Lesbók Morgunblaðsins - 12.05.2001, Blaðsíða 7

Lesbók Morgunblaðsins - 12.05.2001, Blaðsíða 7
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 12. MAÍ 2001 7 Í LESBÓK Morgunblaðsins 28. apríl sl. birtist grein eftir Hallfríði Þórarins- dóttur mannfræðing, „Trúin á hrein- leikann og fjölmenningarlegt lýð- ræði“. Meginboðskapur greinarinnar er sá að sú málstefna, sem hefur verið framfylgt á Íslandi um langa hríð og höfundur kallar „hreintungustefnu“, stangist svo gróflega á við nútímalega lýð- ræðishugsjón að þetta tvennt geti ekki farið saman. Meginatriði í þessari hugsjón telur Hallfríður vera að menn viðurkenni og virði „menningarlegan margbreytileika innan þjóðríkisins, og mismunandi málafbrigði þess tungumáls, sem talað er innan ríkisins“. Hnattvæðingin, sem birtist m.a. í búsetu æ fleira fólks af erlendum uppruna hér á landi, kalli því á að horfið verði frá hefðbundinni málstefnu; það sé forsenda þess að „þessi margleiti hópur fái líka aðgang að pólitísku valdi og efnahagslegum resúrsum samfélags- ins til jafns við okkur hin“. Þar sem margt í röksemdafærslu Hallfríð- ar gefur tilefni til umræðu og athugasemda langar mig að deila nokkrum athugasemdum með lesendum Lesbókar. Þær varða einkum (1) tengsl málstefnu og þjóðernishyggju í sögulegri þróun og (2) þjóðfélagslegar for- sendur málstjórnunar eða málpólitíkur. Þjóð og ríki Hallfríður gengur út frá þeirri grunnhug- mynd að „þjóðin … þjóðarímynd og þjóð- tunga … [séu] ný söguleg fyrirbæri“ – fylgi- fiskar þjóðríkisins sem hafi ekki orðið til fyrr en með frönsku byltingunni í lok 18. aldar. Þegnar ríkisins hafi þá orðið þjóð og um svip- að leyti hafi rutt sér til rúms rómantískur skilningur á þessu fyrirbæri. Af þessu hafi sprottið sú krafa – gjarnan kennd við póli- tíska þjóðernishyggju – að hver þjóð eignist sitt ríki; ætlast hafi verið til að pólitísk og „málleg mörk haldist algerlega í hendur og á sama tíma leit kerfisbundin stöðlun tungu- mála fyrst dagsins ljós“. Samkvæmt þessu er svo að skilja að pólitísk afskipti á 19. öld hafi verið nauðsynleg til þess að íslensk þjóðar- ímynd yrði til, þ.e. að íbúar á Íslandi öðluðust vitund um að þeir tilheyrðu sérstöku menn- ingarsamfélagi. Nú má fallast á margt í túlkun Hallfríðar á samspili „þjóðmyndunar“ og ríkismyndunar í Evrópu á tímabilinu 1815–1920, túlkun sem byggist aðallega á kenningu svonefndra módernista. Fyrir frönsku byltinguna höfðu ríkisheildir myndast að miklu leyti óháð þjóðlegum eða öðrum menningarlegum ein- kennum íbúanna. Alkunnugt er þannig að í franska einveldinu á 17. öld töluðu þegnarnir mörg ólík tungumál eða tungumálaafbrigði; hið sama má segja um danska einveldið sem Ísland var hluti af. En í útlistun Hallfríðar gætir slíkrar einföldunar að hún verður meinlega villandi. Þannig er fjarri sanni að stöðlun frönsku sem ríkismáls hafi fyrst haf- ist með frönsku byltingunni í lok 18. aldar. Þetta var einmitt helsta verkefni frönsku akademíunnar sem sett var á stofn á önd- verðri 17. öld. Það franska ríki, sem spratt af byltingunni og veldi Napóleons, eignaði sér svo það hlutverk, einkum með tilstyrk skóla- kerfisins, að innprenta borgurum sínum það mál sem hafði á löngum tíma „sótthreinsast“ í