Lesbók Morgunblaðsins - 12.05.2001, Blaðsíða 16

Lesbók Morgunblaðsins - 12.05.2001, Blaðsíða 16
16 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 12. MAÍ 2001 K IRKJULISTAVIKA stendur nú yfir í Akureyrarkirkju. Á morgun kl. 16 verða hátíðar- tónleikar í Íþróttaskemm- unni, þar sem fram koma Sin- fóníuhljómsveit Norðurlands, Kór Akureyrarkirkju, Kór Glerárkirkju, Karlakór Akur- eyrar-Geysir og Samkór Svarfdæla, ásamt ein- söngvurunum Jóhanni Friðgeir Valdimarssyni tenór og Michael Jóni Clarke baríton. Stjórn- andi á tónleikunum verður Guðmundur Óli Gunnarsson. Á efnisskrá tónleikanna eru Svíta nr. 20a úr Svanavatninu eftir Pjotr Tsjaíkovs- kíj og Messa di Gloria eftir Giacomo Puccini. Óperutónmál, en ekki týpískur Puccini Guðmundur Óli Gunnarsson hljómsveitar- stjóri segir að Messa di Gloria sé fullgild messa, með hefðbundnum messuþáttum. „Glo- ríukaflinn er stór og þaðan fær verkið nafn sitt. Þetta er ansi mikið verk, tekur um 45 mínútur í flutningi.“ Guðmundur Óli segir verk Puccinis ekki jafnast á við annað andlegt verk þekkts óperuskálds, Requiem Verdis, en að mörgu leyti sé það þó í sama flokki. „Puccini var svo ungur þegar hann samdi þetta, og kannski er það ástæðan fyrir því að það hefur ekki verið flutt oftar. Reyndar samdi Puccini talsvert af kirkjulegri tónlist áður en hann sneri sér að óperunni. Þarna heyrir maður tónmál óper- unnar, en þó er þetta ekki týpískur Puccini eins og fólk þekkir úr La bohème og Tour- andot. Hann líkist Verdi meira þarna, sem er ekkert óeðlilegt.“ Guðmundur Óli segir messu Puccinis skemmtilegt og grípandi verk og mjög sterkt. „Þetta er ekki erfitt verk og ekki tyrfið áheyrnar og kórfólkið hefur mjög gaman af því að syngja það. Þarna er mikið af grípandi lag- línum og kaflar með einradda kórum með fal- legum laglínum. Einsöngvararnir eiga líka mjög fallegar einsöngslínur, og verkið endar á mjög fallegum tvísöng tenórs og barítons í Agnus dei-ættinum.“ Guðmundur Óli kveðst ekki hafa þekkt verk- ið áður og hafði ekki heyrt það flutt. „Ég er bara hissa á að það skuli ekki hafa verið flutt hér áður, það hefur alla burði til að verða vin- sælt.“ Alþekktar melódíur og dansar Verkin tvö á tónleikunum eru samin á sama tíma, eða með árs millibili. „Tsjaíkovskíj gerði tvær svítur úr Svanavatninu, þessi sem við flytjum er sjaldnar flutt. Svíturnar eru að mestu leyti eins, nema lokakaflinn í þessari er með nokkrum dönsum, masúrka, napólídansi og ungverskum dansi. Annars eru þetta al- þekktar melódíur.“ Að sögn Guðmundar Óla gengur bara nokk- uð vel að manna flutning svona stórra verka á Akureyri. Kjarni Sinfóníuhljómsveitar Norð- urlands er 30 manna hópur, og svo er hóað í tónlistarkennara annars staðar af landsbyggð- inni. „Við eigum líka lítinn hóp fyrir sunnan sem við teljum okkar fólk, – við reynum fyrst og fremst að nýta okkur hljóðfæraleikara sem eru ekki í fullu starfi við að spila í hljómsveit og fólk sem er þá héðan eða hefur starfað hér fyr- ir norðan.“ Guðmundur Óli segir mikinn áhuga hjá kór- unum á að flytja svona stór verk. Kórarnir æfa hver í sínu lagi og svo eru skipulagðar sam- æfingar með öllum kórunum. „Það er mjög skemmtilegt að taka fyrir svona stór verk og allt önnur vídd fyrir kórfólkið að taka þátt í svona uppfærslum.