Lesbók Morgunblaðsins - 28.07.2001, Page 3
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 28. JÚLÍ 2001 3
H
ÉR á landi er matur dýrari
en almennt gerist í ná-
grannalöndunum. Hag–
spekingar hafa viðrað alls
konar misgáfulegar skýr-
ingar á þessu. Nú í vor
létu slíkir menn á snær-
um Samkeppnisstofnunar
til dæmis í veðri vaka að þetta væri út af
ólöglegu samráði fyrirtækja sem selja
grænmeti og ávexti. Stjórnendur þeirra
kváðu hafa haldið leynilega fundi í Öskju-
hlíð. Maður sér þá fyrir sér þarna í hlíðinni
með nælonsokk yfir höfðinu og afsagaða
haglabyssu undir jakkanum.
Þetta er svo sem nógu krassandi en ein-
hvern veginn á ég samt erfitt með að skilja
hvernig skrifstofumenn hjá miklu minni fyr-
irtækjum geta neytt Hagkaup og Bónus til
að kaupa rándýra banana þegar markaðir í
nágrannalöndunum eru uppfullir af ávöxt-
um á spottprís. Líklega þarf maður að vera
innvígður í einhverja sósíaldemókratíska
þrætubók til að botna í þessu. Svo lærður er
ég ekki þótt mér hafi skilist að það sem
kratar nútímans kalla „frjálsa samkeppni“
er eitthvað allt annað en þeir viðskipta- og
samfélagshættir sem Adam Smith boðaði
fyrir rúmum tvö hundruð árum og hafa síð-
an verið helsta driffjöður framfara og batn-
andi lífskjara í veröldinni.
Samkvæmt skilningi okkar Smiths á
frjálsri samkeppni er ekkert við því að segja
þótt einhverjir tveir bindist samtökum um
að okra á almenningi. Meðan öðrum er
frjálst að undirbjóða þá hlýtur fyrr eða síðar
einhver að sjá sér leik á borði og ná af þeim
markaðnum. Frjáls samkeppni er tryggð
meðan okrararnir tveir geta hvorki beitt
þennan þriðja aðila nauðung eða ofbeldi né
kúgað viðskiptavini hans. Til að þetta megi
vera þarf réttlát lög, óvilhalla dómstóla og
heiðarlega löggæslu. En það þarf enga sam-
keppnisstofnun. Það ætti svo sem að vera
óþarfi að fara nánar út í þessa sálma. Það er
ekki bara grænmetið sem er dýrt hér á
landi. Sápa, bílar og ótal aðrar vörur kosta
meira hér en í nágrannalöndunum. Mér
þykir ósennilegt að það séu allt aðrar skýr-
ingar á háu verði á sápu eða bílum en á háu
matarverði og hvað sem sölumönnum græn-
metis hefur farið á milli skýrir það nokkuð
örugglega ekki hátt verð á öðru en græn-
meti.
Hugmyndir um að samráð, sem kemur á
einhvern hátt í veg fyrir samkeppni, skýri
hátt verð á flestum neysluvörum í versl-
unum hér á landi hljóta að teljast fremur
hæpnar nema gert sé ráð fyrir einhverju
allsherjarsamsæri gegn neytendum sem
nær ekki bara til grænmetis heldur nánast
allra vörutegunda. Ef eitthvað slíkt er í
gangi hvers vegna sjá snjallir peningamenn
sér ekki leik á borði, rjúfa samstöðuna og
undirbjóða alla hina? Gengur samsærið
kannski svo langt að slíkar tilraunir séu
kæfðar í fæðingu? Þá hljóta fleiri en heild-
salar að vera með í baktjaldamakkinu. Eig-
inlega hlýtur þá hálf þjóðin að vera með í
samsæri gegn sjálfri sér. Þetta er svona
álíka sennilegt og að grænmetissalar neyði
Hagkaup og Bónus til að selja banana á tvö-
földu verði. Það gæti samt verið eitthvað til í
því að hálf þjóðin sé samsek. Hún er það
trúlega, en bara með dálítið öðrum hætti en
þessum.
