Lesbók Morgunblaðsins - 12.05.2001, Blaðsíða 5

Lesbók Morgunblaðsins - 12.05.2001, Blaðsíða 5
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 12. MAÍ 2001 5 þá hefur skáldsagan allt frá upphafi, hjá Rab- elais og Cervantes, verið svæði óvissu, margra ólíkra radda (eða „samtalshyggju“ svo maður noti hugtak frá Bakhtín), svæði afstæðra „sannleika“, mótmæla (meira og minna á leik- rænan hátt) gegn bókstafstrú og orðræðu sem byggist á valdboði. Núverandi alræði upplýsinganna (og það ber að hafa í huga að þær beinast að því að styðja við hið nýja skipulag heimsins) er meðal þess sem veldur því að afturför hefur átt sér stað eins og ég minntist á hér áðan: sigur ein- hliða, einræðra skilaboða. Þetta er Sýningin: stundin þegar herrar heimsins eru líka herrar þess hvernig hann er sýndur; þar sem hið nýja skipulag heimsins gengur út á það að telja fólki trú um að „heimurinn“ sé sú mynd af heim- inum sem matreidd er ofan í það. Carlos Fuentes hefur skilgreint í einni setningu það sem nú er að gerast, og ég get ekki annað en tekið heils hugar undir orð hans: sprenging upplýsinga, hrun merkingar... Andspænis þessu verður meir en nokkru sinni fyrr að minna á hina gagnrýnu afstöðu skáldsögunn- ar: í henni snýst málið ekki um „boðskipti“, heldur að leysa úr læðingi nýjar og áður óþekkta merkingu; kanna það ósagða í því sem sagt er opinberlega; læða efa og átökum inn í það sem stillir sér upp sem „sönnu“ og „eins- leitu“. Í raun og veru eiga gömlu skáldsagnalexí- urnar þeirra Rabelais, Cervantesar, Diderot og Sade brýnna erindi við okkur nú en nokkru sinni fyrr. Raunar eru þessir menn enn spræk- ari en flestir sem nú eru lifandi. Ef þannig er á málið litið hefur þjóðfélagið hag af því að skáldsagan (þetta svæði óvissu, leiks, ójafnvægis, eins og Kundera hefur marg- oft undirstrikað) breiðist minna og minna út. Því bregst þjóðfélagið við á tvennan hátt: held- ur fólki frá því að lesa, ræðst gegn uppsprettu löngunarinnar til að lesa (það sem er að gerast í skólakerfinu er sérstakt umhugsunarefni í þessu sambandi) og fjölgar á sama tíma ein- hvers konar „skáldsögum“ sem eru ekkert annað en hrein og klár andstæða alvöru skáld- sagna. Skáldsagan sækir efnivið í raunverulega reynslu Blm.: Í bók þinni minnist þú á það að höf- undar nota sjálfsævisögulegt efni (oft hulið, yf- irfært, umskrifað o.s.frv.) í sögum sínum. Hvaða merkingu hefur þessi ruglandi leikur milli höfundar og sögumanns? Scarpetta: Það sem þú nefnir þarna á ein- mitt við fjöldann allan af skáldsögum sem hafa verið að koma út á síðustu árum, og þetta er fyrirbæri sem finna má hjá jafn ólíkum höf- undum og Claude Simon, Danilo Kis, Philip Roth, Alain Robbe-Grillet og Thomas Ber- hard, svo ég nefni þá sem ég hef pælt sér- staklega í, og einnig gætir þessara áhrifa, þótt í minna mæli sé, hjá Juan Goytisolo og Mario Vargas Llosa: þetta felst í því að byggja skáld- skap á sjálfsævisögulegu efni sem er meira og minna dulbúið (en það útheimtir annars ekki endilega fyrstupersónufrásögn: henni er til dæmis aldrei beitt í skáldsögunni L’Accacia eftir Claude Simon). Það er erfitt fyrir mig að segja nákvæmlega til um það hvaða „merking“ felst í þessu: ef til vill er skáldsagan að leita nýrra leiða (og upphaf þess væri þá Leitin hans Prousts) eftir að hafa nýtt sér ýmislegt úr heimi leikhússins (samtölin), ljóðsins, heim- spekinnar og er nú að leita