meðförum akademíunnar. Málhreinsun eldri en rómantík Enn meiri tímaskekkju gætir að mínu viti hjá Hallfríði þar sem hún gengur út frá því að rómantík og þjóðernishyggja 19. aldar hafi getið af sér íslenska hreintungustefnu og þjóðarímynd. Vitaskuld þrætir enginn fyrir þann mikilvæga þátt sem Fjölnismenn áttu í mótun málhreinsunarstefnu sem átti að losa íslensku sem mest við dönsk/erlend áhrif. En málhreinsun af þessu tagi á sér miklu lengri sögu. Hinn konungholli Arngrímur lærði (um 1600) var eindreginn hreintungu- og mál- hreinsunarsinni. Í riti hans, Crymogæa, seg- ir svo (bls. 104): Til þess að varðveita hreinleika hennar [tungunnar] getum vér einkum stuðst við tvö atriði: annars vegar handritin sem varðveita fornan hreinleika tungunnar og glæsilegan stíl, hins vegar lítil samskipti við útlendinga. Í stað þess að apa eftir Dönum og Þjóð- verjum í ræðu og riti brýndi Arngrímur Ís- lendinga til að „leita sér fyrirmynda í auðlegð og snilld móðurmáls síns, sem á nóg af henni“. Hjá upplýsingarmönnum 18. aldar, sem voru með öllu ósnortnir af pólitískri þjóðernishyggju, skorti ekki heldur áherslu á málvöndun og málhreinsun. Mörg dæmi um þetta eru rakin í riti Kjartans G. Ottóssonar, Íslensk málhreinsun. Sögulegt yfirlit (Rv. 1990). Hvað þjóðarímynd eða tilfinningu fyr- ir þjóðerni varðar, þá skortir ekki heldur dæmi því til sanninda að hún eigi sér rætur langt aftur í öldum. Slík dæmi voru dregin saman ekki alls fyrir löngu af tveimur sagnfræðingum, Gunnari Karlssyni og Sverri Jakobssyni (sjá greinar þeirra í Skírni, vor1999). Hví skyldi guðsorðið íslenskað? Með þessum athuga- semdum er undirstrikað að þau gildi, sem tengjast hreintungu-stefnu, þjóð- tungu og þjóðarímynd, standa miklu dýpri rótum í íslenskri menningarsögu en Hallfríður gerir ráð fyr- ir. Því verður vart haldið fram með rökum að þessi gildi séu sprottin af sömu hagsmunum og bjuggu að baki pólitískri þjóðernis- hyggju 19. aldar þótt aug- ljóst sé að hún tók þessi gildi upp á arma sér og um- myndaði á ýmsa vegu. Tengsl málstefnu og póli- tískra hagsmuna er mikil- vægt atriði í röksemda- færslu Hallfríðar: Með stoð í Michel Foucault túlkar hún málpólitík og mál- vernd sem tæki í höndum ráðandi afla til félagslegrar stjórnunar, nánast and- legrar valdbeitingar. Út frá þessu sjónarmiði mætti t.d. spyrja hvaða pólitísk- um hagsmunum hinir kon- ungshollu kirkjuleiðtogar, Guðbrandur Þorláksson og Arngrímur lærði, þjónuðu með því að standa fyrir mæðusamri þýðingu og útgáfu kristilegra rita á íslensku í kjölfar siðaskiptanna. Ekki var það konungs- valdið sem átti frumkvæði að því fyrirtæki. Hvers vegna spöruðu kirkjunnar menn sér ekki ómakið og létu gott heita að leggja guðs- orðið á dönsku fyrir íslenskan almenning eins og gert var á sama tíma í norsku kirkj- unni? Málreglur og félagsleg samskipti Þessar athugasemdir benda til þess að út- listun Hallfríðar á tengslum málstefnu og valdahagsmuna sé of gróf til þess að hún fái almennt staðist; um sumt minnir hún á dólgamarxisma. Útlistunin felur í sér að stjórnun á tungumáli fari einkum eftir op- inberu valdboði: ef því væri ekki fyrir að fara fengi tungumálið að leika lausum hala og persónuleg tjáning fólks færi á frelsisflug. Það