Lesbók Morgunblaðsins - 21.04.2001, Side 18

Lesbók Morgunblaðsins - 21.04.2001, Side 18
18 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 21. APRÍL 2001 Þ AÐ er stundum sagt að nútíma- tónlist sé aðeins fyrir þá sem hafa djúpstæðan áhuga á tónlist. Hvort það stenst er annað mál, en ef marka má áhugann á sýn- ingum Covent Garden á óperu Hans Werner Henze frá 1952, Boulevard Solitude, þá er greini- legt að tónlist Henze höfðar ekki til fastagesta óperunnar. Þeir kaupa upp hverja einustu sýn- ingu á verkum tónskálda eins og Verdi, Ross- ini, Puccini og Mozarts nokkrum dögum eftir að miðarnir fara á markað. Þegar kom að frumsýningunni á Boulevard Solitude nú ný- lega höfðu aðeins um þrjátíu prósent miðanna selst og sagt að miðaskrifstofan hefði gripið til ýmissa ráða og tilboða til að koma miðunum út. En eins og ýmsir bentu á er ekki endilega víst að þeir sem hafa áhuga á nútímatónlist hafi augun á Covent Garden. Þar ræður hefðin yf- irleitt ríkjum og miðaverð svo hátt að ungt fólk, sem gæti haft áhuga, hefur tæplega efni á að sækja sýningar í Covent Garden. Þetta þyk- ir ýmsum gremjulegt því árlega nýtur óperan hárra ríkisstyrkja. Það vantaði þó ekki áhugann og hrifningu hjá þeim sem mættu og gagnrýnendur hafa verið óvenju einróma í lofi sínu. Það er líka maklegt því sýningin er einstaklega áferðarfal- leg og tónlistarflutningurinn áhrifamikill. En það eru kannski ekki allir sem fá gæsahúð af hrifningu yfir Henze og tónlist hans. Henze fæddist 1926 og verður 75 ára í sum- ar. Af því tilefni taka tónlistarstofnanir víða um heim Henze á dagskrá á árinu. Það er af nógu að taka því það liggja 200 verk eftir þetta mikilvirka tónskáld. Sýning Covent Garden er framlag konunglegu bresku óperunnar til Henze-ársins. Flóttamaður frá þýska efnahagsundrinu Eins og fleiri af kynslóð Henzes var það ekki fyrr en eftir stríð að hann átti aðgang að þeim hluta þýska menningararfsins sem nasistar dæmdu sem úrkynjaðan eða bönnuðu af öðrum ástæðum. Þetta átti jafnt við um bókmenntir, myndlist og tónlist, svo fyrstu árin eftir stríð voru tími margvíslegra uppgötvana í lífi Henz- es. Henze var tekinn til við tónsmíðar þegar í lok stríðsins og varð fljótt einn af þeim sem lagði línuna í þýsku tónlistarlífi. Hann var tengdur tólftónatónlist Darmstadt-skólans en fór annars sínar eigin leiðir. Mikil afköst á langri ævi spanna allar tegundir tónlistar, jafnt tónlist fyrir söngröddina, og þá allt frá ljóðum til óperu, en einnig hljómsveitarverk, kammertónlist og tónlist fyrir kvikmyndir. Verk fyrir söngrödd voru eitt af því fyrsta sem hann skrifaði og það skýrir kannski af hverju hann kastaði sér út í að semja óperu svo fljótt. Boulevard Solitude var frumsýnd í Hannover í febrúar 1953. Viðbrögðin voru bæði firna jákvæð og mjög neikvæð. Meðal hinna neikvæðu heyrðust orð eins og „óreiða“, „sjálfstortíming“ og „nihilismi“ og allt hljóm- aði þetta eins og bergmál nasistatímans. Henze hafði fram að þessu unnið fyrir sér sem stjórnandi, síðast við ballett í Wiesbaden, og hann hefur reyndar æ síðan fengist við hljómsveitarstjórn en einkum til að stjórna eigin verkum. Um þær mundir, sem Boulevard Solitude var frumsýnd, buðust honum góð kjör hjá útgefanda sínum, svo hann ákvað að axla sín skinn, kveðja Þýskaland fyrir fullt og allt og setjast að á Ítalíu. Listrænt andrúmsloft Þýskalands var hon- um á móti skapi en hann er líka samkynhneigð- ur og áleit auðveldara að fylgja eðli sínu ann- ars staðar en í Þýskalandi. Það er því Ítalía sem hefur verið bakgrunnur að tónlistarsköp- un Henze, nánar tiltekið sveitin í nágrenni Napólí. Tónlist hans þótti fá á sig annan blæ eftir að hann fluttist til Ítalíu og sjálfur segir hann að fegurð sé það sem hann sækist gjarn- an eftir. Henze hefur starfað með mörgum af helstu listamönnum aldarinnar, bæði í hópi skálda, rithöfunda, leikhúss- og tónlistarmanna. Í upp- hafi sjöunda áratugsins starfaði hann með breska skáldinu W.H. Auden. Franski leik- sviðshönnuðurinn Jean-Pierre Ponnelle gerði leiktjöldin að frumuppfærslu Boulevarde Sol- itude, hlaut þar með alþjóðlega athygli og hef- ur síðan oftlega