Einu sinni var ég á sólarströnd þar sem
voru nokkrir aðrir Íslendingar og fjöldinn
allur af Þjóðverjum. Þjóðverjunum varð tíð-
rætt um verð og Íslendingar sem þóttust
skilja þýsku gerðu grín að „nískunni“ í þeim
og höfðu orð á að þarna suður frá væri allt
svo ódýrt að það væri beinlínis fáránlegt að
vera að láta sig muna um nokkra peseta til
eða frá. Eftir á að hyggja voru Íslending-
arnir samt hálfu hlægilegri. Þýsku ferða-
mennirnir voru bara að benda hver öðrum á
hvar væri hægt að fá kippu af bjór eða bíla-
leigubíl á ögn lægra verði. Trúlega hafa þeir
farið eftir þessum ábendingum og verslað
þar sem verðið var lægst. Með þessu hafa
þeir sjálfsagt pressað á þá sem seldu næst-
ódýrast að lækka sig niður fyrir þá ódýrustu
og þannig átt sinn þátt í að skrúfa verðið svo
langt niður að Íslendingunum þótti ekki
ómaksins vert að ganga yfir götu bara
vegna þess að eitthvað var ódýrara í búðinni
hinum megin. Það þarf enga sérstaka skarp-
skyggni til að sjá að þyki engum taka því að
labba yfir í næstu búð til að fá vöruna tíkalli
ódýrari þá hefur kaupmaðurinn sem býður
næstlægsta verðið ósköp litla ástæðu til að
lækka sig niður fyrir þann sem býður bestu
kjörin. Sé svo ámálgað við kaupmanninn
hvers vegna allt sé svona dýrt er hann vís til
að reikna út að ekki sé hægt að bjóða lægra
verð. Það getur meira að segja vel verið að
útreikningar hans standist ströngustu
gagnrýni. En það eru ekki útreikningar sem
kenna naktri konu að spinna heldur neyðin.
Ef viðskiptavinir fara frekar í aðra búð en
að borga tíkalli meira verður kaupmaðurinn
annaðhvort að finna einhverja krókaleið
fram hjá öllum sínum reikningi og lækka
verðið eða fara á hausinn.
Ýmsum öðrum þjóðum hefur gengið bet-
ur en okkur Íslendingum að læra þau sann-
indi að græddur er geymdur eyrir. Þetta á
sér sjálfsagt margar skýringar. Borgaralegt
samfélag er ungt hér á landi og hefur e.t.v.
ekki enn náð að móta hugsunarhátt almenn-
ings. Við búum enn að arfi frá gamla veiði-
manna- og bændasamfélaginu þar sem
menn áttu meira undir duttlungum nátt-
úruaflanna en ráðdeild og hagsýni og við-
kvæðið var að ekki munaði um einn kepp í
sláturtíðinni. Það er líka stutt síðan hér
geisaði óðaverðbólga og meiru varðaði að
hafa góð sambönd við bankastjóra og
stjórnmálamenn heldur en að kunna sjálfur
að fara með peninga.
Ráðdeild er ekki aðalsmerki landans. Það
þykir nánast hallærislegt að vera spar-
samur. Menn ganga ekki yfir götu þótt þeir
viti að varan sem þeir ætla að kaupa sé
nokkrum krónum ódýrari í búðinni hinum
megin. Þetta held ég að sé önnur af tveimur
veigamestu ástæðunum fyrir háu vöruverði.
Hin er auðvitað tollar og háir skattar á
vörur og viðskipti.
Með tímanum hljóta landsmenn að aðlag-
ast markaðsbúskap og borgaralegu sam-
félagi. Ef einstaklingar eiga afkomu sína
undir hagsýni og gætni í meðferð eigin fjár
fremur en velvild stjórnmálamanna eða mis-
lyndum höfuðskepnum munu þeir læra að
vera hagsýnir og þá mun samkeppni lækka
verð hér eins og annars staðar. Við skulum
samt ekki vera of bjartsýn. Það er hægt að
tefja fyrir því að fólk læri þetta og enn heyr-
ast raddir, jafnvel af Alþingi og æðstu stöð-
um, sem heimta að stjórnvöld bjargi þeim
sem hafa klúðrað eigin fjármálum. Þetta er
kallað alls konar nöfnum eins og „sértækar
efnahagsráðstafanir til að draga úr skuldum
heimila“.
