Lesbók Morgunblaðsins - 24.03.2001, Page 14

Lesbók Morgunblaðsins - 24.03.2001, Page 14
14 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 24. MARS 2001 S ÉRA Matthías Jochumsson var víðlesinn maður. Hann þýddi bókmenntaverk frá ýmsum löndum og sótti aðdrætti fyrir greinar og prédikanir víða. Bréf hans gefa góða mynd af þessum sílesandi skáldpresti. Það fer tæplega framhjá neinum, sem les þau, að hugur hans hneigist oft að sama guð- fræðingi, ameríska únitaraprédikaranum Will- iam Ellery Channing. Hvað eftir annað minnist hann á Channing þennan í bréfum sínum, einnig í Söguköflunum, og ævinlega með aðdáun og hrifningu. Enginn vafi leikur á því að Channing var meðal þeirra sem mest áhrif höfðu á guð- fræðilega hugsun Matthíasar. Bein áhrif Channings á Matthías verða seint könnuð til hlítar þótt komast megi nærri um það sem máli skiptir. Áhrifin kæmu væntanlega helst fram í prédikunum hans og greinum í blöðum og tímaritum þar sem heimilda er sjaldnast getið. Það auðveldar ekki eftir- grennslan að Matthías brenndi flestum prédik- unum sínum þegar hann lét af prestsskap um aldamótin. Hins vegar er næsta auðvelt að rekja það sem Matthías segir beinlínis um Channing í bréfum sínum og Söguköflum af sjálfum sér. Það er óneitanlega áhugavert að forvitnast ofurlítið nánar um Channing og þá einkum um skoðanir hans á áhrifum kristinnar trúar á menningu og samfélag. Hann hafði raunar áhrif á fleiri guðfræðinga hér á landi en séra Matth- ías. Séra Matthías getur þess í bréfum sínum að hann hafi iðulega gefið vinum sínum og starfs- bræðrum bækur eftir Channing og var greini- lega mikið í mun að koma þeim sem víðast. Ein- um vini sínum í prestastétt skrifaði hann á þessa leið: „Kauptu (í Guðs nafni) W. E. Chann- ings works – þau kosta 3–4 kr. og má panta alls staðar en eru hin beztu guðfræði- og heimspeki- rit sem ég held að séu til. Átt þú þau? Ég á nú aðeins eitt exempl. en hef gefið ca. 30. Verk Channings á söfnum hér á landi eru sum hver merkt íslenskum prestum og því komin úr bókasöfnum þeirra. Í bókasafni Matthíasar á Sigurhæðum eru fáeinar bækur eftir Channing. Í þessari ritgerð verður leitast við að bregða ljósi á áhrif Channings. En fyrst skal vikið að Channing sjálfum. Hver var hann og hverjar voru kenningar hans? Channing fæddist árið 1780 í borginni New- port í Rhode Island fylki og dó í Vermont árið 1842. Mestan hluta ævi sinnar starfaði hann í Boston. Í báðum þessum borgum, Newport og Boston, hafa honum verið reist vegleg minn- ismerki og í Newport er meira að segja minn- ingarkirkja, Channing Memorial Church. Hann vígðist til congregationalista safnaðar í Boston (Federal Street Congregational Church) fyrsta júní 1803 og þjónaði þar í tæpa fjóra áratugi. Hann varð fljótlega áhrifamikill prédikari sem var ekki lítið á þeim tímum þegar vegur prédik- unarinnar og þar með prédikarans var mikill. Upp úr aldamótunum 1800 voru miklir um- brotatímar í kirkjulífi á Nýja-Englandi og þá einkum í Boston sem var miðstöð kirkjulífsins. Helsta kirkjudeildin v ar congregationalista- kirkjan og var hún ekki aðeins trúfélag heldur undirstaða alls samfélagsins sem skipt var í sókn (parish) og söfnuð (church). Trú og sam- félag var samofið samkvæmt þeirri kirkjuhefð sem á sér kalvínskar rætur. Nokkru eftir að Channing kom til Boston urðu hræringar í kirkjulífinu til þess að congregationalistakirkj- an klofnaði og únitarakirkjan varð til sem sér- stök kirkjudeild. Channing var einn helsti tals- maður hinnar nýju