Lesbók Morgunblaðsins

Ulloq
Ataaseq assigiiaat ilaat
Saqqummersitaq pingaarneq:

Lesbók Morgunblaðsins - 21.04.2001, Qupperneq 8

Lesbók Morgunblaðsins - 21.04.2001, Qupperneq 8
8 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 21. APRÍL 2001 „Ég hugsa aldrei um framtíðina; hún vitjar okkar nógu snemma“ (Einstein) „Allt sem máli skiptir hefur þegar verið uppgötvað“ (U.S. Patent Office, 1899) I Fáir eru vitrir – fyrr en eftirá. Og þóttEinstein hafi verið vitur – en U.S. PatentOffice ekki – reyndist hann ekki vera spámaður í eigin föðurlandi. Þessi gömlu og þreytulegu sannindi standa óbreytt. Tíðar- andinn endurspeglar aðallega skammsýni mannsins og breyskleika. En það eru und- antekningar – ljós í myrkrinu. Fyrrnefndur Einstein í upphafi aldarinnar, fulltrúi mann- vitsins. Mandela, undir lok aldarinnar, fulltrúi fyrirgefningarinnar. Gandhi, um mið- bik aldarinnar, sem færði hundruðum millj- óna Indverja sjálfstæði, án vopnaðrar vald- beitingar. En hann mátti líka horfa upp á landa sína leidda til slátrunar að fengnu frelsi, í sturlunaræði trúarofstækis. Einhverjir fleiri? Ef grannt er skoðað má nefna nöfn nokkurra manna, sem risu upp gegn tortímingaröflum (þótt mistækir væru) og breyttu gangi veraldarsögunnar til hins betra. Stríðsleiðtogar bandamanna, Roose- velt og Churchill, eru í þeim hópi, þrátt fyrir allt. Sumir myndu nefna Truman, sem lagði grundvöll að vopnuðum friði eftirstríðs- áranna (en gleymum ekki að hann ber líka ábyrgð á Hiroshima og Nagasaki). Og feður Evrópuhugsjónarinnar, Monnet og Schu- man, mennina sem lærðu af mistökum milli- stríðsáranna og færðu þannig Evrópubúum frið og framfarir í meira en hálfa öld. Sumir myndu nefna Jóhannes Pál páfa, gáfaða Pólverjann frá Krakow, sem syndir gegn straumi tímans í nafni mannskilnings kaþólsku kirkjunnar, en hún hefur staðið af sér alla brotsjói mannkynssögunnar í tvö þúsund ár. Eða móður Theresu frá Albaníu, sem af æðruleysi deildi kjörum með berfæt- lingum fátæktarhverfa þriðja heimsins, þar sem þrír fjórðu hlutar mannkynsins draga fram lífið. Fleiri? Einhverjum myndi e.t.v. detta í hug að nefna strákana, sem nenntu ekki að sitja á skólabekk, en hrundu í stað- inn af stað tæknibyltingu, sem ljær byr und- ir vængi þeim draumi að sameina mann- kynið, þvert á öll landamæri, fyrir framan tölvuskjá upplýsingabyltingarinnar. En bylt- ingin hefur tilhneigingu til að éta börnin sín. Og við höfum ekki séð fyrir endann á því, hvernig skólabörnum tæknibyltingarinnar reiðir af á ókominni tíð. Hitt vitum við að bróðurpartur jarðarbúa á þess ekki kost, vegna fátæktar og menntunarskorts, að ná tökum á þeim tækifærum, sem tæknibylt- ingin skapar. Þeir munu því áfram dragast afturúr – heltast úr framfaralestinni. Auðvit- að eru margir minni spámenn, sem hafa unnið gott dagsverk, hver á sínum stað, en fá þó varla meira en neðanmálsgrein í mann- kynssögunni. II Manneskjan er ógnarsmá í sam-anburði við þau risavöxnu vandamálsem umlykja hana og flest eru af mannavöldum. Hvað þykjumst við vita um framtíðina – við sem verðum að búa við hana, það sem við eigum eftir ólifað? Við þykjumst vita að loftslagsbreytingar vegna mengunar af mannavöldum muni keyra mannabyggð á stórum svæðum við strendur hafsins í kaf; að jarðarbúum muni fjölga um 2 milljarða á næstu 25 árum, þrátt fyrir að heldur dragi úr hraða fjölgunarinnar; sumar þjóðir munu að vísu týna tölunni (t.d. Rúss- ar, Þjóðverjar og Ítalir) en öðrum mun fjölga ört (í SA-Asíu, Mið-Austurlöndum og hluta Afríku); að hinar þróuðu þjóðir munu eldast hratt og þurfa á fjölda innflytjenda að halda til að vinna skítverkin og standa undir eftirlaunum hinna langlífu; að framundan eru miklir þjóðflutningar fátæks fólks frá S- Ameríku, Asíu, Afríku og Mið-Austurlöndum til Norður-Ameríku og Vestur-Evrópu – í leit að bættri lífsafkomu; að íbúafjöldinn í megaborgum fátæku landanna mun tvöfald- ast á næstu 15 árum; að þrátt fyrir allar framfarir í læknisfræði verður drjúgur hluti jarðarbúa svo sjúkur, (fórnarlömb