Líki mönnum illa að trúa því að meira en
hálf þjóðin eigi sök á háu verðlagi og vilji
þeir skella skuldinni á einhverja aðra en
sjálfa sig og sína líka þá má benda þeim á
stjórnmálamenn sem beita „sértækum efna-
hagsráðstöfunum“. Ég held að sök þeirra sé
töluvert meiri en sölumanna sem hittast á
gönguför um Öskjuhlíðina.
SAMSÆRI GEGN
NEYTENDUM OG
NÍSKIR ÞJÓÐVERJAR
RABB
A T L I H A R Ð A R S O N
SVEINBJÖRN BEINTEINSSON
ÚR MANSÖNG
1. RÍMU (FERSKEYTT)
Fjöll í austri fagurblá
freista dalabarnsins.
Ungur fylgir æskuþrá
upp til jökulhjarnsins.
Sveimað heimahögum frá
hef ég vors á degi,
víða stíga þræddi þá
þunga hraunavegi.
Heiðin breiða hugumkær
hvetur viljann ofar.
Leiðin seiðir, fráum fær,
fögrum sýnum lofar.
Gangan sækist öruggt enn
urðarróti móti.
Einatt hlutu heiðamenn
höggvinn fót á grjóti.
Hver, sem ofar á að ná,
einskis metið getur
þótt í fangið fái sá
fjúk og hretið betur.
Anda heitum yndi nóg
unaðsreitir geyma.
Seinna leitar þráin þó
þinna sveita heima.
Ríman birtist í Bragfræði og háttatali, (2. útg. Hörpuútgáfan 1985) en einnig
kveður Steindór Andersen hana við undirleik Sigur Rósar á diskinum Steindór
Andersen EP.
FORSÍÐUMYNDIN
er af Jóni Þór Birgissyni, söngvara og gítarleikara hljómsveit-
arinnar Sigur Rósar, á tónleikum í Laugardalshöll 3. júní sl. Ljós-
myndari: Arnaldur Halldórsson.
Sigur Rós
hefur vakið mikla athygli að undanförnu
hérlendis sem erlendis. Samstarf hljóm-
sveitarinnar, sem leikur framsækið rokk
eða svokallað síðrokk, við kvæðamann-
inn Steindór Andersen hefur þótt áhrifa-
ríkt. Arnar Eggert Thoroddsen fjallar
um tónlist Sigur Rósar og samstarf
hennar við Steindór sem virðist geta gef-
ið rímunum nýtt líf.
Vísnaþáttur
hefur göngu sína í Lesbók í dag en í honum
er byggt á nýrri myndrænni framsetningu
bragar sem ætti að geta auðveldað leikum
og lærðum að átta sig á galdri vísnagerð-
arinnar. Fjallað verður um alla meginhætti
rímna en í þessum fyrsta þætti verður stutt-
lega sagt frá hinni nýju framsetningu. Um-
sjón með þættinum hafa Kristján Eiríksson
og Jón Bragi Björgvinsson.
Færeysk ljóðlist
hefur einkennst af sterkri þjóðerniskennd
og þjóðernisrómantík allt frá upphafi hinn-
ar rituðu bókmenntasögu fram til okkar
daga. Soffía Auður Birgisdóttir fjallar um
nokkur helstu skáld Færeyinga í grein sem
nefnist „Ég er færeyskur þjóðernissinni“.
Jósef Brodskí
hefur farið í taugarnar á enskum skriff-
innum, ekki síst þeim sem skrifa reglulega í
Times Literary Supplement, segir Jóhann
Hjálmarsson í grein þar sem hann segir frá
skrifum um Brodskí á Englandi að und-
anförnu.
LESBOK MORGUNBLAÐSINS ~ MENNING LISTIR
2 9 . T Ö L U B L A Ð - 7 6 . Á R G A N G U R
EFNI