Lesbók Morgunblaðsins - 08.09.2001, Page 4

Lesbók Morgunblaðsins - 08.09.2001, Page 4
4 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 8. SEPTEMBER 2001 Þ AÐ verður að teljast sjaldgæft að söfnin tvö, sem að öllu jöfnu keppa um athygli gesta, skuli hafa ákveðið að efna til sam- starfs sem þessara sýninga á verkum Mies van der Rohe. Það vill báðum söfnunum til happs að sýningarnar eru ólíkar í nálgun sinni enda unnar af aðskildum teym- um sýningarstjóra og byggingarlistfræðinga. Þó leynir sér ekki að bæði söfnin hafa lagt mikla vinnu í sýningarnar, svo sem sjá má af þeim tveimur ritum um verk Mies sem gefin hafa verið út og saman eru um þúsund blað- síður. Í fáum orðum má segja að sýning Nútíma- listasafnsins, MoMA, leitist við að rekja þróun og varpa ljósi á fyrri hluta ferils Mies, frá 1906 til 1938, með ítarlegum hætti. Þó að arki- tektinn hafi þá þegar verið orðinn þekktur fyrir framsæknar hugmyndir sínar áttu bygg- ingar hans í Evrópu síðar eftir að falla í skuggann af umfangsmeiri mannvirkjagerð hans vestan hafs, þar sem Mies starfaði til dánardags árið 1969. Whitney-safnið hefur aftur á móti náð að endurskapa stemmningu og áhrifamátt bygg- inga Mies í sölum sínum, ekki síst með hönn- un umgjarðar um verkin sem falin var spænskættaða innsetningar- og myndbanda- listamanninum Inigo Manglano-Ovalle. Þriðja Mies-sýning MoMA MoMA hefur frá fyrstu tíð haldið á loft heiðri Mies van der Rohe eða allt frá því að arkitektinn Philip Johnson sótti starfsfélaga sinn heim til Berlínar við undirbúning fyrstu sýningar safnsins á samtímabyggingarlist ár- ið 1932. Æ síðan hefur Johnson verið ákafur fylgismaður hugmynda Mies og greiddi hon- um m.a. götu þegar arkitektinn flúði Þýska- land og settist að í Chicago í Bandaríkjunum árið 1938. Í eigu MoMA er mikið safn teikn- inga, módela, ljósmynda og ritaðra heimilda um verk Mies sem hann ánafnaði safninu. Er þetta í þriðja sinn sem MoMA efnir til sýn- ingar á verkum arkitektsins. Sýningarstjórar eru Terence Riley, yfirmaður arkitektúr- og hönnunardeildar safnsins, og Barry Bergdoll, prófessor í listasögu við Columbia-háskóla. Vill svo til að síðasta sýning safnsins sem haldin var í byrjun 10. áratugarins vakti al- mennt neikvæð viðbrögð gagnrýnenda. Kenndi safnið þá um allsráðandi póstmódern- ískri hugmyndafræði sem fram var komin í andsvari við naumhyggju módernískrar bygg- ingarlistar, stíls „stáls og glers“, sem er efn- isnotkun órofa tengd nafni Mies van der Rohe. Nú þegar Mies hefur almennt verið við- urkenndur sem einn helsti arkitekt síðustu aldar er MoMA því mikið í mun að leggja sitt af mörkum við jákvæðara endurmat á áhrif- um módernisma í hönnun. Móðurinn er að sama skapi mikill hjá Whitney-safninu en umsjón með sýningunni þar hefur arkitektinn og safnstjórnarmeðlim- urinn Phyllis Lambert í samstarfi við bygg- ingarlistamiðstöðina í Kanada. Eins og John- son hefur Lambert lengi verið aðdáandi verka Mies og sagt er að það hafi verið fyrir áköf hvatningarorð Lambert að faðir hennar, stjórnarformaður Seagram-áfengisframleiðsl- unnar, lét til leiðast og réð Mies til þess að hanna skrifstofubyggingu fyrirtækisins í New York, sem síðan varð meðal þekktustu skýja- kljúfa