kirkjustefnu. Á nítjándu öldinni var únitarisminn í raun að- eins frjálslynd kristin kirkjudeild þar sem fólk var þó heimspekilegra í hugsun en almennt gerðist í öðrum kirkjudeildum. Áherslan var einkum á siðfræði og mannúðarstarfsemi. Matthías kynnir Channing því ekki sem únitara (nema í frétt í Þjóðólfi einu sinni, sjá síðar) en segir að hann megi heldur kallast „stofnari“ „nýju guðfræðinnar“ og ennfremur að hann hafi verið „brennheitur Kristsvinur og mannvinur“. Channing teldist ekki dæmigerður únitari nú á tímum. Rit hans eru afar „kristileg“ að hefð- bundnum skilningi þótt þau hafi verið framúr- stefnuleg vestanhafs á sínum tíma. Nú á tímum er únitarakirkjan yfirleitt ekki talin meðal krist- inna kirkjudeilda enda líta ekki allir únitarar á sig sem kristna, sumir aðhyllast önnur trúar- brögð en kristna trú og enn aðrir trúa jafnvel ekki á Guð. Þessi þróun heyrir þó til tuttugustu öldinni. Á nítjándu öld voru únitarar framsæk- inn og frjálslyndur kristinn trúflokkur, ekki hvað síst í Boston sem löngum hefur verið höf- uðborg únitara og hinn virti Harvardháskóli var löngum höfuðvígi þeirra. Þótt rekja megi upp- haf únitara allt til siðbótaraldarinnar var fyrsta únitarafélagið ekki stofnað fyrr en 1774 í Lond- on sem kristið sértrúarfélag. Og þar kynntist séra Matthías únitörum einnig. Að því er best verður séð heillaðist hann mest af hugmyndum Channings um tvennt: annars vegar um hið andlega frelsi en hins vegar um samfélagsleg áhrif trúarinnar. Eins og ýmsir aðrir leið Matthías fyrir stöðnun kirkjulífsins og hinnar guðfræðilegu umræðu á sínum tíma. Fyrir þetta leið hann ekki síst vegna þess að hann las ógrynni bóka og tímarita bæði frá Bandaríkjunum og Evrópu og hafði því veður af þeim sterku straumum í guðfræði og menning- arlífi sem síðar meir áttu eftir að leita hingað til lands. Matthías heillast í raun ekki af únitarism- anum sem slíkum þótt ýmsir kunni að draga þá fljótfærnislegu ályktun af lestri bréfa hans. Guðfræði sína setti Channing meðal annars fram í einni frægustu ræðu sinni, Baltimore- ræðunni, sem hann flutti árið 1819. Þar lýsir hann vilja sínum til þess að fá að tilheyra „ekki sértrúarsöfnuði heldur samfélagi fólks sem er frjálst í hugsun“. Guðfræði hans er í flestu lík frjálslyndri guðfræði á f.hl. nítjándu aldar. Í boðskap sínum leggur Channing áherslu á þær afleiðingar sem trúin hefur og ætti að hafa á þjóðlíf og menningu en ekki – eins og algengt var – aðeins á dyggðugt líferni og einstaklings- siðgæði. Þess vegna fjallar Channing mikið um pólitísk málefni sinnar tíðar. Má þar nefna þrælahald sem hann barðist gegn, hann ritaði um fangelsismál og lét baráttuna gegn of- drykkju til sín taka svo eitthvað sé nefnt. Hug- myndin um hið göfuga manneðli einkennir allan hans boðskap svo og óbilandi trú á menntun al- þýðunnar, framförum og frelsi. Trúin á skyn- semi mannsins leynir sér ekki. Hann lítur svo á að siðferðilegur þroski ein- staklingsins skili sér í siðferðislegum þroska samfélagsins eða þjóðfélagsins í heild. Hin sýni- legu merki trúarinnar eru umhyggja fyrir öðr- um, fyrirgefning og frelsi en frelsið er ekki hvað síst frelsi þeirra sem eru í minnihluta og hugsa ekki eins og meirihlutinn í trúarlegum efnum eða öðrum. Boðskapur Channings er menntandi og fullur bjartsýni á mannlegt eðli. Helstu ásteytingarsteinar hans í kenningum kirkjunnar voru þrenningarlærdómurinn, frið- þægingarkenningin og hið róttæka syndarhug- tak (eða kenningin um upprunasyndina). Hann hafnar kenningunni