fyrir sér á nýju sviði, það er að segja sækja efnivið í raunveru- lega reynslu. En það er auðvitað mikilvægt að gera skýran greinarmun á þessu formi „skáld- ævisagna“ og hinum klassísku minningum, játningum, dagbókum og sjálfsævisögum: þótt endanleg niðurstaða kunni að virðast svipuð er tilgangurinn gerólíkur og útheimtir gerólíkan leshátt. Játningar, minningar, sjálfsævisögur og þess háttar þjóna þeim tilgangi að láta okk- ur í té upplýsingar um höfundinn sem eiga að vera réttar. Skáldsögur sem byggjast á sjálfs- ævisögulegu efni lúta sama lögmáli og allar aðrar skáldsögur: kanna möguleika mannlegr- ar reynslu, varpa ljósi á áður óþekktar hliðar þess. Þegar maður les síðustu þrjár miklu skáldsögur Céline er þar auðvitað ekki til þess að finna einhverjar ekta upplýsingar um líf Céline... Við skulum líka hafa það hugfast að Proust gengur í upphafi út frá ósjálfráðu minni, en hann þarf síðan þúsundir blaðsíðna af skáldsögulegri snilld til að komast loks að þeirri grundvallaruppgötvun sem hann gerir í síðasta hlutanum, Tíminn fundinn aftur. Hon- um hefði auðvitað aldrei tekist þetta ef hann hefði látið sér nægja að „segja ævisögu sína“. Ástæðan fyrir því að ég legg sérstaka áherslu á að menn geri skýran greinarmun á þessu er sú að því er alls ekki að heilsa í öllum þeim tonnum af minningum í skáldsagnaformi, játningum í skáldsagnaformi, dagbókum í skáldsagnaformi (eða ekki) sem hellt er yfir okkur á hverju einasta ári. Bókum sem eru rit- ræpa eða sjálfupphafning fremur en skáld- skapur. Andspænis því langar mann að minna á að Leiris skrifaði um „líf“ sitt til þess eins að efast kerfisbundið um „einlægnina“, það „ekta“, „tjáninguna“ (vitandi sem er að sjálf okkar er líka samsett úr því sem er ómeðvitað og tungumálinu, sem þjónar líka öðrum til- gangi en að „tjá“ sig). Það er merkilegt að sjálfur Malraux, sem var ekkert að liggja á hlutunum, skyldi samt hafa ímugust á „öllum þessum smáleyndarmálum“ í sjálfsævisögum sem eru til þess eins að draga upp glansmynd- ir, og í Andminningum sínum leyfir hann sér ekki að tala um sjálfan sig, heldur einungis um þau stórmenni sem hann umgekkst og þau sögulegu tímamót sem hann varð vitni að. Það er líka merkilegt að Barthes hafi undir það síð- asta skrifað stórkostlega nákvæman texta, sem menn ættu að lesa aftur og aftur. Þar veg- ur hann og metur annars vegar ástæðurnar sem hann hafði til að skrifa dagbók og hins vegar hugmyndir hans um bókmenntir sem gengu þvert gegn því að hann gerði einmitt það. Eina athugasemdin sem mann langar að gera við þá sem aðhyllast það að skáldsagan sé játningaform og þá sem veita ritræpu sinni út- rás í dagbókum er eimitt sú að minna þá á að við lifum á tímum efasemda og það er síður en svo auðvelt að horfa framhjá því, enda taka all- ir þeir „skáldævisögulegu“ höfundar sem ég minntist á þá staðreynd með í reikninginn. Enda hafa hvorki Claude Simon, Danilo Kis, Philip Roth, Alain Robbe-Grillet né Thomas Bernhard, svo ég víki aftur að þeim, látið sér detta í hug að það mikilvægasta við það að skrifa skáldsögu sé að „tjá sig“... „Innra líf“ og líkamleg reynsla Blm.: Telur þú að skáldsagan geti hjálpað okkur að byggja upp raunverulegt innra líf? Hvernig? Scarpetta: Hún getur í það minnsta hjálpað okkur að þróa ímyndunarafl sem er ekki eins forritað, ekki alveg eins sjálfgefið, aðeins fjöl- breyttara. Staðreyndin er nefnilega sú að