borgarinnar. Sviptingar á umbrotstímum Maria Ludwig Michael Mies fæddist í Aachen í Þýskalandi árið 1886. Í upphafi ferils síns í Berlín vann hann hjá einum framsækn- asta arkitekt borgarinnar á þeim tíma, Peter Behrens, sem aftur sótti áhrif til nýklassíska 19. aldar arkitektsins Karl Friedrich Schink- el. Áhrifa þessara í senn stílhreinu og hefð- bundnu forma voru sterk lengi framan af ferli Mies og hurfu líkast til aldrei, þróuðust aðeins markvisst í átt til meiri einfaldleika. Straumhvörf verða í lífi hans og starfi eftir lok fyrri heimsstyrjaldar. Segir Mies form- lega skilið við nýklassíska byggingargerð sem hann telur hafa orðið úrelta með hruni þýska keisaraveldisins og að leita þurfi nýrra leiða í takt við gjörbreytt samfélag. Sviptingarnar verða síðan ekki síður dramatískar í einkalífi hans því að hann segir skilið við konu sína, Ödu Bruhn, sem flyst aft- ur í úthverfi Berlínar ásamt dætrum þeirra þremur, en Mies býr áfram í íbúð þeirra í miðborginni og færir rúmið inn á baðherbergi til þess að rýma til fyrir vinnustofu. Til að marka enn frekar þessi tímamót ákveður Ludwig Mies að bæta ættarnafni móður sinn- ar við eftirnafn sitt og ljær því að auki bóhem- ískara yfirbragð með flæmsku tengingunni „van der“. Mies van der Rohe lætur upp frá þessu mikið til sín taka í hópi framúrstefnulista- manna og hugsuða í Berlín millistríðsáranna. Hann stofnar til lista- og hönnunartímaritsins G (Gestaltung eða Formgerð) ásamt m.a. El Lissitzky, Hans Richter, Hans Arp, Theo van Doesburg, Walter Benjamin, Man Ray og Ge- orge Grosz. Tímaritið átti eftir að hafa mikil áhrif en þar var leitað leiða við að skilgreina og brúa bil náttúru og tæknimenningar borg- arsamfélagsins. Tengsl Mies við listamenn í borginni opna augu hans fyrir expressjónískari þreifingum á sviði byggingarlistar. Hann hefur tilraunir með efni á borð við gler, steypu og stál og skýjakljúfar eiga fljótt hug hans allann. Sá fyrsti, sem hann sendi inn í samkeppni um há- hýsi við Friedrichstrasse í Berlín, var allur þakinn gleri og borinn uppi af miklu stálvirki. Byggingin vakti mikla athygli og lof gagn- rýnenda en var þó aldrei reist enda tækni- legur ógjörningur næstu áratugina. Híbýli órofa tengd umhverfi sínu Á sýningunni í MoMA eru 50 verkefni arki- tektsins og spannar hún þau 30 ár sem hann bjó í Berlín. Þar er að finna mikinn fjölda íbúðarhúsa en Mies var frá fyrstu tíð umhug- að um að skapa vistarverur sem styrktu sam- band manns við náttúru. Sú hugmynd var mjög í anda nýklassíkur og einbýlishúsa og sumarhalla sem risu ört við Potsdam í Þýska- landi í upphafi aldarinnar. Á þessum slóðum varð Mies sér einnig úti um mörg sín fyrstu verkefni en síðar voru byggð íbúðarhús eftir hann um allt Þýskaland, í borgum jafnt sem inn til sveita, og einnig víðar í Evrópu, s.s. á Spáni og í Tékklandi. Hönnun íbúðarhúss fyrir Mies fól ekki ein- ungis í sér niðurröðun á vistarverum heldur var „neikvætt“ rými garðsins úti fyrir ekki síður mikilvægt. Hvort tveggja þurfti að hald- ast í hendur og vera í fullkomnu jafnvægi við hvort annað. Háir og breiðir gluggar dagstof- unnar (Wohnraume), þungamiðju heimilisins, voru fyrir Mies rammar um náttúruna úti fyr- ir og umhverfið allt. Glugginn