ætti þó að vera ljóst að í mannlegum samskiptum gildir um reglur málsins, ekki ósvipað og um önnur félagsleg viðmið (norm), að menn bregðast meira eða minna ósjálfrátt við þegar frá þeim er vikið. Þetta gerir ekki einasta kennarinn í skólastofunni heldur einnig foreldrið í heimahúsi eða félag- inn í vinahópnum. Hjá þessu meira eða minna ósjálfráða taumhaldi eða óformlegu félagsmótun, sem fylgir því að alast upp í mannlegu samfélagi, má opinber málstefna, þótt studd sé stofnanaveldi, sín næsta lítils hvað varðar mótun og þróun tungumálsins. Hallfríður ætlast til þess í nafni lýðræð- ishugsjónar að opinberum afskiptum af mál- fari fólks verði aflétt: Engum komi við nema einstaklingunum sjálfum hvernig þeir beygja orðin eða til hvaða orða þeir grípa, „hreinna“ orða eða slettna. Setjum nú svo að á þetta ráð yrði brugðið – sem þó væri víst dæmalaust í heimshluta okkar. Vaknaði þá ekki eðlilega sú spurning hvort foreldrar ættu að hætta að segja börnum sínum til um málfar í uppeld- inu? Hér vandast greinilega málið; eða ættu þeir þá ekki jafnframt að hætta að venja börnin yfirhöfuð við þá siði og reglur sem þeir telja góð og gild? Mér virðist að Hall- fríður veki með boðskap sínum spurningar um réttmæti uppeldis yfirhöfuð, en líklega hefur sú ekki verið ætlun hennar. Önnur áhrifaöfl Kröfu um að almannavaldið láti af öllum afskiptum af málfari borgaranna setur Hall- fríður fram án þess að ræða eða gagnrýna í nokkru önnur áhrifaöfl sem orka þó sterk- lega á málfar manna; hér má nefna þá tísku sem fjölmiðlun af ýmsum toga elur af sér eða erlenda strauma ritaðs og talaðs máls. Við þessi öfl virðist Hallfríður ekki tengja neinar þær hugmyndir (af toga Foucaults eða Bourdieus) sem fá hana annars til þess að greina valdbeitingu og „táknrænt ofbeldi“ að verki í hreintungustefnunni. Telst það kannski óhæfa á „póstmódernískum tímum“ að auðkenna ímyndarsmíð hins yfirþjóðlega kapítals með jafnneikvæðum hugtökum? Íslendingar sér á báti? Annað sem vekur athygli í máli Hallfríðar er að með því að einskorða umfjöllun sína við Ísland gefur hún í skyn að þetta land sé eitt um það í samfélagi þjóðanna að framfylgja ákveðinni málstefnu. Vitaskuld fer því víðs- fjarri. En með þessu móti hliðrar hún sér hjá því að meta réttmæti íslenskrar málstefnu, m.a. í ljósi þess hver staða þessa málsam- félags er í samanburði við mörg önnur vold- ugri. Eða hvernig stendur íslenska af sér að þessu leyti samanborið við ensku? Greinilega er hún dvergur við hlið risans! Með hinu þrönga sjónarhorni sínu gefur Hallfríður í skyn að Ísland hafi sérstöðu í því að „hreinu málafbrigði“ sé hampað á kostnað annars afbrigðis, miður hreins. Nú er al- kunna að málfar er meðal þeirra menning- arþátta sem hafa áhrif á virðingarstöðu og velgengni manna í hverju þjóðfélagi. Engar líkur eru til þess að hætt yrði að gera upp á milli fólks eftir málfari þótt opinber mál- stefna yrði aflögð á Íslandi. Raunar má gera ráð fyrir því að til skamms tíma hafi gætt minni málfarsmunar hér á landi en í flestum grannlöndum okkar vegna þess hve þjóðfé- lagið hefur verið tiltölulega einsleitt. Vel má vera að þessi munur hafi ágerst í seinni tíð, en það hefur áreiðanlega ekki gerst fyrir áhrif