögum núverandi flokkakerfis
hefur höfuðágreiningurinn staðið um tvær
stefnur: innilokunarstefnu og opingáttar-
stefnu. Báðar fylkingar áttu og eiga sér enn
öfluga málsvara í öllum flokkum. Innilok-
unarmenn, sem svo voru nefndir í dagblöð-
unum strax um 1920, voru yfirleitt hlynntir
landbúnaði á þjóðrænum forsendum og tor-
tryggðu aðra atvinnuvegi sem voru að vaxa
úr grasi, bæði sjávarútveg og meðfylgjandi
þéttbýlismyndun meðfram ströndum lands-
ins og verzlun, sem var mest í Reykjavík.
Þeir lögðust jafnframt gegn áformum um
fossavirkjanir og stóriðju. Þeir reyndu bók-
staflega að loka fólkið inni í sveitunum með
því að leggja hömlur á búferlaflutninga,
þetta var arfleifð vistarbandsins og hug-
arfarsins sem að baki bjó. Þeir virtust sjá
fortíðina í hillingum. Þeir virtust ekki skeyta
um eða skilja samhengið milli landbúnaðar,
sem átti eins og hann var stundaður í raun-
inni ekkert skylt við skynsamlegan, arðbær-
an atvinnurekstur, og þeirrar þrúgandi fá-
tæktar sem þessi aðalatvinnuvegur lands-
manna hafði öldum saman kallað yfir mestan
hluta þjóðarinnar. Innilokunarmenn þóttust
yfirleitt ekki hafa mikið til annarra þjóða að
sækja. Þeir sóttu viðhorf sín og viðmiðanir
jafnan inn á við og aftur í tímann. Þeir
fengu því ráðið, þegar heimskreppan ógnaði
bændum í lok 3. áratugs 20. aldar, að inn-
flutningur landbúnaðarafurða til landsins
var stöðvaður og stendur sú skipan enn í
stórum dráttum. Innflutningshöftin breidd-
ust út. Höft og skömmtun urðu að almennri
reglu. Þjóðinni lærðist að sækja gögn og
gæði í hendur yfirvaldanna, enda var það
einmitt tilgangurinn. Þetta ástand hélzt
óbreytt allar götur fram til ársins 1960, þeg-
ar hagkerfið var opnað að nýju eftir 30 ára
innilokun, en þó ekki til fulls, fjarri því.
Opingáttarmenn, eins og þeir voru nefndir
um 1920, höfðu aðra skoðun á lífinu og land-
inu. Þeir stóðu á öxlum Jóns Sigurðssonar
og samherja hans: þeir vildu renna stoðum
undir nýja atvinnuvegi, útveg, iðnað og
verzlun, efla þéttbýli og opna landið fyrir
erlendum áhrifum. Þeir vildu virkja fossana,
stofna til stóriðju, flytja erlent fjármagn inn
í landið og einnig vinnuafl, jafnvel í stórum
stíl. Þeir vildu gera upp við fátækt fortíð-
arinnar og byggja nýtt Ísland handa nútíma-
num. Opingáttarstefnan var framfarastefna,
markaðsholl, opin fyrir erlendum fyrir-
myndum og dró taum þéttbýlis og neytenda
í andstöðumerkingu við innilokunarstefnuna,
sem var þjóðleg forsjár- og varðveizlustefna
og því verndarsinnuð og markaðsfjandsam-
leg og dró taum sveitalífs og framleiðenda.
Ágreiningur þessara fylkinga stendur enn.
Innilokunarmönnum tókst snemma að keyra
opingáttarmenn í kaf sumpart í krafti ójafns
atkvæðisréttar eftir búsetu. Innilokunar-
menn stjórnuðu landinu samfleytt frá 1927
til 1959. Það er vert að rifja það upp, að for-
ustumenn þriggja stærstu stjórnmálaflokk-
anna lögðust allir sem einn gegn fossavirkj-
unaráformum Einars Benediktssonar og
urðu þess þar með valdandi að þau urðu að
engu. Það átti síðan fyrir einum þessara
þriggja að liggja, Ólafi Thors, formanni
Sjálfstæðisflokksins, að snúa við blaðinu
með myndun viðreisnarstjórnarinnar 1959,
opna landið aftur og leggja grunn að stór-
iðju. En hann var samt ekki vissari en svo í
sinni sök, eftir því sem yngri flokksmenn
hans hafa sagt frá opinberlega, að hann
hafði fyrirætlanir um að mynda heldur enn
eina innilokunarstjórnina, með Alþýðu-
bandalaginu, enda hefði sá flokkur á þeim
tíma ekki verið til viðtals um annað. Hvað
um það, stjórnmálaflokkarnir báru allir sam-
eiginlega ábyrgð á því ástandi sem ríkti í
efnahags- og atvinnumálum Íslendinga allan
innilokunartímann enda áttu þeir allir aðild
að landsstjórninni þennan tíma, mislengi þó.