“ Fyrir tveimur árum ákvað Akureyrarbær að selja Íþrótta- skemmuna, sem hefur verið mikið notuð til tónlistar- flutnings af þessu tagi. Að sögn Guð- mundar Óla var sala hússins skilyrt því að tónlistar- flutningur ætti þar inni tvö ár í viðbót. Lok þess tíma eru nú runnin upp, og eru þetta síðustu tónleikarnir sem haldnir eru í hús- inu. „Við munum halda áfram sama harki og áður þótt Íþrótta- skemman fari undir annað,“ segir Guðmundur Óli. „Við höfum oft sungið í kirkjunum hér, en þrátt fyrir velvilja er plássið bara ekki nógu mikið. Svo höfum verið í Íþróttaskemmunni, þegar við höfum þurft stærra pláss en kirkj- urnar leyfa. Í þriðja lagi, þegar við höfum verið með enn stærri tónleika, höfum við fengið inni í Íþróttahöllinni og KA-heimilinu, en í þeim hús- um er hljómburður ekki nógu góður. Þar er nóg pláss, en restin byggist á því að skapa hljóm með hljóðkerfi, og það kostar hálfa millj- ón á konsert og lýsing annað eins.“ Guðmund- ur Óli segir að Íþróttaskemman sé þrátt fyrir allt hljóm- besta húsið. „Bæjaryfirvöld ætluðu að finna lausn á húsnæðismálum tónlistarinnar á þess- um tveimur árum, eftir sölu Íþróttaskemm- unnar, en það hefur ekkert orðið úr því. Í milli- tíðinni boðuðu ráðherrar byggingu menningarhúsa, og Akureyrarbær tók fljótt við sér. Farið var í undirbúningsvinnu og þarfagreiningu, og lagðar voru fram frumhugmundir um það hvað ætti að vera í svona húsi. Nú er búið að leggja fram áætlun um hús sem kostar 1,6 milljarða. Bæj- aryfirvöld segja að nú sé beðið eftir svari frá ríkinu, og talað var um að von væri á svari um mitt síðasta ár, – en ekkert svar er komið og nú bíðum við bara og von- um,“ segir Guðmundur Óli. „Meðan þetta mál hefur verið í pípunum, hafa menn haldið að sér höndum um aðrar lausnir. Gallinn er þó auðvit- að sá að þó að ákvarðanir verði teknar í dag, verður hús ekki risið fyrr en eftir nokkur ár, og engin lausn í sjónmáli fyrir stærri tónleika. En vonandi verður alvara úr byggingu menning- arhússins, svo starfsemi hljómsveitarinnar geti haldið áfram að blómstra,“ segir hljóm- sveitarstjórinn Guðmundur Óli Gunnarsson. Áhrif frá Verdi Jóhann Friðgeir Valdimarsson tenórsöngv- ari syngur annað einsöngshlutverkið í messu Puccinis. Hann tekur undir orð hljómsveitar- stjórans um að messan sé mikið verk, og full- yrðir að um frumflutning hennar á Íslandi sé að ræða. „Puccini semur þetta ungur, um tvítugt, og maður heyrir vel áhrif frá Verdi. Hann samdi tvö smærri verk, Mottetto og Credo, árið 1878, en sameinaði þau sjálfur í eitt verk, og flutti sjálfur 12. júlí 1880 á Ítalíu. Verkið hefur vænt- anlega verið flutt oft á Ítalíu, en það var ekki fyrr en 1951 sem það var flutt undir nafninu Messa di gloria og fyrsta upptaka á því var gerð ári síðar. Í dag eru til ein eða tvær upp- tökur með Carreras í tenorhlutverkinu. Ten- órinn er með stóra aríu í Gloriuþættinum, þetta er stór aría, ekta Puccini.