enn hefur ekki verið kannað almennilega hvaða áhrif skáldsögur hafa á lesendur. Skáldsagan höfðar vitaskuld til vitsmuna okkar, minnis, glögg- skyggni, en einnig til ímyndunarafls okkar, dulvitundar, hugaróra og getur mótað þetta allt. Mér finnst nokkuð erfitt að tala um þetta allt á hlutbundinn hátt – maður getur í mesta lagi sagt frá persónulegri reynslu sinni. Ég er hins vegar viss um að ég væri annar en ég er ef ég hefði ekki fjórtán til sextán ára uppgötvað (og drukkið í mig) skáldsögur Rabelais, Sade og Laclos. Ég gæti líka minnst á þau gríð- arlegu áhrif sem það hafði á mig seinna að lesa Proust, Joyce, Faulkner, Musil. Þetta verð- skuldaði að staldra lengur við það, fara ofan í saumana á því hvaða hugsanaferli (meðvituð og ómeðvituð) fara af stað við lestur skáld- sagna og á hvaða hátt þetta verður til þess að móta ekki bara „innra líf“ heldur einnig hina mjög svo líkamlegu reynslu manns... Ég kem kerfisbundið inn á þetta í Ánægjunnar vegna, einkum varðandi lestur minn á Sade... Mér virðist í það minnsta að lestur skáldsagna (sannra skáldsagna) geti líka hjálpað okkur til að skilja heiminn betur. Koma auga á hina hlið- ina á leikmyndinni. Vera ekki algerlega pikk- föst í þjóðfélagsleikritinu. Losa okkur við hvers konar ljóðræna blekkingu. Ná að öðlast lágmarks guðleysi í kynlífinu. Í stuttu máli sagt, þá er skáldsagan eins og stöðug kennslu- stund í að vera efins, vökull, virðingarlaus, trú- laus. Ég hef bókstaflega ekki hugmynd um hvar þetta endar Blm.: Hvaða áríðandi skilaboð hefur þú fram að færa í næstu skáldsögu þinni? Hvað er í húfi þar? Scarpetta: Án þess að fara að tala um eitt- hvað áríðandi, þá gæti ég ekki skrifað skáld- sögu nema af brýnni nauðsyn. Mér finnst ekk- ert eins bjánalegt og tilhugsunin um það að senda reglulega frá sér skáldsögu annað hvert ár, eins og tré sem ber ávöxt. Að mínum dómi er sú ákvörðun að skrifa skáldsögu ekki rétt- lætanleg nema maður sé sannfærður (eftir langa og ítarlega umhugsun) um að maður sé að fara inn á áður ókannaðar slóðir og að ekki sé hægt að kanna þær slóðir nema með því að skrifa skáldsögu. En þetta ferli (sem ég er að fara inn í nú þegar við tölum saman) felst ekki í því að ég hafi fyrirfram einhver áríðandi skila- boð fram að færa. Að skrifa skáldsögu þjónar engum tilgangi öðrum en þeim að auðvelda mér að ráða í einhverja tiltekna ráðgátu: svara kannski spurningu sem ekki er hægt að svara... Það vill svo til að ég hef lengi verið heillaður af manneskju sem var eitt sinn til í raun og veru, Marie-Madeleine Guimard: stór- kostlegur dansari (og hirðmær) sem var uppi á síðari hluta 18. aldar. Hún varð gríðarlega þekkt á blómaskeiði barokkdansins (fór á kost- um í ballettum Rameaus) og horfði síðan upp á það hvernig listin sem hún hafði helgað líf sitt veik fyrir nýju formi, því nýklassíska, því sem núverandi ballett byggist á – svolítið eins og list Fragonards (sem málaði tvö frábær port- rett af henni) vék fyrir list Davids. Hins vegar hélt Marie-Madeleina Guimard fast í sitt gamla og úthrópaða listform. Hún dró sig í hlé (árið 1789!) – en hún hélt áfram að „dansa upp á gamla mátann“ í einkasamkvæmum, nánast leynilega fyrir æ færri áhorfendur – hefðarfólk fyrrum konungdæmis sem hittist heima hjá henni, í litla einkaleikhúsinu hennar, en fyrir utan geisaði byltingin í allri sinni grimmd... Ég varð sem sagt heillaður af þessari