veitir sýn á stærra samhengið utan við nánasta rými heimilisins. Íbúðarhús Mies uppfylla þannig í senn fé- lagslega hlið mannsins, með opnum og björt- um rýmum sem vísa út á götu, eru e.k. op- inber persóna íbúanna, og minni og dimmari svefnálmu sem lýtur að þörf okkar innri manns fyrir næði. Þetta var spurning um að finna jafnvægi milli ólíkra póla tilverunnar. Ekki einungis að skapa íverustað með útsýni heldur híbýli sem væru órofa tengd umhverfi sínu. Hvað þetta varðar gekk Mies sífellt lengra og segja má að á síðari hluta ferilsins í Banda- ríkjunum hafi hugmyndir hans um grundvall- arformfestu ásamt sveigjanlegu uppbroti stærri rýma endurspeglast í því sem hann kaus að kalla því stórmennskulega nafni „al- heimsumhverfi“. Þó að Mies yxi sífellt ásmeg- in með tækifærum til umfangsmeiri mann- virkjagerðar eftir því sem leið á ferilinn hélt hann samt áfram að hanna bæði ríkmannleg einkahíbýli og ódýrari fjölbýlis- og íbúðarhús og mörg þessara heimila eru hans dýrmæt- ustu perlur. Þetta næstum ekkert Fagurfræði sinni lýsti Mies sem „næstum engu“, og það var þetta næstum sem arkitekt- inn eltist við að skilgreina og endurskilgreina allan sinn feril af annálaðri nákvæmni og með sínu einstaka auga fyrir smáatriðum. Mies túlkaði hugmyndina um tilvistarlega nægju- semi (existenzminimum) sem svo að þó að efnisnotkun væri naum þyrfti það ekki að þýða að einfalt væri ódýrt. Sparaði hann því hvergi í notkun á úrvals hráefnum og skýrt dæmi um þetta er hönnun hans á þýska sýn- ingarskálanum fyrir heimssýninguna í Bars- elónu árið 1929. Flatt þakið er borið uppi af krómuðum stálsúlum sem gerir að verkum að veggir byggingarinnar, úr marmara og gleri, standa sjálfstæðir og óháðir burðarþoli henn- ar, sem aftur jók möguleikann á óhindruðu flæði innra rýmisins. Hefur skálanum gjarnan verið líkt við nútímatilbrigði af grísku hofi og er hann án efa eitt rómaðasta verk arkitekts- ins. Ferill í blóma vestan hafs Orðstír Mies óx hratt í Evrópu á millistríðs- árunum. Hann hafði verið settur yfir samtökin Deutscher Werkbund sem höfðu það að markmiði að efla gæði þýskrar hönnunar og stýrði Bauhaus-skólanum frá árinu 1930 til 1933 þegar hann var lagður niður af stjórn- völdum. Upp frá því átti Mies erfitt um vik í Þýskalandi og um tíma settist hann að í sviss- ARKITEKT EINFALD- LEIKANS Í NÝJU LJÓSI Arkitektinn Ludwig Mies van der Rohe var einn helsti áhrifavaldurinn í þróun byggingarlistar á síðustu öld. HULDA STEFÁNSDÓTTIR segir frá ferli þessa merka frumherja módernismans en hönnun Mies er til um- fjöllunar á tveimur samhliða sýningum í New York um þessar mundir. Í MoMA er fjallað um feril Mies í Berl- ín en Whitney-safnið tekur síðan við og varpar ljósi á störf Mies eftir að hann settist að í Bandaríkjunum. Ljósmynd/Werner Blaser, Whitney Museum of American Art Mies van der Rohe í íbúð sinni í Chicago árið 1964. Ljósmynd/The Museum of Modern Art, 2001 Sýningarskáli Þýskalands frá heimssýningunni í Barselónu árið 1929. Skálinn var tekinn niður eftir sýninguna en endurreistur á sama stað árið 1986. Ljósmyndarinn, Kay Fingerley, hefur myndað fjölmargar byggingar Mies í Evrópu á síðustu árum.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.