Lesbók Morgunblaðsins - 12.05.2001, Blaðsíða 6

Lesbók Morgunblaðsins - 12.05.2001, Blaðsíða 6
6 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 12. MAÍ 2001 Á HAUSTIN kemur fé af fjalli og í slóðir þess stóð- in og það er farið með það allt í réttir og allt er dregið í dilka og síðan rekið heim. Það er mynd- rænt að sjá magn og því koma margir að sjá. Það er líka svona „stemmning“ í réttum og gam- an að sjá stuð og það er gaman að mynda það og geyma. Ég hef komið á þannig staði. Nú síðast í haust var ég staddur í stóð- réttum Hóla- og Viðvíkurhrepps í Laufskála- rétt í Hjaltadal því fólkið mitt í Skagafirði á þar upprekstur. Það er gaman að ganga um almenninginn og sjá liðið, langþekkta svipi, og það er gaman að atast í skepnum. En svo snýr maður sér við og starir beint upp í gin- ið á myndatökuteymi sem paufast um í drullunni. Kraftgallaklæddur tökumaður með þennan svarta linsukross á öxlinni að leika helgileikrit – sjö stoppistöðvar L.A.- mannsins á leiðinni til Golgata – og með honum einhver Símon frá Kýrene sem gegn- ir hlutverki hljóðmanns, þessa sem fær alltaf að halda á drulluga ullarsokknum á stöng- inni. Kannski á sokkurinn þó ekki að vera tákn um hjálpsemi almúgans við linsufrels- arann í bransagallanum, heldur einmitt þvert á móti að minna á edikssvampinn sem rómversku bullurnar réttu frelsaranum eða þá spjótið sem opnaði síðusárið. Alltént otaði hann sokknum sínum inn á milli kallanna í Hjaltadalnum og niðri í Viðvíkursveitinni eins aumingjalega grimmúðlegur á svipinn og maður getur ímyndað sér að rómversku varðliðarnir í Júdeu hafi verið. Þessi tilfinn- ing að vera í senn nýlenduherra og um leið aumastur nýlenduherranna sem hlýtur að rísa og hníga í brjósti manns líkt og lungun tvö. Og hér var líka nýlenduherra á ferð. Það var verið að leggja undir sig fólk og störf þess til að búa eitthvað til sem þetta fólk myndi sjálft aldrei hagnast á né kæmi því og þess störfum við. Það var verið að búa til enn eina „heimildarmyndina“ sem RÚV virðist neytt til af einhverjum bófa- gengjum kvikmyndagerðarmanna til að kaupa og sýna á besta útsendingartíma. Svona mynd um „fegurð og reisn íslenska hestsins“ eða „hina glaðværu réttarstemmn- ingu“ og þar yrði kannski tekið viðtal við einhvern spekinginn sem myndi seilast í inn- stæður sínar á hlaupareikningi klisjubank- ans og segja: „Réttirnar eru hið íslenska karnival.“ Laufskálarétt hefur reyndar löngum verið mikið kjörland hinnar myndrænu nýlendu- stefnu. Um daginn leit ég aftur í bók sem hefur að geyma ansi skemmtilegar myndir sem teknar eru um 1980, bókina Hestar eftir Sigurgeir Sigurjónsson. Það slær mann að sjá að það er engin önnur linsa í augsýn. Sigurgeir er eini ljósmyndarinn á staðnum. Hann nær ennþá myndum af breiðum af fextum hausum og merarbökum þar sem bændurnir standa stakir í hópnum, allir auð- þekkjanlegir. Það eru varla nokkrir áhorf- endur, rétt einn og einn krakki á steyptum vegg en annars bara hross. Ég held að þessi fimm kvikmyndateymi sem tróðu hvert annars tær þarna í Hjalta- dalnum síðasta haust, ýmist með ullarsokka á priki eða stafrænar smámyndavélar nett við auga, hljóti að öfunda Sigurgeir (og reyndar fleiri ljósmyndara, til dæmis nokkra Þjóðverja sem tóku þarna mjög fínar myndir í lok áttunda áratugarins) af sínum sögulegu aðstæðum. Það er alltaf leiðinlegt að koma of seint. Og á meðan Sigurgeir og hans nót- ar sem voru að mynda fyrir um 20 árum gátu vænst þess að mæta einskonar vina- legri feimni og vinsamlegri forvitni heyrði maður nú glöggt alls staðar pirringinn yfir krossberum hins myndræna landnáms. Mað- ur heyrði fólk impra á því að það væri orðið feimið við að „láta allt flakka“ því það vissi aldrei hvar skítugur sokkurinn væri að sveima. Myndavélar breyta hegðun fólks. Það er bara þannig. Maður fer ósjálfrátt að leika, fína festulegri drætti, reyna að sýna hetjuútgáfuna af sjálfum sér. Það er ekkert við þessu að gera. Myndavélar eru einfald- lega hégómavaki. Og þegar við riðum loksins heim með stóðið eltu þeir okkur, hentu þrí- fótunum upp á „góðum tökustöðum“ og film- uðu og spurðu einhverra bjánaspurninga en – spurðu aldrei neinn leyfis. Þegar maður stelur biður maður heldur ekki um leyfi. Ég býst við að í réttarsal hefði fengist úr því skorið að stóðmerarnar væru „opinberar persónur“ og því mætti smella af þeim mynd. Hefði þetta verið í Bandaríkjunum hefðum við einfaldlega kært og haft allar