örlagasögu – dálítið eins og ég heillast af sumum listamönn- um sem rísa hæst þegar þeir ganga gegn ríkjandi tíðaranda og þar má nefna menn eins og Bach þegar hann samdi Tónlistarfórnina eða List fúgunnar allt til Picassos á síðasta skeiðinu (ég nefni það svona í leiðinni að í þess- um tilfellum mætti tala um barokkþrjósku á tíma þegar barokkinu er hafnað)... Ég hef lesið heil ósköp um hana Guimard, en ekkert af því hefur varpað ljósi á þau innri átök sem hún hlýtur að hafa átt í, og þann kraft sem hún hef- ur þurft til að rífa sig burt úr samtíma sínum, á þessa undarlegu hetjudáð nautnarinnar... Smátt og smátt óx með mér sú hugmynd að skrifa um hana skáldsögu í þeirri von að skilja þetta betur. Og fljótlega kviknaði síðan sú hugmynd að blanda lífi hennar saman við líf tveggja ann- arra dansara nú á tímum sem líka standa frammi fyrir því að list þeirra er deyjandi. Semsagt, nútímakona sem er dansahöfundur sem lifði uppsveiflu í nútímadansinum á níunda áratugnum, tók þátt í því þegar hann var haf- inn til vegs og virðingar og öðlaðist ákveðið sjálfstæði, en sætir nú æ meiri þýstingi frá þjóðfélaginu um að verða hagnýtur. Síðan er þarna sígaunakona, flamencodansari, sem líka verður fórnarlamb þrýstings í samtímanum og verður að sveigja þetta eldforna listform undir lögmál sýningarinnar... Svona var það, ég hafði á tilfinningunni að með því að nota þessar þrjár sögur tækist mér að fá þær til að varpa ljósi hverjar á aðra, enda er það einn af kost- unum við að skrifa skáldsögu: leiða saman í sömu bókinni persónur eða jafnvel tímabil sem aldrei hefði verið hægt að ná saman í raun og veru... Þannig lítur þetta út með þessa skáld- sögu og sennilega er þetta ekki langt frá lýs- ingu á núverandi aðstöðu skáldsagnahöfunda sem ég kom með áðan: skilja það sem gerist þegar maður þrjóskast við að stunda listgrein í heimi sem hafnar gildismati hennar og kannski skilja þessa listgrein þegar hún á að hafa lagt upp laupana... Ég er viss um að engin ritgerð myndi ná að gera þetta skiljanlegt. Ég er kom- inn þangað. Persónurnar eru komnar, þær þvæla mér inn í hin ýmsu skúmaskot, á ólíkleg- ustu staði. Ég hef bókstaflega ekki hugmynd hvar þetta endar. Friðrik Rafnsson þýddi. Grein þessi birtist í franska tímaritinu Le Trait í árslok 2000 og er birt hér með leyfi höf- undarins. Guy Scarpetta mun halda tvo fyr- irlestra hér á landi. Fyrri fyrirlesturinn heldur hann í Hugvísindahúsi Háskóla Íslands, Odda, mánudaginn 14. maí klukkan 17 og mun þar fjalla um Francois Rabelais og verk hans, Gargantúi og Pantagrúll, sem kom út í ís- lenskri þýðingu Erlings E. Halldórssonar fyrir nokkrum árum. Síðari fyrirlesturinn heldur hann á þriðjudagskvöld klukkan 20 í Alliance francaise, Þekkingarhúsinu við Hringbraut, og þar mun hann fjalla um strauma og stefnur í skáldsagnalist samtímans, einkum út frá skáldsögum Milans Kundera, en nokkrar þeirra hafa komið út á íslensku. Fyrirlestr- arnir verða báðir fluttir á frönsku, en verða túlkaðir á íslensku jafnóðum og eru öllum opn- ir. „sprenging upplýs- inga, hrun merking- ar... Andspænis þessu verður meir en nokkru sinni fyrr að minna á hina gagn- rýnu afstöðu skáld- sögunnar: í henni snýst málið ekki um „boðskipti“, heldur að leysa úr læðingi nýja og áður óþekkta merkingu;“ Denis Diderot Ernest Hemingway Milan Kundera Salman Rushdie

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.