málstefnunnar. Hefðir og fjölmenning Hallfríður virðist sjá fyrir sér að með af- léttingu hinnar opinberu málstefnu mundu nýbúum á Íslandi opnast leiðir til áhrifa, auðs og valda í þjóðfélagi okkar. Með öllu er óljóst hvernig hún hugsar sér að eitt leiði hér af öðru. Hallfríður talar réttilega um nauðsyn þess að nýbúar á Íslandi „fái rödd í samfélag- inu“. Ýmis önnur lönd hafa langa reynslu af því að fást við þann vanda sem hlýst af sam- býli fólks ólíkrar menningar í einu og sama ríki; það er vissulega þarft verkefni að vekja fólk til vitundar um þann vanda. En það er ekki heillavænlegt að hugsa sér þróun fjöl- menningarþjóðfélags felast í því að þeir, sem fyrir búa í landinu, snúi baki við hefðum sem eru ein helsta uppistaðan í sjálfsmynd þeirra. Miklu nær væri að vinna að því að skapa nýbúum skilyrði til þess að gera hvorttvegga í senn: rækta sín eigin menningargildi og ná um leið smám saman tökum á íslensku máli sem mun um fyrirsjáanlega framtíð ráða miklu um hvernig fólki vegnar í þessu þjóð- félagi. Hér er mikið verk óunnið í íslensku skólastarfi og fullorðinsfræðslu, eins og tals- menn nýbúafræðslu hafa oftsinnis minnt á. Lýðræði án sögulegrar sjálfsmyndar? Um einstök atriði í framkvæmd íslenskrar málstefnu á liðinni öld má vitaskuld deila með gildum rökum; ekki er heldur einsýnt að farsælt verði til framtíðar að fara jafnvarlega og gert var fram eftir síðustu öld í að taka upp í ritmálið orð af erlendum uppruna. Ljóst er líka að slík orð hafa verið tekin upp í vaxandi mæli undanfarið með stórauknum samskiptum Íslendinga við umheiminn. En slík þróun hróflar ekki að marki við grunni málstefnu sem felst ekki síst í því að standa vörð um sérstaka eiginleika tungunnar sem málkerfis (sbr. beygingarkerfi og eiginleika til nýyrðasmíðar). Þessi stefna er af hinu góða, ekki einasta vegna þess að hún á sér svo langa sögu heldur ekki síður vegna þess að hún nýtur mjög almenns fylgis í þjóðfélag- inu og er þannig gildur þáttur í íslenskri þjóðarímynd; hún felur líka í sér stuðning við alþjóðlegan málstað menningarlegrar fjöl- breytni. Fráhvarf frá þessari stefnu mundi marka slíkt hefðarrof að vandséð er hvernig snúa mætti því til farsældar þeim sem byggja þetta land í framtíðinni, hvert sem þeir kynnu nú annars að eiga ættir að rekja. Eða hvaða ástæður eru til að ætla að lýðræð- ið fari að blómstra þegar rætur sögulegrar sjálfsmyndar manna væru sem óðast að trosna eða slitna? LEIKMANNS- ÞANKAR UM MÁLSTEFNU OG MENNINGU Höfundur er prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands. „En það er ekki heillavænlegt að hugsa sér þróun fjöl- menningarþjóðfélags felast í því að þeir, sem fyrir búa í landinu, snúi baki við hefðum sem eru ein helsta uppistaðan í sjálfsmynd þeirra. Miklu nær væri að vinna að því að skapa nýbúum skilyrði til þess að gera hvorttvegga í senn: rækta sín eigin menningar- gildi og ná um leið smám saman tökum á íslensku máli sem mun um fyrirsjáanlega framtíð ráða miklu um hvernig fólki vegnar í þessu þjóðfélagi.“ „Hinn konungholli Arngrímur lærði (um 1600) var eindreginn hreintungu- og málhreinsunarsinni.“ E F T I R L O F T G U T T O R M S S O N

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.