unnið með Henze. Þegar á sjöunda áratugnum var Henze orð- inn eftirsótt tónskáld. Hljómsveitarstjórar eins og Herbert von Karajan og Leonard Bernstein sátu um að fá að frumflytja verk hans. Aldurinn hefur að því er virðist ekki dregið úr afköstunum. Á þessu ári verður frumflutt tíunda sinfónía hans í Luz- ern. Eftir tvö ár verður ný ópera, „L’Upupa – oder der Triumph der Sohnesliebe“ á tónlist- arhátíðinni í Salzburg en það verður jafnframt fyrsta ópera hans við hans eigin texta. Hann hefur hins vegar áður skrifað ljóð og lagsett þau. Síðast en ekki síst hefur hann skrifað sjálfs- ævisögu sína. Einsemdargatan Með Boulevard Solitude sneri Henze sér að yrkisefni sem önnur tónskáld höfðu þegar sinnt. Sagan er byggð á skáldsögu franska rit- höfundarins Abbé Prévost frá 1731 um Manon Lescaut sem bæði Massenet og Puccini höfðu byggt óperur á. Henze fékk þýsku skáldkon- una Grete Weil til að skrifa textann. Weil var Gyðingur og líkt og Henze hafði hún blendnar tilfinningar til Þýskalands, hafði verið landflótta í stríðinu, misst eiginmann í út- rýmingarbúðum nasista en flutti síðan til Þýskalands. Í sögu þeirra Henze og Weil er það ekki gleðikonan Manon sem er aðalpersónan, held- ur stúdentinn og fórnarlamb hennar, Armand. Manon er vera sem vekur girndir karlmanna en getur ekki elskað. Armand er hreinn og beinn, elskar Manon og steypir sjálfum sér í glötun þegar hann uppgötvar eðli hennar. Manon er gerð út af bróður sínum sem lætur hana spila á auðmenn sér til framdráttar. Hinn sjónræni tími í uppfærslu Covent Garden er sjötti áratugurinn, til- urðartími sjálfrar óperunnar. Sviðsmynd, búningar og ljós er ekkert minna en sjónræn upplifun af besta tagi. Sagan hefst á braut- arstöð þar sem Armand sér Manon í fyrsta skiptið og verður ástfang- inn af henni. Í gegnum alla óperuna er komið aftur og aftur að braut- arstöðinni þar sem sama fólkið ark- ar yfir sviðið og nokkrar persónur komast sniðuglega og sterklega til skila. Sterk sjónræn áhrif eiga tví- mælalaust mikinn þátt í að gera flutninginn svo áhrifamikinn. Þeir sem hafa mótað þau eru leikstjór- inn Nikolaus Lehnhoff, leikmynda- hönnuðurinn Tobias Hoheisel, ljósameistarinn Paul Pyant og Denni Sayers sem stjórnar hreyf- ingum. Með það í huga hverju tón- listarunnendur voru vanir á þeim tíma, sem óperan var frumflutt, er auðvelt að gera sér í hugarlund að áhrifin voru mikil, hvort sem fólki líkaði tónlistin eða ekki. Hér er ekki farin leið fyrri óperuskálda að láta hljómsveit og söngvara leika saman. Hljómsveitin leikur iðulega sína laglínu undir stjórn Bernhard Kontarsky, söngvararnir syngja sína. Það gætir ýmissa áhrifa í tón- listinni, jazzhljómar heyrast þar, en einnig tólftónabrögð og andi Strav- insky. Söngvararnir eiga stóran þátt í eftirminnilegri sýningu og virðast falla einstaklega vel að hlutverkum sínum. Sænski tenórinn Pär Lindskog og þýska sópransöngkon- an Alexandra von der Weth fara með hlutverk Armand og Manon af öryggi og innlifun. Bróðir Manon er sunginn af þýska barítóninum Wolfgang Rauch, bandaríski ten- órinn Chris Merritt syngur elskhuga Manon og Graeme Broadbent son hans. Það verður óneitanlega forvitnilegt að heyra næstu óperu Henzes 2003 og þá hvernig Henze hefur þróast sem tónskáld. Boulevard Solitude hljómar að ýmsu leyti svo dæmigerð fyrir sinn tíma. Þótt hún hafi verið framúrstefnulegt verk á sínum tíma hefur tónlist Henzes mótað svo mjög skyn okkar á nútímatónlist, ekki síst með áhrifum á önnur tónskáld, að núorðið hljómar óperan eins og hún gæti ekki verið öðruvísi. SAMTÍMINN TÓNGERÐUR AF HENZE Armand, Pär Lindskog, hnígur niður í sukkveislu og hefur áttað sig á að Manon er ekki öll þar sem hún er séð. Á árinu verður þýska tónskáldið Hans Werner Henze 75 ára. SIGRÚN DAVÍÐSDÓTTIR sá nýja uppsetningu á fyrstu óperu hans, Boulevard Solitude, í Covent Garden og rennir yfir feril Henzes. Bill Cooper/PAL Úrræðaleysi og örþrifaráð: Manon, Alexandra von der Weth, mundar byssunni. Manon, Alexandra von der Weth, lætur sér fátt um finnast um aðdáun sonar elskhuga hennar, Graeme Broadbent.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.