bransa- úlpurnar af tökuliðinu. Eða þá að upprekstr- arfélag Hóla- og Viðvíkurhrepps hefði samið við einn aðila um einkaréttinn á að fá að mynda þetta hráefni sem er svo auglóslega eftirsótt að einhver hlýtur að vera tilbúinn til að greiða fyrir aðgang að því. Og er þetta ekki hugmynd fyrir þá Hjaltdælinga og Við- víkursveitarmenn? Semja um einkarétt á myndatökum og bjóða réttinn út á Netinu og ráða hirðljósmyndara og búa til póstkort og láta gera sæta bók með „réttarmyndum fyrr og nú“ og láta gera Laufskála-lykla- kippur og selja enn fleiri ferðamönnum að- gang að rekstrinum en nú (það er langt síð- an það byrjaði), sækja um URL-ið „laufskalar.com“ og koma upp heimasíðu og hafa svo kannski sumarréttir um ferða- mannatímann, og, að lokum, hafa stóð ein- hvers staðar nálægt sem reka mætti inn í al- menninginn allt sumarið og fá eitthvert lið í sumarvinnu til að „leika réttir“ og vera með „karnivalstemmningu“. Það gæti lært alla skagfirsku söngstandardana og tekið lagið og fengið einhvern sniðugan ljósmyndara til að vinna við að taka myndir af ferðamönnum sem fá að standa inni í sönghópnum og „mæma með“. Sönghópurinn yrði síðan dressaður upp af styrktaraðila sem sérlegur stílisti upprekstrarfélagsins hefði séð um að hafa í kórréttum „leit seventís“-stíl með nettu „crossover-touchi“ svona til að undir- strika muninn á fyrir og eftir flísefnin. Þetta er ekkert grín. Þetta er sama upp- skriftin og hvaða ferðamálafulltrúi sem er myndi gefa hvaða byggð sem er: Breytið ykkur og störfum ykkar í sjóv. Búið til regndansa og eldhátíðir. Setjið indíánafjaðr- ir á hausinn á ykkur og pá-váið fram á rauða nótt og bullið um krafta jarðarinnar, álfana sem dansa á stéttinni hjá ykkur og huldu- fólkið sem þið samrekkið á sérstökum töfra- stundum. Grafið upp draslið sem kynslóð- irnar á undan ykkur vildu fyrir alla muni farga og er því bara eftir hjá þeim sem voru of latir eða of sérsinna til að hafa rænu á að koma því fyrir kattarnef. Stillið því upp í ný- uppgerðum húsum sem allt í einu verða „söguleg“ af því að þau voru byggð árið 1910 og hlaðið upp torfkofana sem feður ykkar og afar sendu jarðýturnar á, framfaramenn sem vildu ekki kúldrast undir lágreistum þökum. Og ef þið búið enn með fé, kallið það þá ekki þessu nafni, heldur segist stunda „lífrænan landbúnað í nánu sambýli við frumkrafta náttúrunnar“ og verndið „þá sögulegu arfleifð sem býr í verkháttum fyrri tíma“ því þeir eru „auðlegð í sjálfu sér“. Og þegar þetta klikkar allt vegna þess að eng- inn kemur má alltaf ráða krakka í þetta. Það sem einu sinni er orðið að sjóvi er bara sjóv, þá er nokkurn veginn sama hver leikur í helstu aukahlutverkum. Ásælni og yfirtaka eru ekki bara verk vondra kapítalista sem vaða yfir náttúru- perlur í óbyggðum, regnskóga og ættbálka í þriðja heiminum í sókn eftir hráefnum, orku og fjárfestingarkostum til að viðhalda skipti- gildi auðmagnsins. Sama mynstur er að verki í hinni myndrænu nýlendustefnu kvik- myndagerðarinnar og fjölmiðlanna sem eru þrátt fyrir sína áru bara ósköp plebbaleg iðnstarfsemi sem þarf á því sama að halda og önnur iðnstarfsemi til að búa til sína vöru: vinnukrafti, hráefni og mörkuðum. Það stórkostlega í þessu máli er hinsvegar að hráefnið og markaðurinn er eitt og það sama. Fólkið sem er notað sem hráefni vör- unnar er líka neytendur hennar og – það má alltaf framleiða nýja vöru úr vörunni, endur- framleiða hana. Þetta er það sem er svo brilljant við fjölmiðlaiðnaðinn. En ég merki það af hiki hráefnisins í Laufskálaréttum að enn sem komið er líta bændur á sig sem bændur en ekki ferðamannasjóv og ásælnin í að búa til vöru úr vinnu þeirra (réttirnar eru jú hluti af vinnu bænda) fer æ meira í taug- arnar á fólki. Til að stemma stigu við henni er hægt að setja löngu tímabær lög um rétt fólks til að hlutast til um myndatökur af sér eða þá að „leika á fjölmiðlana“ eins og stundum er sagt fólki til hróss. Til þess þarf maður að vera leikari að upplagi eða vegna þjálfunar – eða þá bara kjarkaður dóni. Því bíð ég spenntur eftir þeim degi þegar unga kynslóðin í Hjaltadal ullar í hljóðsokkinn og hrækir í linsuna. Það verður annaðhvort það eða „rettir.com“. T ÍÐARANDI Í ALDARBYRJUN Höfundur er útgáfustjóri bókaútgáfunnar Forlagsins. Morgunblaðið/Kristinn Ingvarsson„Það er ekkert við þessu að gera.“ HRÁEFNI E F T I R K R I S T J Á N B . J Ó N A S S O N

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.