Hvað skilur innilokunarmenn frá opin-
gáttarmönnum á okkar dögum? Styrkleika-
hlutföll fylkinganna á stjórnmálavettvangi
eru ennþá þannig, að innilokunarmenn hafa
undirtökin og vilja því yfirleitt halda í
óbreytt ástand, eigið sköpunarverk, en opin-
gáttarmenn knýja á um breytingar. Opin-
gáttarmönnum hefur að vísu orðið talsvert
ágengt undangengin ár. Byltingin á fjár-
málamarkaði ber þess vitni. Margt fleira
mætti nefna. En innilokunaröflin ráða ferð-
inni enn sem jafnan fyrr og flýta sér hægt.
Tökum dæmi. Innilokunarmenn vilja halda
Íslandi utan við Evrópusambandið, opin-
gáttarmenn vilja sækja um inngöngu. Inni-
lokunarmenn vilja halda áfram að banna
fjárfestingu útlendra manna í íslenzkum
sjávarútvegi, opingáttarmenn vilja opna fyr-
ir erlendri fjárfestingu. Innilokunarmenn
vilja halda áfram að hefta innflutning land-
búnaðarafurða, opingáttarmenn vilja leyfa
frjálsan innflutning (en auðvitað ekki gin- og
klaufaveiki). Innilokunarmenn vilja á hinn
bóginn halda áfram að leyfa lausagöngu bú-
fjár (sauðkindin skal vera frjáls!), opin-
gáttarmenn vilja loka féð inni í afgirtum
reitum til þess að vernda náttúru Íslands.
Innilokunarmenn vilja hafa flugvöllinn
áfram í hjarta Reykjavíkur, opingáttarmenn
vilja völlinn burt.
Er hægt að greina eitthvert munstur í
þessum ágreiningi? Hvaða grundvallaratriði
skipta mönnum í þessar tvær fylkingar?
Mér sýnist eitt vega þyngst: mismikil virð-
ing fyrir hagkvæmni. Opingáttarmenn setja
hagkvæmni í öndvegi því að hagkvæmni
ræður mestu um lífskjör almennings til
langs tíma litið. Þeir telja, að hag Íslands sé
bezt borgið innan Evrópusambandsins, þeg-
ar allt er skoðað. Þeir telja, að útvegurinn
og efnahagslífið í heild myndu hagnast á er-
lendri fjárfestingu. Þeim svíður sóunin, sem
felst í óbreyttri búverndarstefnu. Þeim
blöskrar með líku lagi gróðureyðingin af
völdum lausagöngu búfjár og útigangs-
hrossa. Og þeim ofbýður hagblindan, sem
birtist í því, að verðmætu flæmi í hjarta
Reykjavíkur sé vitandi vits ráðstafað undir
flugvöll, sem ætti að réttu lagi að vera á
miklu ódýrara landi fjær miðborginni. Inni-
lokunarmenn skeyta minna um hagkvæmni.
Þeir setja annað í öndvegi. Þeir benda rétti-
lega á að spurningin um aðild að Evrópu-
sambandinu snýst ekki eingöngu um hagræn
sjónarmið heldur einnig um ýmislegt annað.
Þeir efast um réttmæti erlendrar fjárfest-
ingar í útvegi, því að þeir vilja varast erlend
ítök í innlendum fyrirtækjum og fiskimiðum.
Þeir horfa fram hjá efnahags- og umhverf-
isspjöllum af völdum búverndarstefnunnar.
Þá varðar ekki um það að hægt væri að nýta
flugvallarsvæðið í hjarta Reykjavíkur á
miklu hagkvæmari hátt.
Um þetta snýst ágreiningurinn: ólíkt
tímaskyn, ólíkt verðmætamat, ólíkar lífs-
skoðanir.
ÓLÍKAR LÍFS-
SKOÐANIR
Morgunblaðið/Kristinn
„Um þetta snýst ágreiningurinn: ólíkt tímaskyn, ólíkt verðmætamat, ólíkar lífsskoðanir.“
E F T I R Þ O R VA L D G Y L FA S O N
Höfundur er rannsóknarprófessor í hagfræði
við Háskóla Íslands.
T ÍÐARANDI Í ALDARBYRJUN