“ Aðspurður um hvort ekki sé erfitt fyrir ten- or úr Kópavoginum að syngja fyrir norðan, í landi tenóranna, segir Jóhann Friðgeir það ekkert mál, enda sé hann ættaður að norðan. „Það er gaman að koma norður, og fólk þar er mjög söngelskt. Afi minn var Jóhann Frið- geir Steinsson, trésmiður á Akureyri og amma, Sigríður Guðbjörg Jóhannsdóttir; þau bjuggu á Akureyri alla sína tíð. Amma var fædd á Siglunesi og ættuð frá Ólafsfirði, en afi var frá Kálfsskinni í Eyjafirði. Afi var mjög söngelskur; spilaði á orgel, og var mikill mús- íkant og móðir mín, Gígja Jóhannsdóttir fiðlu- leikari, hefur músíkina vafalaust frá honum. Ég vona bara að Akureyringar taki mér vel,“ segir Jóhann Friðgeir og hlær. Jóhann Friðgeir er í söngnámi á Ítalíu en hefur komið heim til að syngja, eins og hann hefur haft tækifæri til. Fjölskylda hans flutti heim í vetur. La traviata, geisladiskur og popp Hvað framtíðina varðar þá segist hann standa á tímamótum núna, hlutirnir gangi hægt fyrir sig á Ítalíu, og óráðið hvað verði með næsta vetur. „Ég fór í prufusöng í Hol- landi, og þeir gripu mig glóðvolgan. Ég fór út í febrúar og æfði þar upp La traviata með hljómsveitarstjóra, og þeir ætla að nota mig eitthvað á næsta ári. Ég prufusöng líka fyrir Íslensku óperuna, en það hefur ekkert komið út úr því.“ Jóhann Friðgeir er að skipuleggja einsöngstónleika í Háskólabíói síðar í sumar, þar sem hann ætlar að syngja aríur og íslensk sönglög, og hann syngur með Guðnýju Guð- mundsdóttur og Gunnari Kvaran á Björtum sumarnóttum í Hveragerði. Sitthvað fleira er Jóhann Friðgeir með á prjónunum, þar á með- al geisladisk með íslenskum og ítölskum söng- lögum og aríum. Hann hefur líka verið að syngja með poppurum, og verið með dagskrá með Stefáni Hilmarssyni söngvara og Jóhönnu Vigdísi Arnardóttur leikkonu. „Þetta er virki- lega skemmtilegt „gigg“. Ég syng aríur, en svo syngjum við Stebbi saman eitt létt klassískt dúó, sem er alveg meiri háttar gaman því Stebbi er svo músíkalskur og fljótur að læra. Við tókum meira að segja saman Nessun dorma. Það tók hann einn dag að læra það, og þá var eins og hann hefði aldrei gert annað. Það er rosalega gaman að vinna með svona fólki, sem hefur svona gott tóneyra.“ Jóhann Friðgeir segir múrana í tónlistinni vera að lækka, þótt vissulega sé þetta stundum erfitt, og fólk hafi skoðanir á því hvað klassískur söngvari eigi að gera og hvað ekki. Sinfóníuhljómsveit alls Norðurlands Að sögn Guðmundar Óla Gunnarssonar fer starfsemi Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands ört vaxandi. Í dag spilar hljómsveitin ekki að- eins á Akureyri, þótt hún æfi þar og komi oft- ast fram þar. Hljómsveitin er þegar í samstarfi við Dalvík og Húsavík um reglulegt tónleika- hald, og framundan er einnig samstarf við Skagfirðinga um tónleika. Hugmyndir eru uppi um að fara enn víðar en það, en hverjar þær eru leiðir tíminn einn í ljós. HÁTÍÐARTÓNLEIKAR KIRKJULISTAVIKU Á AKUREYRI Á MORGUN Ljósmynd/Finnbogi Marinósson Samæfing fjögurra kóra fyrir hátíðartónleika Kirkjulistaviku á morgun. Fremst á myndinni er Daníel Þorsteinsson æfingapíanisti kóranna og við stjórnvölinn er Guðmundur Óli Gunnarsson. MESSA PUCCIN- IS ER SKEMMTI- LEGT OG GRÍP- ANDI VERK Sinfóníuhljómsveit Norðurlands, Kór Akureyrarkirkju, Kór Glerárkirkju, Karlakór Akureyrar-Geysir og Sam- kór Svarfdæla ásamt einsöngvurunum Jóhanni Frið- geiri Valdimarssyni og Michael Jóni Clarke standa fyrir Íslandsfrumflutningi á Messu eftir Puccini. BERG- ÞÓRA JÓNSDÓTTIR ræddi við stjórnandann, Guð- mund Óla Gunnarsson, og Jóhann Friðgeir. Guðmundur Óli Gunnarsson Jóhann Friðgeir Valdimarsson begga@mbl.is

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.