smitsjúk- dóma s.s. alnæmis og berkla) að heilsuleysi mun há þeim í lífsbaráttunni. Við þykjumst vita að ræktanlegt land fari minnkandi svo að vaxandi mannfjöldi verði ekki brauðfæddur nema erfðabreyttar nytja- jurtir (sem þurfa minna vatn og standast ágengni skordýra og jurtasjúkdóma) nái aukinni útbreiðslu; að eftir 15 ár muni helm- ingur jarðarbúa búa við vatnsskort; að sum- ar af komandi styrjöldum 21. aldarinnar muni snúast um yfirráð yfir vatni (íhugunar- efni fyrir Íslendinga); að orkuþörf jarðarbúa muni vaxa um 50% á næstu 20 árum og að þrátt fyrir mengunarháskann mun orku- vinnslan áfram byggjast á mengandi jarð- efnanýtingu (kol, olía og gas); að regnskógar hitabeltisins, heimkynni óteljandi dýrateg- unda, muni áfram láta undan síga fyrir ágengni mannsins; að líftæknin muni taka upplýsingatækninni fram, bæði um fjárfest- ingu og áhrif á mannlegt líf. Menn verða klónaðir og auðkýfingar munu kaupa varahluti í sjálfa sig til að framlengja líftóruna. (Og þannig sölsa undir sig hlut- verk „Guðs“). Geimurinn verður vígvæddur. Ginnungagap verður staðfest milli ríkra og snauðra. Örbirgðin mitt í allsnægtunum verður sú púðurtunna, sem að lokum hleypir veröldinni í bál og brand. Viltu heyra meira? – Þetta eru bara nokkur dæmi um þá heims- sýn (tíðaranda framtíðarinnar) sem hug- myndabankar í höfuðborg eina heimsveld- isins sem eftir er, draga upp þessa dagana, oftast bak við byrgða glugga. Og flest eru þessi vandamál af mannavöldum. En úr því að maðurinn er aðalvandamálið vaknar sú spurning, hvort maðurinn geti líka – þrátt fyrir allt – átt hlut að lausninni? Sagan sýnist kenna okkur að vitrir menn og góðgjarnir megi sín einatt lítils í sam- anburði við þá hersingu illmenna, sem hlaðið hafa upp valköstum fórnarlamba og skilið eftir sig sviðna jörð. Í samanburði við fólsku- verk Hitlers, Stalíns, Hirohitos, Maos og lærisveina þeirra og aftaníossa vítt og breitt um heimsbyggðina, sýnist t.d. hið örsmáa norræna velferðarsamfélag vera eins og vin í eyðimörkinni. Er það ekki að lokum svo, að hið góða og hið illa tekst stöðugt á í mann- eðlinu sjálfu? Víst er það, að illmennskan, heimskan, hatrið og skammsýnin hafa náð tökum á helst til mörgum í samtíð okkar, þrátt fyrir allar framfarir í vísindum og tækni, sem eiga að auðvelda manninum lífs- baráttuna í hörðum heimi. Þrátt fyrir tæra göfgi og himneska fegurð tónlistarinnar, sem kemst næst því að veg- sama dýrð sköpunarverksins, er lærdóms- ríkt að uppgötva, að mörg eftirlætisbörn list- gyðjunnar hafa ekki reynst bera beysinn karakter í eigin lífi. Margur fagurkerinn hef- ur reynst þungt haldinn af verstu hvötum öf- undar, illgirni og afbrýði. En þannig er mað- urinn í aldarspeglinum: Veill og hálfur. Háskalegustu hugmyndir mannsins á öldinni hafa einmitt byggst á röngum mannskilningi – skeytingarleysi um breyskleika mannsins – eða ofstækisfullri trú á, að unnt sé að breyta mannlegu eðli – búa til nýjan og betri mann (man nokkur lengur „homo sovieticus“?). Þetta minnir okkur á að kirkjugarðarnir eru fullir af ómissandi fólki. Mannkynsfrelsar- arnir hafa reynst falsspámenn. Þeir hafa ýmsir reynst svo fyrirferðarmiklir á 20stu öldinni að sumir telja réttnefni að öldin sé við þá kennd: Öld falsspámanna. Því að hug- myndir þeirra reyndust ekki bara háskaleg- ar heldur oft á tíðum beinlínis lífshættu- legar. III Tuttugasta öldin kvaddi eins oghún knúði dyra í upphafi: Full affyrirheitum um bjarta framtíð. Hin tvíeina tæknibylting, kennd við tölvu- og líf- tækni, sem er á fleygiferð í kringum okkur, boðar endalaus tækifæri til betra lífs: Frelsi frá fátækt, fáfræði, sjúkdómum og striti. En hverjir munu njóta? Fámennur forréttinda- hópur ríkra jarðarbúa, sem verða stöðugt ríkari? Eða mun meirihluti jarðarbúa, hinn snauði fjöldi, öðlast hlutdeild í framtíðinni? T ÍÐARANDI Í ALDARBYRJUN VÆNTINGAR OG VONBRIGÐI E F T I R J Ó N B A L D V I N H A N N I B A L S S O N

x

Lesbók Morgunblaðsins

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.