um þrenningarlærdóminn vegna þess að hann telur þá kenningu ögra ein- ingu guðdómsins (þaðan er hugtakið únitarismi) og að sá lærdómur eigi sér ekki biblíulegar for- sendur. Hann hafnar kenningum um eilífa út- skúfun en telur að Guð sé óendanlega góður og jafnframt réttlátur, það stangast ekki á að hans mati. Guð sem umhyggjusamur faðir sem ber hag barna sinna fyrir brjósti er ríkjandi guðs- ímynd í boðskap hans. Í Jesú opinberast vilji Guðs í sinni fullkomn- ustu mynd, segir hann, Jesús er fyrirmynd sem á erindi til allra; Channing trúði á syndleysi Krists, á kraftaverk og upprisu. Í Baltimore- ræðunni fjallar hann um Biblíuna sem opinber- un á vilja Guðs en engu að síður eigi Biblían að lúta lögmálum almennrar túlkunarfræði sem notuð sé við skýringar á öðrum ritverkum. Channing var áhrifamikill guðfræðingur á sinni tíð og vakti athygli utan Bandaríkjanna. Verk hans teljast til sígildra bókmennta, þau voru mikið lesin enda rituð af frábærri rökfimi og þekkingu. Hins vegar ritar Channing heldur þungan stíl og reynist mörgum erfitt að festa hugann við ritsmíðar hans nú á tímum. Áhrifin á séra Matthías En hvernig komst Matthías í kynni við rit Channings? Það var vinur hans og skólabróðir, séra Þorvaldur Bjarnason, prestur á Reynivöll- um (1868–77), sem fyrstur léði honum þau. Frá því segir séra Matthías þannig: „Var ég þá miklu fríhyggjumeiri en hann [þ.e. séra Páll Sigurðsson í Gaulverjabæ], enda hafði ég þá lesið rit dr. W. E. Channings. Hafði séra Þorvaldur á Reynivöllum léð mér þau. Séra Þorvaldur lofaði þau mjög en kvaðst ætla að fylgja gömlu trúnni, sem hann gerði, enda töld- um við hann aldrei mikinn guðfræðing þótt skýr og merkur maður væri á sinn hátt en hrottaleg- ur nokkuð og ærið út á við. Ég kynnti séra Páli skoðanir hins háfleyga, hreinskilna og guð- rækna Channings unz skoðanir Páls urðu í flestu líkar mínum.“ Hann segir enn fremur: „Frá því ég missti hina fyrri konuna, Elínu, hafði ég mjög lagt stund á að kynna mér rit dr. Channings og jós af þeim fræðum mikla von og gleði.“ Elín Sigríður Knudsen, fyrsta kona Matthíasar, lést árið 1868 í Móum á Kjalarnesi en Matthías var þá nýlega orðinn prestur í Kjalarnesþingaprestakalli. Matthías segir einnig frá þessum umbrotum skömmu eftir aldamótin á þann veg að trúar- skoðanir hans hafi breyst mjög veturinn 1871– 72 þegar hann var í Höfn. Þá hafði hann kynnst verkum Channings og lesið Grundtvig af lífi og sál en þennan vetur kom Georg Brandes inn í myndina: „Þessir og enn fleiri höfundar skiptu mér andlega á milli sín, en engan virti ég eða trúði á til fulls nema W.E. Channing, hann hefir mér til þessa dags þótt bestur allra guðfræð- inga.“ Og hann heldur áfram: „Er það sorglegt hve kristnin virðist enn eiga langt í land til þess að kunna að skilja hann eða meta rétt. ... En um þessar mundir tóku mínir kirkjulegu trúarviðir mjög að bila og greru aldrei um heilt aftur. En þrátt fyrir öll vísindi og allan „pósitívismus“ fylgi ég enn mörgum eldri trúarskoðunum en krefst þess jafnframt að flest af því fái nýjan búning og það svo að hinn lifandi kjarni verði ljós og samsvari þekking nútímans og þörfum. Séra Matthías fékk því ekki einungis hjálp í sorg sinni við lestur rita Channings heldur var þar fengist við guðfræðilegar spurningar á ferskan og gagnrýninn hátt. Það höfðaði til Matthíasar sem var sjálfur farinn að velta fyrir sér erfiðum guðfræðilegum vandamálum. En hitt var þó ekki síður mikilvægt að í verkum Channings kynntist hann hinni félagslegu skír- skotun fagnaðarerindisins. Boðunin átti ekki aðeins að beinast að einstaklingum heldur var markmiðið ekki síður að hafa áhrif á þjóðfélagið, m.a. á stofnanir þess. Loks höfðar eitt atriði enn til Matthíasar. Það er áhersla Channings á kristindóm þar sem engir flokkadrættir eru lengur og skipting kristinna manna í kirkju- deildir og trúflokka hefur verið yfirunnin. Channing í bréfum séra Matthíasar og í Þjóðólfi Séra Matthías var afkastamikill bréfritari. Þar ritar hann hispurslaust um hvaðeina sem honum liggur á hjarta. Í hinu mikla bréfasafni hans er Channings oft getið. Nokkur sýnishorn úr bréfum Matthíasar gefa góða innsýn í af- stöðu hans til Channings. Í bréfi rituðu í Reykjavík 4. maí 1874 til séra Jóns Bjarnasonar segir hann: „Lestu dr. Channings rit. Hann er sá besti guðfræðingur tímans.“ Og til Magnúsar Eiríkssonar ritar hann úr ritstjórastóli Þjóðólfs 27. nóv. 1874: „Ég fæ ekki betur séð en þeir beztu þeirra (t.d. Ameríkumaðurinn hinn ágæti dr. Channing) hafi það fyllsta og fullkomnasta program fyrir kristilegri trú og móral sem mannlegur andi hefur til dato nokkru sinni haft.“ Hinn 10. apríl 1875 til séra Jóns Bjarna- sonar: „Okkar kirkjulíf er á r....... og ég er viss um að hvorki Channing eða hitt extremið, poka-synodan, gæti lifað hér lengur en hálfan klukkutíma.“ Og árið eftir til séra Jóns Bjarna- sonar aftur (17. okt. 1876): „Hefur þú lesið tröll- ið Parker? (Discourses on Religion). Mikið yf- irtak! Af öllum liberalistum í trúarefnum sem ég þekki kemst þó enginn nálægt hinum góða og guðdómlega W. E. Channing og flestar hans skoðanir tileinka ég mér með hug og hjarta og – stend við það!“ Og 7. júní 1878 til séra Jóns Bjarnasonar: „Congregationalistar og únitarar (þeir betri, svo sem Martineau og guðsbarnið Channing) eru mínir menn. Dogmam trinitatis [þ.e. þrenningarlærdóminn] tólera ég sökum heimsku og harðúðar aumingjanna en vitleysa er það og verður frá eilífð til eilífðar!“ Til Hann- esar Hafstein ritar séra Matthías frá Odda í september árið 1884: „Ég vil Reformation, en hver kemur með hana? Ég fæ menn ekki til að lesa Channing auk heldur til annars.... Ég vil anda, hjarta, eld; ég vil trú á hið eilífa, frelsi frá hinu hverfula, sorglega, deyðandi, dauðlega, fyrir lífsvonir og lífsyndi.“ Í Þjóðólfi 20. ágúst 1879 er stutt fréttaklausa: „Dr. Channing. Að ári verður öld liðin frá fæð- ingu þessa fræga rithöfundar; ætla Ameriku- menn þá að byggja kirkju mikla til að kenna við hann, í bænum Newport, þar sem hann var bor- inn, og í Boston á að reisa honum minnismerki, en trúarbræður hans, hinir ensku Unitarianar, ætla þá að gefa út rit hans í 100.000 exempl. Og selja hver á 1 shilling (80 a[ura]).“ Í Þjóðólfi ári síðar (12. okt. 1880), í sama blaði og tilkynnt er sala blaðsins til Kristjáns Ó. Þor- grímssonar er fyrri hluti langrar greinar um skóla á Vestfjörðum. Enginn höfundur er „ÉG VIL REFORMATION“ ÁHRIF W. E. CHANNINGS Á SÉRA MATTHÍAS E F T I R G U N N A R K R I S T J Á N S S O N „Séra Matthías fékk því ekki einungis hjálp í sorg sinni við lestur rita Channings heldur var þar fengist við guðfræðilegar spurningar á ferskan og gagnrýn- inn hátt. Það höfðaði til Matthíasar sem var sjálfur farinn að velta fyrir sér erfiðum guðfræðilegum vandamálum. En hitt var þó ekki síður mikilvægt að í verkum Channings kynntist hann hinni félagslegu skírskotun fagnaðarerindisins.“ Matthías JochumssonW. E. Channing

x

Lesbók Morgunblaðsins

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.